Griðasáttmáli Hitlers og Stalíns 1939
(Hugleiðingar)

Eins og flestir þekkja, sem kynnt hafa sér sögu Síðari heimstyrjaldarinnar, gerðu Adolf Hitler, “Foringi” Þýskalands, og Jósef Stalín, leiðtogi Sovétríkjanna, með sér griðasáttmála árið 1939, um viku áður en sá fyrrnefndi hóf heimstyrjöldina með innrás í Pólland 1. september það ár. Sáttmáli þessi hefur gjarnan verið nefndur griðasáttmáli Hitlers og Stalíns (ens. The German- (or Nazi-) Soviet non-aggression pact), en með honum skuldbundu báðir aðilar sig m.a. til að ráðast ekki á hinn aðilann. Tæpum tveimur árum síðar var sáttmálinn síðan brotinn af Hitler með innrás Þjóðverja í Sovétríkin 22. júní 1941. Sáttmáli þessi hefur einnig ósjaldan verið nefndur Ribbentrop-Molotov samningurinn í höfuðið á þeim tveim stjórnarerindrekum hvors ríkis sem gengu frá honum, Joachim von Ribbentrop, utanríkisráðherra Hitlers-Þýskalands, og Vyacheslav Molotov, utanríkisráðherra Sovétríkjanna.

Um samningsgerð þessa hefur margt verið ritað og sýnist sitt hverjum. Ýmsir sem um málið hafa fjallað hafa viljað meina að með gerð sáttmálans hafi verið um einhvers konar svik að ræða af hálfu Sovétríkjanna. Aðrir hafa aftur á móti verið þeirrar skoðunr að um annað hafi einfaldlega ekki verið ræða fyrir Sovétríkin í stöðunni ef þau áttu að geta varist þýskri árás síðar.

Griðasáttmálinn var undirritaður í Moskvu 23. ágúst 1939 af þeim von Ribbentrop og Molotov, eins og fyrr segir. Auk þess að gefa hvor öðrum gagnkvæma tryggingu fyrir að ráðast ekki á hinn aðilann samþykktu báðir aðilar að hafa samráð um málefni sem vörðuðu hagsmuni ríkjanna tveggja. Aukinheldur var síðan ákvæði þess efnis að ríkin skuldbundu sig til bindast ekki samtökum með ríkjum sem væru fjandsamleg hinum aðilanum. Að lokum kvað sáttmálinn á um skiptingu Mið- og Austur-Evrópu í þýsk og sovétsk áhrifasvæði. Með því fékk Stalín t.a.m. frjálsar hendur í Finnlandi, Eystrasaltsríkjunum og Austur-Rúmeníu, auk þess sem Sovétríkin fengu vænan hluta af Póllandi í sinn hlut. Leiddi það því m.a. til þess að Eystrasaltsríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen, voru innlimuð í Sovétríkin og vetrarstríð Sovétmanna og Finna hófst um þremur mánuðum síðar.

Það er ljóst að í huga Hitlers var griðasáttmálinn aldrei annað en tímabundin trygging fyrir hlutleysi og afskipaleysi Sovétríkjanna af fyrirhugaðri innrás Þjóðverja í Pólland. Sömuleiðis vildi hann tryggja sig fyrir því að ekki yrði ráðist á Þýskaland úr austri á meðan þýski herinn væri að mestu leyti upptekinn við innrás í Frakkland, sérstaklega í ljósi þess að það var almennt viðurkennt grundvallaratriði í þýskri hernaðarfræði að það sem helst bæri að forðast fyrir Þýskaland væri stríð á fleiri en einum vígstöðvum þannig að dreifa þyrfti heraflanum, ekki síst vegna staðsetningar landsins. Hitler vildi reyndar strax ráðast á Sovétríkin haustið 1940 en var ráðlagt af ráðgjöfum sínum að forðast vetrarstríð við Rauða herinn. Á leynilegri ráðstefnu 31. júlí 1940, nokkrum vikum eftir fall Frakklands, var síðan ákveðið að innrás í Sovétríkin skyldi framkvæmd vorið 1941 og þá vonandi eftir að Bretar hefðu verið neyddir til að gefast upp. Tæpu ári síðar, 22. júní 1941 þegar Orrustan um Bretland var í algleymingi, áleit Hitler því að loks væri kominn tími til að ráðast á Rússa. Eftir að Sovétríkin hefðu verið sigruð taldi hann að Bretar hlytu að fallast á friðarumleitanir.

Það mun því vissulega aldrei hafa staðið til af hálfu Hitlers að deila einu eða neinu með Jósef Stalín og allra síst hinu fyrirhugaða Lebensraum (lífsrými) hans í Austur-Evrópu, sér í lagi þar sem landsvæði Sovétríkjanna var ekki síst inni í myndinni sem nýlenda fyrir þýska landnema í framtíðinni.

Hitler hafði óspart predikað í ræðu og riti um svonefnda Drang nach osten (sókn í austur), stríð á hendur kommúnismanum í Sovétríkjunum og hernám þess lífsrýmis sem hann taldi þýsku þjóðina þurfa á að halda í framtíðinni. Höfðu yfirlýsingar Hitlers um sókn gegn kommúnismanum m.a. verið þess að valdandi að ýmsir auðjöfrar og áhrifamenn á Vesturlöndum höfðu greitt vænar fjárhæðir til nasistaflokksins í Þýzkalandi á uppbyggingarárum hans. Er því síður en svo einkennilegt þó mörgum hafi brugðið þegar Hitler tók allt í einu upp á því að undirrita griðasáttmála við, að því er virst hafði, höfuðandstæðing sinn. Sbr. t.a.m. eftirfarandi umfjöllun:

“Undirritun sáttmálans kom sem reiðarslag yfir afganginn af Evrópu, ekki síst vegna þess að Stalín hafði þá í nokkra mánuði staðið í samningum um hernaðarbandalag við Breta og Frakka. Þótti mörgum það illskiljanlegt hvernig slíkir hugmyndafræðilegir andstæðingar hefðu getað með svo sýnilegum hætti lagt deilumál sín til hliðar og gert svo skjótan og vinsamlegan sáttmála sín á milli.”

En það sem menn hafa ekki reiknað með var hið gífurlega hatur Þjóðverja á Frökkum vegna meðferðarinnar eftir Fyrra stríð og þó svo Hitler ætlaði vissulega að ráðast gegn kommúnismanum í Sovétríkjunum biðu hans fyrst óuppgerðar sakir við Frakka.

Ýmsa kosti sá Stalín einnig við sáttmálann. Eins og áður hefur komið fram hafði Stalín staðið í samningaviðræðum við Breta og Frakka um hernaðarbandalang mánuðina fyrir sáttmálsgerð sína við Hitler. Þegar Bretar og Frakkar fórnuðu Tékkóslóvakíu í hendurnar á Hitler 1938, þrátt fyrir að hafa ábyrgst sjálfstæði landsins við stofnun þess eftir Fyrra stríð, er ekki ólíklegt að Stalín hafi hugsað sig tvisvar um hvort hér væru á ferðinni traustir bandamenn. Ekki síst þar sem Rússar höfðu boðist til að verja Tékkóslóvakíu með Bretum og Frökkum, ef Þjóðverjar gerðust of ágengir, en verið hunsaðir. Það verður því að telja líklegt að Stalín hafi litið svo á að hver væri sjálfum sér næstur og að best væri fyrir Sovétríkin að sjá um sín mál sjálf.

Eitt af því sem var Stalín mikilvægt var að tryggja að Sovétríkin yrðu ekki þátttakendur í styrjöld þar eð þau voru veik fyrir og engan veginn undirbúin fyrir meiriháttar hernaðarátök. Ef Sovétríkin hefðu gerst aðilar að hernaðarbandalagi með Bretum og Frökkum er mjög hugsanlegt að þau hefðu orðið að berjast gegn Hitler frá upphafi og þessu hefur Stalín að öllum líkindum gert sér grein fyrir. Hins vegar var hlutleysi Sovétríkjanna í raun það eina sem Hitler fór fram á. Auk þess bauð Hitler honum hluta af Austur-Póllandi sem þýddi að Stalín gat framlengt landamæri Sovétríkjanna til vesturs, sem aftur á móti þýddi að aðvífandi innrásarher yrði fyrst að sækja yfir það landsvæði áður en hann kæmi á raunverulegt sovétskt landsvæði.

Stalín hefur væntanlega einnig verið vel meðvitaður um predikanir Hitler um sóknarhugmyndir sínar gegn kommúnismanum í Sovétríkjunum og lífsrýmið sitt og þar af leiðandi getað átt von á árás af hans hálfu hvenær sem var. Því urðu Sovétríkin að undirbúa sig undir slíkt. Sá undirbúningur fólst m.a. í því að flytja fjölmargar verksmiðjur og önnur atvinnutæki frá hinni auðlindaríku Úkraínu, sem augljóslega yrði í mikilli hættu ef til innrásar kæmi, og allt austur fyrir Úralfjöll.

Hugsanlega má þó leiða hugann að því hvort Stalín hafi e.t.v. tekið griðasáttmálann mun alvarlegar en Hitler gerði. Ekki þá síst með það í huga að hann ræðst á Finnland 30. nóvember 1939, aðeins þremur mánuðum eftir að sáttmálinn við Hitler er undirritaður, þrátt fyrir að hafa með sáttmálanum m.a. viljað halda Sovétríkjunum fyrir utan stríðsátök, eins og fyrr segir. Raunar munu diplómatískar viðræður hafa staðið á milli Finnlands og Sovétríkjanna fyrir innrásina, þar sem Stalín fór fram á að fá afhent Karelians Isthmus-héraðið norð-austur af Leníngrad, sem þó enduðu í algeru rifrildi. Þetta þykir því sjálfsagt ýmsum ekki benda til þess að Stalín hafi verið mjög uggandi vegna innrásarhættu af hálfu Þjóðverja. Þó vega þungt þau rök að Rauði herinn átti að öllu eðlilegu að hafa algera yfirburði gagnvart finnska hernum, með a.m.k. fimm sinnum fleiri hermenn enda Stalín hefur án efa ætlað sér að sigra Finna á aðeins örskömmum tíma. Stalín vildi þarna framkvæma sitt eigið Blitzkrig (leifturstríð) að þýskri fyrirmynd, en lenti í hinu mesta basli með Finnana sem reyndust sérfræðingar í vetrarhernaði og léku Rauða herinn grátt þrátt fyrir að hann sækti samt stöðugt fram. Ein aðalástæða þessa mun hafa verið skortur á hæfum herforingjum í Rauða hernum en margir dugandi herforingjar höfðu týnt lífinu í hreinsunum Stalíns á árunum fyrir stríð.

Þegar svo Hitler mætti með sitt leifturstríð á sléttur Sovétríkjanna 1941 virðast Rússar ekki hafa verið mjög undirbúnir undir innrás. Um sumarið það ár geystust þýskir bryndrekar og þýskt herlið áfram inn í landið og virtist ekkert ætla að stöðva þýska herinn. Því verður þó ekki í móti mælt að með flutningi verksmiðja frá þeim svæðum sem síðar lentu undir yfirráðum Þjóðverja munu Sovétríkin hafa bjargað miklu og þær ráðstafanir átt sinn þátt í því að þeim tókst síðar að snúa gangi stríðsins á austurvígstöðvunum sér í hag þó mestu hafi þar sennilega skipt hinn rússnenski vetur.

Griðasáttmáli Hitlers og Stalíns hefur óneitanlega haft gríðarleg áhrif á upphaf Heimstyrjaldarinnar síðari. Það að sáttmálinn hafi komið mörgum í opna skjöldu og jafnvel komið sem reiðarslag yfir Evrópu í heild er sennilega ekki ofsögum sagt. Hefur þetta væntanlega verið það síðasta sem mönnum datt í hug að gerst gæti. Að þessir tveir, að því er virtist, svörnu andstæðingar skyldu allt í einu taka upp á því að undirrita griðasáttmála sín á milli. Margir hafa sennilega vonað að hægt yrði að etja saman þessum tveimur einræðisherrum og jafnvel losna við báða í leiðinni. Ýmsir framámenn á Vesturlöndum, s.s. harðir kapitalistar, hafa sjálfsagt talið að hægt væri að nota Hitler sem einhvers konar refsivönd á kommúnistana í Sovétríkjunum og jafnvel binda þannig enda á stjórn kommúnista í Rússlandi, eitthvað sem ekki hafði tekist með hvítliðaherjunum eftir bolsévikabyltinguna 1917. Bretar og Frakkar, sem vonast hafa eftir bandamanni í Rússum, a.m.k. meðan verið væri að eiga við Hitler, hafa séð fram á þær vonir verða að engu.

En var þetta ekki skásta úrræðið sem Stalín hafði þegar hagsmunir Sovétríkjanna voru hafðir í huga? Rússar voru illa undirbúnir fyrir innrás Þjóðverja 1941, hvernig hefðu þeir verið undir slíkt búnir árið 1940, hvað þá 1939? Var þetta ekki bara eina úrræði Stalíns í erfiðri stöðu? Og hafi Rússar svikið einhverja með sáttmálanum, hverja sviku þeir? Vesturveldin, sem höfðu meira eða minna sent herlið til að berjast gegn byltingunni 1917? Pólverja, sem höfðu gert innrás í Úkraínu 1920? Breta og Frakka, sem höfðu aðeins ári áður svikið Tékkóslóvakíu í hendurnar á Hitler, land sem þeir höfðu heitið að verja? Komu þessar ásakanir e.t.v. ekki úr hörðustu átt? Að hvað miklu leyti er annars hægt að réttlæta það að Rússar tækju meira tillit til hagsmuna Vesturveldanna en þau tóku til hagsmuna þeirra?
Annars virðist það hafa gætt þess töluvert í vestrænni sagnfræði frá stríðslokum að álasa Rússum fyrir griðasáttmálann við Þjóðverja og jafnvel saka þá um svik. A.m.k. man höfundur gjarnan eftir því að umfjallanir um sáttmálann í skólabókum í sögu hafi verið æði neikvæður svo ekki sé meira sagt. Hvarflar að manni að umfjöllun um þessi mál hafi oft á tíðum verið vægast sagt vel lituð af Kalda stríðinu og Rússar oft á tíðum alls ekki látnir njóta sannmælis. Ef sú er raunin er það mjög miður og væri í þeim málum réttast að taka Sturlu Þórðarson sagnaritara sér til fyrirmyndar í sagnfræðilegum umfjöllunum, mann sem fjallaði með vægast sagt ótrúlega hlutlægum hætti um menn sem höfðu meira eða minna kvistað niður stóran hluta af ættmennum hans.

Hjörtur J.


Heimildaskrá:

Barbara Buttenfield, “Nazi-Soviet Pact”, Encarta 98 Encyclopedia, Microsoft Corporation, 1998.
Barbara Buttenfield, “World War II”, Encarta 98 Encyclopedia, Microsoft Corporation, 1998.
Barbara Buttenfield, “Union Of Soviet Socialist Republics”, Encarta 98 Encyclopedia, Microsoft Corporation, 1998.
Ólafur Hansson, Heimstyrjöldin síðari 1939-1945, Fyrra bindi, Reykjavík, 1946.
Með kveðju,