Á öldinni sem leið háðu Ísrael og arabísk nágrannalönd þess fjórar allsherjar styrjaldir. Á þessu ári hef ég í hyggju að skrifa greinar um þær, og er það ætlun mín að koma með grein um hverja þeirra. Þetta er efni sem ég sem ég tel að allt of fáir viti nógu mikið um – Og það jafnvel þó málefni Ísraels og Palestínu séu enn í fréttum nánast daglega.
Ég vil líka taka það mjög sterkt fram strax í upphafi, að hér ekki er ætlunin að reka áróður fyrir einum eða neinum málstað. Hið eina sem “mótiverar” þessi skrif, er áhugi fyrir sögu þessa heimshluta. Að því sögðu kemur hér inngangurinn í greinaflokkinn:
Upphafið
Gyðingar hófu flutninga til Palestínu strax á ofanverðri 19. öld. Svokallaðir Zíonistar, undir forystu austurríska Gyðingsins Theodor Herzl, hvöttu Gyðinga hvaðanæva úr Evrópu til að flytjast til “gamla landsins” sem þeir litu á sem hin einu réttu heimkynni “Gyðingaþjóðarinnar”.
Gyðingahatur var landlægt víða í Evrópu, sérstaklega í Mið-Evrópu og Rússlandi, þar sem almenningur lét oft reiði sína yfir ýmsum þjóðfélagsmeinum bitna á þeim. Með vaxandi ofsóknum varð það sífellt algengara að Gyðingar flýðu þessi lönd. Hjá flestum lá leiðin yfir Atlantshafið til Bandaríkjanna, en margir létu þó heillast af áróðri Zíonista og ákváðu að hefja nýtt líf í Palestínu, “Landinu helga”.
Í fyrstu var þessum nýju landnemum yfirleitt vel tekið, enda Gyðingar blóðskyldir Aröbum, og gestrisni rótgróin í hinn arabíska hugsunarhátt. Gyðingarnir fluttu með sér nýja menningu og verktækni sem þeir höfðu tileinkað sér í Evrópu gegnum aldirnar, og þótti jafnvel mörgum Palestínuaröbum nokkur fengur að fá þá meðal sín.
Fljótlega fóru þó tvær grímur að renna á heimamenn. Landnemunum fjölgaði sífellt, þeir urðu urðu frekari á gæði landsins, hundsuðu stjórnvöld þess, og fóru að líta á sig sem yfir hina “frumstæðu” Palestínuaraba hafna. Róstur og ýmis ofbeldisverk urðu sífellt algengari.
Palestína hafði frá alda öðli verið undir stjórn hins gríðarlega Ottóman-veldis Tyrkja, en við hrun þess eftir Fyrri heimsstyrjöld varð landið svokallað “verndarríki” (mandate) Breta, að nafninu til í umboði Þjóðabandalagsins. Breskur her kom til landsins, og leit í fyrstu á það sem hvert annað Arabaland, Bretar áttu ekki von á að hinn smái Gyðinga-minnihluti þess myndi leiða til neinna stórvandræða. En í raun voru þeir þarna komnir með stórvandamál uppí hendurnar, og að miklu leyti sjálfskapað.
Bretar höfðu vægast sagt leikið tveimur skjöldum við stríðsrekstur sinn í Miðausturlöndum. Annarsvegar höfðu þeir í öllum sínum málflutningi lofað Aröbum sjálfstæði gegn stuðningi þeirra við að ráða niðurlögum Tyrkjaveldis á svæðinu (og þar kemur hinn goðsagnakenndi “Arabíu-Lawrence” mjög við sögu). Hinsvegar höfðu þeir einnig nánast lofað Zíonistum að þeir fengju Palestínu í sinn hlut fyrir stuðning ýmissa málsmetandi Gyðinga við stríðsrekstur sinn, og hafði það verið staðfest skriflega með hinni alræmdu Balfour-yfirlýsingu.
Í stuttu máli sagt stóðu Bretar við hvorugt þessara loforða. Arabaríki voru að vísu sett á stofn, en höfðu í besta falli málamynda-sjálfstæði, löndin voru lítið annað en olíulindir Breska heimsveldisins og stjórnvöld þeirra gerspilltir leppar. Og ekki var Palestína heldur gerð að “Heimalandi Gyðinga”, þvert á móti var frekari innflutningur Gyðinga til landsins nánast bannaður. Margar ljótar sögur eru til frá millistríðsárunum, um að þegar Gyðingar á flótta undan ofsóknum Hitlers reyndu að sigla til Palestínu, var þeim með fullri hörku snúið við af breskum herskipum. Engu að síður tókst nokkrum þúsundum Gyðinga að smygla sér til landsins. Þegar þangað var komið nutu þeir öflugrar verndar Gyðinga sem fyrir voru…
Palestínugyðingar höfðu að vonum brugðist ókvæða við þessum svikum Breta við sig. Þeir gripu til vopna í skæruhernaði gegn breska hernámsliðinu, og einnig gegn Aröbum. Gyðingar skipulögðu einskonar heimavarnarlið sem nefndist “Haganah”. Það var mjög fjölmennt en jafnframt fremur óformlegt lið, þar sem jafnvel haglabyssur bænda töldust gildandi vopn. Í fyrstu var þetta helst í ætt við frönsku andpyrnuna, en eftir því sem á leið varð Haganah mjög öflugur “borgaraher” sem lagði grunnin að hinum formlega her Ísraelsríkis.
“Irgun” var síðan fámennara, skipulagðara og harðsnúnara lið. Þeir stunduðu sprengjutilræði, mannrán og launmorð, bæði gegn breska hernámsliðinu og arabískum almenningi. Í dag myndu þeir flokkast sem ósvikin hryðjuverkasamtök. Meðal frægra manna sem voru í þessum samtökum má nefna Menachem Begin, sem síðar varð forsætisráðherra Ísraels.
Þótt undarlegt megi virðast, studdu fæstir Palestínugyðingar málstað Breta í baráttunni gegn Hitler í Seinni heimsstyrjöld. Þeir féllust aðeins á vopnahlé, að halda að sér höndum meðan á stríðinu stæði. Hinir öfgafyllstu, t.d. hið alræmda “Stern-gengi” (sem nánar verður fjallað um síðar) héldu áfram hermdarverkum sínum gegn Bretum allt stríðið.
Þegar Seinni heimsstyrjöld lauk fóru eftirlifendur Helfarararinnar í Evrópu í örvæntingu að leita sér að nýjum heimkynnum. Eins og áður héldu margir þeirra til Bandaríkjanna, en nú bar svo við að álíka margir sóttust eftir heimkynnum í Palestínu. Margir Gyðingar voru sannfærðir um að tími væri til kominn að þeir hættu að “búa inná öðrum” þó það væri í Bandaríkjunum, og eignuðust sitt eigið heimaland til frambúðar. Straumur Gyðinga til Palestínu varð að flóðbylgju.
Í Palestínu sátu Bretar hinsvegar fastir við sinn keip. Landið logaði í ófriði á milli Gyðinga og Araba, og hernámsliðið lá undir árásum frá báðum aðilum. Flutningar Gyðinga til landsins voru algerlega bannaðir, og tilraunum til slíks var mætt af jafnvel enn meiri hörku en fyrir stríð. Og að sjálfsögðu gripu Gyðingar aftur til vopna af fullum krafti.
Í Palestínu ríkti nú hrein borgarastyrjöld milli Araba og hinna sí-fjölgandi Gyðinga. Breska hernámsliðið reyndi af veikum mætti að halda uppi lögum og reglu. En Arabar litu á það sem aðskotahlut, og Gyðingar töldu það sinn helsta fjandmann. Í júlí 1946 kom loks dropinn sem fyllti mælinn hjá Bretum, sprengjutilræði Irgun-skæruliða Gyðinga á King David hótelinu í Jerúsalem, þar sem hernámsliðið var með skrifstofur. Helmingur byggingarinnar hrundi, og 91 manns létu lífið.
Á þessum tíma mátti Bretland sannarlega muna sinn fífil fegurri. Landið var nánast á vonarvöl eftir gríðarlegar fórnir stríðsins, og þurfti að reiða sig á Bandaríkin um efnahagsstuðning. 1947 missti Heimsveldið sitt “krúnudjásn” þegar Indland fékk loks sjálfstæði, og eftir það varð ekki aftur snúið.
Að breskir drengir væru nú – rétt eftir hörmungar heimsstyrjaldarinnar - að deyja unnvörpum í skothríð milli Araba og Gyðinga í Palestínu, landi sem aldrei hafði hvort eð er verið eitt af merkilegri löndum Heimsveldisins, náði ekki nokkurri átt í augum almennings. Breska ríkisstjórnin ákvað að þvo hendur sínar af þessu máli og kalla allan her sinn heim eins fljótt og hægt var. Úrlausn Palestínu-málsins var sett í hendur hinna nýstofnuðu samtaka, Sameinuðu þjóðanna.
Í ársbyrjun 1948 var svosem lítil óvissa um stöðu mála í Palestínu: Bretar voru á förum, og við brottför þeirra yrði enginn til að skilja stríðandi aðila í sundur. Gyðingar ætluðu sér að vera um kyrrt í Palestínu og gera sinn langþráða draum um heimalandið “Zíon” að veruleika. Arabar í Palestínu og nágrannalöndunum ætluðu sér að losa sig við þetta aðskotapakk í eitt skipti fyrir öll. Mikil átök voru yfirvofandi, og alls óvíst hvernig staðan yrði að ári. Brátt myndi hið fornkveðna sannast, að frændur væru frændum verstir.
ATH: Þessi greinaflokkur minn mun ekki verða skrifaður í réttri tímaröð, og líklega mun stundum líða langur tími á milli innleggja í greinarflokkinn, þegar ég vil hvíla mig á efninu og skrifa um eitthvað annað.
Áður en ég kem með hina fyrstu eiginlegu stríðs-grein, mun ég næst verða með stutt yfirlit á þessum stríðum, þar sem farið verður mjög stuttlega yfir helstu atburði frá 1948-1973 svo betri yfirsýn fáist á heildarmyndina.
_______________________