En einhversstaðar verða vondir að vera. Þetta er jú um sagnfræði, og sæmilega laust við blótsyrði og óvinsælar skoðanir, þannig að nú birti ég þetta hér. Látið mig svo vita hvort skrifum mínum hefur farið fram síðan þá ;-)
Er sagan að deyja?
Var að lesa bók með pælingum um framtíðina. Þar víkur höfundurinn að vandamáli sem ég hef áður velt fyrir mér: Hann ímyndar sér barnabörn sín gramsa uppá háalofti sínu eftir 50 ár, fara í gegnum eigur afa heitins. Þar finna þau rykfallinn CD-ROM disk merktan 1997 sem eitthvað merkilegt virðist vera á. En þá er vandamálið, CD-ROM diskar og PC tölvur eru orðnar antík fyrir mörgum árum síðan, engin leið að sjá hvað er á þessum disk.
Eða hvað? Þó að 78 snúninga gramófónar, hinir mun eldri sívalningaspilararar, og 8mm kvikmyndavélar séu núorðið antík, þá er það ekkert stórmál ef menn leita eftir því að fá efni sem þeir finna á þessu formi flutt yfir á það sem gengur og gerist í dag. Eintök af nefndum antíkgræjum í toppstandi eru víða til á ýmsum stofnunum, sem og nýrri tæki sem hafa verið sérsmíðuð einmitt í þessum tilgangi, að flytja efni af antík-formi yfir á nýtt. Ég er því í litlum vafa um að lítið mál yrði fyrir barnabörn höfundarins að fara og fá efni gamla CD-ROMsins flutt yfir á eitthvað sem þau gætu stungið í vélina heima hjá sér. Gæti jafnvel trúað að VHS-spólan með fjölskyldumyndunum yrði aðeins meira mál, þó ekki væri það mikið.
Kaflann þar sem höfundurinn kemur að þessu vandamáli nefnir hann “The Death of History”. “Dánarorsökin” er semsagt sú að gífurlegt magn upplýsinga um fortíðina muni daga uppi á úreltu formi og glatast. Það er margt ágætt í þessari bók, en annað er helbert bull, þám þetta. Vissulega mun mikið af efni glatast á þann hátt sem hann nefnir, en það verður þá líka mestmegnis efni sem menn telja ekki þess vert að færa yfir á nýtt form. Allt það efni sem menn telja þess virði að varðveita (og gífurlega misjafnar skoðanir hafa menn á því!) mun verða fært yfir á nýtt form eins oft og þess er þörf á næstu áratugum og öldum.
Kvikmyndin var uppfundin árið 1896, og ansi margt hafa menn filmað síðan þá. Ekki hefur nærri því allt varðveizt til dagsins í dag, og flest það sem glatast hefur er eitthvað sem alveg mátti glatast. Það sem þótt hefur merkilegt hefur hinsvegar verið geymt, fjölfaldað, fært yfir á ný form eftir því sem þau urðu til svosem myndband og CD-ROM.
Bækur og blöð hafa og verið gefin út síðan sirka 1500. Án efa hefur margt sem menn hafa skrifað gegnum aldirnar að eilífu glatast. Heilu upplögin af ýmsum ritverkum hafa sjálfsagt öll fyrir rest endað í tunnunni, og engin man lengur eftir að þessi verk hafi nokkurntíman verið til. Svo væri ekki komið fyrir þessum verkum hefðu einhverjir af þeim sem þau lásu séð ástæðu til að varðveita þau, og útgefandinn til að endurútgefa. Nazistar ráku sig einmitt á það fyrr á öldinni að ekki stoðaði að brenna hvert einasta eintak sem þeir komust yfir af einhverri ákveðinni bók til að “drepa” hana. Svo lengi sem bókin átti eitthvað í hugum fólks gátu þeir aldrei komist yfir hvert einasta eintak, ekki einu sinni á sínu yfirráðasvæði. Bókin lifði áfram lesin í laumi, og yrði svo endurútgefin eftir þeirra valdatíma.
En hefur sagan dáið á þessari öld sökum þess hversu gríðarlegt magn efnis hefur glatast? Þvert á móti, menn halda stöðugt áfram að finna einhverjar nýjar upplýsingar um fortíðina, þrátt fyrir öll “afföllin” sem orðið hafa. Þessi afföll eru ösköp eðlileg, og þó þó muni etv aukast með auknu upplýsingaflæði og breytingum á tölvutækni, þá munu þau síður en svo drepa söguna. Sagan mun þvert á móti aldrei hafa verið meira spennandi viðfangsefni en einmitt á komandi áratugum og öldum.
Er sagan að verða rugluð?
“The Death of History” ? Það er sem áður sagði kjaftæði, sagan mun aldrei deyja. En að sjálfsögðu mun hún brenglast í hugum “leikmanna”. Á þessari 20. öld hafa verið gerðar margar epískar kvikmyndir um Rómverja og Forn-Grikki, sem uppi voru fyrir uþb 2000 árum. Og ef að einhver sagnfræðingur sem hefur rannsakað efnið kemur með komment eins og “Þarna eru Rómverjar að nota katapúlt, í mynd sem á að gerast 200 f. Krist, þeir fundu ekki upp katapúltinn fyrren um 50 e. Krist” (bara sem dæmi, ég veit ekkert hvenær katapúlturinn var uppfundinn); þá segir almenningur “Hvaða andskotans máli skiptir það?!”
Það skiptir þessu máli: Á 24. öld verður e.t.v. gerð bíómynd (eða þrívíddar-reynsla, hvað sem menn kunna að finna uppá í stað bíómyndar) um Napóleon. Í einni senunni kemur Naflajón stressaður in í “war roomið” sitt, sezt framað við sjónvarpið og bíður frétta af því hvernig flugmóðurskipunum sínum hafi reitt af við Trafalgar! Og De Gaulle segir honum náttúrlega að Churchill og Nelson séu búnir að rústa franska flotanum, en ekki sé enn öll von úti, etv takist að semja bandalag við Hitler Prússakeisara og fá liðsstyrk hans þegar Wellington gerir loks innrás í Normandie!
Myndin endar náttúrlega á því að herir Napóleons bíða ósigur í hinni miklu skriðdrekaorustu við Waterloo. Veðrið er svo vont að Bretar geta ekki komið neinum af Tornado IDS eða Harrier vélum sínum á loft fyrren á fjórða degi, en þegar að það loksins tekst eiga þeir sigurinn vísan þareð loftvarnaflaugar Napóleons eiga ekkert í truflunarbúnað þessara véla!
Napóleon skýtur sig í byrgi sínu í París, og De Gaulle hengir sig bíðandi aftöku eftir Nürnbergréttarhöldin. En á Vínarfundinum 1919 eru Frökkum þó sett svo harkaleg skilyrði að það leiddi óhjákvæmilega til annarar heimsstyjaldar. Sú styrjöld leiddi ma til þess að aðmíráll Perry fór með “Carrier Task Force” sinn, njúkaði Híróshíma & Nagasaki og neyddi þarmeð Japana til að hefja útflutning á ýmiskonar iðnaðarvarningi með hagstæðum kjörum.
“Stórkostleg mynd, gefur okkur virkilega lifandi og ferska innsýn í forna tíma” eiga gagnrýnendur eftir að segja á 24. öld. Einhverjir sagnfræðingar munu kannski hafa eitthvað að athuga við myndina, en hver á svosem eftir að hlusta á þá?
Bókin sem ég tala um í fyrri partinum er The Next 500 Years, eftir
Adrian Berry.
Sjálfum þykir mér þessi pistill hafa staðist áratuginn ágætlega, en er þó ekki jafn eitilharður nú á þeim skoðunum sem ég set fram í fyrri partinum um “dauða sögunnar”. Sjálfur hef ég lent í því síðasta áratuginn, að tapa gögnum við að skipta eldri tölvum út fyrir nýjar. Ekkert samt sem ég sakna tiltakanlega. Og þessi lítt merkilegi gamli pistill minn hefur t.d. náð að flytjastt ólesinn milli 4-5 harðra diska á þessum áratug, með restinni af ritræpu minni.
Í dag lifum við í miklu meira og hraðara upplýsingastreymi en 1997, en jafnframt miklu minna og hægara en það mun verða 2017. Ég er samt ekki á því að sagan sem slík sé í neinni bráðri lífshættu. En við megum þó alveg hafa þann varann á okkur, að láta ekki allt bara þjóta hjá og ýta svo á “delete” takkann. Reynum að varðveita fortíðina, passa að ekkert glatist sem seinna gæti hugsanlega orðið merkilegt. Eins og ég sagði fyrir 10 árum, þá hafa menn afskaplega fjölbreyttar og misjafnar skoðanir á því, og þannig á það auðvitað að vera!
_______________________