Kosningabaráttan 1932 var einkennileg strategía. Það sem helst var kvartað yfir í sambandi við Franklin var skortur á stefnumálum, og vissulega er ýmislegt til í þessari gagnrýni. Þetta var meðvitaður skortur.
Roosevelt ferðaðist mikið um og hélt ræður til að sýna fram á að hann væri kraftmikill þrátt fyrir að hann væri lamaður í fótleggjunum. En mikið meira var ekki gert. Hann gagnrýndi Hoover forseta og lofaði betri tímum, en hann gerði ekkert meira.
Ástæðan var sú að Hoover var svo óvinsæll nú þegar að Demókratar voru með öruggan sigur í hendi sér. Það eina sem þeir þyrftu að tryggja var að engin þeirra myndi tala af sér og koma af stað skandal. Þeir héldu athyglinni allan tímann á klúðri Repúblikana og töluðu ekkert um sín eigin stefnumál. Franklin flaug bara um og hamraði á að hann byði BNA nýjum samningi. (“new deal”). Hann fór ekkert út í innihald hans.
Þegar ég skoðaði kosningatölurnar frá þessum kosningum rak ég mig í þá fyndnu staðreynd að sósíalistar fengu 2.2 prósent atkvæða í BNA.
“the new deal” er athyglisvert fyrirbrigði. Oft er rætt um hann sem einhvern tiltekinn hlut, en jafnvel eftir að hann hafði verið í gangi í heilan áratug játuðu hátt settir opinberir starfsmenn að þeir vissu ekki út á hvað hann gekk. Roosevelt var ekki mjög fastur í ákveðnum hugmyndafræðum, hann var oft á tíðum stefnulaus, sumstaðar beitti hann sér fyrir afar hægrisinnuðum úrlausnum og annars staðar vinstri sinnuðum. “The new deal” hefur verið skipt af sagnfræðingum upp í þann fyrri og þann seinni af sagnfræðingum sem reynt hafa að flokka hann. En í raun virðist hann bara hafa verið slagorð.
Svo mikið er víst að Roosevelt þáði ráðgjöf frá John Maynard Keynes í efnahagsmálum. Hann vildi meina að kenningar Adam Smiths og lærisveina hans stæðust ekki í nútíma ástandi af því að þegar Adam Smith var uppi þá voru engin verkalýðsfélög.
Skoðum í einfaldri mynd samanburð á þeim tveim:
Adam Smith segir að þegar efnahagur dregst saman og atvinnuleysi eykst þá er það af því að hlutir eru of dýrir til að fólk geti keypt þá. Færri og færri geta keypt hlutina og þeim mun færri sem kaupa þá, þeim mun fleiri verða atvinnulausir. Því þeir sem áður unnu við að framleiða urðu atvinnulausir.
Samkvæmt Smith leysist þetta af því að um leið og fullt af fólki er atvinnulaust þá lækka launin á markaðinum. Þegar það kostar minna að hafa fólk í vinnu þá verður ódýrara að framleiða hluti. Þá geta fleiri keypt þá. Þegar fleiri geta keypt hlutina verða til fleiri störf og þegar loksins allir eru komnir í vinnu og skortur er á fólki, byrja launin að hækka.
Þetta segir Keynes að gangi ekki upp. Af því að í nútímanum leyfi verkalýðsfélög ekki að laun lækki og þess vegna náist þetta jafnvægi ekki. Hann sagði því að ríkið þyrfti að koma inn í hlutina með því að dæla fjármagni út í atvinnulífið. Þess vegna ráðlagði hann Roosevelt að eyða peningum eins og það væri engin kreppa.
Roosevelt var ekki alveg sannfærður og notaðist ekki við þessi ráð að fullu. Hann beitti þeim þó varfærnislega og það gerði að verkum að efnahagslífið byrjaði að ná einhverjum bótum. Sumir segja að ef hann hefði hlýtt ráðum Keynes þá hefði hann kannski ráðið bót á kreppunni fyrr. En það er ekki hægt að sanna enda er þetta hagfræði, ósannanleg vísindagrein.
Keynes spáði því reyndar einnig þegar hann var að fylgjast með Versalasamningnum að hann myndi ekki leiða til friðar heldur myndi hann leiða til þess að Þjóðverjar færu í stríð um leið og þær gætu. Árið 1933 ári eftir að Roosevelt varð forseti náði Hitler völdum.
Fasismi var á fleygiferð í heiminum. Japönsk heimsvaldastefna var að aukast, nasisminn náði tökum á Þýskalandi og fasistastjórnir risu upp á Spáni og annars staðar í Evrópu. En sjálfur átti Roosevelt eftir að eiga í vök að verjast í næstu kosningum, þegar fasisminn fór að láta kræla á sér í BNA.
Meira um það í næstu grein.