Hernám og hervernd Góða kveldið, hérna kemur heimildaritgerð sem að ég gerði fyrr á árinu. Þetta er mín fyrsta heimildaritgerð svo ekki vera dómhörð.


Aðdragandi hernáms og breskir hermenn á
Íslandi



Þegar Seinni heimsstyrjöldin var í hámæli varð staðsetning Íslands alveg gífurlega mikilvæg hernaðarlega . Sá sem réð yfir Íslandi hernaðarlega réði öllu N-Atlandshafi og þar með öllum siglingum yfir hafið. Í beinu framhaldi af þessari staðreynd varð kapphlaup milli Þjóðverja annars vegar, Breta og Bandaríkjamanna hinsvegar um að ná hér landi. Bretar voru fyrstir á staðinn og komu þar með í veg fyrir að Þjóðverjar næðu valdi á Íslandi. Eftir að Þjóðverjar höfðu hertekið Danmörku og Noreg voru þeir komnir með frábæra aðstöðu fyrir kafbátahernað á Atlandshafi og sú aðstaða hefði fullkomnast ef að Íslandi hefði verið náð. Þeir hefðu bæði getað komið aftan að Bretlandi og haft beint mið á Bandaríkin. Þess vegna sáu Bretar sér ekki færi á öðru en að hertaka Ísland þó það hefði verið hlutlaust land síðan 1918 þegar sjálfstæði hlaust.


Bretar stigu síðan hingað fyrst á land þann 10. maí árið 1940 með tvö þúsund hermenn úr landgönguliði flotans. Þetta gekk allt mjög hratt fyrir sig en íslenskir togarar og vélbátar voru teknir í þjónustu hersins og látnir flytja í land hergögn og hermenn. Bifreiðar voru líka fengnar til að flytja hermenn á ýmsa staði í úthverfum Reykjavíkur.


Eitt það fyrsta sem herinn gerði við komuna hingað til lands var að fara í þýsku sendiráðsskrifstofuna og taka fastan þýska sendiherrann og fylgdarlið hans, sem hafði stundað njósnir hér á landi fyrir Þriðja Ríkið frá því að Hitler komst til valda. Næst var lokað á alla vegi sem lágu út úr borginni, tímabundið og Bretar tóku Landsímastöðina og Ríkisútvarpið á vald sitt. Allt samband við útlönd var slitið, líklegast til að hindra njósnir. Þó að íslenska ríkisstjórnin væri á móti hertökunni þá mótmæltu þeir henni ekki upphátt og gerðu sitt besta til að komast hjá árekstrum Íslendinga og breskra hermanna.


Snemma eftir komu hersins fóru nokkrir Íslendingar með Svein Björnsson og Vilhjálm Þór í fararbroddi að leita til Bandaríkjamanna og reyna að fá þá til að taka að sér hervernd í stað Breta. Bandarísk hervernd var að margra mati öruggari og það var orðið ljóst hjá Bretum að þeir þyrftu í framtíðinni að nota allan sinn mannskap í baráttunni við Þýskaland, Ítalíu og Japan, sem gengu undir nafninu Þríveldin. Samkvæmt sambandslögunum hefðu Íslendingar ekki getað talist hlutlausir ef að þeir hefðu beðið um erlenda hersetu. Bandaríkjamenn voru líka hlutlausir þó þeir styddu Breta og Frakka en það var aðallega fjárhagslega.


Íslendingar fengu mikla atvinnu í kringum herinn, við að byggja hús, smíða flugvelli og brýr, leggja vegi og grafa skurði. Þúsundir manna þyrptust í “Bretavinnuna”, iðnaðarmenn, bifreiðastjórar, verkamenn, túlkar, matseljur og þvottakonur. Kreppan og atvinnuleysi hurfu strax á fyrstu mánuðum hernámsins. Áhrif á vinnuafl var ekki það eina sem að breski herinn hafði hér á landi. Kippur komu í minjagripasölu, veitingarekstur og raunar alla þjónustustarfsemi. Stríð gerði það að verkum að fisk vantaði hvarventa í Evrópu og eftirspurn á íslenskum fiski jókst og verð hækkaði. Í fyrsta sinn um aldir ríkti hér á landi nokkur velmegun. Íslendingar voru að græða á stíðinu og hernáminu meðan aðrar þjóðir í Evrópu liðu mikinn skort og þjáningar.


Bandaríski herinn og áhrif hans


Breskir hermenn urðu flestir hér á landi um 25 þúsund en sumarið 1941 voru margir kallaðir til vígstöðva annars staðar í heiminum. Þeir þurftu virkilega mikið á öllu sínu liði að halda í baráttuni við Þríveldin og það endaði með því að þeir gerðu samning við Bandaríkjamenn um að taka að sér hervernd á Íslandi. Að lokum komst á samkomulag milli Bandaríkjanna og Íslendinga en Bandaríkjamönnum voru sett nokkur skilyrði. Þeir þurftu að fara af landinu um leið og stríðinu myndi ljúka.
Virða skildi frelsi og fullveldi Íslands algerlega og Bandaríkjamenn áttu að vernda hagsmuni Íslendinga og gera allt sem í þeirra valdi stóð til að tryggja Íslendingum allar nauðsynjar.


,,Alþingi kom saman til aukafundar 9.-10. júlí 1941 og lagði ríkistjórnin fram eftir- farandi þingsályktunartillögu: ,,Sameinað Alþingi fellst á samkomulag það, sem ríkistjórnin hefur gert við forseta Norður-Ameríku um að Bandaríkjunum sé falin hervernd Íslands meðan núverandi styrjöld stendur.”


Hernámi var nú lokið og hervernd tekin við. Ísland var núna ekki lengur hlutlaust samkvæmt sambandslögunum frá 1918. Bretarnir fóru flestir héðan en þó ekki allir og þeir héldu m.a. yfirstjórn Reykjavíkurflugvölls, allt til stríðsloka. Fyrstu Bandarísku hermennirnir sem stigu á land í Evrópu í stríðinu komu til landsins þann 7.júlí 1941. Það var samt ekki fyrr en 27. apríl 1942 sem að tilkynnt var formlega að Bandaríkin hefðu tekið við yfirherstjórn á Íslandi.


Bandaríkjaher eða setuliðið eins og það var kallað, tók við öllum fyrri stöðvum Breta en hóf gerð nýs flugvallar á Miðnesheiði. Með bandaríska hernum komu ekki bara vopn heldur líka stórvirk vinnutæki sem að ekki höfðu sést hér á landi áður. Sem dæmi má nefna jarðýtur, skurðgröfur og jeppa. Einnig komu þeir með kvikmyndir, bandaríska tónlist, tískuvörur, mat, bíla, bandaríska siði og venjur sem að Íslendingar hafa ekki skilið við sig síðan.


Alvarlegt ástand skók landsmenn á stríðsárunum og var það einfaldlega kallað ,,ástandið”. ,,Ástandið” er orðið sem notað er yfir samskipti hermanna og íslenskra kvenmanna. Þessi samskipti voru allt frá vændi og upp í ástarsamband og hjónaband. Fjöldi íslenskra kvenna gekk í hjónaband með bandarískum hermönnum og fluttist vestur um haf í stríðslok. Ennfremur tók stór hópur námsmanna að stunda nám vestanhafs, þegar leiðir lokuðust til Evrópu. Þarna var komin mikil og erfið samkeppni við hina íslensku karlmenn sem að voru alls ekki ánægðir með ,,ástandið”. Mikið af kvenfólki hreifst af þessum útlensku herramönnum og áttu mikil samskipti við þá. Þetta varð smám saman í hugum landsmanna eitt viðkvæmasta og alvarlegasta félagslega vandamál sambúðarinnar við hernámsliðið.


Lögreglan ákvað að rannsaka þetta ,,ástand” og komst af því að rúmlega 500 konur á aldrinum 12-61 árs höfðu haft náin samskipti við setuliðið. Setuliðsstjórnin mótmælti opinberri skýrslu sem birtist um málið og sagði að í flestum af þessum 500 tilfellum hefði verið venjuleg umgengni en ekki ,,saurlifnað” eins og talað var um í skýrslunni. Þá átti Lögreglan oft fullt í fangi með að halda aftur af breskum og bandarískum hermönnum sem höfðu verið að skemmta sér um nóttina.


Eftir stríð

Þó að Heimstyrjöldinni lyki í ágúst 1945 sýndu Bandaríkjamenn ekki á sér fararsnið og settu fram þau rök að ótryggar horfur væru í alþjóðamálum, einkum vegna Kóreustyrjaldar. Samningarnir á milli Íslands og Bandaríkjanna sögðu til um það að Bandaríkin myndu hverfa héðan af landi við friðarsamninga.
Ljóst var að stríðinu væri lokið en það var eiginlega bara vopnahlé því að friðarsamningar höfðu ekki verið gerðir. Það nýttu Bandaríkjamenn til að flytja herinn ekki burt.


Árið 1946 gerði Ólafur Thors samning við Bandaríkjamenn sem nefndist Keflavíkursamningurinn. Í honum var samþykkt að innan hálfs árs myndi herinn fara af Íslandi og Íslendingar fengju afnot af Keflavíkurflugvelli. Þó máttu Bandaríkjamenn hafa starfslið og tæki á vellinum. Hann var samþykktur á þingi eftir nokkurt þref með 32 atkvæðum gegn 19. Með þeim samningi var herverndarsamningurinn frá stríðsárunum felldur úr gildi.


Keflavíkursamningurinn féll úr gildi árið 1951 þegar Varnarsamningurinn var gerður en sama ár gekk Ísland í NATO. Þessi nýji samningur fól í sér að Bandaríkjamenn ættu að taka að sér varnir á Íslandi á vegum NATO um óákveðin tíma. Hernámið var í stórum dráttum mjög gott fyrir Íslendinga enda hjálpaði það landsmönnum að ná sér upp úr kreppunni og færa sig nær samtímanum, bæði með hlutum og menningu. Margir flugvellir voru byggðir og margir vegir lagðir. Mannfall Íslendinga væri nú ekki talið mikið hjá öðrum þjóðum en ef að við lítum á prósentutölurnar þá misstu Íslendingar jafn marga í þessu stríði og Bandaríkjamenn.


Nú, árið 2006, 65 árum eftir að þeir stigu hér á land, er Bandaríkjaher á förum frá Keflavík. Þegar þetta er ritað (27. apríl 2006), er ekki ljóst hvort náist samningar við Bandaríkjaher um áframhald á varnarsamningi Bandaríkjanna við Ísland. Evrópuherstjórn Bandaríkjanna hefur gert drög að nýrri varnaráætlun fyrir Ísland sem liggur fyrir viðræðunefnd íslenskra stjórnvalda.



Takk fyrir mig, nenni ekki að setja heimildaskrá en ef að einhver efast um þessa grein þá skal ég gjarnan láta hana flakka.