Ég ætla að henda inn annarri skólaritgerð. Þetta er reyndar bara brot úr henni. Í henni fjallaði ég um spunaspil, og velti fyrir mér því fyrirbrigði sem leikrænum viðburði. Hugsa að ég fleygji bara inn þeim hluta sem tengist sagnfræðinni:

Saga spunaspils, á Íslandi og erlendis


Upphaf spunaspilsins

Spunaspilarar fundu ekki upp hugtakið „role-play” það var til löngu áður en að þetta varð að regluföstum leik. Að sjálfsögðu hefur hlutverkaleikurinn verið til í einhverju formi allt frá því mennirnir urðu til og jafnvel lengur. Það er í eðli mannsins að bregða sér í fótspor einhvers annars og látast vera hann. Hver man ekki eftir leikjum í barnæsku þegar fólk þóttist vera kúrekar, indíánar, lögreglur, bófar, ævintýramenn, sjóræningjar, mæður og svo framvegis. Svoleiðis hlutverkaleikir eru mikilvægir þroskaleikir. Hlutverkaleikurinn hefur alltaf verið til, spunaspilið ekki.
Í bókinni Simulation in the classform skilgreinir John Taylor hlutverkaleikinn:

„Role-play relies on the spontaneous performance of participants, when they have been placed in an hypothetical situation.”

Þessi bók er skrifuð áður en sjálft spunaspilið verður til. Það er ekki oft að íslenska tungan hefur yfirburði yfir þá ensku í hugtakalegum skilningi, en það er ánægjulegt að hugsa til þess að við höfum orð sem aðskilja leikin „role-play” frá fyrirbærinu „role-play.”
Spunaspilið á upphaf sitt að rekja til svokallaðra stríðsleikja. Stríðsleikir hafa verið til í langan tíma. Skák til dæmis byrjar sem nokkurs konar spunaspil. Upphaflega var það ætlað sem þjálfun fyrir upprennandi hershöfðingja í Indlandi til forna. Hershöfðinginn var það sem konungurinn er í dag, nemandinn átti að ímynda sér að þetta væri herinn hans, peðin fórnanlegt lágstéttar fótgöngulið og hinar persónurnar aðrir aðilar í hernum. Það er mjög lýsandi fyrir mannlegt eðli, að innan skamms tók leikurinn sjálfur að snúast algjörlega um að bjarga eigin skinni. Það er að segja hindra lát konungsins, en upphaflega hefur leikurinn líklega snúist um að sigra andstæðinginn algjörlega. En sökum þess sennilega hversu mikið hinir upphaflegu nemendur lifðu sig inn í hlutverkin þá breyttist spilið.
Skákin er afar fjarlægur forfaðir spunaspilsins og þróunarferlið langt. Við sjáum fyrst þróun í átt að spunaspili eiga sér stað, þegar í byrjun nítjándu aldar þegar skákin fær aftur sitt upprunalega hlutverk. Þó í svo endurbættri mynd að það verður til nýr leikur sem er kallaður stríðs skák. Hann er ætlaður til þess að þjálfa unga ofursta í að skapa herkænskubrögð. Sagan endurtekur sig, en færist þó áfram um eitt skref. Innan skamms er orðið til spilið Krieg Spiel sem Prússar nota til að þjálfa hermenn sína. Þar er notast við teninga til þess að skapa tilviljanir eins og í raunverulegu stríði. Litlir tindátahermenn eru notaðir til að setja á svið heilu orusturnar og það er reynt að búa til eins nákvæma eftirlíkingu af raunveruleikanum og hægt er. Þetta er svokallaður eftirlíkingaleikur. Eins og við er að búast þá geta Bretar ekki sætt sig við að Þjóðverjar þjóti fram úr þeim í herkænsku og innan skamms er orðin til ensk útgáfa af stríðsleiknum.
Með tímanum breyddist stríðsleikurinn út og varð vinsæll meðal annars í Bandaríkjunum. Hann er til í fjölmörgum formum og gerðum, en ein mikilvæg tilraun til þess að þróa hann áfram leiðir til upphafs spunaspilsins.
Dave Wesley, var stríðsleikja áhugamaður og partur af stórum stríðsleikjaklúbbi í Minneapolis. Hann fékk árið 1968 gríðarlegan áhuga á fjölspilunarleikjum og fékk róttæka hugmynd. Í stað þess að staðsetja leikmenn beint á móti hvor öðrum með sitthvorn herinn, þá hafði hann nokkra leikmenn með sitthvort markmiðið. Sá sem fyrst næði sínu markmiði myndi vinna, og þar sem enginn hafði sama markmiðið þá var ekki víst að til átaka myndi koma . Leikmenn hittust yfir spilaborðinu með litlu módeli af ímynduðu þýsku þorpi sem hét Braunstein. En Wesley til mikils ama og undrunar hegðuðu leikmenn sér fáránlega. Þeir mynduðu bandalög, sviku hvorn annan, lugu, gerðu samninga og nýttu sér alla möguleika. Wesley leit á þetta sem mistök og hætti tilrauninni.
En þótt að Wesley hafi leiðst þetta þá virtust hinir spilararnir hafa haft gaman af þessu. Einn af þátttakendum tilraunarinnar, Dave Arneson af ákvað að halda áfram þessari tilraun. Það skipti miklu máli fyrir fyrstu ár spunaspilsins að Arneson hafði mikinn áhuga á fantasíu, Tolkien og miðöldum. Í stað þess að láta fólk stýra hersveitum þá lét Arneson sína spilara hver og einn fá einn tindáta til að nýta sér. Hann bjó til stríðsleik sem byggðist á fantasíu heimi Tolkiens þar sem galdrar, álfar, dvergar og tröll voru til. Árið 1971 kynnti hann þessar nýjungar fyrir spilaklúbbi sínum.
Einn maður í spilaklúbbnum fékk mikinn áhuga á þessu, nafn hans var Gary Gygax og hann hafði sjálfur á þessum tímapunkti þegar gefið út spil . Þegar þeir tveir byrjuðu að vinna saman komust þeir fljótt, að í rauninni var enginn ástæða til þess að binda spilið við eina orustu eða atburð. Þeir byrjuðu að þróa með sér spil sem fór í gegnum margvíslegar breytingar yfir þriggja ára skeið. En árið 1974 kemur fyrsta spunaspilið fram, D&D.
Það byltingarkennda sem Gygax og Arneson setja inn, er bæði það að leikurinn á sér stað í ímynduðum heimi þar sem spilarar geta hagað lögmálum eins og þeim hentar. Einnig býðst möguleiki ekki bara á því að keppa innbyrðis heldur líka vinna saman. En til þess að þeir geti það þá þarf einn þeirra að stíga út úr spilara hlutverkinu og gerast stjórnandi. Hlutverk hans verður að gefa þeim verkefni til að leysa, persónur til að eiga í samskiptum við og andstæðinga. Þannig verður í fyrsta sinn til spil sem beinist meira í áttina að því að vera list fremur en íþrótt.


Íslensk spunaspils menning

Það má segja að mikil fábreytni ríki í spunaspilun á Íslandi miðað við önnur lönd á borð við Bandaríkin. Engar stórar ráðstefnur eru haldnar af áhugamönnum, engin íslensk fyrirtæki sérhæfa sig í spunaspilsvörum (Nexus er ekki tekið inn í reikninginn sökum þess að búðin er einnig vídeó leiga og myndasögubúð) og spunaspilarar eru yfirleitt dæmdir sem vonlausir nerðir sem illa gengur við að láta sér lynda saman við annað fólk.
Spunaspil berst hingað til lands í upphafi níunda áratugarins. Gísli Einarsson sem rekur Nexus einu spunaspils búð Íslands minnist á það í viðtali sem ég tók við hann, að hann hafi fyrst orðið var við spunaspil árið 1981. Hann segir að spunaspil hafi orðið vinsælt á Íslandi á miðjum níunda áratugnum og minnist á tvo þætti sem gerðu spunaspili kleyft að öðlast þær vinsældir.
Einhverjir Íslendingar lærðu spunaspil af bandarískum hermönnum á Keflavíkurvelli og ráku fyrsta spunaspils félagið Einherjar. Þeir voru með auglýsingar eftir spilurum í Eymundsson sem fór að selja spunaspils vörur upp úr 1983.
Annar þáttur í dreifingu spunaspils á Íslandi voru enskutímar þjóðfræðingsins Terry Gunnel í MH sem hófust árið 1983. Í upphafi áttu þetta að vera þjálfunartímar í notkun ensku sem talmáls. Til þess að hvetja fólk til að tala voru spiluð spil á borð við Matador þar sem samskipti voru nauðsynleg. Gunnel var mikill áhugamaður um Tolkien og fantasíu, svo þegar hann sá spil til sölu sem tengdist þeim málum ákvað hann að taka það til notkunar í tímunum. Spilið hann sá var „Advanced Dungeons and Dragons”. Fljótlega varð spilið svo vinsælt að nemendur fóru að gera kröfur um tíma bara um þetta spil.

„Ég gat nú ekki bara látið þá spila, það varð að vera eitthvað akademískt við það svo ég lét þá taka spilanirnar upp á segulband.”

Terry sá stundum um að vera stjórnandi og lagði áherslu á að spilanirnar snerust um meira heldur en bardaga. Einnig voru enskar fantasíu bókmenntir kenndar í þessum áfanga. Ég tel að þessir tímar hafi átt stóran þátt í að stuðla að útbreiðslu spunaspils og vinsældum. Þeir hætta 1998 þegar Terry fer að vinna hjá háskólanum og á sama tíma dregst all verulega úr spunaspilum. Það eru reyndar fleiri þættir sem höfðu þessi áhrif en ég held að tímarnir verði seint vanmetnir. MH var löngum mesti spunaspils skóli landsins en eftir að tímarnir hættu lognaðist talsvert úr grasrótinni þar.
Upp úr 1990 fór úrval á spunaspilsvörum að aukast umtalsvert, Gísli Einarsson og Þorsteinn Kristjánsson voru báðir að vinna hjá Eymundsson og nýttu sér þau ítök sem þeir höfðu til að panta inn fleiri spil. Ekki bara D&D var selt heldur bættist „Cyberpunk” við sem var fyrsta framtíðar spunaspilið. Þeir létu þó ekki staðar numið þar heldur fengu þeir Eymundsson til að gefa út Fáfni. Fáfnir var gefin út tvisvar í 100 eintökum sem seldust upp en engu að síður var þriðja tímaritið ekki gefið út. Það var meðal annars af því að fáar lesendagreinar sendust inn, en slíkt var einnig bani fyrsta spunaspils tímaritsins.

„Kæri viðskiptavinur, DM, GM, Player eða áhangandi.
Eftir margra mánaða óvissutímabil er nú ljóst að hlutverkaspilin ( þetta er nýyrðið í bili) frá TSR eru komin til að vera til frambúðar (a.m.k. mjög lengi). Nú eru nýjir gróskutímar framundan og brátt munu þessi síðustu ár verða minningin ein, sem hægt verður að draga dár af og kalla gömlu góðu daganna, þegar ekkert var til nema stundum og þá ekki mjög lengi”

Þetta innskot er sótt í fyrsta tölublað Fáfnis, og þessar skemmtilegu línur eru ritaðar af Gísla sjálfum. Hér er hann að tala um að tímarnir þar sem spunaspil voru af skornum skammti í Eymundsson séu liðnir. Reyndar bætir hann við:

„Ég skora eindregið á áhugamenn um hlutverkaspil að taka vel í þetta framlag Eymundsson til eflingar íþróttarinnar.”

Það má segja að Gísli hafi reynst sannspár. Spunaspilun náði hámarki milli 92 og 97. Árið 1992 urðu stór spilamót haldin í fyrsta sinn, Goðsögn fyrsta spunaspilsbúðin var opnuð af þeim Þorsteini og Gísla, ásamt nokkrum félögum þeirra. Ári síðar var fyrsta íslenska spunaspilið gefið út gefin út. Bræðurnir Rúnar Þór Þórarinsson og Jón Helgi Þórarinsson skrifuðu reglukerfi fyrir sér íslenskt spunaspil. Þeir nefndu það Ask yggdrasils og það kom út hjá Iðunni. Fantasíu heimurinn sem spilið snýst um byggir á forn íslenskri menningar arfleifð. Það er kannski eitt af megineinkennum íslenska spunaspilunar hversu mikið er skírskotað til fornmenningarinnar. Fyrstu klúbbarnir heita Einherji og Fáfnir, og spunaspilin tvö sem koma út Askur og Fræknir Ferðalangar skírskota allir til víkinga.

„Morgun einn fyrir rúmlega þremur árum áttum við bræðurnir leið upp Bústaðaveginn í Reykjavík. Veður var einstaklega gott og borgin falleg, jafn bíllaus og hún var svona í morgunsárið. Við höfðum eytt nóttinni við það sem í þá daga var kallað „rólplei-spil” og með tilheyrandi látbragði og kjaftagangi ræddum við hetjudáðir og axarsköft næturinnar. Vitaskuld skemmtum við okkur konunglega þar sem ýmislegt hafði gengið á, og að flestu var hlegið þar til hrökk upp úr öðrum okkar að það væri samt fjári bagalegt að þurfa að nota útlensku til að snúa á þrjótana. Upp úr því hljóðnaði fljótlega og á eftir fylgdi mjög löng þögn. Er henni lauk var hugmyndin að Aski orðin til.”

Svo segir í formála að bók leikmanna í spunaspilinu Askur Yggdrasils. Það er til vitnis um mikla grósku í spunaspilsmenningu Íslands að kraftur, vilji og dugur var til þess að gefa út spil. Það var engin gróðahugsjón á bakvið útgáfu tímaritana eða spilamótana sem haldin voru. Kveikjan að askinum er einmitt sú að fólk vildi geta spilað á íslensku en ekki sú að hægt væri að græða á æðinu. Eftir að Goðsögn tvístraðist urðu á tímabili tvær búðir sem sérhæfðu sig í spunaspili, Fáfnir og Míþríll. Það sem markar endalok þessarar gullaldar er sennilega gjaldþrot Míþríls árið 1998.
Eftir þann tíma þá fór spunaspil að eiga í aukinni samkeppni við tölvuleiki eins og „Baldurs Gate” og „EVE”. Það er athyglisverð staðreynd að hjá fyrirtækinu CCP vinna einmitt báðir bræðranna sem stóðu að baki fyrsta íslenska spunaspilinu. En EVE er einmitt fyrsti íslenski tölvuleikurinn þar sem fólk getur búið til persónu og leikið hana.
Það sem Þorsteinn Kristjánsson, einn af stofnendum Goðsagnar minnist sem hápunkts spunaspilunarmenningar á Íslandi er mótið sem haldið var á Þórskaffi 92. Þá voru þrjár hæðir undirlagðar af spilurum, sem voru 340 talsins. Þeir spiluðu borðspil á annarri hæð, hefðbundin spunaspil á þriðju hæð og „lörpuðu” á neðstu hæðinni. Bæði Þorsteinn og Gísli minnast tilrauna til þess að iðka lifandi spunaspil en eins og Gísli bendir á:

„Málið með „Larping” er að það þarf mikið pláss. Það þarf helst að gera það utandyra og þetta er ekki besta landið í heimi til að gera eitthvað utandyra, sérstaklega ekki ef þú ert að hlaupa um í búningum og svona. Þannig að það náði aldrei fótfestu hér en það er gríðarlega vinsælt í Danmörku, og held ég á hinum Norðurlöndunum líka, Þýskalandi. Í Kaupmannahöfn, „aðalrole-play” búðin þar, hún er alveg undirlögð „live-roleplay” dóti.”

Sjálfur tel ég þetta ekki einu ástæðuna fyrir að lifandi spunaspil hafi aldrei fest sig jafn vel í sessi og borðbundin spunaspil. Sökum þess hversu lítið samfélagið er, þá eru við bundin fastari hömlum. Þú getur leyft þér að hlaupa um í sérkennilegum búningum í stórborgum Norðurlandanna, Þýskalands, Frakklands og Bandaríkjanna af því að fæstir þekkja þig þegar þú skiptir um bæjarhluta. En á Íslandi felst engin nafnleynd í fjöldanum og það mun halda áfram að hamla okkur þar til íbúafjöldinn verður meiri en hálf milljón.
Fáfnisklúbburinn var stofnaður 1989 af Þorsteini og voru meðlimir þá 60 talsins. Fáfnisklúbburinn var þegar hann var upp á sitt stærsta 3000 manna klúbbur. Gísli bendir á að í dag seljist ekki eins vel af spunaspilsvörum og það gerði fyrir tíma spunaspils tölvuleikjanna en hann bendir þó að salan haldist stöðugt. Spunaspil er ekki í neinni útrýmingarhættu.
Þetta á sér hagfræðilegar skýringar. Samkvæmt þeim kenningum sem rekstrarhagfræði á um vörur og nýtingartíma þeirra, þá er það hluti af eðlilegu þroskaferli þeirra að uppgangurinn nái vissum hápunkti og sígi svo niður þar til það nær stöðugleika. Svipað og þegar allir eignuðust gemsa þá voru sölutölurnar himinháar, en í dag hafa þær lækkað af því allir hafa eignast gemsa. En það þýðir ekki að notkun á þeim sé hætt, salan á þeim er bara einfaldlega stöðug.
Eflaust væri betra að líkja þessu við æði, spunaspil byrjaði hjá afmörkuðum hópi, varð að vinsælli afþreyjingu og er núna aftur komið undir yfirborðið. En þó hefur það haft áhrif á gríðarlega marga hluti. Staðalímyndin af nördinum er virkur spunaspilari, sömuleiðis hefur spunaspil haft áhrif á þróun og gerð fantasíu og framtíðar kvikmynda. Líka á bækur, teiknimyndir, myndlist og sjónvarpsþætti.
Eitt af séreinkennum íslenskrar spunaspilamenningar hefur mikið að gera með hversu seint það kom til landsins. Í Bandaríkjunum varð spunaspil fyrir gríðarlegu aðkasti af hendi öfgatrúaðra flokka og ýmsum foreldrasamtökum. Ýmsir vildu meina að spunaspil leiddi til svartagaldurs og aðrir héldu því fram að spunaspil ýtti undir ofbeldisfulla hegðun. Nú hefur spunaspilið fallið í skuggan á tölvuleikjum í umræðunni um ofbeldi.
Þessi umræða barst aldrei hingað til lands, rétt eins og annars staðar, því hún var kláruð út í útlöndum áður en spunaspil fór í umferð hér á landi. Þegar spunaspil varð vinsælt á Íslandi var þegar búið að kveða upp sýknudóm yfir því í útlöndum. Þess vegna hefur spunaspil ekki mætt neinni andúð að ráði að Íslandi. Þvert á móti segir Gísli að foreldrar hafi verið mjög ánægðir með spilin þar sem þau sjá til þess að unglingar séu innandyra á kvöldin.


Á eftir þessu fylgdu mögnuð lokaorð sem tengdust hvernig spunaspil hefur haft áhrif á samfélagið og hvernig það mun gera það í framtíðinni. Á milli þessara kafla er búið að klippa heilan helling úr ritgerðinni. Fyrir utan nánari umfjöllun um hvað spunaspil sé.

Heimildir fyrir þessum hlutum.

Daniel Mackay. The fantasy roleplaying game: a new performance art

Viðtal við:
Gísla Einarsson, einn af rekendum Nexus.
Þorsteinn Kristinsson, kennaranemi og fyrrum rekandi Nexus.
Terry Adrian Gunnel. Dr. í þjóðfræðum í háskóla Íslands.

Svo er næst á dagskrá að skella inn einhverju um Roosevelt, svo ég nálgist nú að klára stóra forseta verkefnið :)