Smá pistill sem ég skrifaði fyrir skólann. Ákvað að skella honum hérna inná svona uppá gannið, gæti verið að einhver hafi gaman að þessu.

Kv. :)
————

Landnám víkinga vestan við Ísland


Helstu heimildir um siglingar Íslenskra landnema vestur fyrir Ísland er að finna í Grænlendingasögu og Eiríks sögu rauða, en þær eru ritaðar um það bil 250 árum eftir að Íslendingar settust að á Grænlandi
Fyrir utan það að víkingarnir á 10. öld höfðu engin gervihnatta staðsetningatæki, þá höfðu þeir ekki enn lært að sigla almennilega á móti vindi, svo að ef mönnum og vindi greindi á um í hvaða stefnu skyldi haldið, urðu menn að láta í minni pokann og leita lægis ef þeir ferðuðust meðfram ströndum, eða fella segl og vona að skipið ræki ekki langt ef þeir voru staddir á rúmsjó. Sama hvað menn vonuðu eða blótuðu Ægi, þá virðist það ekki hafa hjálpað og skip þeirra ráku oftar en ekki úr leið og jafnvel svo langt að menn uppgötvuðu ný lönd, jafnvel fyrir mistök.
Þó að forvitni hafi örugglega spilað eitthvað hlutverk, enda er það stór þáttur í eðli mannsins, þá væri þetta möguleg skýring á ýmsum landafundum, ekki síst þegar Gunnbjörn Úlfsson fann þær eyjur sem hann nefndi Gunnbjarnarsker, og eru það fyrstu skráðu landafundir víkinga vestan við Ísland, en langt frá því að vera þeir síðustu.




Landnám á Grænlandi
Þegar vel lætur í veðri og skyggni er gott má sjá hylla í land í vestri, ef maður stendur hátt uppi á góðum stað vestast á Íslandi. Þetta eru þau í rauninni ekki fjöll, heldur sérstök ský sem myndast einkum yfir fjöllum, þessi ský þekktu víkingar og notuðu gjarnan til að ákvarða hvort land væri í nánd. Eiríkur rauði, sem er gjarnan eignað heiðurinn af fundi Grænlands, átti einmitt heima í Öxney á Breiðafirði og þó það sé ekki óhugsandi að hann hafi rekið augun í ský yfir jöklum Grænlands er ekki ólíklegra að hann hafi heyrt af Gunnbjarnarskeri.

Það hefur verið um.þ.b. árið 980 sem Eiríkur rauði flúði úr Breiðafirði vegna endurtekinna brota sinna, en hann hafði fyrst flúið frá Noregi og síðan úr Haukadal, og sigldi vestur, þar sem hann fann Grænland. Vesturströnd Grænlands (sú sem snýr að Íslandi) er ekki mjög byggileg og nær jökullinn oftar en ekki nánast alveg niður að sjó, en Eiríkur hefur líklegast siglt vestur fyrir Hvarf, sem er syðsti oddi Grænlands, og fundið þar miklu vænlegra land á austurströndinni. Á Grænlandi dvaldist hann í þrjú ár áður en hann fór til baka, sagði öllum frá þessu frábæra landi og náði í fleiri tilvonandi landnema, samtals hátt í 500 manns á 25 skipum, þó að ekki nema 14 skip hafi komist alla leið, til að nema land á Grænlandi. Ástæður þess að svo margir fylgdu honum eru hugsanlega að einhverju leiti þær að góðum landsvæðum sem voru laus á Íslandi fór fækkandi, auk þess sem hann valdi aðlaðandi nafn, Grænland, fyrir áfangastaðinn, og hljómar það eflaust betur í eyrum sveltandi bænda en Ísland.
Eða eins og stendur í Eiríks sögu Rauða:
Það sumar fór Eiríkur að byggja landið það er hann hafði fundið og hann kallaði Grænland því að hann kvað menn það mjög mundu fýsa þangað ef landið héti vel.
Eiríkur hafði fundið ágæt landsvæði á suð-vestur strönd Grænlands, og settist fólkið þar að. Hann hefur líklega valið sér land undir sinn bæ á þeim 3 árum sem hann var á Grænlandi áður, en þann bæ nefndi hann Brattahlíð og stendur sá bær fyrir botni Eiríksfjarðar og heitir nú Tunugdliarfik á tungumáli innfæddra. Fleiri fylgdu í kjölfar þessara 14 skipa, enda jókst landsvæði Íslands lítið þó að fólkinu þar fjölgaði, og margir virðast hafa látið ginnast af nafninu á þessu nýa landi. Byggðin var þéttust í kringum Bröttuhlíð og í Einarsfirði, og er talið að þar og í Eystribyggð hafi verið samtals umþb. 200 bæir, en 100 bæir í Vestribyggð, og er heildarfjöldi íbúa talinn vera í kringum 3.000 manns þegar mest lét á þeim tíma.
Stjórnskipan og lög hafa líklegast verið keimlík þeim sem voru á Íslandi og áttu Grænlendingar sér þing í Görðum í Einarsfirði og hafa höfðingjar líklegast verið valdamiklir, þó að bóndinn í Brattahlíð virðist gjarnan hafa verið þeirra valdamestur.
Biskupsstóll var settur í Görðum um 1126, en biskup þar var Eríkur Gnúpsson.

Landnám enn vestar
Bjarni Herjólfsson hét maður og ætlaði að sigla til Grænlands að heimsækja föður sinn sem hafði sest þar að, en eins og við mátti búast þá rak skip hans Bjarna úr leið og rak hann þá augun í austurströnd Bandaríkjanna núverandi. Þegar sögur bárust af því urðu menn náttúrulega forvitnir og gátu ekki staðist mátið að sigla þangað, enda höfðu þeir líklegast komist að því að Grænland var ekki mjög grænt og ekki hinn vænlegasti staður til að búa á eftir lifnaðarháttum Evrópumanna, þó að Inúítar hafi aðlagast því með sínum lifnaðarhætti, enda voru þeir nær því að vera safnarar en landyrkjumenn með fasta búsetu.
Menn sem höfðu áður farið frá Íslandi til Grænlands, haldandi að grasið væri grænna hinumegin, sáu núna enn eitt landið og ályktuðu að grasið væri ennþá grænna þar, þannig að þangað sigldu þeir að sjálfsögðu og var sonur Eiríks rauða, hann Leifur Eiríksson, fremstur í flokki. Hann Leifur hefur erft nafngiftahæfileika föður síns, enda nefndi hann eitt landið sem hann fann Vínland, sem er nú ein af eyjum Nýfundna lands. Önnur lönd ber að merkja Helluland, sem heitir nú Baffinsland og Markland sem heitir nú Labrador.
Í einni af ferðunum til Vínlands settust landkönnuðir að og bjuggu þar í 3 ár, þar sem þeir höfðu samskipti við innfædda og áttu við þá vöruskipti. Meðal þess sem víkingarnir skiptu á við indíánana voru mjólkurvörur, en indíánarnir höfðu aldrei drukkið aðra mjólk en brjóstamjólk þegar þeir voru börn, þannig að þetta olli veikindum hjá þeim fullorðnu vegna mjólkursykuróþols. Þessi veikindi hafa þeir hugsanlega talið vera eitrunaráhrif, og varð það til þess að þeir söfnuðu liði og gerðu svo árás á bæi víkinganna sem flúðu í skipin sín og áttu síðan ekki meiri vöruskipti við þá.
Byggðir á Vínlandi, Hellulandi og Marklandi entust aldrei lengi, hvort það hafi verið vegna ógnar af innfæddum, fjarlægðar frá Íslandi eða einhvers annars er ekki vitað, þó að löndin sem þeir fundu hafi verið frjósöm og hlý. Engu að síður héldu Grænlendingar áfram að sigla til Marklands, aðallega til að sækja timbur, allt þangað til að byggð lagðist af á Grænlandi.




Hvers vegna lögðust byggðir landnámsmanna af?

Ekki er alveg vitað hvað varð um landnámsmenn Grænlands, hvort þeir hafi dáið úr sult, einhverri pest eða, þó það sé ólíklegra, verið útrýmt af inúítum. Síðasta skráða ferðin milli Íslands og Grænlands var árið 1410, þegar hópur Íslendinga sneri aftur þaðan eftir að hafa dvalið þar í 4 ár. Í kringum 1540 rak Ögmund Pálsson, biskup í Skálholti, til Grænlands og samkvæmt sögunni sá hann þar dauðan mann sem lá á grúfu, með vel saumaða hettu á höfðinu, en annars í fötum úr selskinni og vaðmáli, og við hlið hans lá gamall og mikið eyddur hnífur. Þetta er síðasti Íslenski Grænlendingurinn sem skrifað er um, og skilur það eftir talsverðar vangaveltur.
Þetta getur skilið eftir sig talsverðar vangaveltur um örlög þeirra sem þarna bjuggu og fátt hægt að segja annað en að hver verði að draga sínar ályktanir um afdrif víkinganna. Finnum við kannski einhverntíman lítið víkingaþorp í einhverjum afdal á Grænlandi þar sem landnámsmenn hafa lifað í 500 ár óséðir?


Heimildir:

Jón Jóhannesson. 1956. Íslendinga saga. Almenna bókafélagið. Reykjavík.
Ritstjóri: Sigurður Língdal. 1974. Saga Íslands. Hið Íslenska bókmenntafélag. Reykjavík.
http://en.wikipedia.org/wiki/Category:Viking_exploration_of_North_America, 11. nóvember,