Goðafossi grandað í Seinni heimsstyrjöldinni Þetta er hin týpíska heimildaritgerð fyrir Íslensku 212. Alltaf að vísa í heimild! Þessi skilaboð fékk maður og ég reyndi, uppskar 9 fyrir hana. Myndin er því miður ekki af Goðafossi en þetta er eitthvað skip í WW2. Enjoy.

Ísland í Seinni heimsstyrjöldinni

Seinni heimsstyrjöldin braust út árið 1939 þegar Þjóðverjar gerðu innrás í Pólland. Fór þá allt í bál og brand og reyndist þetta verða mesta styrjöld mannkynssögunnar en um 50 milljónir manna létust. Af þessum 50 milljónum dóu 130 Íslendingar þegar skipum var sökkt annaðhvort af kafbátum eða með flugvélum. Ísland kom til sögunnar árið 1940 þegar Bretar námu land og var tilgangurinn með því að hindra það að Þjóðverjar gætu hertekið landið enda Ísland mikilvægt vegna góðrar staðsetningar. Þungu fargi var líka létt af Íslendingum þegar í ljós kom að þetta voru Bretar en ekki Þjóðverjar. Bretland tók sér það hlutverk að vernda Ísland fyrir árásum Þjóðverja og þar á meðal að vernda skipin okkar. Þjóðverjar náðu þó að sökkva nokkrum skipum og svo varð raunin með eimskip að nafni Goðafoss.
Í nóvembermánuði árið 1944 var Goðafoss staddur í Loch Ewe í Skotlandi og var tilbúinn að halda heim til Reykjavíkur með skipalestinni UR-142 eftir komu frá New York. Í þessari lest voru samtals tíu skip, fimm kaupskip og olíuskip og fimm vopnaðir togarar frá Noregi og Bretlandi en með í för voru hvorki herskip né tundurspillar. Á þessum tíma var farið að halla undan fæti hjá Þjóðverjum og voru þeir til alls líklegir gagnvart óvinum sínum enda ljóst að Öxulveldin myndu að tapa stríðinu. Þegar lagt var af stað grunaði samt engan öll ósköpin sem áttu eftir að gerast í þessari ferð enda var Goðafossi nokkru síðar sökkt af þýskum kafbáti að nafni U-300. (Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir 1992:188) , (http://www.visindavefur.is)

Ferðin heim

Allt hafði gengið að óskum framan af ferðinni en kvöldið 9. nóvember, þegar skipalestin var komin nokkuð nálægt Íslandi, varð veðrið mjög vont. Það lygndi ekki fyrr en næsta morgun og þá kom í ljós að skipalestin hafði tvístrast í óveðrinu. Þó voru fjögur skip í grennd við Goðafoss, kaupskip að nafni Ulla og tvö fylgdarskip sem nefndust Honningsvaag og Northern Reward. Þennan sama morgun sigldi Goðafoss upp á breskt olíuskip að nafni Shirvan sem var í sömu skipalest en þá var búið að skjóta það á það af þýska kafbátnum U-300. Þá vissu skipverjar um borð í Goðafossi að nú var mikil hætta á ferðum. Shirvan hafði verið skotið með tundurskeyti og var alelda þegar Goðafoss bar að garði.

Við áttum svo sem von á því versta. Shirvan hafði átt að vera á eftir Goðafossi en allt hafði riðlast í óveðrinu. Um borð var hafist handa við að hlúa að hinum særðu mönnum. Læknishjón, sem voru með í ferðinni, höfðu nóg að gera við að hlynna þeim særðu. Eftir að við vorum búnir að beygja vel fyrir Skagann og farnir að sjá Reykjavík fyrir stafni, þá fór vonin að glæðast. (Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir 1992:189)
Náðist að bjarga 19 mönnum sem höfðu verið um borð í Shirvan og voru flestir illa brenndir.
Eftir þessa björgun hélt Goðafoss áfram og sigldi sinn sjó í um hálftíma, þá um tvo og hálfan tíma frá Íslandi, en þá drógu fylgdarskipin allt í einu upp svartan fána. Það þýddi að óvinakafbátur væri í grennd. Örskotsstundu eftir að fáninn hafði verið dreginn að húni heyrðist gífurleg sprenging um borð í Goðafossi. Kafbáturinn U-300 hafði skotið tundurskeyti sem skall á skipinu. Við það lyftist Goðafoss upp og sjór byrjaði að streyma inn á skipið þar sem tundurskeytið fór inn enda rifnaði þar risastórt gat. Margir rotuðust við höggið og fórust þeir sem voru í grennd við sprenginguna samstundis. Það fyrsta sem kom í hug þeirra sem lifðu höggið af var að reyna að barga sér sem fyrst, þrátt fyrir alla ringulreiðina sem þarna hlýtur að hafa skapast voru skipverjarog farþegar furðurólegir. Skipstjórinn, Sigurður Gíslason, hafði skipað öllum að hafa björgunarvesti við höndina. Reynt var að sjósetja eina björgunarbátinn sem eftir var á skipinu en það gekk erfiðlega, einkum vegna þess að frekar hvasst var svæðinu. Þegar reynt var að hífa björgunarbátinn niður valt hann og þá neyddust þeir sem eftir voru á skipinu til þess að henda sér í sjóinn enda var kominn mikill sjór í skipið á þessum tímapunkti. Er þau voru í sjónum reyndu þau eftir bestu getu að finna eitthvað til að halda sér í á meðan beðið var eftir hjálp. Hægt var að halda sér í ýmis konar braki og einnig björgunarflekum sem höfðu losnað af skipinu við sprenginguna. Þar horfðu þau á Goðafoss sökkva á innan við tíu mínútum. (Gunnar M. Margúss 1984:128-129) , (Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir 1992:188-190)

Aðgerðir fylgdarskipa

Fólkið sem var í sjónum þurfti að hanga tímunum saman í köldum sjónum í vondu veðri. Fylgdarskipið Northern Reward mætti á svæðið um fimmtán mínútum eftir að Goðafossi hafði verið sökkt en í staðinn fyrir að taka fólkið í sjónum upp í skipið fylgdi skipstjórinn reglum sem kváðu um að tryggja skildi svæðið áður en björgunaraðgerðir hæfust. Djúpsprengjum var varpað í sjóinn þar sem kafbáturinn var talinn vera. Þegar sprengjurnar sprungu neðansjávar mynduðust tignarlegar vatnssúlur og þurfti fólkið sem hékk í björgunarflekunum að ríghalda sér til að missa ekki takið enda sprungu sprengjurnar ekki langt frá þeim. Þetta hefur ábyggilega verið mikið sjónarspil þessi atburður. Olíuskipið Shirvan stóð í ljósum logum ekki langt frá þar sem Goðafossi var sökkt, fólk í sjónum og djúpsprengjur að springa umhverfis svæðið. Svona gekk þetta í um það bil tvær og hálfa klukkustund en loks gáfust fylgdarskipin Northern Reward og Honningsvaag upp á því að reyna að eyða kafbátnum U-300 og ætluðu að einbeita sér að því að bjarga þeim sem höfðu komist lífs af frá Goðafossi.

Nú voru nánast allir sem lágu í sjónum orðnir ískaldir og dofnir í líkamanum. Fólkinu í sjónum var loks bjargað, flestum í Northern Reward, um klukkan fimm um daginn þann 10. nóvember 1944. Þeirra á meðal var skipstjórinn Sigurður Gíslason. Þegar búið var að bjarga þeim sem hægt var að bjarga var leitinni að U-300 haldið áfram í ellefu langar klukkustundir en hann fannst ekki. Ein ástæða þessarar löngu leitar er sú að Northern Reward vildi ekki sigla til Reykjavíkur enda var þetta í fyrsta sinn sem skipið var við Íslandsstrendur og veðrið var vont. Einnig var farið að dimma. Loks bauðst einn skipverji af Goðafossi að aðstoða skipstjórann á Northern Reward við að koma skipinu til hafnar og þar með voru skipverjar óhultir klukkan hálf þrjú aðfaranótt 11. nóvember. (Illugi Jökulsson o.fl. 2001:371) , (Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir 1992:191) , (Gunnar M. Magnúss 1984:129-130)

Biðin eftir ástvinum og minningarathafnir

Þegar fráttir bárust af því að Goðafossi hefði verið sökkt greip skiljanlega mikil skelfing um sig hjá flölskyldum og vinum skipverja og farþega enda ekki vitað hverjir höfðu komust lífs af. Maður að nafni Ingólfur Kristjánsson þekkti konu sem átti mann um borð í Goðafossi. „Ég vissi það! Hann hlaut að lifa!“ sagði hún og tárin flóðu niður kinnar henni. – „Ó, ég skammast mín samt fyrir að vera svona glöð, þegar mér verður hugsað til systra minna þeirra, sem á þessari stundu eru helsærðar“. (Gunnar M. Magnúss 1984:132) Svona lýsti Ingólfur stundinni þegar konan komst að því að maðurinn hennar hefði komist lífs af úr slysinu.
Dagana eftir slysið var andrúmsloftið þungt í Reykjavík. Flestallar samkomur og skipulögð dagskrá voru lögð niður til að mynda felldi Ríkisútvarpið niður dagskrá kvöldsins og Alþingi var slitið eftir að Gísli Sveinsson, forseti Alþingis, hafði flutt miningarávarp. „Þetta mikla slys er vafalaust, þegar allt er á litið, meðal þeirra hörmulegustu í þessari æðisgengnu styrjöld, er engu þyrmir og er á ýmsa lund átakanlegast af þeim, sem íslenzku þjóðina hefir hent á þessum ógnartímum.“ (Illugi Jökulsson o.fl. 2001:371) Þetta sagði Gísli meðal annars í ræðunni sem hann flutti.

Eimskipafélaginu bárust samúðarkveðjur frá sendiherrum og fulltrúum margra þjóða sem vottuðu aðstandendum fórnarlamba og þjóðinni samúð. Þann 22. nóvember var haldin minningarathöfn í New York borg vegna slyssins og þann 23. nóvember var athöfn í Dómkirkjunni til að minnast þeirra 42 sem létust í slysinu. 24 af þeim 42 sem létust voru upprunalega um borð í Goðafossi. Þann dag má segja að borgin hafi verið lömuð því allar ríkisstofnanir og einkafyrirtæki voru lokuð þann dag. Þá var borinn til grafar maður að nafni Eyjólfur Eðvaldsson en hann hafði verið loftskeytamaður um í Goðafossi en hafði látist eftir að honum hafði verið bjargað um borð í Northern Reward. Var það mikil og glæsileg athöfn og var slyssins minnst um allt land. (Illugi Jökulsson o.fl. 2001:371) , (Gunnar M. Magnúss 1984:130-134)

Skelfilegur atburður

Eins og sagt var þá fórust 24 Íslendingar í slysinu ef slys má kalla og verður það að teljast há tala miðað við svo litla þjóð eins og Ísland. Á þessum tímapunkti, það er 1944, beittu Þjóðverjar öllum sínum kröftum til að reyna að bregða fæti fyrir Bandamenn og reyna að tryggja að mannfall yrði sem mest áður en að stríðið tapaðist. Þessi árás var því mikið áfall og voru Íslendingar eflaust reiðir gagnvart Þýskalandi fyrir að hafa framið jafn miskunnarlausan glæp. Hann var miskunnarlaus á sínum tíma en eins og allir vita skammast margir Þjóðverjar sín fyrir síðari heimsstyrjöldina á okkar tímum enda ekki skrýtið enda er þetta eitt svartasta tímabil í sögu mannkyns. (Illugi Jökulsson o.fl. 2001:371)

28. september 2005


Pétur Örn Pálmarsson





Heimildaskrá

1. Gunnar M. Magnúss. 1984. Virkið í norðri III. Sæfarendur. Helgi Hauksson sá um útgáfuna. Bókaútgáfan Virkið.
2. Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir. 1992. Í skotlínu. Siglingar og skipaskaðar Eimskipafélagsins í síðari heimsstyrjöld. Almenna bókafélagið.
3. Illugi Jökulsson o.fl. 2001. Ísland í aldanna rás. 1900-1950. JPV FORLAG, Reykjavík.
4. Skúli Snædal. Júní 2005. Hve margir Íslendingar dóu í seinni heimsstyrjöldinni? Vefslóð: http://www.visindavefur.is/. Sótt 24. september 2005


10 . desember 2005. Kafari segist vera búinn að finna flakið af Goðafossi og sé einnig kominn með fjársterkan aðila til að hjálpa sér við kannanir á flakinu.