Arab-Ísraelsku stríðin - Yfirlit Hér kemur yfirlit yfir Arab-Ísraelsku stríðin. Ég hef þegar birt hér grein um forsöguna, og stefni að því að verða síðan með ítarlegar greinar um hvert þessara stríða. Það verður þó eins og áður sagði langtímaverkefni, ég mun örugglega skrifa um önnur efni inn á milli. En hér er semsagt saga hinna fjögurra stríða Araba og Ísraelsmanna rakin í stuttu máli.

ATH: Jafnvel nöfn stríðanna eru umdeild, en ég hef kosið þann kostinn að nota þau best þekktu, sem líka eru þau sem Ísraelsmenn sjálfir nota. Önnur minna þekkt nöfn sem Arabar nota oftast, hef ég innan sviga. Með þessu er ég ekki að taka neinn málstað, aðeins að nota best þekktu (og óneitanlega best hljómandi) nöfnin.



Forsagan

Með upphafi Zíonista-hreyfingarinnar á 19. öld fluttust Gyðingar til Palestínu í sívaxandi mæli. Þeim fór fljótlega að lenda saman við Araba sem þar voru fyrir, og yfirvöld – ekki síst eftir að Palestína komst undir yfirráð Breta eftir Fyrri heimsstyrjöld.

Eftir Seinni heimsstyrjöld fóru Bretar að skera niður veldi sitt, og Palestína var löngu orðið vandræðaland sem þeir vildu fyrir alla muni losna við. Þar ríkti blóðugt borgarastríð milli Araba og Gyðinga, sem breski herinn náðin enganveginn að hafa hemil á. Landið var sett undir stjórn SÞ, sem fékk heldur ekki neitt ráðið við ástandið, þrátt fyrir fjölmargar tilraunir til að skipta landinu friðsamlega upp á milli Araba og Gyðinga.


I. Sjálfstæðisstríð Ísraels, 1948

Um leið og Bretar drógu sig útúr Palestínu stofnuðu Palestínugyðingar Ísraelsríki, sem fékk fljótlega alþjóðlega viðurkenningu. Hin arabísku nágrannalönd gerðu öll innrás til stuðnings Palestínuaröbum, en höfðu stórlega ofmetið eigin herstyrk, sem var að mestu hersveitir þjálfaðar sem “aðstoðarlið” breskra eða franskra herja í Seinni heimsstyrjöld. Og ekki síður höfðu þeir vanmetið bardagaþrek, útsjónasemi og stundum grimmd Palestínugyðinga, sem nú kölluðust Ísraelsmenn.

Þetta stríð var fremur “frumstætt”, háð með öllum tiltækum vopnum, mest afgangi úr Seinni heimsstyrjöld, af fremur óformlegum herjum. Eftir mikil hermdarverk á báða bóga og harða bardaga þar sem Arabar fóru fremur halloka, var samið um vopnahlé, og fyrstu “bláhjálma” friðargæslusveitir SÞ tóku sér stöður á umsömdum landamærum. En hvorki þegnar hins nýja Ísraelsríkis né nágrannalanda þess litu á þetta sem útkljáð átök. Það var aðeins tímaspursmál um hvenær til uppgjörs kæmi.


II. Súez-stríðið, 1956
(einnig stundum nefnt “Súez-deilan”)

Árið 1952 bylti herforingjaklíka undir forystu Gamal Abdel Nassers egypsku konungsfjölskyldunni, sem verið hafði höll undir Vesturlönd. Nasser hóf þegar miklar þjóðfélagsumbætur innanlands, og boðaði að allar auðlindir landsins sem áður höfðu verið í eigu erlendra aðila, skyldu þjóðnýttar. Meðal þeirra helstu var Súez-skurðurinn, gríðar-mikilvæg alþjóðleg samgönguæð sem Bretar og Frakkar höfðu grafið á 19. öld, og haft eignarhald á æ síðan.

Nasser stóð við orð sín, þjóðnýtti skurðinn og lokaði honum jafnframt fyrir siglingum Ísraels, með digurbarkalegum hótunum í garð þess lands, enda höfðu samskipti landanna síst batnað frá vopnahléinu 1948. Í þessari deilu voru þó Ísraelsmenn aukaatriði í huga Nassers, því Bretar og Frakkar brugðust ókvæða við þessum “þjófnaði” hans á skurðinum. Þeir hófu undirbúning að hernaðaraðgerðum, auk þess sem heimafyrir var (með fremur slökum árangri) reynt að gera Nasser að “arabískum Hitler” í augum almennings.

Þó hvorki Bretum né Frökkum væri á þessum tímapunkti neitt sérlega hlýtt til Ísraels, sáu þeir þó í því mjög hentugan bandamann í fyrirhuguðum aðgerðum sínum. Þegar gömlu nýlenduveldin hófu árásir úr lofti, á láði og af legi á Egypta, sendu Ísraelsmenn einnig her sinn, sem nú var orðinn vel þjálfaður og vopnaður, inn á hinn fornfræga Sínaí-skaga, og náðu honum öllum undir sig.

Í raun höfðu Egyptar beðið hernaðarlegan ósigur, en Nasser var naskur og hafði í raun aldrei átt von á öðru. Hann vissi sem var, að þessi bresk-franski hernaðarleiðangur var hvorki vinsæll hjá almenningi heimafyrir, né – það sem mestu máli skipti – hjá nýju valdhöfunum í alþjóðastjórnmálum, Bandaríkjunum og Sovétríkjunum (sem seint urðu þó á þeim tíma kallaðir vinir!) Bæði risaveldin fordæmdu aðgerðirnar, hvort á sínum forsendum, og í SÞ fengu öll þrjú löndin - Bretland, Frakkland og Ísrael - niðurlægjandi hirtingu. Þau neyddust til að draga lið sitt frá Egyptalandi, þar með talið Súez-skurði, og þótti Nasser standa eftir með pálmann í höndunum.

Þessi diplómatíski stórsigur jók mjög hróður Egyptalands og Nassers forseta. Hann vann áfram að því hörðum höndum að nútímavæða land sitt, og styrkja hugsjón sína um að sameina allan Arabaheiminn í öflugt sambandsríki, en í því náði hann tímabundnum árangri sem virtist lofa góðu. Þó hann væri fremur hallur undir Sovétríkin, reyndi hann að halda hlutleysi og góðum samskiptum við bæði risaveldin, og þótti glúrinn í að kría út ýmsa efnahags- og hernaðaraðstoð við land sitt. En aðal þyrnirinn í augum hans var, og myndi alltaf verða, Ísrael.


III. Sex daga stríðið, 1967
(einnig nefnt “Júní-stríðið”)

Um miðjan sjöunda áratuginn þóttist Nasser nógu sterkur til að bjóða Ísrael byrginn varðandi ýmis hatrömm deilumál, og þar skyldi að sjálfsögðu líka notfæra sér hina rótgrónu og gagnkvæmu andúð. Hann rak “bláhjálmana” af ísraelsku landamærunum og lokaði hinni mikilvægu Akaba-höfn við Rauðahaf fyrir ísraelskum siglingum, jafnframt því sem hann opinberlega hótaði Ísrael gereyðingu. Óvíst er og mjög umdeilt, hvort hann hafi í raun ætlað í stríð eða hvort þetta var blekking til að fá Ísraela að samningaborði.

Í öllu falli ákváðu Ísraelsmenn að tefla ekki á tvær hættur. Undir stjórn hershöfðingja eins og Moshe Dayan og Itzhak Rabin, gerðu þeir einhverja best skipulögðu leiftur-loftárás hernaðarsögunnar á alla herflugvelli Egyptalands, Sýrlands, Jórdaníu og Íraks. Þannig náðu þeir strax algerum loftyfirráðum, sem þeir nýttu sér í svipað áhrifaríkri árás landhers síns. Án þess að Arabar fengju rönd við reist, náði Ísraelsher undir sig Sínaí-skaga og Gaza-strönd frá Egyptum, Vesturbakka Jórdan-ár og Austurhluta Jerúsalemborgar frá Jórdaníu, og Gólan-hæðum frá Sýrlandi.

Ísraelsmenn virtust óstöðvandi, og eftir sex daga var fyrir heimtingu SÞ samið vopnahlé. Ísraelsmenn virtu síðan að vettugi allar ályktanir SÞ um að skila herteknu svæðunum. Arabaríkin þurftu þarna að sæta einhverjum hlálegasta og mest niðurlægjandi ósigri sögunnar, og gætir áhrifanna enn í dag.

Frammistaða Ísraelsmanna kom heiminum verulega á óvart, og færði landinu í einu vetvangi mun sterkari stöðu í alþjóðasamfélaginu en það hafði áður notið. Mörg vesturlanda sem áður höfðu (af ótta við að styggja Araba um of), haldið að sér höndum varðandi stuðning við Ísrael, urðu nú óhræddari. Eins er talið að þessi sigur hafi aukið verulega á frekari flutninga erlendra Gyðinga til landsins, fólks sem áður hafði ýmist ekki leitt hugann mikið að Ísrael sem búsetukosti, eða verið efins um framtíð þess.


“Hálfleikur”: Hjaðningastríðið (War of Attrition), 1969-70

Eftir sigur sinn neitaði Ísrael að gefa eftir neitt af herteknum landsvæðum. Eins og í Gólan-hæðum (þar sem hann er enn), kom Ísraelski herinn sér rækilega fyrir á Sínaí-skaga, og hóf á austurbakka Súez-skurðar byggingu varnarvirkja sem saman kölluðust “Bar-Lev línan”. Þótt vopnahlé væri í gildi, gátu hinir niðurlægðu Egyptar með engu móti sætt sig við þetta framferði, sem ekki gaf til kynna að Ísraelsmenn ætluðu sér nokkurntíman að skila þeim Sínaí-skaga.

Egyptar hófu handahófskennda fallbyssuskothríð yfir skurðinn á ísraelsku varnarmannvirkin, án þess þó að ætla sér að fylgja henni eftir með árás á landi. Markmiðið var að valda Ísrael manntjóni, og vekja jafnframt athygli umheimsins á þessu óuppgerða deilumáli. Semsagt að gera Ísraelsmenn viðræðuhæfari.

Ísraelsmenn brugðust hinsvegar ekki við þessu með viðræðum, heldur loftárásum. Fyrst aðeins á skotstöðvar Egypta við skurðinn, en síðar á herflugvelli þeirra og önnur mannvirki í og við höfuðborgina Kaíró, og stundum langt suður í hinn mikla Nílar-dal. Þrátt fyrir talsverða rússneska hernaðaraðstoð, fóru Egyptar enn og aftur mjög halloka í þessum bardögum. Í ágúst 1970 var þeim aftur nauðugur einn sá kostur að fallast á vopnahlé í þessum takmörkuðu átökum. Skömmu síðar lést Nasser, og Anwar Al-Sadat tók við forsetaembætti.


IV. Yom Kippur stríðið, 1973
(einnig nefnt “Október-stríðið” eða “Ramadan stríðið”)

Niðurlæging Egypta var nú orðin algjör, en að sama skapi höfðu Ísraelsmenn nú fyllst mikilli oftrú á mætti sínum. Þeir sannfærðust um að þeir gætu hvar og hvenær sem væri tuskað tuskuhausana til ef með þyrfti, og sofnuðu á verðinum. Á næstu árum hóf Sadat Egyptalandsforseti varlegar þreifingar um friðsamlega lausn mála, en var jafn skjótt hafnað af kokhraustum Ísraelsmönnum.

Sadat og aðrir Arabaleiðtogar sáu því enga aðra leið til að endurheimta bæði herteknu svæðin og heiður sinn, en að hefja undirbúning annarar allsherjar styrjaldar gegn Ísrael. Og nú skyldu Ísraelsmenn fá að bragða á eigin meðulum. Sóknarundirbúningur fór fram með mikilli leynd, og árásin skyldi hefjast á hátíðisdegi Gyðinga, Yom Kippur, sem er almennur afslöppunar-frídagur í Ísrael.

Á þeim degi hófst vel skipulögð leiftur-árás Egypta og Sýrlendinga á Ísrael. Tókst þeim að koma gersamlega á óvart, og guldu Ísraelsmenn mikið afhroð. Fyrstu dagana leit út fyrir að Aröbum myndi takast ætlunarverk sitt, að endurheimta herteknu svæðin og knýja Ísraela að samningaborði á sínum forsendum. (Þrátt fyrir áróður þar að lútandi, hefur aldrei sannast að þeir hafi ætlað sér meira, enda vissu þeir af kjarnorkuvopnum Ísraela).

En Ísraelsmenn tóku sig fljótt saman í andlitinu og hófu gagnsókn. Fyrst gegn Sýrlendingum í Gólan-hæðum, og þegar tekist hafði að stöðva þá, gegn Egyptum á Sínaí-skaga. Urðu þarna mestu loftbardagar og skriðdrekaorrustur heims síðan í Seinni heimsstyrjöld, og enn og aftur fór stríðsgæfan smám saman að snúast Ísrael í vil.

Einn af þeim sem hvað mesta frægð hlutu fyrir frammistöðu sína í stríðinu var hershöfðinginn Ariel Sharon (sem við þekkjum víst enn í dag). Tókst honum að brjótast með öflugt lið gegnum víglínu Egypta á Sínaí-skaga og flytja það yfir skurðinn, þaðan sem Egyptar voru að sjálfsögðu nánast allir farnir á vígstöðvarnar að baki því. Það þýddi að nú hafði eignarhald skurð-bakkanna snúist við: Sharon og herlið hans réð nú bakkanum Egyptalandsmegin; Kaíró lá nánast varnarlaus framundan, en mestu skipti að Sínaí-skagi var að verða að risavaxinni dauðagildru fyrir aðal-lið Egypta!

Þegar hér var komið sögu var alþjóðasamfélagið verulega farið að ókyrrast. Risaveldin höfðu bæði fylgst grannt með gangi mála og stutt “sína menn” með vopnasendingum. Bein íhlutun þeirra var hugsanleg hefði stríðið haldið áfram, og hefði þá jafnvel öll heimsbyggðin getað lent í slæmum málum. Enn einu sinni var þvingað fram vopnahlé í Öryggisráði SÞ. Ísrael dró lið sitt aftur yfir skurðinn, en hélt herteknu svæðunum.

Þetta stríð varð hið síðasta og mesta af Arab-Ísraelsku stríðunum, þó Sex daga stríðið sé líklega frægara. Yom Kippur stríðið var stoppað af áður en Arabaríkin (sérstaklega Egyptaland) hefðu þurft að þola algeran ósigur einu sinni enn - eða það sem verra var, að stríðið hefði leitt til enn víðtækari átaka á alþjóðavísu.


Eftirmálar

Þó Yom Kippur stríðið hafi verið stöðvað með stöðuna Ísrael í vil, hafði landið vaknað upp við vondan draum. Ísraelsmenn höfðu um tíma óttast ósigur, og goldið mun meira manntjón en í fyrri stríðunum. Aðeins með gífurlegu þjóðarátaki og mikilli aðstoð Bandaríkjanna hafði þeim tekist að snúa stöðunni. Þeir sofnuðu ekki aftur á verðinum eftir þetta, en létu jafnframt af oflátungshætti sínum gagnvart óvinunum. Þegar Sadat hóf nokkrum árum síðar aftur að friðmælast við þá, hlustuðu þeir þó allavega.

Fyrir sína parta var Aröbum létt að þurfa ekki aftur að sæta algerum ósigri. Þó litlu munaði að illa hefði farið, hafði þeim þó loks tekist að hrista rækilega upp í hinum sjálfumglöðu óvinum sínum. Niðurlægingu Sex daga stríðsins hafði í það minnsta verið svarað, þó ekki væri full-hefnt. Arabar voru nú einnig farnir að nýta sér efnahagsvopnið; í kjölfar stríðsins hófu þeir refsiaðgerðir gegn Vesturlöndum í krafti kverkataks síns á alþjóðlegum olíumarkaði, og átti það eftir að hafa víðtækar og langvarandi afleiðingar á efnahag heimsins.

Mikilvægast var þó að bæði Ísraelsmenn og Egyptar (þó ekki væru það fleiri Arabaríki) sáu að við þetta varanlega stríðsástand varð ekki lengur búið. Friðarumleitanir hófust, sem loks leiddu til Camp David friðarsamkomulagsins árið 1979, sem fól í sér brotthvarf Ísraels frá Sínaí-skaga og stjórnmálasambands landanna.

Án Egyptalands var botninum kippt undan öllum frekari sam-arabískum hefðbundnum hernaðaraðgerðum gegn Ísrael. Þó enn í dag logi svæðið meira eða minna í átökum, hafa allsherjar styrjaldir Ísraels og nágrannalanda ekki orðið fleiri.



Varðandi hinar eiginlegu stríðs-greinar, mun ég að öllum líkindum fara að dæmi George Lucas og byrja á fjórða kafla, í þessu tilfelli Yom Kippur stríðinu. Einhverjar vikur eru þó enn í að sú grein birtist.
_______________________