Marcus Aurelius var hámenntaður Stóuspekingur sem gengdi keisaraembætti í Róm í um 20 ár. Ríkti ófriður í um það bil 16 ár af valdatíma hans en hann stóð sig vel í að vernda Rómarveldi. Á ævi sinni bætti Marcus þónokkrum nöfnum við sig og felldi einnig niður nöfn. En ég ætla ekki að fjalla mikið um þessar nafnabreytingar hans.
Marcus fæddist í apríl í Róm árið 121. Faðir hans lést er Marcus var þriggja mánaða gamall. Þá fluttist Marcus til afa síns sem var ræðismaður og mjög auðugur. Mikið kapp var lagt á menntun Marcusar og hafði hann 17 kennara. Átta þeirra voru heimspekingar, fjórir mælskufræðingar, einn lögfræðingur og fjórir málfræðingar.
Marcus var ekki sterkbyggður en hann þjálfaði og styrkti líkama sinn. Heimspeki átti allan hug hans og missti hann svo álitið á mælskufræðinni. Tólf ára byrjaði hann að klæðast hinum grófa kufli heimspekinganna og að sofa á hálmi sem stráð var á gólfið. Sagt hefur verið að hann hafi gerst Stóumaður áður en hann varð maður.
Hadríanus keisari hafði mikið dálæti á drengnum og taldi sig sjá í honum konungsefni.
Þegar Hadríanus ættleiddi Antonínus Píus sem arftaka sinn setti hann það skilyrði að Antonínus myndi ættleiða Marcus og Lucíus og þegar Antonínus gerði það tóku Marcus og Lucíus báðir upp nafnið Aurelíus.
Þess má geta að Marcus og stelpa að nafni Fabia trúlofuðust að ósk Hadríanusar þegar að Marcus var 15 ára, en Antonínus Píus sleit því og trúlofaðist Marcus dóttur Antonínusar, Fástínu. Og einnig má nefna að Antonínus Píus var giftur frænku Marcusar. En öll þessi ættflækja, sem ég ætla ekki að fara út í frekar, er líklega upphaflega tengingin milli Marcusar og Hadríanusar.
Árið 161 lést Antonínus og Marcus varð keisari og gerði Lúcíus að meðstjórnanda sínum og gaf honum Lúcillu dóttur sína sem eiginkonu. Meðstjórn þeirra var samkvæmt óskum Hadríanusar. Svo hefur Marcus eflaust haldið að hann hefði tíma til að sinna heimspekinni fyrst hann hafði meðstjórnanda, en það tókst ekki hjá honum því að Lúcíus var of mikill glaumgosi og virðist ekki hafa tekið embætti sitt nógu alvarlega. Nú sat heimspekingur í veldisstólnum og töldu einhverjir að draumur Platons væri orðinn að veruleika en Marcus ætlaði sér ekki að stofna Útópíu.
Hann bar allar byrðar keisarastólsins einn, líka þær sem Lúcíus hafði átt að bera og hann fór með alla menn sem jafningja.
Marcus eyddi miklum fjármunum í leiksýningar og gjafir handa almenningi en hann gerði samt sem áður líka margt til að hindra ofeyðslu í skemmtanir; hann bannaði borgum að eyða “of miklu” fé í leiksýningar, lét skylmingaþræla beita oddlausum sverðum og bannaði ofurhá laun sumra skylmingaþræla.
Árið 162 brutust út uppreisnir í Bretlandi og í Donár-löndum. Einnig sögðu Parþar Rómverjum stríð á hendur og var Lúcíus sendur með her á móti Pörþum. Lúcíus komst hins vegar ekki lengra en til Antíókíu, en þar kynntist hann Pantheu, konu sem var fræg fyrir fegurð sína, og Lúcíus settist þar að til að skemmta sér. Marcus tók illu hátterni Lúcíusar með stillingu en fól næstæðsta manni í her Lúcíusar, Avidíus Cassíusi stjórn hersins og sendi honum snilldarlega hernaðaráætlun.
Cassíus sigraði Parþa og Lúcíus kom þá til Rómar og fékk að halda sigurför, en hann heimtaði að Marcus yrði þáttakandi í henni. Her Lúcíusar kom með drepsótt með sér og varð hún uppspretta óteljandi vandamála og gríðarlegs mannfalls.
Nú réðust Germanir yfir Doná. Marcus brást skjótt við og herklæddist. Hann bætti lögreglunni, skylmingaþrælum, stigamönnum og málaliðum í herinn til að fylla upp í raðir þeirra sem plágan hafði fellt, svo seldi hann listmuni, skartgripi og klæði úr höllinni til þess að fjármagna stríðið, í staðinn fyrir að leggja hærri skatta á fólkið. Svo lét hann þjálfa her sinn vel og skipulagði sókn sína vel og tókst að reka Germani í burt.
Þegar Marcus skráði skylmingamenn í herinn til að berjast gegn Markómönnum á lýðurinn að hafa hrópað: ,,Hann er að ræna okkur öllum skemmtunum; hann vill neyða okkur til að gerast heimspekingar.“
Á heimleiðinni lést Lúcíus. Keisarinn hvíldist í meira en hálft ár í Róm, en veitti ekki af því, vegna þess að líkami hans var orðinn mjög veikbyggður. Orðrómur var á kreiki um að kona hans, Fástína, væri honum ótrygg en Marcus tók ekkert mark á því. Heimildum ber ekki saman um hversu mörg börn hann eignaðist, en eftir því sem best verður séð náðu einungis tvö þeirra náðu fullorðinsaldri. Þau voru Lúcilla, eiginkona Lúcíusar og Commódus, sem fæddist á fyrsta veldisári Marcusar. Orðrómur var um að faðir Commodusar hefði verið skylmingaþræll og reyndi Commodus sjálfur að staðfesta það. Commodus var algjör glaumgosi eins og Lúcius en Marcusi þótti mjög vænt um son sinn.
Nú tók við látlaus hernaður í næstum átta ár. Chattar réðust á ofanverð Rínarlönd árið 169. Og árið 170 réðust Chaucar á Belgícu og settust um Sarmízegetúsu. Costóbíar rændu musteri í Grikklandi, Serkir réðust á Spán og Langbarðar djöfluðust eitthvað í Rínarlöndum.
Í miðju stríði við Markómenn byrjaði Marcus að skrifa ritverk er nefnist Meditationes, eða Hugleiðingar á íslensku. Þetta ritverk veitir mikla innsýn inn í huga þessa merka manns, þó að líklegast hafi hann aldrei ætlað því að koma fyrir almenningssjónir, en það er skrifað á sundurlausan hátt og er eins konar dagbók hans, full af alls konar heimspekilegum pælingum. Meditationes skiptist í tólf bækur. Fjallar þetta rit helst um guðlega forsjón, skynsamlega reglu á heiminum og að elska náungann þrátt fyrir galla hans. Þetta kann að minna á kristni en Marcus var ekki kristinn og voru kristnir ofsóttir í Róm á þessum tíma því að þeir neituðu að færa reykelsisfórn.
Þegar Marcus var á góðu skriði í hernaðinum bárust honum fréttir um að Avidíus Cassíus, sem hafði verið að bæla niður uppreisn í Egyptalandi, hefði tekið sér keisara nafn. Samdi Marcus þá frið við óvininn og skildi eftir öflugt herlið til að vernda svæðið. Marcus bauðst til að leggja niður völd sín ef menn hans kysu Cassíus frekar en hann sjálfan, en enginn gerði það svo þeir héldu til atlögu, en áður en þeir komu til Cassíusar var hann myrtur af sínum eigin mönnum og við það hvarf uppreisnin.
Uppi eru hugmyndir um að þetta mál hafi allt verið hræðilegur misskilningur, orsakaður af orðrómi um að Marcus hafi verið dáinn. Og eftir að Avidíus hafði tekið keisara nafn þá hafi hann átt erfitt með að taka það til baka, þó hann hafi líklega ekki viljað stíga gegn Marcusi.
Keisarinn gekk nú óvarinn í kufli sínum um götur Aþenu og tók þátt í kappræðum og hlýddi á heimspekinga. Áður en hann kvaddi Aþenu stofnsetti hann fjögur ný prófessorembætti við skóla Platons, Aristótelesar, Stóumanna og Epíkúrssinna.
Nú hélt Marcus til Rómar í sigurgöngu, og lét Commodus vera með sér í henni. Hann gerði Commodus að meðkeisara og væntanlegum eftirmanni sínum, en það gerði hann líklega til að koma í veg fyrir borgarastyrjöld. Síðan hófust ný átök milli Germana og Rómverja. Marcus varð fárveikur áður en þessari styrjöld var lokið, og dró það hann til dauða.
Þrjár algengustu kenningarnar um dauða hans eru að hann hafi dáið vegna smitsjúkdóms, að það hafi verið eitrað fyrir honum svo að Commodus fengi völdin eða að hann hafi dáið vegna þráláts magasjúkdóms. Hann brýndi fyrir Commodusi að ljúka verki sínu og ná löndum Germana. Er hann hafði verið rúmliggjandi í viku reis hann á fætur og leiddi son sinn fyrir herforingja sína og sagði: ,,Heilsið hinni upprennandi sól; mín er að ganga til viðar.”
Þess má geta að lokum að þegar Commodus var orðinn keisari samdi hann frið við Germani og fór heim til Rómar.
Nú að lokum ætla ég að enda þennan fyrirlestur á tilvitnun í Marcus:
,,Annaðhvort er allt einn heljar glundroði frumefna, sem gera ýmist að tengjast eða tvístrast, eða í heiminum er eining, skipulag og forsjón. Ef hið fyrra á sér stað, til hvers er, þá þessi löngun að dveljast í þessum handahófs glundroða, í slíku feni? Hví þá að hugsa um annað en það, hvernig maður geti aftur orðið að mold? Og hvers vegna þá að gera sér áhyggjur? Hvað sem ég geri, munu upplausnaröflin ná mér. En ef hið síðara á sér stað, þá tilbið ég þá veru, sem stjórnar oss, finn hvíld í henni og sýni henni fullt trúnaðartraust.”
muuuu