Hinn rétti Jimmy Carter Það vita það nú líklega lang flestir að forsetar Bandaríkjanna eru sjaldnast þeir englar sem þeir eru látnir líta út fyrir að vera í Bandarísku fjölmiðlum. Allir sem fylgjast eitthvað með fjölmiðlum vita af glæpum George W. Bush og glæpahyski hans í Írak og víðar. En hann er langt frá því að vera eitthvað einsdæmi. Svolítið skemmtilegt var að fylgjast með láti Ronald Reagans fyrir ekki svo löngu síðan og sjá hvernig lá við að fjölmiðlar settu hann á sama stall og Jesú Kristur, svo heilagur og góður átti hann víst að hafa verið. Ekkert var minnst á síendurtekna og hryllilega stríðsglæpi stjórnar hans gegn saklausum íbúum fátækra landa. Þessi grein mín fjallar um annan fyrrum Bandaríkjaforseta sem margir virðast einnig halda að sé heilagur en þegar gáð er undir yfirborðið er hann ekki allur þar sem hann er séður. Það er hann Jimmy Carter 39. forseti Bandaríkjanna og var hann við völd frá 1977-1981. Hann fékk einnig Nóbelsverðlaunin árið 2002 fyrir framlag sitt til friðsamlegra lausna á alþjóðlegum ágreiningum, þróun lýðræðis og mannréttinda og einnig efnahagslegrar og félagslegrar þróunar. Átti hann þessi verðlaun skilið?

Eiginlega má skipta Bandaríkjaforsetum í tvo flokka, hörðu stríðsforsetarnir sem hika ekki við að beita hervaldi til að ná sínu framgengt í öðrum löndum og þessir hljóðlátu sem beita mun fremur diplómatískum aðgerðum (þetta er þó mjög gróf skipting, ekki falla allir forsetarnir svo auðveldlega í þessa flokka). Í fyrri flokkinn myndi núverandi Bandaríkjaforseti hiklaust falla en hann kallar sjálfur sig „stríðsforseta“. Jimmy Carter fellur í seinni flokkinn. Hann spilar sig sem mannréttindasinna sem reynir að ná sáttum án hermátts. En við skulum aðeins skoða afskipti Carters af öðrum löndum.

Juan Bosch tapaði kosningum í Dóminíska lýðveldinu árið 1990 fyrir hinum hægri sinnaða fylgismanni Bandaríkjanna Juan Balaguer þrátt fyrir að hafa unnið kosningarnar löglega. Jimmy Carter var á staðnum til að fylgjast með því að kosningarnar færu fram á sómasamlegan hátt. Bosch kom til Carters með ógrynni af yfirþyrmandi sönnunargögnum um að kosningarnar hefðu verið svindl þ.á.m. myndir af fylgismönnum Balaguer að henda kosningamiðum o.fl. Carter tók undir þá staðreynd að kosningarnar hefðu verið svindl en sagði þó Bosch að sætta sig við niðurstöðurnar til þess að koma í veg fyrir borgarastyrjöld. Bosch ásakaði þá Carter um að hjálpa Balaguer að komast til valda gegn hagkvæmum kjörum fyrir Bandaríkin og leiddi 500.000 manna mótmælagöngu. Carter lýsti yfir að Balaguer hafi verið kjörinn á réttmætan hátt og yfirgaf landið. Í framhaldinu kúgaði Balaguer þjóð sína og einkavæddi almennar þjónustur. Það þarf varla að taka það fram að þetta var ekki gert í þágu íbúanna.

Árið 1990 leit það út fyrir að Bertrand Aristide myndi vinna kosningarnar á Haítí. Hann var mjög vinsæll meðal landsmanna sinna og í skoðanakönnunum kom fram að hann hafði stuðning hjá yfir 70% landsmanna. Marc Bazin var andstæðingur hans en hann hafði aðeins 15% fylgi en hann hafði þó það spil upp í erminni að vera studdur af Bandaríkjunum. Jimmy Carter „hinn hlutlausi áhorfandi “ boðaði til fundar með Aristide og fór fram á það að hann drægi sig út úr kosningunum til þess að koma í veg fyrir „blóðbað“ eins og Carter kallaði það. Carter gerði allt það sem í hans valdi stóð til að hræða Aristide úr kosningunum. En allt kom fyrir ekki og Aristide var kosinn. Bandaríkin undir stjórn George Bush eldri voru þó staðráðin í því að koma í veg fyrir að íbúar Haítí fengu sínu framgegnt og átta mánuðum eftir að Aristide var kjörinn forseti var honum komið af stóli í valdaskiptum sem voru studd af Bandaríkjunum. Bazin, sem Carter studdi var gerður að forsætisráðherra og hryðjuverkahópurinn FRAPH fékk einnig mikil völd. Í kjölfarið stóðu þeir fyrir blóðbaði þar sem 4000 Haítíbúar voru drepnir. Þarna reyndi Carter með sínum diplómatísku aðgerðum að ná fram vilja Bandaríkjanna en þegar honum tókst það ekki steig hann til hliðar og lét George H. W. Bush sjá um málið, hljóðláti friðarsinninn vék fyrir harða stríðsforingjanum.

Þessi nýja stjórn sem hafði lítinn sem engan stuðning meðal fólksins hóf þá að slátra stuðningsmönnum fyrrum forsetans Aristide, sem voru þó nokkrir. Lykilmaður í þessum aðgerðum var Hershöfðinginn Cedras. Þúsundir Haítíbúa neyddust þá til að flýja undan ógnarstjórninni í landi sínu. „Mannréttindaforsetinn“ Jimmy Carter hóf að verja geðsjúklinginn Cedras og sagði m.a. orðrétt: „ I believe and trust in General Cedras“ og „I believe he would be a worthy Sunday school teacher“. Eftir að honum var komið frá völdum og hann var á leið í útlegð eftir að hafa tæmt fjárhirslur ríkisins hélt Carter samt áfram að verja hann. Aristide komst þá aftur til valda en þá aðeins með því að samþykkja ýmis skilyrði sem Bandaríkin settu honum og voru hagstæð fyrir þau. Jimmy Carter fagnaði „lýðræði“ Haítí.

Tíu árum seinna þá neitaði Aristide að einkavæði ýmsar almenningseignir og að hætta samskiptum við Kúbu en Kúba var að sjá Haítí fyrir mörg hundruð læknum og hjúkrunarkonum. Bandaríkin brugðust þá við með innrás og Aristide var rænt af Bandaríkjamönnum og flogið var með hann til Mið-Afríku. Carter hóf þá að gagnrýna Aristide og réttmæti valds hans en sagði ekkert um innrásina, mannránið, mannfall saklausra borgara eða nýju stjórnina sem sett var á fót í Haítí sem samanstóð af morðóðum geðsjúklingum sem hlýddu Bandaríkjunum í einu og öllu. Þetta gerði Carter á meðan að Aristide var haldið ólöglega, án dóms og laga í Mið-Afríku. Mannréttindi hans voru ekki áhyggjuefni Carters.

Í Júní 1978 sendi Jimmy Carter Anastasio Somoza, einræðisherra Níkaragúa bréf þar sem hann hrósaði honum fyrir framlag sitt til mannréttindamála í Níkaragúa. Opinberlega gagnrýndi Carter þó Somoza. Þetta fór fram á meðan að Somoza stóð fyrir blóðugasta kaflanum í stjórnartíð sinni, sprengjuárásum á saklaust fólk sem var fylgjandi byltingunni í Níkaragúa með tilheyrandi morðum og limlestingum á körlum, konum og börnum. Opinberlega var Carter mjög gagnrýninn á Somoza. Það var þó aðeins blekking fyrir almenninginn því leynilega studdi hann pólitískar stefnur hans.

Í maí 1979, innan við tveimur mánuðum áður en Somoza stjórninni var steypt af stóli kallaði Carter einnig saman ýmsa utanríkisráðherra í löndum Suður-Ameríku sem voru á móti einræðisstjórn Somoza. Hann lagði til að myndaður yrði sameinaður her ríkja Suður-Ameríku og Bandaríkjanna (Inter-American Peace Force) sem myndi steypa Somoza stjórninni af stóli. Þessu neituðu ráðherrarnir þó því þeir töldu þetta vera ólögmæt afskipti Bandaríkjanna. Á yfirborðinu lítur þetta mjög vel út, að koma hinni grimmilegu Somoza stjórn frá völdum og setja í staðinn á „lýðræði“. En þetta var þó allt blekking því Carter studdi Somoza. Hann sá í hvað stefndi og til þess að koma í veg fyrir að Sandinistarnir kæmust til valda þá lagði hann þetta til en hafði þó á prjónunum að halda gömlu stjórnarfarinu með morðóða her Somoza og koma fyrir í staðinn öðrum íhaldssmanni sem áfram myndi fylgja fyrirmælum Bandaríkjanna. Fyrir almenningi hefði þetta litið út eins og grimmdarstjórninni hefði verið komið frá en í rauninni hefði ekkert breyst. Þegar Somoza stjórninni var loksins komið frá af Sandinistum sá Carter og CIA undir stjórn hans að Somoza var komið burt úr landinu heilum á húfi og endurskipulagði svo her hans, veitti þeim vopn og þjálfun til þess að fremja hryðjuverk í Níkaragúa. Þeir drápu saklaust fólk eins og lækna, kennara o.fl. og ullu skemmdarverkum til þess að hindra að Sandanistar kæmu á umbótum í landinu.

Svo má heldur ekki gleyma ævintýrum Carters í Afghanistan. Á síðari hluta áttunda áratugarins var við lýði stjórn í Afghanistan sem beitti sér fyrir jafnrétti kynjanna, að bæta menntun fyrir menn og konur, að aðskilja ríki og kirkju ásamt ýmsum öðrum umbótum eins og að dreifa löndum í hendur fátækra bænda. Bandaríkin gátu þó ekki sætt sig við þessa stjórn því hún var hliðholl Sóvétríkjunum. Árið 1979 byrjaði því Bandaríkin, Saudí-Arabía og Pakistan því að þjálfa og dæla vopnum og peningum í islamska bókstafstrúarmenn, hvar sem þeir gátu fundið þá til þess að berjast gegn trúlausu kommúnistastjórninni. Bókstafstrúarmönnunum hryllti við jafnréttinu og umbótunum sem fram fóru í landinu svo tugir þúsunda flykktust þangað til að berjast með dyggri hjálp Bandaríkjanna. Þetta leiddi til afskipta Sóvétríkjanna og síðar meir til falls þess. Íslömsku bókstafstrúarmennirnir (sem síðar urðu að Al-Qaída samtökunum eins og við þekkjum þau í dag) voru hylltir sem frelsishetjur, af Carter og Reagan stjórnunum sem börðust gegn hinu illa veldi. En þetta stríð hafði gríðarlega slæmar afleiðingar í för með sér fyrir landið og fólkið í því en Bandaríkin skeyttu engu um það frekar en vanalega.

Carter studdi leynilega morðóða stjórn Pol Pots í Kambódíu sem var komið frá völdum 1979. Það gerði hann til þess að refsa Víetnömum enn frekar fyrir að verja sig fyrir innrás Bandaríkjanna. Morð á tveimur til fjórum milljónum (tölurnar eru á reiki) Víetnömum og gríðarleg eyðilegging landsins sem hrjáir Víetnama enn til dagsins í dag var greinilega ekki nóg fyrir hann.

Carter studdi einnig Shah Mohammed Reza Pahlavi sem var við völd í Íran til 1979 þrátt fyrir gríðarlega kúgun hans á fólki sínu og ítrekuð mannréttindabrot leynilögreglu hans í samstarfi við CIA. Hann sagði meira að segja „ There is no leader with whom I have a deeper sense of personal friendship and gratitude“.

Í kjölfar innrásar Indónesíu í Austur-Tímor 1975, hélt Carter áfram að sjá einræðisstjórn Indónesíu fyrir vopnum og politískum stuðningi s.s. að beita neitunarvaldi sínu gegn tillögum Sameinuðu Þjóðanna til að binda enda á glæpina sem þar fóru fram. Útkoman var 200.000 dráp, versta fjöldamorð miðað við íbúafjölda síðan í Seinni Heimsstyrjöldinni. Hann gerði ekkert til þess að reyna að binda enda á drápin og var mikill stuðningsmaður stjórnar Indónesíu og kúgun hennar á saklausu og varnarlausu fólki.

En illum afskiptum Carters er þó enn ekki lokið. Venezúela stafar enn gríðarleg hætta af honum. Hann hefur á undanförnum árum ítrekað beitt sér fyrir því að fegra ímynd stjórnarandstöðunnar þar í landi sem hefur reynt með ofbeldi og skemmdarverkum að koma Chavez-stjórninni frá völdum. Hann reyndi að fá Chavez til að sættast við leiðtoga stjórnarandstöðunnar sem komu honum frá í stuttan tíma í blóðugu valdaráni og hefur oft reynt að fá Chavez til þess að deila völdum með henni þrátt fyrir að Chavez hafi sex sinnum unnið lögmætar kosningar! Þetta gerir hann vegna þess að núverandi stjórn beitir sér fyrir umbótum í landinu sem munu hafa í för með sér jákvæðar afleiðingar fyrir fólkið. Þetta geta Bandaríkjamenn ekki sætt sig við þar sem hagsmunum þeirra er þá ógnað.

Jimmy Carter er engu skárri heldur en aðrir glæpamenn Bandaríkjanna sem vilja breiða út heimsveldi sitt með góðu eða illu. Hann talar stöðugt um mannréttindi og kallar sig mannréttindaforseta en þetta er þó stór blekking eins og kemur í ljós þegar aðgerðir hans eru skoðaðar betur. Raunveruleg stefna hans eru hagsmunir Bandaríkjanna (og þá meina ég Bandarískra stórfyrirtækja og valdagráðugra stjórnmálamanna) með engu tilliti til saklausra, varnarlausra íbúa ríkja sem hann traðkar niður á leiðinni að ná takmörkum sínum. Ekki láta saklausa bros hans blekkja ykkur, undir niðri er hann miskunnarlaus.

Heimildaskrá:

Petras, James, Counterpunch, „The Truth About Jimmy Carter“, Vefslóð: http://counterpunch.org/petras07082004.html, sótt 5. október 2006

Smith, Gordon, The Prism, „Jimmy Carter's No Real Humanitarian“, Vefslóð: http://www.ibiblio.org/prism/Apr97/carter.html, sótt 5. október 2006

Wikipedia, „Jimmy Carter“ Vefslóð: http://en.wikipedia.org/wiki/Jimmy_carter, sótt 5. október 2006