Síðari hluta ársins 1944 var flestum orðið ljóst að kraftaverk yrði að gerast ættu Þjóðverjar að bera sigur af hólmi í Síðari heimstyrjöldinni. Þjóðverjar voru á hröðu undanhaldi á austurvígstöðvunum undan herjum Rússa. Bandamenn voru komnir langt upp Appenina-skagann á Ítalíu og sóttu stöðugt lengra. Bandamenn höfðu einnig gert innrás í Normandy 6. júní 1944 og var nú ein stærsta perlan í veldi Hitlers í hættu, París höfuðborg Frakklands. Hafði Hitler útnefnt París eitt af hinum “óvinnandi virkjum” Þriðja ríkisins og skyldi borgin varin til síðasta blóðdropa, sama hvað það kostaði.
Þann 20. júlí 1944 var gert sprengjutilræði við Hitler í höfuðstöðvum hans í Rastenburg í Austur-Prússlandi. Stóðu að þessu tilræði margir háttsettir hershöfðingjar í þýzka hernum. Voru fjölmargir herforingjar, sem taldir höfðu verið viðriðnir tilræðið á einn eða annan hátt, teknir af lífi í kjölfar þessa. Sökum þessa taldi Hitler sig þurfa að vanda mjög valið hverjir ættu að stjórna hersveitum sínum og hinum óvinnandi virkjum. Walther Model marskálkur, dyggur nazisti, var gerður að yfirmanni herjanna á vesturvígstöðvunum í stað Günthers von Kluge marskálks, sem verið hafði viðriðinn tilræðið. Þáverandi yfirmaður setuliðsins í París, Hans von Boineburg-Lengsfeld hershöfðingi, hafði einnig verið flæktur í tilræðið og vantaði því mann í hans stað. Varð maður fyrir valinu sem hafði það orð á sér að framfylgja skipunum án þess að hika, hversu harkalegar sem þær annars væru. Þessi maður var Dietrich von Choltitz hershöfðingi.
Dietrich von Choltitz var fæddur 9. nóvember 1894 í Naustadt í Þýzkalandi, nú Prudnik í Póllandi. Hann var af rótgróinni prússneskri hermannaætt og gekk í þýzka herinn árið 1914 þegar Fyrri heimstyrjöldin braust út. Í Síðara stríði tók Choltitz þátt í innrásinni í Pólland og seinna í innrásinni í Frakkland. Sem undirofursti hafði Choltitz verið fyrsti þýzki liðsforinginn sem réðist inn í Niðurlönd. Eftir fall Frakklands var von Choltitz sendur á austurvígstöðvarnar og 1942 stjórnaði hann umsátrinu um rússnesku Svartahafshöfnina Sebastopol. Eftir að umsátrinu lauk hlaut Choltitz hershöfðingjatign sína. Choltitz barðist á austurvígstöðvunum fram í júní 1944 er hann var fluttur til Frakklands þar sem honum var falið að verja Cotentin-skagann fyrir Bandamönnum eftir innrásina í Normandy.
Nú hafði Dietrich von Choltitz verið útnefndur sérstaklega af Hitler sjálfum til að verja perlu Þriðja ríkisins í vestri, París. Skipanir hans voru einfaldar: Borgin skyldi varin til síðasta blóðdropa sama hvað það kostaði. Ef Bandamenn hins vegar næðu borginni mættu þeir ekki finna annað en eintómar rústir. Choltitz hafði fengið skipanir þessar á einkafundi með Hitler í Rastenburg. Á fundinum hafði Choltitz orðið fyrir einhverri óþægilegustu reynslu ævi sinnar. Á fundinum hafði hann vonazt til að geta endurnýja trú sína á sigur Þýzkalands í styrjöldinni hjá leiðtoga Þriðja ríkisins. Í stað leiðtoga hafði hann hitt fyrir sjúkan mann og í stað trúar hafði hann fengið stórfelldar efasemdir.
Á leiðinni með lestinni til hins nýja verkefnis síns fékk Choltitz vitneskju um ný lög, svokölluð Sippenhaft-lög, sem verið var að semja hjá Robert Ley, háttsettum manni í nasistaflokknum. Þau gengu út á það að sökum þess að ýmsir hershöfðingjar hersins hefðu brugðizt að undanförnu yrðu fjölskyldur þýzkra hershöfðingja eftirleiðis gerðar ábyrgar fyrir hollustu þeirra, jafnvel með lífi sínu.
Choltitz kom til Parísar 9. ágúst 1944. Þá fyrstu daga sem Choltitz var yfirmaður setuliðsins í París bar ekki mikið til tíðinda. Choltitz fékk fljótlega fyrstu skipanir sínar frá þýzka herforingjaráðinu. Voru þær á þá leið að undirbúnar skyldu tafarlaust kerfisbundnar eyðileggingar allra helztu mannvirkja í París. Choltitz sá í sjálfu sér ekkert athugavert við þessar skipanir. Fyrst flugvélar Bandamanna lögðu þýzkar borgir í rústir á nóttu hverri var ekkert athugavert við það að þýzki herinn gerði slíkt hið sama á jörðu niðri. Choltitz tilkynnti þó yfirherstjórn þýzka hersins á vesturvígstöðvunum að hann væri afar andvígur tímasetningunni þar sem honum væri í augnablikinu umhugsað að verja París, ekki eyða henni. Verkfræðingar frá Berlín voru sendir til Parísar til að undirbúa eyðingu borgarinnar. Choltitz gaf leyfi sitt til alls undirbúnings en tók skýrt fram að hann leyfði engar eyðileggingar án persónulegrar heimildar sinnar. 17. ágúst urðu fyrstu alvarlegu árekstrar borgarbúa og þýzkra hermanna sem var upphafið að uppreisn andspyrnuhreyfingarinnar í borginni sem átti eftir að kosta mörg mannslíf næstu dagana. 18. ágúst fékk Choltitz símtal frá Jodl hershöfðingja í Berlín sem vildi tafarlaust fá upplýsingar um framkvæmd eyðilegginganna í París. Choltitz sagði að því miður hefði hann ekki getað hafið eyðileggingarnar þar sem vekfræðingarnir hefðu aðeins komið til borgarinnar fyrir sólarhring. Jodl kvaðst ánægður með að undirbúningur væri hafinn en lagði áherzlu á að öllu væri hraðað sem allra mest þar sem Hitler væri afar óþolinmóður.
Hinn 19. ágúst fékk Choltitz tilkynningu um að andspyrnuhreyfingin í París hefði tekið ráðhús og aðallögreglustöð borgarinnar á sitt vald. Uppreisnin í ráðhúsinu hefði fljótlega verið brotin á bak aftur en ennþá væri varizt í aðallögreglustöðinni. Von Choltitz var æfur af reiði yfir þessum fréttum og var staðráðinn í að láta hart mæta hörðu. Hann ákvað að gera allt til að brjóta varnarliðið í lögreglustöðinni á bak aftur.
Seinnipart dagsins kom Raoul Nordling, aðalræðismaður Svía í Frakklandi, til fundar við Choltitz til að reyna að miðla málum milli þýzka setuliðsins og andspyrnuhreyfingarinnar. Hann lagði til við Choltitz að hann semdi um vopnahlé við mótspyrnuhreyfinguna í París í þeim tilgangi „að safna saman dauðum mönnum og særðum“. Choltitz hrökk við í fyrstu við þessa tillögu ræðismannsins. Aldrei á 30 ára hermennskuferli sínum hafði Choltitz samþykkt né farið fram á vopnahlé. Hann sá þó ýmsa kosti við hina djörfu hugmynd Nordlings. Það sem var Choltitz hvað mikilvægast í augnablikinu var að viðhalda kyrrð í borginni. Ef vopnahlé Nordlings bæri árangur þýddi það að hersveitir hans gætu sinnt mikilvægari störfum en að berja niður uppreisn. Choltitz ákvað að fallast á ráðagerð Nordlings en bað hann að bendla nafn sitt ekki við vopnahléð þar sem það var í raun andstætt skipunum hans. Þessu næst fóru sendiboðar um alla borgina og tilkynntu vopnahléð. Smám saman þögnuðu byssurnar og ró færðist yfir borgina.
20. ágúst fékk Choltitz aftur símtal frá Jodl hershöfðingja sem kvað Foringjann tafarlaust krefjast persónulegrar skýringar Choltitz á því hvers vegna yfirherstjórnin hafði ekki fengið neina tilkynningar um að eyðilegging Parísar hefði verið hafin. Þetta kom illa við Choltitz. Verkfræðingarnir frá Berlín höfðu þá um morguninn lokið verki sínu og komið sprengjum fyrir út um alla höfuðborgina og voru nú á leið aftur til Berlínar. Choltitz gat því ekki lengur afsakað sig með því að undirbúningi væri ekki lokið. Hann gaf því þá skýringu að ekki hefði verið hægt að framkvæma skipunina vegna uppþota hermdarverkamanna um alla borgina. Choltitz sá þó strax eftir því að hafa sagt þetta. Jodl varð furðu lostinn. Hann tjáði Choltitz að Hitler yrði æfur er hann frétti þetta. Hann sagði Choltitz að hann yrði tafarlaust að berja niður uppþotin með harðri hendi. Að lokum sagði Jodl að hvernig svo sem færi krefðist Foringinn þess að Choltitz framkvæmdi eins mikla eyðileggingu í París og mögulegt væri.
Fyrir tilstuðlan kommúnista, sem litu á vopnahléð sem hrein svik, hófust átök fljótlega á ný á götum Parísar á milli andspyrnuhreyfingarinnar og þýzkra hersveita. Choltitz hafði vissulega vonast eftir því að vopnahlé Nordlings ræðismannas stæði lengur en raun bar vitni. Choltitz vildi forðast í lengstu lög blóðug átök hersveita hans og borgarbúa þar sem hann taldi lítið á þeim að græða. Vonir hans um að beina mætti athygli Hitlers frá sér og París voru nú orðnar að engu eftir símtalið við Jodl. Hann vissi að Hitler myndi nú neyða sig til að koma reglu á í borginni með öllu því ofbeldi sem þurfa þætti – eða setja einhvern annan í hans stað sem gæti það. Stuttu síðar hringdi síminn á borði Choltitz. Í símanum var Model marskálkur, hinn nýi yfirmaður herja Þjóðverja á vesturvígstöðvunum. Hann byrjaði strax að ávíta Choltitz fyrir að halda ekki uppi reglu í borginni. Model sagðist jafnvel hafa heyrt flugufregnir um að hann stæði í samningaviðræðum við uppreisnarmennina. Choltitz rennsvitnaði og neitaði strax öllum slíkum áburði. Model tók neitun hans til greina, en varaði jafnframt Choltitz við að fara út fyrir valdsvið sitt í París.
Aðfararnótt 21. ágúst sat Choltitz í herbergi sínu á Hotel Meurice og barðist við prússneska samvisku sína. Þessa nótt hafði Dietrich von Choltitz meiri áhyggjur af örlögum Parísar en Charles de Gaulle hershöfðingi Frjálsra Frakka eða hershöfðingjar bandaríska hersins. Samviskan og skylduræknin tókust á í hroðalegri togstreitu. Choltitz hafði treyst á vopnahlé Nordlings sem hafði brugðist og nú óttaðist hann að menn í Berlín og Model marskálkur vissu um samning hans við uppreisnarmennina. Hann hafði ekki framkvæmt neina af skipunum þeim sem herforingjaráðið í Berlín hafði sent honum. Hann hafði ekki enn fyrirskipað eyðileggingar einnar einustu verksmiðju í París. Hann hafði fyrir stuttu fengið enn eina skipunina frá herforingjaráðinu þar sem Jodl hershöfðingi fyrirskipaði að tafarlaust yrði byrjað að eyðileggja allar brýr í París. Choltitz var ekki í vafa um að menn tortryggðu hann í Berlín. Hann áttaði sig á því að á 29 ára foringjaferli sínum hafði hann nú í fyrsta skipti gerst sekur um óhlýðni. Hann íhugaði orð Robert Ley um Sippenhaft-lögin.
Í þunglyndi sínu og einmanleika fannst Choltitz hann hafa mistekizt verk sitt í París. Choltitz var haldinn stanslausum efa. Efa um agareglur prússnesks herforingja, trú sína á örlög Þýzkalands og fyrst og fremst efa um stjórnanda hins Þriðja ríkis. Sú hugsun lét hann ekki í friði að maðurinn sem hann hafði heitið hollustu væri vitskerrtur. Choltitz grunaði að hann hefði ekki verið sendur til Parísar til að verja borgina heldur eyða henni. Það var gott og gilt hernaðarhlutverk að verja París fyrir fjandmönnunum en að eyða borginni þjónaði engum hernaðarlegum tilgangi og var ógerningur að réttlæta. Hann grunaði að vitfirringurinn í Berlín ætlaðist til að hann tortímdi borginni og sæti síðan í öskunni og tæki afleiðingunum. Hann var tilbúinn að deyja í París sem hermaður en ekki sem glæpamaður. Aðeins eitt svar virtist við þeim ægilega vanda sem Choltitz var í, að Bandamenn brunuðu til borgarinnar og frelsuðu hana. Hann hafði þá um daginn frétt frá Kurt von der Chevallerie hershöfðingja að her hans sem verjast átti fyrir utan París hefði verið fluttur annað. Þetta þýddi að ef Bandamenn kæmu nú til Parísar yrðu þeir fyrir lítilli mótstöðu.
22. ágúst færðist uppreisnin í borginni stöðugt í aukana. Þýzkir skriðdrekar voru á sveimi víðsvegar um borgina og réðust á götuvirki uppreisnarmanna, hvert á fætur öðru. Von Choltitz boðaði Nordling ræðismanna á skrifstofu sína. Hann lýsti yfir óánægju sinni með vopnahléð hans. Nordling benti á að mótspyrnuhreyfingin í heild hlýddi aðeins skipunum eins manns, de Gaulle hershöfðingja, og hann væri trúlega einhvers staðar í Normandy um þessar mundir. Choltitz spurði þá ræðismanninn hvers vegna í ósköpunum einhver færi ekki og talaði við manninn? Andartak vissi Norling ekki hvernig hann ætti að bregðast við þessum orðum. Hann spurði loks hvort Choltitz gæti gefið heimild til að ferðast um víglínur Þjóðverja til fundar við Bandamenn. „Hvers vegna ekki?“, spurði Choltitz. Nordling varð furðu lostinn. Hann lýsti því strax yfir að sem hlutlaus stjórnarerindreki væri hann tilbúinn að takast á hendur slíka ferð.
Choltitz kinkaði kolli. Hann skýrði því næst frá þeirri klípu sem hann var í. Hann hefði fengið hverja skipunana á fætur annarri að hefja eyðileggingu Parísar en hunsað þær allar. Hann hefði einnig fengið ítrekaðar skipanir um að berja uppreisnina á bak aftur með hrottlegum aðferðum, jafnvel þó það þýddi eyðingu heilla borgarhverfa. Þessar skipanir hafði hann einnig hunsað – ennþá. Hann sagði Nordling að hann yrði bráðlega að framfylgja skipununum ella yrði hann settur af eða jafnvel handtekinn. Hann sagði við Nordling að hægt væri að handtaka hann fyrir drottinsvik fyrir það sem hann vildi að Nordling gerði, því í raun og veru væri hann að biðja Bandamenn um að hjálpa sér. Því næst skrifaði Choltitz niður á blað heimild Nordlings til að fara um víglínur Þjóðverja. Ef þeir yrðu stöðvaðir sagðist hann vera tilbúinn að endurtaka heimildina í síma, þótt honum væri það óljúft.
Þegar Choltitz fylgdi Nordling til dyra fannst honum sem þungu fargi væri létt af samvisku sinni. Hann gerði sér þó grein fyrir að ef hann fengi liðsauka myndi hermannssæmd hans neyða hann til að loka borginni fyrir Bandamönnum. En hann hafði fundið leið til að vara Bandamenn við og ef þeir brygðust ekki fljótt við bæru þeir ábyrgð á eyðingu Parísar gagnvart sögunni en ekki hann. Fljótlega eftir fund þennan lagði leiðangur Nordlings af stað til Normandy. Eftir langan akstur en litla erfiðleika kom leiðangurinn til Normandy þann 23. ágúst. Omar Bradley, hershöfðingi í Bandaríkjaher, tilkynnti að þá þegar hefði 4. bryndeild Frjálsra Frakka langt af stað til Parísar auk 4. fótgönguliðsdeildar Bandaríkjahers.
Choltitz hafði nú fengið enn eina ítrekunina um að brjóta uppreisnina í borginni á bak aftur án nokkurar miskunnar. Í þetta skipti komu skipanirnar beint frá Hitler og voru ruddalegri en nokkru sinni áður. Choltitz var skipað að berja uppreisnina niður með öllum hugsanlegum ruddaaðferðum sem tiltækar væru, þ.á.m. eyðingu heilla borgarhverfa og opinberum aftökum uppreisnarforingja. Loks var enn og aftur ítrekað að ef Bandamenn næðu borginni mættu þeir ekki finna annað en algera rústabreiðu. 24. ágúst fékk Choltitz enn eina fyrirskipunina frá yfirherstjórninni í Berlín um að mola miðstöðvar uppreisnarinnar með öllum tiltækum ráðum, þ.á.m. loftárásum og íkveikjuárásum. Hafði 3. flugflota Þjóðverja verið skipað að gera miklar loftárásir á þá hluta borgarinnar þar sem uppreisn væri. Þetta þýddi að gera þyrfti loftárásir á nær alla borgina. París yrði önnur Varsjá. Choltitz tókst með naumindum að fá yfirmenn flugflotans til að endurskoða skipanirnar af þeirri ástæðu borgin væri full af þýzkum hermönnum.
Síðar þennan dag nálguðust fyrstu skriðdrekar Bandamanna borgarmörk Parísar. Þeir höfðu mætt töluverðri mótspyrnu áður en komið var til borgarinnar og misst nokkuð af skriðdrekum. Takmark þeirra var að komst á sem allra skemmstum tíma til miðbiks borgarinnar. Á leið sinni að þessu marki sínu mættu þeir einnig töluverðri mótspyrnu og nokkru tjóni, en hersveitir Choltitz voru þó mjög dreifðar vegna uppreisnar andspyrnuhreyfingarinnar. 25. ágúst rann upp og harðir bardagar geysuðu um alla París. Mikið mannfall hafði orðið á báða bóga. Bandamenn voru þó smám saman að ná yfirhöndinni, bæði vegna töluvert meiri mannafla og einnig sökum þess að hersveitir Choltitz þurftu bæði að berjast við Bandamenn og andspyrnuhreyfinguna.
Um morguninn sendu Frjálsir Frakkar Choltitz úrslitakosti um uppgjöf en hann neitaði að taka við úrslitakostum. Í höfuðstöðvum Hitlers í Rastenburg fékk Hitler nú loks að vita hve alvarlegt ástandið væri í París. Hann gjörsamlega umturnaðist í bræðiskasti og öskraði á herforingjana að Bandamenn mættu ekkert finna í París nema rústabreiðu. Hann spurði í móðursýkislegu brjálæði hvers vegna skipanir hans hefðu ekki verið framkvæmdar. Hann heimtaði að fá tafarlaust að vita hvort París væri í ljósum logum eða ekki. Strax var haft samband við höfuðstöðvar Models marskálks og ítrekað skipanirnar um að breyta yrði París í rústahrauk ef Bandamenn næðu borginni. Ennfremur fyrirsskipaði Hitler að öllum tiltækum flugskeytum af gerðunum V-1 og V-2 í Frakklandi skyldi þegar skotið á París til að hjálpa til við eyðilegginguna, auk þess sem allar tiltækar þýzkar flugvélar skyldu ráðast á borgina.
Á meðan á þessu gekk hafði Choltitz tekið ákvörðun sína dapur og þreyttur. Hann gat ekki dæmt menn sína til dauða í löngum og tilgangslausum bardögum sem gerði engum gagn. Hann hafði þá nokkru áður fengið þær upplýsingar frá yfirstjórn þýzka hersins á vesturvígrtöðvunum að ekki yrði með neinu móti mögulegt að koma setuliðinu í París undan ef Bandamenn tækju borgina. Hann fyrirskipaði því að höfuðstöðvarnar skyldu varðar ef andspyrnuhreyfingin reyndi að taka hótelið, en ef reglulegir hermenn kæmu fyrst skyldi gefist upp eftir að nokkrum skotum hefði verið hleypt af. Stuttu síðar komu fyrstu frönsku hermennirnir til Hotel Meurice. Choltitz sat á skrifstofu sinni ásamt helstu foringjum sínum. Hann var sáttur við sjálfan sig. Hermenn hans framkvæmdu á þessari stundu skipanir Foringjans um að berjast til síðasta skothylkis. Hermannssæmd hans hafði ekki beðið hnekki og þegar hann væri orðinn fangi gæti hann með sæmd gefið skipun um uppgjöf. Jafnframt gæti hann beðið dóms sögunnar án ótta eða smánar. Hann hafði ekki látið hefnigjarnan Hitler gera sig að böðli þessarar fögru borgar. Hann taldi í einlægni að hann hefði þjónað nafni sínu og þjóð rétt í París.
Stuttu síðar komu frönsku hermennirnir inn á skrifstofuna og handtóku Choltitz og foringja hans. Sendiboðar voru því næst sendir út um borgina til að tilkynna uppgjöfina. Farið var með Choltitz út úr hótelinu í átt til næstu bifreiðar. Frönsku hermennirnir áttu fullt í fangi með að verja fanga sína fyrir æstum mannfjöldanum. Úr öllum áttum var reynt að hrifsa til Choltitz og hrákinn og níðyrðin dundu á honum eins og haglél. Choltitz sætti sig við reiði hefnigjarns múgsins, virðulegur og án þess að láta sér bregða. Loks var komizt með Choltitz í gegnum múgnum í bifreiðina sem beið hans. Stuttu síðar undirritaði hann skriflega uppgjöf sína, áður en hann var fluttur í fangabúðir í Bandaríkjunum. Herforingjar von Choltitz voru sendir út um borgina til að fyrirskipa afskekktum þýzkum virkjum að gefast upp. Smám saman gáfust virkin eitt af öðru upp.
26. ágúst hringdi Jodl hershöfðingi til höfuðstöðva Models marskálks. Model marskálkur var ekki við en herráðsformaður hans, Hans Speidel hershöfðingi, svaraði. Jodl skipaði honum að framkvæma þegar skipanirnar um að láta flugskeytum rigna yfir París frá yfir hundrað skotstöðum í Frakklandi. Speidel lagði tólið á og ákvað þegar að gleyma þessum skipunum. Stuttu síðar var hann handtekinn af Gestapo. Hann var m.a. spurður um aðild hans að samsærinu gegn Hitler og sat í þýzku fangelsi til stríðsloka. 28. ágúst var hafið sakamál gegn Choltitz og meintum vitorðsmönnum hans í þýzka ríkisréttinum vegna agabrota í París, en þar sem ekki var hægt að útiloka að Choltitz hefði brugðizt vegna þess að hann hefði særzt var fjölskylda hans ekki gerð ábyrg fyrir gerðum hans.
Dietrich von Choltitz var látinn laus úr fangabúðum í apríl 1947 eftir tveggja ára og átta mánaða dvöl þar. Þegar hann kom aftur til Þýzkalands varð hann fyrir lítilsvirðingu frá ýmsum fyrrum samherforingjum sínum og skrifaði þá bókina Brennur París? (Brennt Paris?) 1951, þar sem hann varði gerðir sínar og óhlýðni við leiðtoga sem hann taldi vera orðinn vitskertan. Von Choltitz lést 4. nóvember 1966 í Baden-Baden í Vestur-Þýzkalandi.
Hjörtur J.
Heimildir:
Compton’s Interactive Encyclopedia, Compton’s New Media, Inc.
Encyclopedia Britannica, Encyclopedia Britannica, Inc.
http://www.paris.org
Larry Collins & Dominique Lapierre, Brennur París?, 1965
The New Universal Encyclopedia, The Educational Book Co., Ltd.
Þorsteinn Thorarensen, De Gaulle, 1963
Með kveðju,