Kolfinnur
Inngangur
Í þessari ritgerð er ætlunin að fjalla lauslega um Kolfinn Þorgerðarson á Vatni, nú Elliðavatni, hvernig maður hann var og hvernig hann lifði. Einnig verður skoðað hvaða persónu hann hafði að geyma.
Talið er að Kolfinnur hafi fæðst kringum 930.Hann bjó að Elliðavatni hjá móður sinni. Faðir hans var óþekktur. Kolfinnur kemur fyrir í Kjalnesinga sögu sem keppinautur aðal söguhetjunnar, Búa Andríðarson, í ástarmálum. Hann lést í bardaga við Búa á árunum kringum 953.
Strax í upphafi umfjöllunar á honum er hann kynntur sem undarlegt og ógæfulegt ungmenni: „Kona var nefnd Þorgerður [...] Með henni fæddist upp son hennar er Kolfinnur hét; hann var snemma mikill og ósýnilegur, svartur á hár. Hann lagðist á eldgróf og beit börk af viði steiktan og gætti katla móður sinnar.[...]“
Þessi fyrsta kynning á persónunni gefur ekki beint til kynna að hér sé um heilbrigðan og eðlilega þroskaðan einstakling að ræða heldur sérvitran og jafnvel þroskaheftan. Sá sem liggur á eldhúsgólfi og nagar brenndan börk er ekki mjög gæfulegur við fyrstu kynni, eða hvað?
Það næsta sem lesandinn fréttir af Kolfinni er að hann sé uppburðarlítill og gæfulaus: „[...]Þar lá Kolfinnur son hennar og rétti býfur helsti langar. [...]“
Í Kjalanesþingi var um þá daga mestur kvennkostur Ólöf hin væna dóttir Kolla í Kollafirði.
Móðir Kolfinns frétti að tveir menn kepptu um hylli Ólafar, en sonur hennar lá bara á gólfinu og teygði úr býfunum. Hún tjáði honum að heldur vildi hún að hann væri dauður en slík skömm í ættinni, og manaði hann þannig til að fara á fjörurnar við Ólöfu. Kolfinnur ákvað að hlýða móður sinni og hélt af stað í Kollafjörð klæddur eins og fáviti. Ferðaðist með stangastökki og notaði til þess trédrumb. Þessi ferðamáti er þekktur úr írskum sögum.
Þegar Kolfinnur kom í Kollafjörð voru leikar hafnir. Ólöf sat á palli og sitt hvorum megin við hana sátu Búi og Örn, norskur stýrimaður. Hann settist hjá þeim óboðinn og var þar þaulsetinn allan fyrri hluta vetrar. Örn stýrimaður taldi skömm að veru Kolfinns og afréð að drepa hann. Fyrirsát Arnar endaði nú ekki betur en svo að Kolfinnur rotaði svein hans með lurkinum sem hann ferðaðist á og drap síðan Örn. Það eina göfugmannlega sem hann gerði í sögunni var að hann hlífði sveini Arnar við dauða.
Við þennan sigur á Erni óx Kolfinni kjarkur og skoraði hann Búa á hólm, en tapaði einvíginu sár á hendi.
Búi fékk Ólöfu og er ekki annað að sjá en henni líki það vel. Búi fer utan til Noregs og er sagður allur. Bíður þá Kolfinnur ekki boðanna heldur fer og rænir Ólöfu í óþökk hennar og föður hennar. Hann sýnist því fúlmenni hið mesta og virðist ekkert hirða um tilfinningar annarra sem er meðal annars einkenni siðblindu. Í upphafi sögunnar er eins og hann hafi verið latur maður með lítið sjálfstraust og eingöngu barist um Ólöfu vegna þess að móðir hans sagði honum það en síðan fengið þráhyggju og gert allt sem hann mögulega gat til þess að vera með henni. Kannski varð hann bara hrifinn af henni þegar hann hitti hana fyrst en kannski langaði hann bara að sanna sig fyrir móður sinni og umhverfinu.
Þegar Kolfinnur fréttir að Búi sé á lífi og kominn til landsins situr hann fyrir Búa við Öxnarskarð, við tólfta mann og heldur sér til hlés með lítilmannlegum hætti. Það er ekki fyrr en Búi hefur drepið sex af fylgdarmönnum Kolfinns að hann tekur sjálfur þátt í bardaganum og fellur fyrir Búa. Þykir mér frásögnin styðja það sem áður var fram komið að Kolfinn var lítilmótleg persóna sem fengið hafi þau málagjöld sem hann átti skilið.
Lokaorð
Litlar sem engar heimildir eru til um Kolfinn utan Kjalnesingasögu og því erfitt að draga annað en ályktanir af einhliða frásögninni. Kolfinnur tók breytingum frá upphafi sögunnar þegar hann lá á eldhúsgólfi þar til hann varð orðinn sjálfstæðari og framtakssamari eins og sjá má þegar hann ákvað sjálfur að fara og sitja fyrir Búa. Ég er að minnsta kosti viss um að í nútímaþjóðfélagi hefði hann fengið einhverja greiningu hjá sálfræðingi.