Skörðin í Atlantshafsvegg Hitlers Sköðrin í Atlantshafsvegg Hitlers

Innrás bandamanna í Normandy 6. júní 1944 er fyrir löngu orðin að goðsögn í atburðarás Síðari heimstyrjaldarinnar. Ófá rit og greinar hafa verið gefin út um atburð þennan síðan hann átti sér stað 6. júní 1944, hinn svokallaða D-dag. Flest þeirra hafa þó fjallað um innrásina frá sjónarhóli bandamanna og ekki síst þess vegna er viðfangsefni ritgerðarinnar að fjalla um stöðu Þjóðverja gagnvart innrásinni og hvaða atriði í þeirra eigin undirbúningi og aðstæðum urðu til þess að þeim heppnaðist ekki að verjast innrásinni.

Innrásin var vissulega gríðarlega mikilvægt skref í átt til endanlegs sigurs yfir Hitlers-Þýskalandi. Herir Þjóðverja höfðu verið meira eða minna á undanhaldi á flestum vígstöðvum sínum mestallt árið 1944. Um mitt það ár höfðu herir bandamanna á Ítalíuvígtöðvunum tekið allan suður- og miðhluta landsins og á austurvígstöðvunum voru hersveitir Rússa komnar inn í Pólland og jafnvel inn fyrir landamæri Þýskalands sjálfs. Rússar höfðu þrýst mikið á um aðrar vígstöðvar í Frakklandi til að létta á þeim sjálfum, en mestur þungi stríðsins við Þjóðverja mun hafa legið á Rússum.

Þjóðverjum mun hafa verið vel ljóst að vænta mætti innrásar í Frakkland löngu áður en innrás bandamanna í Normandy varð að veruleika. Í rauninni má segja að ekkert hafi í raun verið eðlilegra en að Bretland yrði sennilega notað sem stökkpallur inn í Evrópuvígi Þjóðverja. Eftir uppgjöf Frakklands, í júní 1940, og allt fram til ársins 1942 hugsaði þýska herstjórnin þó ekkert um að koma sér upp einhvers konar varnarvirkjum á vesturströnd Evrópu. Sigurinn var svo öruggur að mati Hitlers og nasista hans að allar hugmyndir um varnarvegg þóttu hreint algerlega út í hött. Eftir að Frakkar höfðu gefist upp var einungis Bretland eftir ósigrað. Herforingjar Hitlers vildu gera innrás í Bretland og hernema það strax eftir að breski herinn var rekinn í sjóinn við Dunkerque, en Hitler var hikandi. Hann talaði í sífellu um að Bretar væru ekki hinir raunverulegur óvinir Þýskalands, auk þess sem hann taldi að þeir myndu fljótlega biðja um frið.

Af þessum sökum er það því e.t.v. ekkert undarlegt þó svo Hitler hafi ekki haft mikinn áhuga á varnarvirkjagerð í Frakklandi, ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að hann vanmat alltaf Bandaríkin. Hvað hafði hann að óttast í vestri? Auk þess mun aðal athygli þýsku herstjórnarinnar hafa verið bundin við austurvígstöðvarnar þar sem fyrst í stað gekk vel en síðan fór stöðugt að halla undan fæti. Fyrir þá þýsku hermenn sem börðust í Rússlandi þótti það nánast á við að fara í frí að vera sendir til Frakklands enda var hið hersetna Frakkland skipulega notað á árinu 1942 sem hvíldarsvæði fyrir herdeildir af austurvígstöðvunum.

En þrátt fyrir sannfæringu Hitlers báðu Bretar ekki um frið og styrktust auk þess stöðugt eftir því sem leið á stríðið með aðstoð Bandaríkjamanna. Hitler gerði sér því ljóst 1942 að strendur Frakklands voru ekki lengur brúarsporður til innrásar í Bretland heldur veikur hlekkur í varnarkeðjunni. Því var farið að vinna að hugmyndum í þýska herforingjaráðinu á árinu 1942 að gera Evrópu að óvinnandi virki. Þó hafði Hitler í desember árið áður lýst því yfir í ræðum sínum að þegar hefði verið komið upp samfelldu belti varnarvirkja allt frá Kirkenæs í Norður-Noregi og suður til Pyreneafjalla við Spánarlandamærin. En staðreyndin var þó sú að þetta voru innihaldslausar fullyrðingar. Engin ósigrandi virki voru til staðar á vesturströnd Evrópu, ekki einu sinni þar sem styðst var á milli Englands og Frakklands í Pas-de-Calais-héraði. Um þetta leyti voru þar engin raunveruleg varnarmannvirki.

Herforingjar Hitlers höfðu þó margir hverjir miklar efasemdir um þessa varnarkeðjuhugmynd Foringjans þó sjálfur væri hann gagntekinn af henni. Franz Halder hershöfðingi, og um þetta leyti formaður þýska herráðsins, leist síður en svo vel á þessar hugmyndir. Að hans mati áttu varnarvirki, ef þeirra væri þá þörf, ekki að reisa niður við ströndina, heldur langt upp frá ströndinni þar sem fallbyssuskothríð frá herskipum næðu ekki til þeirra. Von Rundtstedt marskálkur, æðsti yfirmaður hersveita Þjóðverja á vesturvígstöðvunum, var heldur ekki yfir sig hrifinn af varnarvirkjahugmyndum Hitlers. Hann hafði aldrei verið trúaður á gagnsemi kyrrstæðra varna. Að hans mati var eina leiðin til að hrinda innrásinni að hafa meginherinn upp frá ströndinni, og gera svo öfluga árás þegar bandamenn væru komnir á land. Það var augnablikið til að gera leiftursókn. En Hitler var ekki haggað.

Fyrsti raunverulegi skriðurinn komst á varnarvirkjabygginguna eftir hina blóðugu “innrás” 5.000 Kanadamanna við Dieppe 1942. Árásin mistókst með öllu en við þennan atburð lagði Hitler ofuráherslu á að mannvirkjagerðinni væri flýtt sem allra mest. Þúsundir þrælaverkamanna voru látnir vinna dag og nótt við virkisbyggingarnar. Þörfin fyrir sement varð svo mikil að það varð fljótlega ógerlegt að fá sement í önnur verkefni á yfirráðasvæði nasista. Vegna skortsins á byggingarefni var gripið til þess ráðs að rífa niður hluta Maginot-varnarlínunnar frönsku og Sigfried-línunnar þýsku í varnarvirkin. Skortur var einnig tilfinnanlegur á stáli og varð það til þess að flestar fallbyssur Atlantshafsveggjarins urðu að vera án hringbrauta sem þýddi að skotsvið þeirra takmarkaðist verulega.

Erwin Rommel, marskálkur, var skipaður yfirmaður herjahóps B á vesturvígstöðvunum í nóvember 1943. Hann hafði þá ekki komið til Frakklands síðan 1941 og eins og flestir hershöfðingja Þjóðverja trúað áróðri Hitlers um hinn öfluga og ósigrandi Atlantshafsvegg. Þegar hann kom til Frakklands 1944 blöskraði honum varnirnar.

„Skömmu eftir komu sína hafði Rommel gert skyndirannsóknarferð yfir allt svæði „Atlantshafsveggsins“ og varð furðu lostinn yfir því sem hann sá. Á flestum stöðum … voru hin rammbyggðu varnarvirki … ófullgerð. Víðast hvar annarsstaðar var störfum misjafnlega langt komið og sumstaðar … á byrjunarstigi. Þrátt fyrir það var varnarveggurinn öflugt hervirki og þar sem vinna var komin á lokastig var urmull af fallbyssuhreiðrum. … Fyrir hans [Rommels] skarpskyggnu augum var Atlantsveggurinn [þó] skrípaleikur.“ (Ryan, Cornelius: Lengstur dagur. Reykjavík. 1959.)

Þessi frásögn segir meira en margt annað um stöðu varnavirkjanna í Frakklandi 1943. Rommel eyddi næstu mánuðum í þrotlausa uppbyggingu og hlífði hvorki sér né mönnum sínum. En eins og fyrr segir var varnarvirkjagerðinni miklar takamarkanir settar vegna skorts á byggingarefni. Rommel kom þó miklu í verk og hrúgaði niður fjöldanum öllum af alls kyns tálmunum, milljónum jarðsprengja og fjölda nýrra fallbyssuvirkja hér og þar á strandlengjunni. Hugmyndir Rommels, um það hvernig hrinda skyldi innrásinni, voru algerlega andstæðar hugmyndum þeirra von Rundstedt og Halder. Rommel var að mörgu leyti sammála Hitler um að varnarvirki væru rétta aðferðin og taldi að úrslitin yrðu ráðin á ströndinni. Hann hafði þó ýmsar sérstakar hugmyndir. Hann vildi t.a.m. að allur meginherinn, með öflugum skriðdrekasveitum, yrði til reiðu við ströndina. Enginn tími yrði til að flytja varalið frá bakvarðstöðvum. Þeim yrði auk þess án efa sundrað með loftárásum og herskipaskothríð. Mæta yrði innrásinni af fullum þunga strax í fæðingu.

En sem fyrr segir var mikill ágreiningur á milli þýsku herforingjanna um hvernig verjast skyldi innrásinni. Von Rundstedt og Halder voru þó ekki helstu andstæðingar Rommels í þeim málum heldur Leo Geyr von Svhweppenburg, hershöfðingi, sem kom því til leiðar að Rommel fékk ekki þær skriðdrekasveitir sem hann taldi nauðsynlegar til að brjóta innrásina til baka strax í byrjun. Þess í stað var þeim dreift í litlum einingum hingað og þangað um vesturvígstöðvarnar. Þetta þýddi síðan að þegar bandamenn komust í gegn um misgripaheld varnarvirki Þjóðverja í Normandy voru engar hersveitir til staðar til að taka á móti þeim.

En svo við snúum okkur aftur að Atlantshafsveggnum þá bættist við vegginn smám saman dag frá degi. En þrátt fyrir alla vinnuna og ósérhlifni Rommels og hersveita hans, auk þúsunda þrælaverkamanna, tókst aldrei að gera Atlantshafsvegginn að því varnarvirki sem hann hefði þurft að vera ef hrinda hefði átt innrás bandamanna. Byggingarefnið og vinnuaflið voru einfaldlega aldrei til staðar til að draumar Hitlers um öflugt, samfellt varnarvirki gætu ræst. Eini staður varnarlínunnar sem var í einhverju sambandi við áróðursræður Hitlers var Pas-de-Calais; staðurinn sem flestir herforingjar Þjóðverja voru sannfærðir um að yrði innrásarstaðurinn.

Ekki var nóg með að varnarvirkjum Þjóðverja á vesturvígstöðvunum væru í flestu ábótavant. Þær hersveitir sem þýska yfirherstjórnin ætlaði það hlutverk að manna Atlantshafsvegginn voru ekki svipur hjá sjón í flestum tilfellum. Þjóðverja skorti tilfinnanlega mannafla í það verk, eins og raunar alls staðar annars staðar. Hitler hóf stríðið við Rússa með þeirri sannfæringu sinni að Bretland væri sigrað, þrátt fyrir viðvaranir hershöfðingja sinna. Styrjöldin á vesturvígstöðvunum var að hans mati einfaldlega lokið þegar þýski herinn réðist inn í Sovétríkin 1941.

En tveimur árum síðar var staðan breytt. Setuliðið í Frakklandi og hersveitirnar á vesturvígstöðvunum voru engan veginn nógu öflugar til að tryggja öryggi vesturlandamæra Þriðja ríkisins. Þörf var fyrir heilu herdeildirnar til viðbótar til að verjast innrás sem flestum var orðið ljóst að ekki væri spurning um hvort yrði, heldur hvenær. Þýska herstjórnin stóð frammi fyrir því vandamáli að finna þessar herdeildir sem í flestum tilfellum voru hreinlega ekki til. Margar af þeim herdeildum sem voru í Frakklandi frá því 1942 voru hersveitir sem höfðu orðið illa úti í bardögum á austurvígstöðvunum og voru í hvíld, eins og áður hefur verið greint frá. 50-60 herdeildir á pappírunum samsvöruðu sjaldnast 25 orustuhæfum herdeildum. Stór hluti þýsku hersveitanna samanstóðu af annars flokks hermönnum með litla þjálfun. Töluverður hluti samanstóð einnig af ungum drengjum og gamalmennum. Af þessum sökum ákvað nasistastjórnin að grípa til þess ráðs að gefa stríðsföngum þann kost að berjast með Þjóðverjum fremur en að grotna niður í þýskum fangabúðum. Tóku fjölmargir þann kost. Þannig innihéldu margar af þeim herdeildum, sem verjast áttu í Atlantshafsvegginum, 10% af hermönnum af erlendum þjóðernum og sumar allt að 25%. Þetta gerði síðan allt samráð og önnur samskipti langtum flóknari en við eðlilegar aðstæður. Jafnvel munu heilu herfylkin af erlendum hermönnum hafa verið á stundum tekin inn í Wehrmacht (þýska landherinn). Þannig munu a.m.k. tvær rússneskar herdeildir hafa verið innlimaðar í þýska herinn, en fyrir voru þvingaðir “sjálfboðaliðar” frá Póllandi, Tékkoslóvakíu, Ungverjalandi, Rúmeníu og Júgóslavíu svo eitthvað sé nefnt. Miklar efasemdir voru um styrk þessara hersveita en þær fylltu engu að síður upp í hættulegar glufur í varnarkeðjunni.

Allskyns brellur og blekkingar voru notaðar í aðdraganda innrásarinnar af báðum aðilum. Þjóðverjar unnu markvisst að því að láta líta út fyrir að herstyrkur þeirra á vesturvígstöðvunum væri til þess að gera miklum mun öflugari og fjölmennari en efni stóðu til. Upplýsingum var “lekið” í almenning í Frakklandi um að von væri á hinum og þessum hersveitum til viðkomandi bæja og borga sem flytja ætti af austurvígstöðvunum. Herdeildir voru sendar bæja á milli til þess að eiga þar stutta viðdvöl undir því yfirskini að þeir væru framvarðsveit öflugra hersveita. Þessum upplýsingum fóru síðan jafnóðum í hendurnar á Frönsku andspyrnuhreyfingunni sem kom þeim yfir sundið til Englands. Segir þetta meira en margt um þá manneklu sem þýska herstjórnin sá fram á í Frakklandi. Þess má geta að samskonar aðferðum var beitt til af hálfu bandamanna til þess að telja þýsku leyniþjónustunni trú um að til stæði að gera innrás í Noreg jafnhliða innrás í Frakkland.

Styrkur Þjóðverja í lofti á því svæði sem innrásarinnar var að vænta var nánast enginn þegar innrásin skall á. Tveimur dögum fyrir innrásina ákvað þýska herstjórnin að flytja 124 af 160 nothæfum orrustuflugvélum í Frakklandi frá strandsvæðum landsins. Varð þetta til þess að flugvarnir Þjóðverja við strendur Vestur-Evrópu voru orðnar að engu. Fyrsta dag innrásarinnar gerðu einungis tvær þýskar orrustuflugvélar árás á innrásarflota bandamanna, en ekki tókst að kalla flugsveitirnar aftur til strandhéraðanna í tæka tíð þar sem yfirstjórn Luftwaffe (þýska flughersins) í Frakklandi var ekki fyllilega ljóst hvert flugvélarnar hefðu verið sendar.

Ekki var þó nóg með að hersveitum Þjóðverja hafi verið mjög ábótavant þegar innrás bandamanna átti sér loks stað heldur var svo einnig með alla yfirherstjórn þýska herins á Normandy-svæðinu. 6. júní, sama dag og innrásin hófst, stóð til að haldin yrði alsherjaræfing hjá þýska hernum á Normandy-svæðinu og átti hún að fara fram í Rennes á Bretagne-skagnum, sem er í mikilli fjarlægð frá þeim stöðum sem innrásin stuttu síðar átti sér stað. Vað þetta til þess að langflestir yfirforingjar Þjóðverja á Normandy-svæðinu voru í órafjarlægð frá stöðvum sínum þegar innrásin átti sér stað. Ekki var þó öll sagan þar með sögð. Rommel marskálkur hafði daginn áður haldið heim til Þýskalands til fjölskyldu sinnar, sannfærður um að innrásar væri ekki að vænta næstu daga.

Fleira var og ábótavant hvað sneri að yfirstjórn þýsku herjanna á Normandy-svæðinu en það að flestir herforingjanna skyldu ekki hafa verið í stöðvum sínum þegar innrásin skall á. Margir þeirra voru einnig meira eða minna viðriðnir samsærishóp sem nefndi sig Schwarze Kapelle (svarta hljómsveitin) og stóð síðar að tilræðinu við Hitler 20. júlí 1944. Sama var síðan að segja um vesturvígstöðvarnar í heild og raunar allar vígstöðvar Þjóðverja.

Erwin Rommel, marskálkur, hafði gengið til liðs við samsærishópinn snemma á árinu 1944. Hann leit svo á að stefna þyrfti að því að afstýra blóðbaði því sem myndi fylgja innrás á vesturvígstöðvunum og reyna að semja frið við Bretland og Bandaríkin eftir að Hitler væri úr sögunni. Þá væri hægt að snúa sér alfarið að Rússum og þá hugsanlega með aðstoð Breta og Bandríkjamanna. Ef þeir hins vegar neituðu að semja frið við Þjóðverja skyldi hann veita þeim mesta blóðbað sem mögulegt væri.

Fyrir í samsærishópnum af herforingjum á vesturvígstöðvunum voru hershöfðingjar eins og t.d. Heinrich von Stülpnagel, hernámsstjóri í Frakklandi, Alexander von Falkenhausen, hernámsstjóri Belgíu, og Hans Speidel, formaður herráðs Rommels. Samsærishópur þessi stefndi að því í stuttu máli að koma Hitler frá völdum, draga hann fyrir rétt og aflífa. Síðan átti að semja frið við vesturveldin, draga allan þýska herinn á vesturvígstöðvunum inn fyrir landamæri Þýskalands og halda áfram stríðinu við Rússa.

Ýmsir af meðlimum Schwarze Kapelle höfðu verið að vinna að samsæri gegn Hitler síðan fyrir stríð s.s. Ludwig Beck, hershöfðingi, sem hafði þegar árið 1938 sagt að koma yrði Hitler tafarlaust frá völdum. Samsærishópurinn hafði gert fjölda tilrauna til að vega Foringjann sem allar höfðu mistekist. Hópurinn hafði smám saman stækkað eftir því sem leið á styrjöldina og þegar komið var fram á árið 1944 gerðu forspakkar samsaærismanna sér ljóst að nú færu að verða síðustu möguleikar á að koma Hitler frá ef Þýskaland ætti að geta haft eitthvað til að semja um við vesturveldin. Samsærishugmyndir hópsins voru því í fullum gangi það árið.

Þó ljóst sé að þeir herforingjar Þjóðverja á vesturvígstöðvunum sem voru aðilar að samsærinu hafi litið svo á að sigur í Normandy væri forsenda þess að hægt yrði að semja frið við vesturveldin þegar Hitler væri frá og þar af leiðandi unnið alfarið að því að reyna að tryggja að svo yrði, þá er ennfremur ljóst að mikill hluti orku þeirra og athygli hlýtur að hafa farið í skipulagningar vegna tilræða og ekki síst að koma í veg fyrir að leyniþjónustur nasistastjórnarinnar kæmust á snoðir um samsærishópinn og aðild viðkomandi einstaklinga að honum. Því má vel ætla að eina ástæðuna fyrir óförum Þjóðverja í Normandy sé að rekja til Schwarze Kapelle.

En leyniþjónustur Þjóðverja höfðu þó að sjálfsögðu fleiri hlutverkum að gegna en að koma upp um óvini nasistaríkisins. Hlutur leyniþjónusta bæði bandamanna og Þjóðverja var stór í aðdragandanum að innrásinni í Normandy. Þó stóðu Þjóðverjar mun lakara að vígi í þeim málum þrátt fyrir að hafa á að skipa góðri tækni og færum mönnum. Stafaði þetta af þeirri rosalegu innri samkeppni sem einkenndi alla uppbyggingu nasistaríkisins og því ekki síst leyniþjónustugeirann.

Í raun voru til staðar a.m.k. þrjár leyniþjónustur innan Hitlers-Þýskalands; Gestapo, sem var þó fyrst og fremst leynilögregla og heyrði beint undir Heinrich Himmler; Sicherheitsdienst (SD), leyniþjónusta Schutzstaffel (SS) sem var stýrt af Walther Schellenberg, SS-hershöfðingja; og Abwehr, leyniþjónusta hersins sem var stýrt af Wilhelm Canaris, flotaforingja (Canaris var einnig einn af aðalforsprökkum Schwarze Kapelle). Canaris flotaforingi og Abwehr áttu víða óvini innan SS og nasistaflokksins. Tveir þeir helstu voru Walther Schellenberg, yfirmaður SD, og Joachim von Ribbentrop, utanríkisráherra Hitlers-Þýskalands, sem báðir vildu ná völdum yfir Abwehr og koma Canaris frá. Hlutur Abwehr hafði farið minnkandi eftir því sem leið á stríðið ekki síst vegna þeirra Schellenberg og von Ribbentrop og að lokum var Canaris sagt upp störfum í febrúar 1944 og Himmler gerður að yfirmanni stofnunarinnar.

Eitt afbrigði leyniþjónustu í þriðja ríkinu var Fremde Heere West (FHW) sem var stýrt af Alexis von Roenne, ofursta og barón. FHW hafði það verkefni að útvega Hitler upplýsingar um herstyrk andstæðinganna svo hann gæti ákveðið hvernig ráðstafa skyldi hersveitum Þýskalands. Óbeint heyrðu því allir njósnarar Þýskalands undir von Roenne, ofursta. Hlutur FHW í leyniþjónustuflóru Hitlers er alveg lýsandi dæmi um þá fáránlegu samkeppni sem ríkti innan hennar. Áður en upplýsingar von Roenne komust til Hitlers fóru þær í gegnum SD, en FHW hafði einmitt staðið í mikilli samkeppni við þá stofnun um hvor aðilinn væri hæfari til að meta fyrirætlanir bandamanna. Af þessum sökum skáru starfsmenn SD tölur von Roenne niður um helming í hvert skipti sem þær bárust. Þegar von Roenne komst að þessu kom hann með krók á móti bragði og áætlaði styrk bandamanna ætíð helmingi meiri en skýrslur njósnaranna kváðu á um. Þetta þýddi að eftir niðurskurð SD fékk Hitler að lokum réttar upplýsingar frá von Roenne. En þá ákvað SD upp úr þurru að hætta niðurskurðinum sem aftur þýddi að Hitler fékk margfaldar tölur á við raunveruleikann. Þetta mun síðan óneitanlega hafa reynst bandamönnum í hag.

En þrátt fyrir óvini sína í röðum nasista var leyniþjónusta hersins sá hluti leyniþjónustunets Þjóðverja sem hafði að mjög miklu leyti með njósnir um fyrirliggjandi innrás bandamanna í Frakkland að gera. Hafði Abwehr komið sér upp neti njósnara í Englandi, Bandaríkjunum og víðar sem gáfu reglulega skýrslu um innrásarundirbúning bandamanna. Gallin við þetta net var þó sá að stór hluti þess var ekki til í alvörunni og sá hluti sem hafði einhverja samsvörun við raunveruleikann var hópur gagnnjónara sem aftur þýddi að Þjóðverjar fengu allt annað en réttar upplýsingar um innrásarundirbúninginn. Allar skýrslur “njósnara” Þjóðverja í Englandi lýstu herstyrk bandamanna sem miklu meiri en raunin var. Þó stóð ein blekking bandamanna upp úr en það var að þeim tókst að sannfæra þýsku yfirherstjórnina um að aðalþungi yfirvofandi innrásar yrði á Pas-de-Calais-svæðinu, enda staðsettu Þjóðverjar þar bæði öflugustu hersveitir sínar og komu upp öflugustu vörnunum sem síðan komu að engu gagni.

En þrátt fyrir mistök þýsku leyniþjónustunnar í að meta herstyrk og fryriætlanir bandamanna tókst henni eitt sem hefði getað skipt algerum sköpum. Hellmuth Meyer, ofursta og yfirmanni upplýsingardeildar hersins, tókst 5. júní að ná og þýða leyniskeyti frá bandamönnum til frönsku andspyrnuhreyfingarinnar um að innrás bandamanna hæfist innan tveggja sólarhringja. Þessar upplýsingar skiluðu sér þó í engu fyrir Þjóðverja, ekki síst vegna þeirrar einörðu sannfæringar þýsku herstjórnarinnar um að innrásar gæti ekki verið að vænta á næstunni. Þá skoðun sína byggði hún síðan á því slæma veðri sem var fyrstu dagana í júní.

Óveðrið sem var fyrirliggjandi að yrði fyrstu daga júnímánaðar hafði einmitt framar öðrum slævandi áhrif á Þjóðverja í aðdraganda innrásarinnar. Veðurstofa Luftwaffe í París hafði tilkynnt að ekki þyrfti að vænta neinnar innrásar á næstunni. Menn á þeim bæ efuðust um að nokkur flugvél bandamanna yrði hreyfð í þessu veðurútliti. Hermönnum í loftvarnarbyrgjum Þjóðverja var hreinlega gefið frí frá störfum vegna þessa. Raunar var veðurathugun Þjóðverja mjög ábótavant. Veðurathugunarstöðvar þeirra á Grænlandi og Kanada höfðu verið eyðilagðar og verðurathugunarskip þeirra verið flæmd burt af Atlantshafinu. Ennfremur gekk þeim erfiðlega að senda út flugvélar til veðurathugana. Vegna þessa yfirsást Þjóðverjum það rof sem varð í óðveðrinu 6. júní og bandamenn nýttu sér til innrásarinnar. Aukinheldur til að gera Þjóðverjum enn erfiðara fyrir höfðu radarstöðvar þeirra á vesturströnd Evrópu verið eyðilagðar. En yfirstjórn þýska hersins var engu að síður sannfærð um að hægt yrði að hvíla herinn á vetsurvígstöðvunum yfir þessa óveðursdaga og þar með talinn flugherinn. Öllu könnunarflugi Luftwaffe var einfaldlega aflýst þessa daga. Yfirforingjar Þjóðverja voru þess einfaldlega fullvissir að innrás yrði ekki reynd í slíkri veðráttu.

Endalokin á þessum þætti Heimsstyrjaldarinnar síðari er síðan væntanlega flestum ljós. Innrásin heppnaðist vonum framar og Þjóðverjar voru það sem eftir var styrjaldarinnar svo að segja á stöðugu undanhaldi á öllum vígstöðvum uns styrjöldinni í Evrópu lauk með uppgjöf Þjóðverja í byrjun júnímánaðar 1945.

Hjörtur J.


Heimildaskrá

Breuer, William B.: Hoodwinking Hitler: the Normandy Deception. Westport, CT. 1993.
Ryan, Cornelius: Lengstur dagur. Reykjavík. 1959.
Steinmetz, Eigil: Tilræði og pólitísk morð. Reykjavík. 1969.
Thompson, R. W.: D-Day; Spearhead of Invasion. New York. 1968.
Trevor-Roper, H. R.: Síðustu dagar Hitlers. Reykjavík. 1972.
Weinberg, Gerhard L.: A World at Arms: A Global History of World War II. Cambridge.
1994.
Weinberg, Gerhard L.: Germany, Hitler and World War II: Essays in Modern German
and World History. New York. 1996.
Með kveðju,