Það er bara ein saga sem kemur mér virkilega á óvart og það er mannkynssagan. Sennilega af því að hvert útspil hennar er eitthvað sem ég hef ekki upplifað áður, og af því hún hefur fleiri höfunda en nokkur önnur saga.
Það sem heillar mig mest við framtíðina er að sama hversu nákvæmlega spádómar manns sjálfs, eða einhvers annars hitta í mark, þá gera þeir það yfirleitt á einhvern máta sem maður hefði ekki búist við.
Til dæmis voru alveg uppi hugmyndir um hryðjuverkaárásir á BNA. Það voru til spádómar, og bækur sem töluðu um hvernig utanríkisstefnan eða ástand heimsmála gerðu það afar líklegt að árás yrði gerð. Meira að segja var gerð ein tilraun til þess að sprengja tvíburaturnanna á Clinton tímabilinu.
Samt kom 11.Sept öllum á óvart og ýtti lestinni yfir á annað spor. En þetta lá einhvern veginn alltaf í loftinu. Rétt eins og fyrri heimsstyrjöld sem Bismarck sá framm á. Frá stofnun Þýskalands vofði yfir pattstaða í Evrópu sem braust loks út í kjölfar hryðjuverka árið 1914.
En hvert er ástandið að leiða okkur núna? Það eru ennþá átök í Írak og Afganistan, valdahlutföll eru að snúast í samskiptum Vesturlanda og Asíuríkjanna, hryðjuverk í Bretlandi, Spáni ásamt Jyllandspost málinu hafa ýtt Evrópumönnum út í meiri andúð á Aröbum og svo virðist sem þau öfl sem 11. Sept leysti úr læðingi nærist vel á ástandinu.
Fyrir nokkrum árum hlógum við í Evrópu að tvískiptingu heimsins eins og hún kom fram í ræðum Bush.
Bush lýsti því yfir að Íran, Írak og N.Kórea væru öxulveldi hins illa og vitnaði þar í söguna. Öxulveldi hins illa voru Ítalía, Þýskaland og Japan í seinni heimsstyrjöld.
Menntaelítan í Evrópu hló, ástæðurnar voru augljósar:
Afstæðishyggjan sem hefur verið ráðandi í Evrópskri heimspeki hefur ráðist svo mikið gegn góðu og illu að menntað fólk í Evrópu lítur ekki lengur á heiminn með þessum augum. (Sama gildir eflaust um menntaelítuna í BNA).
Hvað er gott og illt? Ef við fáumst til þess yfir höfuð að skilgreina eitthvað sem illt þá lítum við yfirleitt á það sem afleiðingu aðstæðna en ekki meðfæddan eiginleika. Það er afar algengt að við reynum að sjá hluti frá sjónarhóli hryðjuverkamannnana.
Eftir 11. Sept hefur skiptingin þó einungis stigmagnast. Stjórn Bush hefur reynt að tvískipta heiminum í vini og óvini. Þar hafa vinstrisinnar lent í klemmu. Þeir eru jafnvel enn meira hrakyrtir heldur en sjálf hryðjuverkaógnin fyrir það að vera svo ill skilgreinanlegir. Þeir eru jú BNA menn og Evrópubúar en þeir eru samt ekki hluti af hinu staðfasta liði.
Ég tel að svart-hvíta heimsmyndin sé að fá byr undir báða vængi. Gráa heimsmyndin, sem boðaði fjölmenningarhyggju, samningaleiðir og málamiðlanir, verður annað hvort að endurfæðast eða deyja. Það er ekki pláss fyrir hana í suðupottinum.
Öfgamennirnir heima hjá okkur, og í miðausturlöndum hafa alltaf viljað berjast. Þeir umbera ekki aðrar hugmyndafræði og verða því að sigrast á henni. Stuðningur þeirra fór þverrandi og það munaði litlu að Bush tapaði forsetastólnum. Núna hafa aldrei jafn margir verið stríðsæstir.
Og nú er ég að fara að koma að meginmáli greinarinnar ;)
Innrás inn í Íran? Er það möguleiki? Það liggja eflaust drög að innrásar áætluninni fyrir. Nú hljóta hægri menn í BNA að spyrja sig hvort að þeir muni nokkurn tímann hafa svona gott tækifæri. Spennan milli Ísrael og Íran eykst einungis, af einhverjum völdum er fólk farið að velta meira fyrir sér myndasögum heldur en umræðunni um kjarnorku.
Að mínu mati eru kröfurnar um að Íranir leggi kjarnorkuáætlanir til hliðar fremur ósanngjarnar. Íranir þurfa orkuna til þess að geta iðnvæðst meir og haldið áfram þróuninni í landinu. Þeir hafa opnað land sitt fyrir meiri verslun og Kínverjar hafa fjárfest mikið í landinu.
Þeir gætu brennt olíu og kol til að reka iðnaðinn, en það vill svo til að það er líka alþjóðleg pressa gegn slíkri orkuöflun. Fyrir utan það að það er heldur ekki skynsamlegt að láta eina olíuríkustu þjóð heimsins byrja að brenna olíu til að drífa áfram einn örasta hagvöxt í heimi.
Ofan á þetta bætist svo við að við höfum þegar múslimska einræðisherra með kjarnorkuvopn. Einn slíkur býr í Pakistan og er bandamaður BNA.
Það er ómögulegt að Íranir leggi niður kjarnorkuáætlanir sínar. En er það ekki líka ómögulegt að Bush stjórnin láti undan. Hún hefur sett skýrt fram í fortíðinni að það sé ekki hennar starfsmáti og Bush myndi bíða mikinn álitshnekki ef hann leyfði þeim að komast upp með það.
Hvaða áhrif myndi svo Ísraelsk loftárás á slíkt ver svo hafa er engin leið að segja.