Þessa ritgerð skrifaði ég fyrir allmörgum mánuðum gleymdi alltaf að birta hana hérna. Loksins kom það og hér sjáið þið afraksturinn. Fyrir þetta fékk ég 8 í einkunn, var dreginn niður aðallega vegna stuttra lokaorða enda var ég að niðurlútum kominn þegar ég var að klára þessa langloku.
Efnið fyrir ritgerðina var frjálst en það varð að vera með Mið-Austurlanda-þema.
Allar þýðinga/staðreynda/stafsetningar/málfars og fleiri villur sem kunna að leynast í þessu er mönnum velkomið að leiðrétta.
Örstutt söguyfirlit
Landið Afganistan var á allra manna vörum árið 2001 eftir að Bandaríkjamenn réðust inn í landið í kjölfar árásanna á tvíburaturnana 11. september það sama ár. Með innrás Bandaríkjanna var nýr kafli skrifaður í langa sögu þessa Mið-Austurlands sem í áratugi hafði þurft að þola miklar hörmungar og stríð. Saga Afganistan nær lengst aftur í tímann, 2000 f.Kr. gerðist fyrsti stóri atburðurinn á þessu svæði en þá réðust Aríar inn í landið og hertóku það. Ég ætla mér ekki að fara nánar út í það sem gerðist fyrir 4000 árum né heldur það sem gerðist fyrir 50 árum í Afganistan. Ég byrja fyrir alvöru árið 1973, en þá komst Mohammed Daoud Khan til valda og hélt hann embætti allt til ársins 1978 þegar kommúnistar kopmust til valda í landinu. 24. desember 1979 réðust Sovéskar hersveitir inn í landið en þær hurfu ekki þaðan fyrr en snemma árs 1989. Eftir fall Sovétríkjanna 1991 hafði Kommúnistaflokkurinn lítil völd í landinu og svo fór að hann leystist upp en þá hófst mikil borgarastyrjöld í landinu sem varði allt til ársins 1996. Þá komust Talibanar til valda og varð sú stjórn umdeild frá upphafi. Eins og sagt var í upphafi var sú stjórn síðan felld fimm árum síðar en markmið mitt er að kafa aðeins dýpra í sögu landsins á þessum miklu umbrotatímum frá 1973-2001.
Stjórnartímabil Mohammed Daoud Khan
Zahir Shah (Shah=konungur) var síðasti konungur Afganistan en hann reyndi eftir bestu að halda lýðræðislegu stjórnarfari í landinu. Árið 1964 staðfesti hann nýja stjórnarskrá fyrir landið þar sem skipun ráðamanna var skipt jafnt milli hans og fólksins en einnig var þriðjungur ráðamanna valinn á sérstökum Þingfundum. Eins og hugmyndin hljómaði vel orsakaði þetta það að öfgamenn tókust að myndast á bæði vinstri og hægri væng Afganskra stjórnmála. Þar má nefna PDPA (People's Democratic Party of Afghanistan) sem byggður var á sömu hugmyndum og Sovétríkin þáverandi, ásamt því að vera studdur af Sovétríkjunum. Þremur árum eftir nýja stjórnarskrá klofnaði PDPA í nokkrar fylkingar en tvær voru þó stærstar; önnur var Khalq hreyfingin sem var undir stjórn Nur Mahammad Taraki og Hafizullah Amin en hin var Parcham sem var undir stjórn Babrak Karmal. Að mati hinnar Sovét-studdu Parcham-hreyfingarinnar var Zahir konungur alls ekki að standa sig í stykkinu og nýttu hvert tækifari sem gafst til að gagnrýna þá stjórnarhætti sem hann aðhylltist. Áróðursræður gegn Zahir voru fluttar af miklum eldmóði og óeirðir voru skipulagðar. Að lokum ákvað Zahir að ekki skyldi lengra gengið og neitaði hann að undirrita lög sem leyfðu stjórnmálaflokkum að starfa í landinu. Var hér komið kjörið tækifæri fyrir gamlan ref að stíga fram í sviðsljósið og láta til sín taka.
Mohammed Daoud Khan hafði verið forsætisráðherra Afganistan á árunum 1953-1963 en einnig var hann hliðhollur Sovétmönnum og hafði á stjórnartíð sinni byggt upp Afganska herinn með Sovéskum vopnum. Aðdragandi þess að hann hvarf frá starfi forsætisráðherra er sá að árið 1961 vildi hann aðstoða Pastúnista við að sameinast í eitt land en með því þyrfti að taka skerf af Pakistan. Þegar Daoud hóf þessa sameiningu, brugðu Pakistönks stjórnvöld á það ráð að loka landamærum sínum og við það urðu Sovétríkin höfuð-innflutningsaðili í Afganistan Þessi deila leystist tveimur árum síðar með því að Daoud var þvingaður til að segja af sér og Pakistan opnaði landamæri sín á ný. Nú, tíu árum síðar, þegar lítið virtist ganga upp hjá Zahir ákvað Daoud að nú væri rétti tíminn til að steypa Zahir konungi af stóli og 17. júlí 1973 var ákveðið að láta til skarar skríða gegn honum. Var það gert með hjálp hermanna sem þjálfaðir höfðu verið í Sovétríkjunum. Zahir var samt ekki í landinu þegar valdaránið fór fram, hann var staddur á Ítalíu þar sem hann var í augnmeðferð og varð að lokum flóttamaður þar í landi.
Var þetta valdarán án blóðsúthellinga enda var Daoud yfirleitt gegn slíku. Fyrsta verk Daoud var að afnema konungsveldið og krýna sjálfan sig forseta og forsætisráðherra Afganistan. Í byrjun voru vinstrimenn í stjórn hans og þá aðallega meðlimir úr Parchami-hreyfingunni sem var eins og áður sagði studd af Sovétmönnum. Fljótlega fóru þó tvær grímur að renna á Daoud og hann fór að hreinsa til í stjórninni, hann fór að henda Parchami-mönnum burt og fór þetta skiljanlega heldur illa í Sovésk stjórnvöld. Daoud var samt enn hlynntur áætlanabúskap og 1976 kom hann fram með sjö ára áætlun sem styrkja átti efnahag landsins, einkum með stórframkvæmdum og með innkomu erlends fjármagns. Nú var Sovétmönnum ekki farið að litast á blikuna enda mikilvægt fyrir þá að halda Afganistan í sínum höndum í Kalda Stríðinu. Áður hafði Daoud snúið sér til Íran og fleiri landa í von um fjárhagslegan stuðning. Hans gömlu vinir frá Pastúnistan sóttu líka að Daoud en þeir biðu eftir áframhaldandi stuðningi hans við þá en hann reyndist lítill. Það bætti síðan gráu ofan á svart þegar Daoud gerði samning við forseta Pakistan en í honum fólst að þarlend stjórnvöld myndu sleppa Pastúnistum úr fangelsum en í staðinn myndi Daoud minnka stuðning sinn við Pastúnista. Þar sem Sovétmenn voru ekki hrifnir af þessum stuðningi Daoud við Pastúnista voru þeir alveg að missa þolinmæðina á honum. Hann hafði hegðað sér mjög í óþökk Sovétríkjanna og til viðbótar var hann búinn að skipuleggja heimsókn til Washington D.C. í Bandaríkjunum. Þetta voru aðstæður þar sem aðeins einn hlutur gat gerst… valdarán.
Kommúnistar komast til valda
Þegar háttsettur meðlimur Parcham-hreyfingarinnar, Mir Akbar Khyber, var myrtur söfnðuðust tugþúsundir meðlima bæði Percham- og Khalq-hreyfinganna saman og hlustuðu á öflugar ræður foringja sinna, þá Taraki og Karmal. Daoud leist ekkert á blikuna við allan þennan kommúníska fjölda að hann fyrirskipaði að æðstu menn PDPA yrðu handteknir. Það tók heila viku að koma höndum yfir Taraki og hinn yfirmaður Percham, Hafizullah Amin, var einungis settur í stofufangelsi þar sem hann notaði fjölskyldumeðlimi sína til að koma skilaboðum til hershöfðingja um hvernig koma ætti Daoud frá völdum. Þann 19. apríl 1978 var stundin runnin upp. Hermenn PDPA tóku sér stöðu og hófu árásir á stöð Afganska hersins við Kabúl-flugvöll. Næsta sólarhringinn héldu uppreisnarmenn áfram að sækja í sig veðrið og daginn eftir var Daoud, ásamt fjölskyldu sinni, myrtur og við tóku nýir tímar undir áður óþekktri stjórn kommúnista.
Á Verkalýðsdag okkar Íslendinga nýtti Mohammed Taraki (Khalq) tækifærið og lýsti sig forseta hins nýstofnaða „Lýðræðisríkis Afganistan” en Percham-menn fengu forsætisráðherra. Aftur á móti voru Khalq-menn með meirihluta á þingi, 11 menn gegn 10 og voru ráðandi í ráði sem fékk nafnið Byltingarráðið. Khalq-mönnum fannst það einnig sjálfsagt mál að stjórna hernum þar sem það voru þeir sem áttu mestan þátt í valdaráninu. Var þetta valdarán svo vel skipulögð og framkvæmd, að margir halda því fram að aðgerðin hafi verið skipulögð af KGB og/eða framkvæmd af Sérsveit innan Sovéska hersins en þegar litið er til hundsun Khalq á Percham, hinnar Sovét-studdu hreyfingar, dregur það úr trúverðugleika þeirra staðhæfinga. Stjórn Khalq-manna var allt annað en árangursrík í upphafi, náði engan veginn að takast á við það verkefni að vera sitjandi ríkisstjórn en einnig fóru miklar aftökur fóru í gang en talið er að um 11.000 manns hafi verið teknir af lífi á tímabilinu frá 1978-1992. Skiljanlega var ríkisstjórnin fljót að mynda friðarsáttmála við Sovétríkin en strax í upphafi var þónokkur andstaða við ríkisstjórn PDPA. Allt varð hins vega vitlaust þegar andspyrnuher undir stjórn Ismail Khan lét myrða um hundrað Sovéska ráðgjafa ásamt fjölskyldum þeirra í borginni Hereat. Í kjölfarið var sprengjum varpað á borgina með þeim afleiðingum að þúsundir manna létust og sá Taraki þá ekki annað ráð en að fara til Moskvu og biðja stjórnvöld þar í landi um aðstoð. Féll þessi beiðni ekki í góðan farveg en samt var ákveðið að veita Taraki einhverja aðstoð. Þar með var Sovéski herinn kominn til Afganistan en hann hvarf ekki þaðan fyrr en snemma árs 1989 en þetta var þó ekki hin eiginlega innrás heldur einungis aðstoð til stuðnings Taraki.
Þegar andspyrna var mikil bætti það ekki úr skák að mikill rígur var farinn að skapast á milli Taraki og Amin og reyndi sá fyrrnefndi að ráða Amin nokkrum sinnum af lífi. Taraki hefði þá líklega átt að bæta við sig öryggissveitum en á endanum var það hann sem var kæfður með kodda í sínu eigin rúmi og Amin var valdamesti maður Afganistan. Greint var frá því að Taraki hefði látist vegna „alvarlegra veikinda”. Þremur mánuðun síðar komust þær upplýsingar frá stjórn Babrak Karmal (Percham) í hendur almennings að Taraki hefði verið myrtur og að Amin hefði staðið á bakvið morðið. Nú voru andspyrnuhreyfingarnar farnar að sækja hressilega í sig veðrið og vildu einhverjir fá Zahir aftur til valda en hann var enn í útlegð á Ítalíu. Svo var farið að sumir andspyrnihóparnir voru farnir að sameinast og Sovétmönnum var ekki farið að litast á blikuna, þeir brugðu þá á það ráð að hefja allsherjarinrás inn í Afganistan.
Sovétríkin heyja stríð í Afganistan
Ástæðurnar að baki innrásinni eru óljósar en helst ber að nefna tvær, annars vegar ofarnefnd andspyrna gegn kommúnistaríki en Sovétmenn vildu halda landinu þannig. Hin ástæðan var að mikill óstöðugleiki var í landinu og Sovétmönnum leist víst ekkert á ástandið í landinu og hvert það myndi leiða. Reyndar er einnig þriðja ástæða en Bandaríkjamenn hófu að aðstoða andspyrnumenn gegn kommúnistum hálfu ári áður en Svoétmenn réðust þar inn. Áttu Bandaríkjamenn þannig að hafa fengið Sovétmenn í stríð gegn sér en vígvöllurinn var Afganistan. Seint að kvöldi aðfangadags árið 1979 var látið til skarar skríða og lagt var af stað með tæpar 300 flugvélar með rúma 25.000 hermenn til Afganistan. Herinn náði fljótt yfirtökunum, og einnig kom innrás Sovétmanna frá norðri að góðum notum. Þann 27. desember þetta sama ár höfðu hermenn Sovétmanna tekið Kabúl sínum höndum og tekið forsetann, Hafizullah Amin af lífi og þá tók Babrak Karmal völdin í sínar hendur.
Sovéski herinn lenti þó fljótlega í vandræðum enda var hann óvanur hinu mikla fjalllendi sem er í Afganistan, að auki höfðu hermennirnir fengið litla þjálfun í því hvernig ætti að verjast árásum skæruliða en það var helsti styrkur andspyrnumanna. Voru skæruliðarnir þjálfaðir og vopnaðir af hverjum öðrum en Bandaríkjamönnum. Baráttan hélt áfram í nokkur ár en 1985 ákváðu stjórnendur allra andspyrnuhreyfinganna að leiða hesta sína saman og berjast gegn her Sovétmanna og jókst þar með kraftur uppreisnarinnar. Náðu þeir að berja þónokkuð á Sovétmönnum eftir sameininguna. Nú voru var svo komið að árið 1986 var Babrak Karmal var rekinn og Mohammad Najibullah var hæstráðandi. Hleypti Najibullah fersku blóði í Afgönsku þjóðina enda sterkur leiðtogi og hæfileikaríkur á flestum stjórnmálalegum sviðum.
Stríðið sjálft var farið að minna óþægilega mikið á Víetnam, Sovétmenn höfðu vanmetið herstyrk andspyrnumanna verulega og kostnaðurinn var að rjúka upp úr öllu valdi. Sovétmenn beittu auknu herafli og á árunum 1985-6 voru miklar árásir gerðar af hálfu þeirra og eftir þessa hrinu voru andspyrnumenn komnir í mikla vörn á helstu vísgstöðvum. En Bandaríkjamenn ásamt Sádí-Arabíu hófu þá að aðstoða óvini Sovéskra hermanna af miklu afli meðal annars með flugskeytum. Í lok árs 1986 ákvað Najibullah að nú væri rétti tíminn fyrir vopnahlé og átti það að standa í háft ár. Í því samkomulagi fengu andspyrnuhreyfingar að halda einhverjum svæðum undir sinni stjórn og einnig átti þetta að vera tækifærið fyrir Sovétmenn að koma sér út úr landinu. Þegar litið er á heildarmyndina hafði þessi samningur þann tilgang að Najibullah vildi tíma til að undirbúa þá borgarastyrjöld sem kæmi í kjölfarið á brotthvarfi Sovéska hersins. 20. júlí 1987 var tilkynnt að Sovéski herinn væri að yfirgefa landið. Ári síðar var Genfar-sáttmálinn undirritaður af Pakistan, Afganistan, Sovétríkjunum og Bandaríkjunum og átti hann að tryggja frið í Afganistan en aldrei var talað við andspyrnumenn í landinu þegar kom að Genfar-sáttmálanum. Sovétmenn hófu að flytja herinn burt af alvöru 15. febrúar 1989. Þá höfðu Sovétmenn misst 15.000 (samkvæmt Sovétríkjunum) en samkvæmt Vesturlöndnum er talan nærri 50.000. Um 1 milljón Afganskra ríkisborgara og andspyrnumanna voru einnig drepnir.
Borgarastyrjöld brýst út, Talibanar nýta sér tækifærið
Eftir að Sovétmenn höfðu dregið allan sinn her úr Afganistan bjuggust Bandaríkin við því að Najibullah myndi ekki ná að standa upp í hárinu á þeim. Var takmark andspyrnunnar að reyna að ná mikilvægum bæjum og borgum á sitt vald. Að lokum Kabúl og átti það að veikja ríkisstjórnina. Þessi áætlun stöðvaðis við borgina Jalalabad en eftir að andspyrnumenn höfðu náð borginni á sitt vald mætti Afganski herinn og sýndi þeim í tvo heimana. Tilraunir til að ná borginni aftur mistókust og samgönguæð til Kabúl var opnuð á ný. Andspyrnuhreyfingin beið mikla hnekki á þessu tímabili enda ljóst að þeir myndu ekki ná borginni aftur á sitt vald. Á næstu mánuðum sannaðist það að mikill vindur var farinn úr andspyrnunni, herinn var ekki nógu skipulagður og aðeins einu markmiði var náð og það var borgin Taloqan.
Sigur Afganska hersins við Jalalabad varð til þess að sjálfsöryggi þeirra jókst til muna og jafnaðist hann á við Sérsveitir Sovéska hersins. Andspyrnan var nú að deyja út og von þeirra um sigur minnkaði með hverri mínútu. Sovétmenn studdu enn dyggilega við ríkisstjórn Najibullah, peningarnir streymdu inn í samfélagið og vopn til hersins. Svo gerðist hið óhugsandi… Sovétríkin féllu árið 1991. Þar með var frekari aðstoð Sovétmanna úr sögunni og 1. janúar 1992 undirrituðu Bandaríkin og Sovétríkin samkomulag þar sem þau samþykktu að skipta sér ekki frekar af málum í Afganistan. Andspyrnan varð sífellt öflugri og vann mikilvæga sigra, senn fór að halla undir fæti hjá Najibullah. Árið 1992 féll Kabúl í hendur uppreisnarmanna. Þegar ljóst var að stjórn Najubullah væri að hverfa frá völdum var ákveðið að koma völdum í hendur andspyrnumanna vítt og breitt um landið. Á næstu árum var þó stjórnleysi í landinu, þær fylkingar sem höfðu lagt Kabúl á sínum tíma börðust um völd en lítil niðurstaða varð í málinu. Margir sóttust eftir völdum í landinu og baráttan hörð en Burhanuddin Rabbani náði forsetastólnum, áfram var þó barist. Mitt í þessu stjórnleysi varð til nýr hópur en þeir kölluðust Talibanar.
Talibanar voru af fyrrnefndu Pashtúnsku bergi brotnir og voru ekki ánægðir með það tillitsleysi sem þeim hafði verið sýnt á undanförnum árum. Takmark Talibana var að útrýma stríðsherrum og að koma á stöðugu samfélagi með Íslamska trú í fararbroddi. Talibanar voru margir hverjir menntaðir í Pakistan og voru þeir dyggilega studdir af Pakistönum. Árið 1994 voru þeir orðnir nokkuð öflugir, reyndar það öflugir að þeir náðu borginni Kandahar á sitt vald. Eftir það voru þeir óstöðvandi og náðu Hereat frá herjum Ismail Khan haustið 1995. Næstkomandi vetur sóttu Talibanar hart að næst í röðinni var höfðborgin sjálf, Kabúl. Rabbani tók þá höndum saman við óvin sinn, Gulbuddin Hikmatayar og saman hófu þeir varnir gegn Talibönum en það var bara ekki nóg. Þann 26. september 1996 náðu Talibanar Kabúl og Rabbini átti ekki annars kosta völ en að leyfa þeim að stofa nýtt ríki, Íslamska ríki Afganistan (Islamic Emirate of Afghanistan). Aðeins þrjú lönd viðurkenndu hina nýju ríkisstjórn en þau voru Pakistan, Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin. Þrátt fyrir mikla mótspyrnu eins hershöfðingja árið 1997, og þúsundir myrtra Talibana, brutu þeir þá mótspyrnu niður en það tók sinn tíma, um 15 mánuði.
Nú fannst Bandaríkjamönnum nóg komið og síðla sumars 1998 ákvað forseti þeirra, Bill Clinton, að hefja árásir á Afganistan með sjóher sínum. Skotmörkin voru alls 4 og eitt þeirra átti að granda herbúðum heimsþekkts manns, Osama bin Laden en samkvæmt Bandaríkjamönnum bar hann ábyrgð á eyðileggingu bandarískra sendiráða í Austur-Afríku. Árásirnar voru harðlega gagnrýndar víða um heim sem lýsti sér aðallega í mótmælagöngum. Talibanar héldu þó enn haus og stjórnuðu mestum hluta landsins fyrir utan norð-austur hlutann en Norðurbandalagið (Northern Alliance) voru við völd þar á bæ. Samband Talibana við Sádi-Arabíu og Pakistan við á hinn bóginn gott, Sádar hjálpuðu Talibönum að byggja upp samfélagið. Talibanar áttu sér fleiri óvini en bara Norðurbandalagið. Þrátt fyrir að örfá ríki hafi viðurkennt stjórn Talibana var ekki gripið til neinna róttækra aðgerða, allavega ekki strax. Íranar var hins vegar mjög í nöp við Talibana enda voru Talibanar harðlega á móti shíum. Seint árið 1998 tóku Talibanar sig til og hertóku sendiráð Írana í landinu. Þar myrtu þeir sendiherra Írana og Íranar urðu æfir af reiði, hótuðu að lýsa yfir stríði gegn Afganistan. Þeir fylgdu sem betur fer þessari hótun sinni ekki eftir en hófu að styrkja höfuðóvin Talibana, Norðurbandalagið.
Samfélag Talibana og endalok þess
Orðið Talibani merkir „nemandi” eða „þeir sem læra bókina”, bókin er að sjálfsögðu Kóraninn. Eins og Bandaríkjamenn fengu ekki leið á að segja okkur árið 2001 var samfélagi Afgana haldið í heljargreipum. Starfrækt var Trúarlögregla sem gerði mönnum lífið leitt og frumstæðar aðferðir voru notaðar við refsingu, aðferðir sem enn eru notaðar í Mið-Austurlöndum. Með „frumstæðum aðferðum” á ég við grýtingu ef upp kemst framhjáhald og afsagaðar hendur ef upp kemst um þjófnað. Skemmtanir voru bannaðar með öllu, sjónvarp, tónlist og íþróttir og vegna þessara hafta var Afganistan ekki leyft að taka þátt í Ólympíuleikunum í Sidney 2000 en þar sem íþróttir voru bannaðar er hægt að draga þá ályktun að þeir hafi ekki verið líklegir til afreka.
Meðferð Talibana á konum var alls ekki til fyrirmyndar, þær höðu ekki leyfi til að vinna á opinberum stöðum nema í sérstökum kvenstöðum á sjúkrahúsum. Ef konur áttu börn máttu þær ekki vinna því samkvæmt trúnni er það í verkahring konunnar að ala barnið upp og sjá um það. Að auki var það skylda kvenna að bera slæðu sem hyldi andlit og ef því var ekki fylgt voru barsmíðar líklegar. Þrátt fyrir þessa meðferð héldu Talibanar því ávallt fram að stjórn þeirra væri hliðholl kvenmönnum.
Svona gekk lífið fyrir sig fram til ársins 2001 þegar mestu hryðjuverkaárásir í sögu Bandaríkjanna áttu sér stað. Árásirnar á Tvíburaturnana í New York og á Pentagon í Washington. Bandaríkjamenn urðu að finna blóraböggul og það strax. Rannsókn þeirra leiddi til þess að hryðjuverkasamtökin Al-Kaida hefðu, undir stjórn Osama bin Laden, hefðu ráðist á landið og nú átti að grípa til róttækra aðgerða gegn Al-Kaida. Sannað var að Al-Kaida hafði sterk tengsl við stjórn Talibana og það var nóg í augum Bandaríkjamanna. Þann 7. október 2001, aðeins tæpum mánuði eftir árásirnar á Bandaríkin, hófst hin margumtalaða stríð gegn hryðjuverkum með innrás Bandaríkjamanna í Afganistan. Stjórn Talibana var komið frá og nýtt tímabil hófst í sögu Afganistan.
Stríð að lokum komið?
Afganistan hefur þurft að þola mikið síðustu áratugi, rétt eins og flest Mið-Austurlönd hafa gert. Nú virðist hins vegar eitthvað vera að birta til en Bandaríkjamenn eru þrátt fyrir það enn í landinu og það er bara að vona að þeir fari að koma ró og friði á eftir áratuga stríð.