Klipperarnir - Síðustu seglskipin Segl í gufumekki

Uppúr miðri 19. öld fóru gufuskip í ríkara mæli að taka við gömlu seglskipunum í hinum sívaxandi fólks- og vöruflutningum milli heimsálfa. Gufuskipin sönnuðu fljótlega gildi sitt, voru hraðskreiðari en gömlu seglskipin, áreiðanlegri og ódýrari í rekskri. Á næstu árum hurfu smám saman möstrin og seglin, og reykháfarnir tóku við.

Seglskip voru þó enn ekki alveg dauð úr öllum æðum, enda kom nú ný hönnun fram á sjónarsviðið, hin svokölluðu klipper-skip. Klipperarnir voru ólíkir seglskipum fyrri alda, bolurinn var mun straumlínulagaðri og seglin fleiri og stærri. Segja má að hverri tusku hafi verið tjaldað, allt til að vinna hraða. Það sem gaf þeim nafnið er hinsvegar talið hafa verið stafninn, hvass svo minnti á hnífsblað og “klippti” ölduna vel. Fyrsti klipperinn er talinn hafa verið Ann McKim, smíðuð í Baltimore árið 1832. Næstu 35 árin eða svo voru síðan fjölmargir smíðaðir, í sérhæfðum skipasmíðastöðvum beggja vegna Atlantshafs – á austurströnd Bandaríkjanna og í Skotlandi.

Síðari hluta 19. aldar sigldu þessi tígullegu skip um öll heimsins höf innan um sí-fjölgandi gufuskipin. Þeir voru sumir í notkun framyfir aldamótin 1900, en eftir brotthvarf þeirra voru dagar seglskipanna loks endanlega taldir. Þykir flestum skipaáhugamönnum klipperarnir hafa verið hápunkturinn á þróun seglskipa, bæði í fagurfræðilegu og praktísku tilliti.


Hinn sögufrægi Cutty Sark

Meðal frægra klippera má nefna Flying Cloud, sem fór margar ferðir fyrir frá New York fyrir Hornhöfða til San Francisco í Gullæðinu, og Great Republic sá stærsti þeirra, sem var rúmlega 4300 tonn. Frægasti klipperinn, og sá eini sem varðveittur hefur verið, er þó án vafa Cutty Sark (sem myndin er af). Saga hans er að mörgu leyti týpísk saga klipper-skips, og veitir okkur skemmtilega innsýn í heim siglinganna á 19. öld. Hún er því alveg þess virði að rekja aðeins nánar.

Cutty Sark var rennt af stokkunum í nóvember 1869, nálægt ósum Clyde fljótsins í Skotlandi. Skipasmiðurinn John Willis var ákveðinn í að smíða sitt besta skip, og skyldi það slá út þáverandi methafa, klipperinn Thermopylae, bæði í hraða, burðargetu, og glæsileika almennt. Aðeins voru notuð bestu fáanleg efni í smíðina. Burðargrindin var úr járni, restin úr ýmsum gerðum af gæðavið, og var byrðingurinn koparklæddur neðan sjávarlínu. Neðri möstur voru úr járni, og flest burðarstög voru vír, ekki kaðall eins og á eldri skipum. Skipið var um 65 m á lengd, þyngdin var 920 tonn. Samanlagður seglflötur var næstum ferkílómetri, enda gat skipið í góðum byr náð 18 hnútum. 3000 hestafla vél hefði þurft til að ná slíkum hraða.

Vert er til gamans að minnast aðeins á nafnið, en það var fengið úr kvæðinu Tam O’Shanter eftir skoska þjóðskáldið Robert Burns. Í kvæðinu er söguhetjan á meri sinni á hröðum flótta undan norn, en nær loks að sleppa eftir að nornin hefur rétt náð að rífa taglið af merinni. “Cutty sark” er reyndar “klipptur serkur” sem nornin klæðist. Nafnið ber með sér skoskt þjóðarstolt, og var það siður skipverja þegar þeir nálguðust höfn að setja brúsk úr merartagli í hönd “nornarinnar” - útskornu styttunnar í stafninum! En nóg um það.

Cutty Sark var smíðaður gagngert til að flytja te frá Kína til Bretlands, sem þá var eitthelsta verkefni klipperanna. Te var sífellt vinsælli innflutningsvara, og mikilvægt að koma henni á áfangastað eins fljótt og auðið var, því geymsluþolið var ekki óendanlegt. Þar komu klipperarnir inní myndina, hraðskreiðari en flest gufuskip þeirra tíma. Ár hvert biðu kaupmenn í London eftir nýjustu uppskerunni frá Kína, og var mikils ágóða að vænta hjá því skipi sem kom höfn með fyrsta farminn. Það er því ekki að undra að samkeppni te-klipperanna fengi á sig kappsiglingablæ!

Í febrúar 1870 fór Cutty Sark sína jómfrúarferð, frá London til Shanghai. Þótti skipið þar strax sanna sig sem mikið kostafley. Tveimur árum síðar fór það í fræga ferð sem varð óformleg kappsigling við helsta keppinautinn, áðurnefnt Thermopylae. Lögðu skipin bæði upp frá Shanghai nánast samtímis. Þegar siglt var inná Indlandshaf nokkrum dögum síðar skild aðeins hálf önnur sjómíla skipin að. 26 dögum síðar var Cutty Sark kominn 400 sjómílur frammúr, en hreppti þá mikið óveður, svo mikið að stýrið (stýrisflöturinn, ekki hjólið) rifnaði af.

Skipverjar létu það ekki á sig fá, og hófust handa um bráðabirgðaviðgerðir. Járnsmiðir og trésmiðir skipsins urðu að smíða nýtt stýri og koma því fyrir. Þar báru þeir þá gæfu að yfirsmiður skipsins hafði átt drjúgan þátt í smíði þess. Á sex dögum tókst að koma nýja stýrinu í gagnið, og Cutty Sark gat á ný sett út seglin og haldið af stað! Þegar hér var komið sögu var Thermopylae að sjálfsögðu aftur komið fram úr, en það voru sannarlega stoltir skipverjar sem sigldu til hafnar í London aðeins viku á eftir keppinautnum. Hafði siglingin tekið 122 daga. Þetta afrek var að sjálfsögðu kjörinn fjölmiðlamatur á þessum fyrstu árum almenns blaðalesturs, og ekki lítinn þátt í að auka frægð skipsins meðal almennings.

En á næstu árum hallaði undan fæti, því te-ferðir klipperanna til Kína urðu óhagkvæmar og lögðust af. Gufuskipin urðu fullkomnari, en mestu skipti að nú hafði þeim opnast ný og nánast helmingi styttri siglingaleið – um hinn nýja Súez-skurð. Klipperarnir voru hannaðir til að nýta sér hina sterku og stöðugu vinda úthafanna. Í samanburði voru Miðjarðarhaf og Rauðahaf kyrrlát, en það skipti gufuskipin að sjálfsögðu litlu. Var kostur ef eitthvað var, því þau héldu sínu jafna stími betur í kyrrlátu veðri. Í öllu falli þá komust þau nú til austurlanda bæði hraðar og hagkvæmar en klipperarnir.


Eftir Gullöldina

Gullöld klipperanna var nú liðin, en þó mátti enn finna þeim hentug hlutverk. Þeir héldu áfram að sigla hina löngu leið fyrir Góðravonarhöfða, suður-odda Afríku. En nú var áfangastaðurinn oftast Ástralía og farmurinn var ull, mun geymsluþolnari en te. Héldu þessar siglingar áfram allt framyfir aldamótin 1900. Í einni ferðinni árið 1885 tókst Cutty Sark að hefna ófaranna gegn Thermopylae og verða viku á undan í höfn, að sjálfsögðu við mikinn fögnuð skipverja. En á næstu árum hallaði enn undan fæti í rekstrinum.

1895 var Cutty Sark seldur portúgölskum aðilum, sem notuðu hann í Suður-Ameríkusiglingar. Því hlutverki gegndi hann allt til ársins 1922, þegar hann var aftur keyptur til Bretlands, orðinn ansi gamall og lúinn. Hann var gerður upp og notaður sem skólaskip til ársins 1954. Þá var hann settur í þurrkví í Greenwich, London, og gerður að safni. Þar er hann enn, sjá hér: http://www.cuttysark.org.uk/

Að sjálfsögðu vissu klippera-jaxlar þeirra tími yrði senn á enda, en það virðist bara hafa aukið stolt þeirra. Þeir litu á sig sem síðustu fulltrúa “gömlu góðu daganna”, og töldu sig “sanna sjómenn” miðað við kollega sína á gufuskipunum. Þeir lögðu sig margir fram í að halda þessu stolti á lofti, koma t.d. alltaf í höfn með nýspúlað dekkið. Þannig hafa þeir eflaust átt sinn þátt í að skapa þann rómantíska blæ sem enn hvílir yfir þessum síðustu seglskipum. Sá andi lifir enn í flottum málverkum af klipperum með þöndum seglum sem víða hanga á stofuveggjum, og sjálfsagt í þessari grein!
_______________________