1.Inngangur

Bandaríkin eru ríkasta, valdamesta og hernaðarlega sterkasta þjóð í heiminum í dag. Áhrif þeirra eru gríðarleg. Bandaríkin hafa áhrif, með einum eða öðrum hætti á hvern einasta jarðarbúa í heiminum. Því er mjög goð ástæða til þess að skoða hvernig Bandaríkin hafa hagað sér í gegnum tíðina á alþjóðavettvangi, bæði á tuttugustu öldinni og í nútímanum.

Tilgangur minn með þessari ritgerð er að skoða hversu valdamikil Bandaríkin eru, hvernig þau nýta sér völd sín í alþjóðastjórnmálum og hvernig þau hafa skipt sér af öðrum löndum. Það er margt sem kemur á óvart í þessu samhengi þegar farið er ofan í ýmis mál sem hafa verið mikið í umræðunni.

Í fyrsta kafla byrja ég á að skoða sögu afskipta Bandaríkjanna af öðrum löndum eftir að þeir tóku við forystuhlutverkinu í heiminum og tek nokkur dæmi um það. Í seinni kaflanum ætla ég svo að skoða utanríkisstefnu Bandaríkjanna í nútímanum og hvernig hún hefur orðið vægðarlausari eftir 11. September. Í þriðja og seinasta kaflanum ætla ég svo aðeins að skoða áhrif Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi og hvernig þeir nýta sér gríðarleg völd sín.



2. Utanríkisstefna Bandaríkjanna á 20.öld

Saga Bandaríkjanna sem heimsveldi er ekki ýkja löng. Segja má að sú stefna Bandaríkjanna hafi byrjað eftir síðari heimsstyrjöld. Evrópa var í rústum eftir langt og erfitt stríð sem kostað hafði milljónir mannslífa og margar borgir voru rústir einar. Efnahagslífið var í molum í nær öllum löndum. En Bandaríkin komu sterk út úr stríðinu. Þeir misstu hlutfallslega fáa hermenn og ekki hafði heldur verið barist í heimalandi þeirra ólíkt öðrum stórveldum s.s. Frakklandi og Bretlandi. Þeir stóðu einnig undir helmingi heimsframleiðslunnar sem gerði Bandaríkin óumdeilanlega að voldugasta ríki heims.

Eftir heimsstyrjöldina fóru Bandaríkin einnig meira og meira að skipta sér af öðrum löndum og tóku þannig séð við hlutverki Breta sem forystuþjóð. Var þessi stefna algjörlega andstæð einangrunarstefnunni sem þeir höfðu áður fylgt. Í kalda stríðinu sem fylgdi heimsstyrjöldinni síðari einkenndust aðgerðir Bandaríkjamanna sífellt meira af tortryggni í garð hins stórveldisins Sóvétríkjunum og tilraunum til þess að hrindra útbreiðslu kommúnismans. Einnig gengu margar aðgerðir Bandaríkjamanna út á að tryggja hagsmuni sína í öðrum löndum. Þetta var mjög áberandi í löndum Suður-Ameríku en Bandaríkjamenn hafa skipt sér af, með einum eða öðrum hætti hverju einasta landi í álfunni. Þessi samskipti hafa ekki alltaf verið íbúum landanna til góðs eins og ég ætla að reyna að sýna fram á í þessum kafla með nokkrum dæmum.

Fyrsta stóra aðgerðin sem Bandaríkjamenn skipulögðu og framkvæmdu leynilega sem beindist gegn stjórn annars ríkis og var gerð í þeim tilgangi að þjóna hagsmunum Bandaríkjanna var Ajax-aðgerðin (Operation Ajax). Hún var gerð af CIA, leyniþjónustu Bandaríkjanna í samstarfi við Breta 1953. Leyniþjónustan var þá tiltölulega nýstofnuð. Aðgerðin beindist gegn Muhammed Mossadiq sem var forsætisráðherra Írans. Bretar höfðu lengið treyst á Íran til þess að fá olíu fyrir veldi sitt. Á þessum tíma var Íran fjórði stærsti olíuframleiðandi heims og sá ríkjum Evrópu fyrir 90% af þeirri olíu sem þau þurftu á að halda. En árið 1950 ákvað Íranska þingið að þjóðnýta OEÍ sem sá um olíuna. Þetta hefði komið sér mun illa fyrir Breta sem brugðust harkalega við og reyndu með ýmsum ráðum að fá Írana til að hætta við þessi áform en án árangurs. Þeir reyndu því í fyrstu að fá Harry S. Truman, þáverandi forseta Bandaríkjanna til liðs við sig en hann sýndi þessu verkefni lítinn áhuga. En árið 1952 sigraði Dwight D. Eisenhower í forsetakosningum Bandaríkjanna og eftir að Bretar höfðu veifað gögnum sem sýndu fram á tengsl Musaddiqs við kommúnista, sem voru stórlega ýkt voru Bandaríkjamenn til í slaginn .

Aðgerðin fór í gang mánudaginn 16. ágúst 1953. Stór hópur fólks sem var á launaskrá hjá CIA gekk um götur Tehran og mótmæltu Íranska keisaranum og gerði öllum ljóst að þeir væru stuðningsmenn Musaddiqs. Þeir brutu allt og brömluðu og fólk varð mjög undrandi á því hvernig stuðningsmenn Mossadiqs létu. Herinn var svo kallaður út en þá voru flestir innan hans einnig komnir á launaskrá CIA. Hann náði helstu opinberu stofnunum á sitt vald og stuttu seinna var tilkynnt að Musaddiq væri ekki lengur forsætisráðherra. Hann var handtekinn og settur í stofufangelsi.

Ajax-aðgerðin olli straumhvörfum í Bandarískri utanríkisstefnu. Aðgerðin hafði ekki kostað mikið og heppnaðist fullkomnlega. Eftir hana sáu háttsettir menn innan Bandaríkjastjórnar að þeir gátu tryggt hagsmuni sína tiltölulega auðveldlega með því að skipta um stjórn landa sem ekki voru jafn samvinnufúsir og þeir vildu. Annar plús við hana var að alþjóðasamfélagið hafði ekki hugmynd um að Bandaríkjamenn og Bretar hafi verið á bak við valdaskiptin ásamt því að þeir misstu ekki einn einasta mann. Kermit Roosevelt, sá sem stjórnaði aðgerðinni segir í endurminningum sínum að þegar hann kom aftur í Hvíta Húsið og lýsti aðgerðinni að þá hafi John Foster Dulles þáverandi utanríkisráðherra „malað eins og stór köttur“ . Svona aðgerðir urðu því mun fleiri á seinni hluta 20.aldarinnar.

Annað gott dæmi um afskipti Bandaríkjanna af öðrum þjóðum eru atburðir sem gerðust í Níkaragúa. Frá 1936 til 1979 réð Somoza fjölskyldan ríkjum þar og áttu Bandaríkin í góðum viðskiptum við hana. Fyrirtækið Nicaraguan Long Leaf Pine Company borgaði fjölskyldunni milljónir dollara og voru þessi viðskipti mjög hagkvæm því þau þurftu t.d. ekki að endurrækta skógsvæði sem þau eyddu. Ekki var þó tekið mikið tillit til íbúa landsins því bændur sem fyrir voru á ýmsum landssvæðum voru flæmdir í burtu í mörgum tilvikum ásamt því að landlausir bændur fengu borgað mjög lág laun. En árið 1979 var gerð uppreisn gegn Somoza fjölskyldunni og Sandinistastjórnin komst til valda. Þeir vildu þjóðnýta jarðir landsins og vernda umhverfið og kom það sér mjög illa fyrir Bandaríkjamenn. Þeir sáu að eitthvað yrði að vera gert í málinu ef hagsmunir þeirra í Níkaragúa áttu að haldast.

Bandaríkin, undir stjórn Ronald Reagans fóru því að lýsa Sandinistastjórninni sem kommúnistum sem varð að koma frá völdum. Þeir hættu að styðja Níkaragúa fjárhagslega og byrjuðu að þjálfa svonefnda Kontra skæruliða til að berjast gegn stjórninni. Þeir voru miskunnarlausir, morð og nauðganir voru þeirra aðalaðferðir. Fjárið, sem háttsettir embættismenn Reaganstjórnarinnar, s.s. Caspar Weinberger varnarmálaráðherra og Robert MacFarlane úr öryggisráði Bandaríkjanna dældu í þá fengu þeir með því að selja Írönum vopn og með fíkniefnasölu, sem var auðvitað kolólöglegt og þvert á stefnu Bandaríkjanna á þeim tíma . Einnig skipuðu Bandaríkjamenn skæruliðunum að ráðast á „soft targets“ sem þýðir skólar, sjúkrahús o.s.frv. En Bandaríkin létu ekki þar við sitja og hófu einnig loftárásir á Nikaragúa ásamt því að koma fyrir tundurduflum við innsiglingar þeirra. Maðurinn sem sá að miklu leyti um að þjálfa Kontra skæruliðanna var John Negroponte, fyrrverandi sendiherra til Íraks og núverandi njósnameistari (Director of National Intelligence).

Nikaragúa kærði því Bandaríkin fyrir Alþjóðadómstólnum og komst hann að þeirri niðurstöðu að Bandaríkin voru sek um stríðsglæpi. Dómstóllinn kallaði aðgerðir Bandaríkjanna „ólögleg ofbeldisverk“ og fór fram á að Bandaríkin borgaði skaðabætur og hætti aðgerðunum umsvifalaust. Bandaríkin brugðust við með því að lýsa yfir að þau myndu ekki viðurkenna lögmæti alþjóðadómstólsins. Níkaragúa fór þá með málið til öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna sem fyrirskipaði að allar þjóðir þyrftu að fara eftir alþjóðalögum sem endaði með því að Bandaríkin beittu neitunarvaldi sínu. Níkaragúa gafst þó ekki upp því þá leitaði ríkið til Allsherjarráðs Sameinuðu Þjóðanna sem komst að sömu niðurstöðu. Bandaríkin greiddu þá atkvæði gegn tillögunni ásamt El Salvador og Ísrael. Þá var ljóst að íbúar Níkaragúa gátu ekkert gert.

Það sem er einnig skrýtið við þetta mál er að Sandinistastjórninni var lýst sem einræðisstjórn sem koma þyrfti frá völdum og lýðræði yrði komið á í staðinn. Sannleikurinn er samt sá að 1984 voru haldnar kosningar í landinu og stjórnin tapaði svo kosningum í febrúar 1990 og hættu þeir þá stjórnmálaafskiptum. Iran-Kontra hneykslið svokallaða komst upp og voru ýmsir háttsettir menn kærðir en margir hafa samt haldið fram (og hafa þeir mjög mikið til síns máls) að Ronald Reagan og George H. W. Bush, þá varaforseti og seinna forseti Bandaríkjanna hafi einnig verið viðrinir málið.

30. júlí 1964 var gerð árás á bandaríska herskipið USS Maddox í Tonk flóanum í N-Víetnam. Þetta leiddi til langs stríðs milli Bandaríkjanna og Víetnam í forsetatíð Lyndon B. Johnsons . Ég ætla þó ekki að fara mikið í stríðið sjálft heldur aðeins reyna að sýna fram á aðferðirnar sem Bandaríkin notuðu. Sannleikurinn er sá að herskipið var í leyfisleysi á þessu svæði og tilgangurinn var að fá Víetnama til að ráðast á skipið svo hægt væri að nota það sem afsökun fyrir stríðinu. En Víetnamar bitu ekki á agnið svo árasin var hreinn og klár uppspuni. Bandaríkin högnuðust verulega af hergagnaframleiðslunni sem fylgdi stríðinu jafnframt því að koma þyrfti í veg fyrir að kommúnisminn myndi breiðast út eins og Dwight D. Eisenhower hélt fram með dóminókenningunni. En þetta stríð hafði hræðilegar afleiðingar. Árið 1975 höfðu um 4 milljónir Víetnama látið lífið ásamt 64000 Bandaríkjamönnum . Þá er ekki tekið með mikill fjöldi annara sem særðust eða hlutu varanlegan andlegan skaða.

“Ólögleg valdbeiting, hótun um valdbeitingu eða ofbeldi gegn
einstaklingum eða eigum til að þvinga og ógna ríkisstjórnum eða
samfélögum, oft til að ná fram pólitískum, trúarlegum eða
hugmyndafræðilegum markmiðum”. (“unlawful use of, or threatened
use, of force or violence against individuals or property to coerce
and intimidate governments or societies, often to achieve political,
religious, or ideological objectives”) .

Þetta er skilgreining Bandaríska varnamálaráðuneytisins á hryðjuverkum og þegar skoðuð er afskipti Bandaríkjanna af öðrum þjóðum kemur hræsnin bersýnilega í ljós. Þetta eru nákvæmlega þær aðferðir sem Bandaríkin notar til að fá sínu framgengt í öðrum löndum.

Með þessum dæmum hef ég reynt að sýna fram á skeytingarleysi Bandaríkjanna gagnvart öðrum þjóðum eftir að þeir tóku við forystuhlutverkinu í heiminum. Þeir hafa ítrekað búið til ástæður sem réttlæta stríð þegar hagsmunum þeirra er ógnað, eða stutt harðsvíraðar stjórnir í skiptum fyrir hagstæð viðskiptakjör. Í öllum tilfellum hafa fórnarlömbin verið saklausir íbúar ríkjanna. Þessi dæmi hér að ofan eru langt frá því að vera einhverjar undantekningar því svipaðar sögur má segja af afskiptum Bandaríkjanna í Kóreu, Guatemala, Panama, Grenada, Chile og Líbýu svo einhver dæmi séu nefnd. Þessi stefna er líka langt frá því að vera úr sögunni, þvert á móti eru Bandaríkin, undir nýrri stjórn orðin mun kræfari eftir vissa atburði sem gerðust í byrjun 21. aldar eins og ég segi frá í næsta kafla.




3. 21.öldin: Írak og Afghanistan

11. september gerðist svo atburður sem breytti utanríkisstefnu Bandaríkjanna til muna. Tvær farþegaflugvélar flugu á World Trade Center turnana í New York sem olli því að turnarnir hrundu og 2,986 fórust . Einnig flaug önnur flugvél á Pentagon, varnamálaráðuneyti Bandaríkjanna og enn önnur brotlenti í Pennsylvaníu. Skuldinni var umsvifalaust skellt á islamska bókstafstrúarmenn undir leiðsögn Osama Bin Ladens. Ástæðan fyrir árásunum var sögð, af yfirvöldum í Bandaríkjunum að þessir bókstafstrúarmenn hötuðu frelsi og lýðræðið í Bandaríkjunum. George W. Bush lýsti yfir stríði gegn hryðjuverkum og sagði að þjóðir heims væru annað hvort með honum eða á móti.

Í kjölfarið fengu Bandaríkjamenn mikla samúð og þeir háðu tvö stríð sem var byggt á mjög veikum forsendum. Í október 2001 réðust þeir inn í Afghanistan til þess að koma Talibana stjórninni frá völdum og ná Osama Bin Laden sem stjórnin var sögð fela. Aðgerðin heppnaðist að því leytinu til að Talibana stjórninni var komið frá völdum en þó hefur Bin Laden ekki enn fundist og enn eru miklir erfiðleikar í formi uppreisnar og þess háttar. Samkvæmt Jonathan Steele hjá blaðinu The Guardian hafa á bilinu 20000 og 49600 manns látið lífið í kjölfar innrásarinnar .

En umdeildari er þó innrásin í Írak. Stríðið í Afghanistan er réttlætanlegra (en þó ekki fullkomnlega réttlætanlegt!) vegna þess að sönnunargögn voru um að Osama Bin Laden og Al-Qaeda, hryðjuverkasamtök hans héldu sig til þar í landi en ástæðurnar sem Bandaríkjamenn notuðu til að ráðast inn í Írak voru mjög veikar. Í fyrsta lagi héldu þeir fram að Saddam Hussein hefði yfir gjöreyðingarvopnum að ráða. Annað hefur nú komið á daginn þar sem engin gereyðingarvopn hafa fundist og margt bendir til þess að gögnin sem Bandaríkjamenn hafi notað til að sanna það hafi verið hreinn og klár uppspuni. Í öðru lagi héldu þeir einnig fram að Saddam Hussein hafði tengsl við Al-Qaeda hryðjuverkasamtökin. Það hefur einnig komið í ljós að þessar ásakanir áttu sér enga stoð í raunveruleikanum. Í þriðja lagi notuðu Bandaríkjamenn mannréttindabrot Hussain stjórnarinnar sem ástæðu til að ráðast inn í landið og grípa í taumana. Þetta var þó satt en þó má benda á að Bandaríkjamenn vissu af þessum mannréttindabrotum í langan tíma, jafnvel á meðan þau áttu sér stað. En ekkert var gert í málunum þegar hugsanlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir þau. Mörg önnur lönd eru einnig sek um mun grófari mannréttindarbrot en Bandaríkin virðist skeyta lítið um þau. Því er alveg ljóst að ástæður Bandaríkjanna fyrir innrásinni í Írak eru allt aðrar en þeir héldu fram.

Bandaríkjastjórn hefur verið gagnrýnd harðlega fyrir þessa atburði út um allan heim af ýmsum ástæðum. Margir halda fram að margt annað hafi legið að baki árásunum á World Trade Center turnana því margt er enn óljóst og óútskýrt. Til dæmis þá gáfu yfirvöld ekki út neinar myndir af flugvélaflökunum sem lentu í Pennsylvaníu og á Pentagon. Gefin var sú skýring að flugvélarnar hafi bráðnað við hitann en þetta er dregið mjög í efa af sumum. Sumir hafa jafnvel haldið fram að flugvélin sem lenti í Pennsylvaníu hafi verið skotin niður. Einnig hrundi annar turn World Trade Center nr. 7 á fáeinum sekúndum án þess að að nein flugvél hafi snert hann. Enginn dó heldur þegar turninn féll því búið var að rýma hann algjörlega og fjölmiðlar sýndu þessum atburð lítinn eða engan áhuga. Einnig hafa ýmsir sérfræðingar haldið fram að turnarnir hefðu aldrei hrunið vegna flugvélanna, þeir hefðu verið byggðir til að þola slíka árás. Sprengjuefni sem komið hefði verið inn í turnunum hefði þurft til að fá þá til að hrynja. Þessar og ýmsar aðrar ástæður, s.s. tregða yfirvalda til að sýna ýmis gögn hafa fengið marga til að efast um opinbera skýringu yfirvalda á árásunum 11. september. Því er haldið fram að Bandaríkin hafi löngu fyrir 11. september verið búin að ákveða að ráðast inn í Afghanistan og Írak en vöntuðu bara ástæðu. Það hefði allavega ekki verið í fyrsta skipti sem Bandaríkin beitir svona aðferðum eins og við sáum í kaflanum á undan.

Hvað svo sem kann að vera til í þessum ásökunum er alveg ljóst að ýmsir í Bandaríkjunum hafa hagnast verulega af stríðunum í Afghanistan og Írak og eru þeir aðilar tengdir mönnum í núverandi stjórn Bandaríkjanna. Í Afghanistan hafði lengi staðið til að leggja olíu og gasleiðslur í gegnum landið til að flytja megi olíu og gas frá fyrrverandi lýðveldum Sóvétríkjanna til Arabíuflóa, með greiðan aðgang að stækkandi mörkuðum í Austur-Asíu. Reynt var að semja við Talibanastjórnina en þeir samningar tókust ekki . Svipaða sögu má segja um Írak þegar skoðað er hagnaður Bandaríkjanna af stríðinu.

En burt séð frá árásunum sjálfum þá eru aðrar ástæður fyrir því að Bandaríkjamenn hafa verið gagnrýndir harðlega á undanförnum árum. Ein ástæðan er meðferð þeirra á föngum. Bandaríkjamenn hafa síendurtekið handtekið fólk í Afghanistan, Írak og víðar og sent það til Guantanamo Bay á Kúbu eða annarra fangabúða. Mörgum hefur verið haldið í langan tíma án dóms og laga. Sömu sögu er að segja af Abu Ghraib fangelsinu í Írak en þaðan birtust myndir þar sem fangar voru pyntaðir og niðurlægðir á grófan hátt. Einnig hefur komið í ljós að Bandaríkin halda uppi leynilegum fangelsum um heim allan þar sem fangar sæta ómannúðlegri meðferð. Donald Rumsfeld varnamálaráðherra Bandaríkjanna lýsti yfir að vegna þess að þeir væru ekki hermenn einhverrar þjóðar hefðu þeir ekki sömu réttindi og stríðsfangar. Þessi síendurteknu og grófu mannréttindabrot hafa verið gagnrýnd harðlega og margir misst mikið álit á Bandaríkjunum í kjölfarið. Þeir lýsa sér sem fulltrúar lýðræðis og mannréttinda en þegar skoðað er gjörðir þeirra kemur allt annað á daginn.

Hræsni Bandaríkjanna er gríðarleg. Þeir lýsa því statt og stöðugt yfir að lýðræði sé besta stjórnarfarið en samt halda þeir áfram að skipta sér af stjórnarförum annarra landa og styðja ýmsa einræðis og stríðsherra ef þeir haga sér eftir þeirra höfði. Ást Bandaríkjanna á lýðræði kom bersýnilega í ljós sumarið 2006 þegar Hamas unnu kosningarnar í Palestínu. Um leið og þetta var ljóst voru settar efnahagsþvinganir á Palestínu í þeim tilgangi að svelta Palestínumenn til hlýðni. Þeir gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hindra að aðrar þjóðir komi sér upp kjarnorkuvopnum en samt eiga þeir stærsta kjarnorkuvopnabúr í heiminum og eru enn að þróa ný ásamt því að þeir eru eina þjóðin sem notað hefur kjarnorkuvopn í stríði. Einnig gera þeir allt til að koma í veg fyrir að aðrar þjóðir komi sér upp efnavopnaforða eins og t.d. Írak. En þó var það Bandaríkin sem lét Írak fá mikið af efnavopnum sínum og vissu alveg að þeir voru að nota þau á saklausa borgara ásamt því að þeir hafa stærsta efnavopnabú í heiminum, 30.000 tonn og halda áfram að þróa ný . Þeir segja einnig að þeir drepi ekki saklausa borgara og að þeir hafi yfir að ráða sprengjum sem hitta aðeins hernaðarleg skotmörk. Þó hafa þeir síendurtekið gert árásir á opinberar byggingar s.s. sjúkrahús, skóla, byggingar Rauða Krossins og fréttastofur Al-jazeera.

Annað, og kannski það sem sýnir hræsni Bandaríkjanna mest af öllu er að þeir predíka statt og stöðugt yfir nauðsyn þess að uppræta hryðjuverk og beita mörgum skuggalegum aðferðum til þess en þó halda þeir verndarhendi yfir sumum. Luis Posada Carilles er hryðjuverkamaður sem var þjálfaður af CIA. Hann hefur meðal annars sprengt tugi hótela í Suður-Ameríku og sprengdi einnig farþegaþotu 1976 með þeim afleiðingum að 76 dóu. Þrátt fyrir það sótti hann um hæli í Bandaríkjunum 12. apríl 2005 og settist að í Miami og Bandaríkjamenn voru mjög tregir til að afhenda hann .

Bandaríkin eru hryðjuverkaþjóð. Langflestir Bandaríkjaforsetar 20. aldarinnar eru stríðsglæpamenn samkvæmt skilgreiningu þeirra sjálfra. En það virðist vera þannig að þegar einhver önnur þjóð eða samtök fremja glæpi er það hryðjuverk en þegar Bandaríkjamenn sjálfir gera það er það tilraun þeirra til að breiða út friði og lýðræði í heiminum.



4. Áhrif Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi

Áhrif Bandaríkjanna ná mun víðar heldur en margir gera sér grein fyrir. Þau eru þó mjög mismunandi eftir hvaða er verið um að ræða. Bandaríkin skipta sér lítið af samtökum eins og United Nations Development Programme (UNDP), United Nations Educational, Scientific and Cultural Organisation (UNESCO) og United Nations High Commission for Refugees (UNHCR). En þegar kemur að stofnunum eins og World Trade Organisation (WTO), International Monetary Fund (IMF) eða The World Bank, þar sem stjórn yfir þeim ráða miklu fyrir hagsmuni Bandaríkjanna er vald þeirra nánast algjört.

Í fyrrnefndu stofnunum eru næstum öll háttsettu störfin skipuð Bandaríkjamönnum eða Evrópumönnum. Þegar maður frá Taílandi að nafni Supachai Panitchpakdi var líklegur til þess að taka við forystu WTO má segja að allt hafi orðið vitlaust. Bill Clinton, þá forseti Bandaríkjanna hótaði öllu illu og sagði „in evaluating the candidates, I’ve focused on their positions on issues of importance to us“ . Svona stofnanir þjóna því markmiði að beinlínis sjá um hagsmuni Bandaríkjanna með litlu tilliti til fátækra landa.

Bandaríkin eru einnig gríðarlega áhrifamikil í hinu svokallaða fíkniefnastríði sem snertir líf margra. Komið hefur á daginn að ríkisstjórnin og lyfafyrirtæki hafa gefið vísindamönnum styrki til ýmissa fíkniefnarannsókna með því skilyrði að niðurstöðurnar séu neikvæðar, þ.e.a.s. samræmist áróðrinum sem Bandaríkin framleiða óspart um fíkniefni. Það gerir auðvitað það að verkum að ýmsar rannsóknir sem sýna fram á raunveruleg áhrif fíkniefna, sem er mun minni en ríkið er búið að vera að halda fram í öll þessi ár eru bældar niður. Þetta segir Dr. Peter Cohen, „ Þetta er alltaf að gerast, ég tók þátt í vísindalegum rannsóknum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, WHO, á kókaíni og var vitni að slíku“ .

Bandaríkin gera þetta til þess að fólk efist ekki um fíkniefnastríðið sem þau gera mikið út á. Á sama tíma blómstrar fíkniefnasala og margir glæpamenn græða milljónir ásamt því að gríðarlegur fjöldi veiks fólks sem ánetjast hefur fíkniefnum er gert að glæpamönnum og margir dúsa í fangelsi í staðinn fyrir að fá hjálpina sem það þarfnast. Um helmingur allra fanga í Bandaríkjunum eru í fangelsi vegna fíkniefnabrota og eru þar af leiðandi fangelsin yfirfull og þeir hafa neyðst til að sleppa mörgum stórhættulegum morðingjum og nauðgurum. Fíkniefnastríðið er ekki bara háð í Bandaríkjunum heldur út um allan heim og mjög fáir efast um lögmæti þess. Mikið af valdamiklu fólki í Bandaríkjunum hagnast gríðarlega á núverandi fíkniefnastríði og því vilja þeir halda því svoleiðis þrátt fyrir það að þetta svokallaða stríð sé ekki að skila neinum árangri og fíkniefnaneysla og fjöldi glæpa því tengdu hefur ekkert minnkað. Bandaríkin sjá til þess að önnur lönd fylgi þessari hugmyndafræði með ýmsum hótunum t.d. um að hætta fjárhagsaðstoð ef löndin draga þessa stefnu í efa . En 1998 fékk Kofi Annan bréf þar sem núverandi stefna er dregin mjög í efa og var þetta bréf undirritað af ýmsum virtum mönnum eins og t.d. Nóbelsverðlaunahafanum Milton Friedman sem sagði m.a. að fíkniefnastríðið er farið að gera mun meiri skaða heldur en gott svo einhver umræða um þetta mál er þó hafið.

Áhrif Bandaríkjanna ná þó langt út fyrir þetta svið sem ég hef nefnt hér í þessari ritgerð. Í næstum allri menningu s.s. kvikmyndum, tónlist, tísku og mat eru Bandaríkin nánast allsráðandi. Þetta sést vel hér á landi eins og annar staðar. Nánast allar vinsælustu kvikmyndirnar eru Bandarískar, vinsælustu skyndibitastaðirnir eru Bandarískir, myndböndin sem við sjáum í sjónvarpinu eru oftast Bandarísk. Svona er þetta út um allan heim. Margir hafa þó mjög gaman af Bandarískri menningu og því sem hún hefur upp á að bjóða en það er þó rosalega öfgakennt hvað hún er útbreidd. Þetta hefur einnig leitt til tvíblendinnar tilfinningar í garð Bandaríkjanna hjá mörgum. Þá er fólk annars vegar mjög ánægt með menningu Bandaríkjanna en er mjög óánægt með utanríkisstefnu hennar.

Áhrifin Bandaríkjanna ná þó mun víðar en ég hef nefnt hér. En þessi dæmi sýna þó fram á hvernig Bandaríkin hafa mikil áhrif á stóran hluta heimsins.




5.Lokaorð

Í þessari ritgerð hef ég reynt að sýna fram á gríðarlegu áhrif Bandaríkjanna á Alþjóðavettvangi. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég sýni Bandaríkin í mjög neikvæðu ljósi. Bandaríkin eru ekkert alslæm, þau hafa gert margt gott. En þegar málið er skoðað betur er það oftar en ekki vegna þess að Bandríkin högnuðust á því. Í öðrum tilfellum þar sem hagsmunir þeirra liggja í aðgerðum sem eru ekki siðferðilega réttar þá hika þeir ekki við að brjóta alþjóðalög og gera það sem þeim sýnist til þess að tryggja þau. Þetta er mikið áhyggjuefni þegar tekið er tillit til hvað Bandaríkin eru gríðarlega valdamikil. Svona miklum völdum verður að koma mikil ábyrgð sem Bandaríkin hafa hingað til ekki haft mikið að leiðarljósi. Þau hafa hagað sér nákvæmlega eins og þau vilja og skeyta ekki um frelsi og réttindi annarra og þrátt fyrir að þau segjast vera að breiða út lýðræði og friði í heiminum. Þessi tilhneiging Bandaríkjanna til þess að segja eitt og gera annað hefur leitt til vaxandi andúðar á Bandaríkjunum um heim allan, sérstaklega í múslimalöndum. Þessi þróun tel ég vera mjög mikið áhyggjuefni því ef hún heldur svona áfram hlýtur hún að enda mjög illa.



Heimildaskrá

Dan Gardner. 7.Nóvember 2005. „U.S. Bullies World into Waging Futile Drug War“. Cannabis News. Vefslóð: http://www.cannabisnews.com/news/8/thread8231.shtml

Guðmundur Sigurfreyr Jónasson. 7. Nóvember 2005. „E-taflan, kókaín og vísindamenn í þágu fíkniefnastríðs“.Gagnauga. Vefslóð: http://new.gagnauga.is/greinar.php?grein=53

Jón Karl Stefánsson. 2005, 25. október. „Hryðjuverkastríð Reagans“. Gagnauga. Vefslóð: http://www.gagnauga.is/greinar.php?grein=36

Magnús Þorkell Bernharðsson. 2005. Píslavottar nútímans. Samspil trúar og stjórnmála í Írak og Íran. Mál og Menning. Reykjavík.

Press for Conversion. 2005, 25. október. „Going to War: The American Use of War Pretext Incidents (1846-2003)“. Vefslóð: http://coat.ncf.ca/our_magazine/links/issue50/issue50.htm

Sardar, Ziauddin og Davies, Merryl Wyn. 2002. Why do people hate America? Icon Books Ltd. The Old Diary, Brook Road, Thriplow, Cambridge.

Wikipedia. 2005, 2. nóvember. „September 11, 2001 attacks“. Vefslóð: http://en.wikipedia.org/wiki/September_11%2C_2001_Terrorist_Attack

Wikipedia. 2005, 2. nóvember. „U.S. invasion of Afghanistan“. Vefslóð: http://en.wikipedia.org/wiki/U.S._invasion_of_Afghanistan#Casualties_of_the_invasion

Wilson, 2005. Gary. 2. Nóvember. „U.S. harbors terrorist in Miami“.Workers World. Vefslóð: http://www.workers.org/2005/world/posada-0428/

Þórarinn Einarsson. 2005, 2. nóvember. „Heimsvaldastefna Bandaríkjanna“.Gagnauga. Vefslóð: http://new.gagnauga.is/greinar.php?grein=7