Grogg Bretar hafa löngum haft það orð á sér að vera allra þjóða fast-heldnastir á ýmsar gamlar hefðir og siðvenjur, sem þeir ríghalda í þótt fornlegar og tilgangslitlar séu orðnar. Dæmi um þetta eru fjölmörg; hárkollur breskra dómara, rauða leðurtaskan með fjárlögunum, frammíköllin og baulin í þinginu – að ógleymdum mörgum siðvenjum kringum konungdæmið (og að sumra mati konungdæmið sjálft eins og það leggur sig!). Mörgu slíku er haldið til streitu, ýmist af nostalgíu eða gamalgróinni breskri þrjósku (þeir halda því enn blákalt fram að nánast allir aðrir keyri á “röngum” vegarhelmingi!). Það hefur þó komið fyrir að aldagamlar siðvenjur séu aflagðar, sérlega ef þær eru beinlínis farnar að brjóta í bága við lög nýrra tíma og/eða orðnar hættulegar. Um eina slíka siðvenju fjallar þessi grein.

Í yfir tvær aldir átti sérhver sjóliði á skipum Royal Navy, hins konunglega breska flota, rétt á sínum daglega rommskammti, “grogg” sem kallað var. Þessi siður er vel þekktur meðal almennings í gegnum sjóferðasögur frá tímum seglskipanna, en færri vita að honum var viðhaldið langt fram yfir þá daga, og ekki endanlega aflagður fyrr en á seinni hluta 20. aldar.


Uppruni lífseigrar hefðar

Þó helsti tilgangur rommskammtsins hafi verið að halda almennt þjökuðum áhöfnum seglskipanna sæmilega ánægðum, var upphaflegi tilgangurinn annar. Þegar landafundir Evrópumanna hófust á 16. öld, voru sífellt meiri kröfur gerðar um stærð og úthald seglskipa. Áður höfðu þetta mest verið hálfgerð strandferðaskip, en nú þurftu þau að þola mánaðalangar úthafssiglingar, oft um lítt eða með öllu ókönnuð hafsvæði. Þá reið á að hafa nægar vistir um borð, og ekki síst var vatn mikilvægt. Vatn var geymt í eikartunnum í fúkkafylltum lestum skipanna, og í hitasvækju suðlægra siglingaleiða tók það ekki langan tíma fyrir vatnið að verða fúlt og nánast ódrekkandi sökum þörungagróðurs og álíka.

Fremur en að sjóða vatnið ofan í þéttar tunnur, var sú lausn sem mönnum datt fyrst í hug að blanda eilitlu af sterku áfengi í vatnið til að gera það drekkanlegra. Ýmsar tegundir voru reyndar, en romm varð loks ofaná því það var ódýrt og auðfáanlegt á breskum yfirráðasvæðum í Vestur-Indíum. Á næstu áratugum varð rommið einkennisdrykkur sæfara almennt, og var allur gangur á því hversu mikið menn drukku og hversu sterkt það var blandað. En engar samræmdar reglur um rommneyslu voru þó settar í Breska flotanum fyrr en 1740. Þá var það gert af gefnu tilefni, eftir margra daga fyllerí áhafnar eins af skipum hans hátignar í Karíbahafinu. Þótti hinum konunglegu flotaforingjum nú mál til komið að koma einhverju skikki á drykkjuna.

Hinn löglegi dagskammtur var engu að síður ansi ríflegur; hálf “pint”, næstum 300 ml. (Hafa ber í huga að styrkur rommsins var mun meiri en vanalegt er í dag, gat jafnvel náð 80%). Var skammtinum útdeilt til skipverja í tvennu lagi, morguns og síðdegis, og var hann blandaður með vatni, sykri og límónusafa. Til lengri tíma átti þetta eftir að hafa tvær “aukaverkanir” í för með sér: Hinn C-vítamínríki límónusafi nánast útrýmdi skyrbjúg (sem áður hafði verið algengt vandamál) úr flotanum. Og einnig er talið að uppnefnið “limey” um breska sjómenn og síðar Breta almennt, sé héðan komið.


“Blóð Nelsons”

Þegar leið á 18. öldina varð “groggið” ómissandi þáttur í lífi breskra sjóliða. Að sjálfsögðu var þetta alls ekki vandræðalaust. Skammturinn var sem fyrr sagði ríflegur, og sumir sjóliðar voru naskir að verða sér úti um meira en þeim bar, t.d. með að díla við félaga sína um þeirra skammt. Voru slíkir menn kallaðir “romm-rottur” og voru að vonum yfirmönnum oft til ama um borð. En í ljósi Napóleonsstyrjaldanna þótti ekki stætt á því að æsa upp mannskapinn með að minnka skammtinn. Menn urðu jú að vera rétt stemmdir fyrir sjóorusturnar við franska flotann hans “Boneys”.

Árið 1805 þegar hinn mikli flotaforingi Horatio Nelson féll í sigurorrustu sinni gegn flota Napóleons við Trafalgar, hermir sagan að lík hans hafi verið flutt heim í spíra til að varðveita það á siglunni. Þjóðsaga spannst útfrá þessu meðal sjóliða hans hátignar að Nelson gamli hefði verið fluttur heim í rommtunnu, og eftirá hafi sjóliðar ekki viljað láta groggið fara til spillis og drukkið það með viðhöfn. Hversu alvarlega menn tóku þessa sögu skipti kannski ekki máli, því nú var groggið hreinlega orðið að sakramenti; Blóð Nelsons!

Hvað sem því leið, þá var því ekki að neita að þetta blóð var ansi sterkara en blóð Krists við altarið. Eftir Napóleonsstyrjaldirnar var skammturinn loks minnkaður um helming, en í staðinn var matarskammtur aukinn. Siðvenjan lifði þó áfram góðu lífi, og eftir því sem Breski flotinn varð agaðri og skipulagðari á 19. öld varð mönnum tamara að líta á þetta sem einhverskonar sakramenti. Rommtunnan varð ómissandi innviður í hvert nýtt skip, ekki bara “einhver tunna” heldur sérmíðaður skrautgripur, koparslegin með skips-lógóinu og áletruninni “The King, God Bless Him” . Útdeiling skammtsins varð formlegri en áður, með bjölluhringingu og kallinu “Spirits Up!”.

Um og eftir aldamótin 1900 fór Bindindishreyfingin svonefnda mjög að sækja í sig veðrið um öll vesturlönd, ekki síst á Bretlandi. Hreyfing þessi, sem birtist m.a. í alþjóðasamtökum eins og IOGT, var á tíðum öfgafull og óraunsæ í andstöðu sinni við hverskonar áfengisneyslu yfirleitt, en náði þó miklum árangri – of miklum á tímabili þegar svonefnd “bannlög” voru sett víða um vesturlönd og gerðu illt miklu verra, en það er önnur saga.

Templurum á Bretlandi þótti það að sjálfsögðu skjóta mjög skökku við að Royal Navy, stolt heimsveldisins sem margir ungir menn litu mjög upp til, skyldi ekki einungis líða heldur hreinlega ýta undir áfengisneyslu á skipum sínum. En aðmírálarnir gáfu sig hvergi. Þetta var vinsæl hefð sem skyldi haldið í, sama hvað einhverjum sálmagaulandi kellingum heimavið kynni að þykja um það! Þær höfðu jú aldrei þurft að vera í mánaðalöngum leiðinlegum túrum um heimsins höf. Hið merkilega er, að flotaforingjarnir komust upp með þetta, enda margir gamlir flotamenn í góðum stöðum víðsvegar í stjórnkerfinu. (Ef Royal Navy reyndi í dag að setja sig á móti reykingabanni, má efast um að þeir myndu sigra þá orrustu!)

Þannig lifði siðvenjan áfram í gegnum tvær heimsstyrjaldir, þó reyndar væri skammturinn enn minnkaður, niður í sirka “einn tvöfaldan” (af nútíma rommi) á dag. Til gamans má hér geta þess að einn Íslendingur minnist þess að hafa notið góðs af þessum sið í Seinni heimsstyrjöld: Þorsteinn E. Jónsson flugmaður var í Breska flughernum á þeim tíma, og eitt sinn var hann sendur í skipalest til Kanada. Átti hann aðeins að vera farþegi, en naut góðs af því að verða ekki sjóveikur eins og sumir af þeim 18-19 ára græningjum sem þarna voru að fara sína fyrstu úthafsferð. Hann bauðst til að hlaupa í skarðið fyrir einhverja þeirra sem “lookout” í brúnni. Og fékk fyrir greiðann rommskammtinn þeirra, sem þeir höfðu ekki lyst á. Tókst honum að safna í tvær heilar flöskur… Þetta var strangt til tekið ekki leyfilegt, en bátsmaðurinn, sem sá um úthlutunina, tók Nelson sér til fyrirmyndar og bar fyrir sig “blinda augað” segir Þorsteinn heitinn í ævisögu sinni.


Floti hennar hátignar loks settur í þurrkví

Í Seinni heimsstyrjöldinni missti Breski flotinn loks hinn aldagamla status sinn sem stærsti og öflugasti floti heims. Bandaríski flotinn fór langt fram úr, og þó hann væri skorinn niður um meira en helming á eftirstríðsárunum, heldur hann enn í dag þeim sessi sem hann tók við þá. Bretar höfðu einfaldlega ekki lengur efni á að halda úti sínum gríðarlega flota, en hugguðu sig með að segja “Við erum kannski næst-stærstir, en örugglega bestir!”.

Þó skammturinn væri nú orðinn lítill, þótti forystu Breska flotans brátt ekki lengur haldandi í þennan gamla sið. Skip urðu sífellt tæknivæddari, og nú var æ minna um lýjandi erfiðisvinnu um borð. Nú var löngu orðið mun meira um nákvæmnisvinnu sem krafist 100% athygli og árvekni skipverja. Aðmírálum hennar hátignar þótti það enganveginn góð tilhugsun að einhver nýbúinn að innbyrða skammtinn sæti við radarskerm flugmóðurskips að leiðbeina orrustuþotum til lendingar, eða að fylgjast með kjarnaofni á flugskeytakafbát. Það varð því úr að í júlí 1970 var “Spirits Up!” kallað í síðasta sinn á breskum herskipum hvar í heiminum sem þau voru stödd. Rúmlega tveggja alda hefð heyrði nú sögunni til. En eins og áður, fengu sjóliðar það þó bætt með kauphækkun, og væntanlega hafa þeir sem tök höfðu á, kvatt siðinn á viðeigandi hátt!
_______________________