Eftirfarandi grein fjallar um sögulegt samhengi atburða í þáttunum The Power of Nightmares eftir Adam Kurtis. Ekki sagnfræði segja sumir, en þar sem sagnfræðin í þáttunum er rakin ætti greinin vonandi að verða viðurkennd. Með fyrirvara um að greinaskil virka ekki og villur.
Höfundur ákvað að velja efni um eitthvað sem að hans mati skiptir máli í alþjóðasamfélagi. Efnið sem varð fyrir valinu eru heimildarþættir sem sýndir voru á BBC 2 í október árið 2004 og fjalla í heild sinni um „Neo-Conservitism” eða Ný-íhaldssemi og hugmyndafræðina sem stefnan fylgir og er einnig stefna núverandi Bandaríkjastjórnar.
Hugmyndafræðin er upphaflega
bandarísks heimspekings í stjórnmálafræði, Leo Straus´s. Þáttaröðin bera heitið:
„The Power of Nightmares” eða Máttur martraðanna. Þáttaröðin er eftir stjórnmálafræðing sem nú starfar sem blaðamaður á BBC, Adam Kurtis. Fjallað er nánar um hann síðar í ritgerðinni.
Þáttaröðin inniheldur þrjá þætti og heita þeir eftir röð: Baby it´s cold outside, The Phantom Victory og The Shadows in The Cave. Rauði þráður þeirra er meintur uppspuni Bandaríkjastjórnar síðustu áratugi um ógnina sem stafar af óvininum, í tilfelli þáttanna; róttækum múslimum. Að mati höfundar er það Bandaríkjastjórn sem liggur undir höggi. Einnig er sýnt fram á sami meinti uppspuni var notaður um ógnina sem stjórnvöld töldu stafa af Sovétríkjunum á níunda áratug síðustu aldar. Samkvæmt efni The Power of Nightmares byggist hugmyndafræði ný-íhaldsmanna í Washington á því að fá fólk til stuðnings við sig með því að elta ógnina, sem er oftar en ekki stórýkt eða uppspuni frá rótum. Að stjórnvöld í BNA séu „góði kallinn” að elta „vonda kallinn”, með hagsmuni borgaranna að leiðarljósi.
Þegar hugsað er um efni þáttanna kemur upp í hugann að hér sé á ferð enn ein klisjan um að fletta ofan af núverandi Bandaríkjastjórn með áróðri, eins og svo margir hafa reynt að gera. Leikstjórinn, Adam Curtis, er bersýnilega vinstri sinnaður og kemur það vel fram í þáttunum, sem hann er sjálfur þulur í. Þegar horft er á þættina er vissulega hætta á því að fólk hallist fremur að andstæðingum Bandaríkjastjórnar, en henni í vil. Höfundur horfði á þættina með svo til hlutlausum augum, þar sem ritsmíð var næsta skref.
Ritsmíðin mun fyrst og fremst fjalla um það sem fram kemur í þáttunum og verður hver þáttur skoðaður í ljósi efnistaka og sagnfræðinnar. Einnig mun hugmyndafræði ný-íhaldsmanna verða rakin og reynt að sýna fram á hvernig þeir ætluðu að vernda borgaranna gegn Sovétríkjunum þá og hvernig þeir ætla sér að gera það í dag gegn hryðjuverkamönnum. Hugmyndafræði róttækra múslima er einnig rakin. Allt er það gert eftir efni The Power of Nightmares í bland við aðrar heimildir.
Gagnrýni og lof
Þættirnir hafa hlotið mikið lof víðast hvar og fá til að mynda stjörnugjöfina 9.1 af 10 á kvikmyndavefnum imdb.com. Er þá miðað við 350 atkvæði. Þeir hafa einnig hlotið tvenn verðlaun í kvikmyndageiranum og nú síðast voru þeir tilnefndir til verðlauna á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Þó svo að þættirnir hafi hlotið mikið lof er gagnrýni alltaf til staðar. Sú gagnrýni kemur helst frá þeim sem aðhyllast stefnuna sem fjallað er um eða eru lengra til hægri á stjórnmálaskalanum. Sjálfum fannst höfundi þættirnir mjög fræðandi, sannfærandi og góðir.( Kvikmyndavefurinn IMDB)
Höfundur
Höfundur og leikstjóri The Power of Nightmares er Adam Curtis, þáttagerðarmaður hjá Breska ríkissjónvarpinu, BBC. Curtis kenndi stjórnmálafræði við Oxford háskóla áður en hann hóf störf við fjölmiðla. Hann framleiðir þætti og heimildarmyndir sem myndu flokkast í fjölmiðlum undir hneykslismál. Þættirnir voru framleiddir undir merkjum BBC.
Efni sem Curtis hefur sent frá sér er skýrt og endurspeglar oftar en ekki skoðun hans. Einnig segir hann frá efninu sjálfur, sem gefur verkum hans ákveðin keim. Hljómþýð rödd hans leiðir áhorfandann til að mynda í gegnum The Power of Nightmares.
Þættirnir voru tilnefndir á kvikmyndahátíðina í Cannes ár sem mikilvægt innlegg í flokki opinberra mynda. Einnig hafa þeir nú þegar fengið verðlaun DGGB(Samtaka leikstjóra á Stóra-Bretlandi), fyrir framúrskarandi leikstjórn í sjónvarps-heimildarmyndum með fyrsta þættinum: Baby It's Cold Outside. Þá fengu þættirnir loks Bafta sjónvarpsverðlaunin á þessu ári í flokknum ,,Best Factual Series”, eða efni sem á sér stað í raunveruleikanum.
Tilnefningar og verðlaun hafa komið Curtis verulega á óvart, að því er hann segir. Hann hefur sagt sjálfur að hann líti á sig sem blaðamann hjá BBC, ekki þáttagerðarmann. (Wikipedia)
Inngangur þáttanna
,,Í fortíðinni lofuðu stjórnmálamenn draumum um betri heim. Nú lofa þeir að vernda okkur frá martröðunum. Mesta ógnin stafar af alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum. En alveg eins og draumarnir voru ekki sannir, eru martraðirnar það ekki” (The Power of Nightmares- Upphafsorð)
Á þessa leið hefst hver þáttur The Power of Nightmares. Ætlun leikstjórans er að mati höfundar sú að vinna áhorfandann á sitt band og lýsa því sem á eftir fer. Drungafull tónlist þáttanna hljómar svo samhliða hinni hljómþýðu rödd Adams Curtis. Hér eftir fer skilgreining á rót hvers þáttar.
1. hluti: Vina mín. Það er kalt úti.
Fyrsti þátturinn í seríunni ber enska heitið „Baby it´s cold outside” og leggur drögin að öllum þremur þáttunum. Í þeim hluta er byrjað á því að útskýra fyrir áhorfandanum vandlega upphaf hugmyndastefnu Ný-íhaldsmanna og hvernig hún hóf að þróast í bandarískum stjórnmálum. Í því samhengi er gróska róttækra múslima í Arabaríkjum skoðuð. Tekinn er fyrir maður sem talinn er vera einn helsti áhrifamaður Íslamstrúarmanna í hatri gegn Vesturlöndum. Fyrrum menntamálaráðherra Egyptalands, Sayyid Quutb(1906-1966). Hann hlaut meistaragráðu í kennslufræðum í Colarado árið 1950. Hann nýtti námsdvöl sína í það að horfa með gagnrýnum augum á samfélag Vesturlanda. Með gagnrýnu hugarfari ritaði hann svo mörg verk og er það frægasta Þjóðfélagslegt réttlæti í Íslam(1949). Í því verki rakti hann þá efnishyggju og lauslæti sem hann sá í Bandaríkjunum á meðan á dvöl hans þar stóð. (Pacoma)
Hann afneitaði vestrænum gildum og hallaðist af róttækni þegar hann sneri aftur til Egyptalands árið 1950. Hann er talinn vera áhrifamesti útgefandi hins múslímska bræðralags. Sé ferill hans skoðaður, útgáfa og annað má sjá að klárlega er hér á ferð mikill áhrifamaður sem hefur átt mikinn þátt í að ýta undir hatur Íslamstrúarmanna á Vesturlönd.
Það sem er tekið fyrir í myndinni varðandi Sayyid Quutb er aðallega gagnrýni hans á að þróun Egyptalands færi æ meira í átt til hinna vestrænu gilda. Einnig eru skilaboð hans til trúbræðra sinna sterklega skoðuð: Hann vildi meina að þeir sem stjórnuðu landinu og aðhylltust vestræn gildi ættu að verða líflátnir.(The Power of Nightmares)
Quutb var líflátinn árið 1966 fyrir áróður sinn. Hugmyndir hans breiddust þó út og upp úr þeim myndaðist sú trúfræðilega skoðun að fjöldadráp væru réttlætanleg í þeim tilgangi að ná fram trúarlegum markmiðum. Árið 1966 var stofnaður leynifélagsskapur af Ayman Zawahiri, sem byggði á hugmyndafræði Quutb.(Tacoma)
Zawahiri setti sig mjög mikið upp á móti hugmyndum forseta Egyptalands um að nútímavæða landið.
Undir lokin í umfjöllun um róttæka múslima skal það nefnt að árið 1979 var mynd af Quutb sett á frímerki. Vestræna hugtakið frelsi var um leið álitið samnefnari fyrir spillingu. Um svipað leyti rétti Bandaríkjastjórn fylgismönnum Zawahiri hjálparhönd við að koma Sovétmönnum úr Afghanistan. Rétt er að geta þess að Zawahiri var lærimeistari frægasta hryðjuverkamanns í heimi; Osama Bin Laden.( The Power of Nightmares)
Ný-íhaldsmenn
Upphafsmaður ný-íhaldsstefnu Bandaríkjamanna er talinn vera Leo Strauss, kennari í stjórnmálafræði við Chicago háskóla frá 1949-1968.
Hann leit svo á að stjórnleysi fylgdi í kjölfar þess að vöntun væri á trúarlegum grunni. Þjóðfélagið væri af þeim sökum á hraðferð til stjórnleysis. Til að koma í veg fyrir stjórnleysi þetta þyrfti samfélagið á óvinaímynd að halda.
Meðal lærisveina Strauss voru Paul Wolfowitz, bankastjóri Alþjóðabankans, William Kristol, harður stuðningsmaður Bush. Stuðningsmenn þessarar stefnu eru einnig meðal annarra; Donald Rumsfeld, fyrrum utanríkisráðherra BNA og Dick Cheny varaforseti BNA. (Wikipedia)
Hugsjón ný-íhaldsmanna var að stöðva hina þjóðfélagslegu ringulreið sem þeir töldu að frjálslyndi og frelsi hefðu komið af stað, einkum eins og það birtist á 7. áratug síðustu aldar. Það ætti að vera hluti bandarískra stjórnvalda að berjast gegn illum öflum um allan heim.
Þessi hópur starfaði saman frá útskrift Wolfowitz og Krustol um 1970 og vann að því að koma hugmyndafræðinni á í Bandaríkjunum, gegn ríkjandi stefnu þess tíma.
(Wikipedia)
Ronald Reagan, fyrrum Bandaríkjaforseti, gekk til liðs við þennan hóp árið 1976 og jók það á völd og áhrif hópsins. Hann skipaði Wolfowitz og tvo aðra ný-íhaldsmenn sem ráðgjafa í ríkisstjórn sína árið 1981. Árið 1983 sneri Reagan sér alfarið yfir á braut á ný-íhaldsstefnunnar.
Eftir að hafa verið fylgjandi stefnunni að einhverju leyti í nokkur ár, þ.e á 8. áratugnum, hófst svokallaður svartur áróður leyniþjónustu Bandaríkjamanna, CIA, um að Sovétríkin væru að baki öllum hryðjuverkum í heiminum. Með svarta áróðrinum tókst ný-íhaldsmönnum að fá fólk til að trúa því. Þar var notuð hugmyndafræði Strauss og verður nánar fjallað um það í 2. hluta. Ógnin var þarna fundin og Reagan jók fylgi sitt til muna.(Tacoma)
2. Hluti: Sýndarsigur
Annar þátturinn í röðinni ber enska heitið „The Phantom Victory” og fjallar í stuttu máli sagt um sigur Afghanistan á innrásarliði Sovétríkjanna, með hjálp Bandarískra eldflauga og fjárstyrkja þaðan.
Þegar Sovétríkin gerðu innrás í Afghanistan studdi hin ný-íhaldssama Bandaríkjastjórn múslímska hópa í baráttunni um landið. Ástæðan fyrir því var samkvæmt þáttunum sú viðleitni að elta óvininn sem áður er greint frá í kaflanum um ný-íhaldsmenn og var í þessu tilfelli Sovétríkin. Athuga ber að innrásin í Sovétríkin átti sér stað 25. desember 1979, í Kalda stríðinu.
Sovétmenn settu á stofn vilhalla ríkisstjórn í landinu og við það sameinuðust ýmsir ólíkir hópar róttækra múslima til berjast gegn ríkisstjórn Afghanistan og veru Sovétríkjanna í landinu. Bandaríkjamenn útveguðu andspyrnuhópunum vopn og peninga. Í innrásinni kemur Osama Bin Laden, áður nefndur lærisveinn Ayman Zawahiri við sögu sem hátt settur maður í andspyrnuherjum Afghanistan gegn Sovétríkjunum.
Mennirnir sem fordæmt höfðu Vesturveldin nutu skyndilega stuðnings þeirra. Í þættinum er því haldið fram að ástæða stuðnings BNA við andspyrnuhópana sé sú að viðhalda áðurnefndri hugmyndafræði ný-íhaldsmanna. Sovétríkin væru þar „vondi kallinn” og Bandaríkjastjórn sýndi heimsbyggðinni vilja í verki og studdi við þá sem börðust gegn henni. Hún taldi Osama Bin Laden vera vonarstjörnu BNA í baráttunni fyrir amerískum gildum.( The Power of Nightmares)
Eftir nærri tíu ára baráttu drógu Sovétríkin sig út úr Afghanistan. Bæði Bandaríkjastjórn og andspyrnuhópar múslima héldu því statt og stöðugt fram að Sovétríkin hefðu tapað stríðinu og að nú væri tími ný-íhaldsmanna og múslima til að umbreyta veröldinni. „Góði kallinn” hafði unnið fyrstu lotu í stríðinu fyrir betri veröld. Með skírskotun til þessa er heiti þáttarins, „Sýndarsigur” valið.
Forseti Sovétríkjanna, Michail Gorbatsjov, lýsti því hinsvegar í fréttaviðtali á þeim tíma að Sovétríkin hefðu dregið sig úr Afghanistan vegna þess hve mannfrekt, dýrt og móralskt niðurbrjótandi stríðið var. Undanhaldið í Afghanistan hafi verið liður í hnignum Sovétríkjanna.
Bersýnilega er yfirlýsing Gorbatsjov trúanlegri þar sem Sovétríkin hrundu árið 1989, eða sama ár og undanhaldið í Afghanistan.( The Power of Nightmares)
Rúmu ári eftir fall Sovétríkjanna hófu ný-íhaldsmenn að vega að Bill Clinton, með sama svarta áróðri og áður hefur verið greint frá. Clinton var þá framamaður í Demókrataflokknum og eftir 1993; forseti BNA.
Fyrst var hann kenndur við fjármálahneyksli í heimafylki sínu. Síðar einbeittu ný-íhaldsmenn sér að ástarsambandi hans og skrifstofulærlingsins Monicu Lewinski.
Í þáttunum telur leikstjóri sig sýna fram á að svarti áróðurinn hafi virkað og er meðal annars rætt við einn þeirra blaðamanna sem komu að Lewinski málinu beint. Ný-íhaldsmennirnir komust svo aftur til valda árið 2001.(Wikipedia)
3. hluti: Skuggarnir í hellinum
Þriðji og síðasti þátturinn ber enska heitið „The Shadows in the Cave” og spannar árin frá 1990 fram til 11. september árið 2001.
Síðarnefndi dagurinn er ekki einungis þekktur vegna hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin. Þann sama dag lýstu Bandaríkjamenn einnig yfir stríði gegn hryðjuverkum. George W. Bush, forseti BNA, ákvað ásamt ráðgjöfum sínum að heyja stríð sem nú hefur staðið í fjögur ár. Enn sér ekki fyrir enda á átökum. Hryðjuverkasamtökin Al-Qaeda eru stærsti hlekkurinn í því stríði. Fyrsti áfangi þess var innrásin í Afghanistan og vísast þá til titilsins Skuggarnir í hellinum.
Innrásin í Afghanistan var framkvæmd sem liður í því að koma í veg fyrir að BNA yrði aftur skotmark hryðjuverka. Hundruðir manna voru handteknir í innrásinni og fluttir í fangabúðir í Afghanistan og einnig við Guantanamó flóa á Kúbu. Var það gert í skugga „forvarnaraðhalds” gegn hryðjuverkum. Fangelsi þessi voru fyrir meinta hryðjuverkamenn. Bandaríkjastjórn virðist vera að eltast við sömu menn og hópa og hún studdi tíu árum áður, í sama landi; Afghanistan. Öfgahópa múslima. °
Þeir lýstu umræddum hryðjuverkum á hendur sér og Bandaríkjastjórn taldi þar af leiðandi að hryðjuverkamenn væri að finna í Afghanistan. Um það nákvæmlega fjallar þátturinn. Hvernig leit Bandaríkjamanna að sökudólgum hefur lítinn, sem engan árangur borið og hvernig ný-íhaldssöm Bandaríkjastjórn sameinaði landa sína gegn óvininum og hinni sameiginlegu ógn sem tjáðist stafa af Al-Qaeda.
Leikstjóri þáttanna, Adam Curtis heldur því statt og stöðugt fram í þessum þætti, sem og hinum, að óttinn við hryðjuverkasamtök Al-Qaeda sé magnaður upp á þeim forsendum að samtökin séu hættuleg. Séu þau til í raun og veru eru þau stórlega ýkt. (The Power of Nightmares)
Undir lokin
Þegar tvær öfgastefnur berjast fyrir tilveru sinni á ósvífinn hátt eins og ný-íhaldsstefna Leo Strauss og öfgafull hatursstefna Sayyid Quutb gegn Vesturveldunum, þá verður manni ljós veikleiki stjórnmálanna og stjórnmálamannanna gagnvart umhverfinu og tilverunni almennt.
Þáttaröðin um mátt martraðanna sýnir hvernig minnihlutaskoðanir geta ráðið ferðinni og stjórnað því sem gerist í heiminum í dag.
Sinn er siður í hverju landi og á það fyllilega við í þessu tilfelli. Þegar ólíkum siðum er att saman og látið líta út sem svo út að rætur einhvers vanda í nánasta umhverfi sé vegna utanaðkomandi afla er ekki við góðu að búast.
Óneitanlega hefur höfundur þessarar ritsmíðar tekið þann pól í hæðina sem gert er í þáttunum enda þótt hann hafi reynt að nálgast þá af hlutleysi. Stefna BNA í málunum verður að mati höfundar tæpast réttlætt með tilliti til manngæslu eða mannúðar og bræðralags allra manna.
Hitt er síðan annað mál að ógnin sem stafar af hryðjuverkum og sá ótti sem fylgir ógninni er alltaf til staðar. Sama hvort er í Breiðholti eða á Manhattan. Allir hlutir geta verið magnaðir upp og eru þeir heimildaþættir sem hér voru til umfjöllunar í örlitlu sögulegu samhengi eru gott innlegg og liður í því að upplýsa hinn almenna og friðsama borgara um kjarna málsins og vonandi að leiða menn úr myrkri vanþekkingar og fordómanna til ljóssins.
(C) Guðmundur Þórir Steinþórsson
Heimildir
Alfræðivefritið Wikipedia:
Wikipedia 2005. „Paul Wolfowitz”
http://en.wikipedia.org/wiki/Paul_Wolfowitz - sótt 4. nóvember 2005.
Wikipedia 2005. „Leo Strauss”
http://en.wikipedia.org/wiki/Leo_Strauss - sótt 4. nóvember 2005
Wikipedia 2005 „Bill Clinton”
http://en.wikipedia.org/wiki/Bill_Clinton - sótt 4. nóvember 2005
Kvikmyndavefurinn IMDB:
IMDB 2005. ,,The Power of Nightmares - Credits”
http://www.imdb.com/title/tt0430484/fullcredits - sótt 4. nóvember 2005
IMDB 2005. ,,The Power of Nightmares – Awards”
http://www.imdb.com/title/tt0430484/awards - sótt 4. nóvember 2005
Fréttavefur BBC:
BBC 2005. ,,The Power of Nightmares ”http://news.bbc.co.uk/1/hi/entertainment/film/4547707.stm - sótt 4. nóvember 2005
BBC 2005. „Baby It's Cold Outside”
http://news.bbc.co.uk/1/hi/programmes/3755686.stm - sótt 4. nóvember 2005
Vefur Pacoma samtakanna:
Tacoma 2005. ,,Baby it´s cold outside”
http://www.tacomapjh.org/PowerofNightmares-PartI.pdf
Tacoma 2005. ,,The phantom victory”
http://www.tacomapjh.org/PowerofNightmares-PartII.pdf
Tacoma 2005. ,,Shadows in the cave”
http://www.tacomapjh.org/PowerofNightmares-PartIII.pdf
Sótt 4. nóvember 2004.