Inngangur
Í ágúst 1990 fyrirskipaði Saddam Hussein innrás í hið smáa en vell-auðuga nágrannaland sitt Kuwait, og varð það upphafið að miklu stríði sem varð jafn afdrifaríkt og það var stutt. Fljótlega eftir innrásina fór mikil áróðursherferð í gang á vesturlöndum, og innan nokkura vikna var hinn áður lítt-þekkti einræðisherra Íraks orðinn “Slátrarinn frá Baghdad” og “hinn nýji Hitler” í augum fjölda fólks. Orð úr opinberri ræðu þáverandi Bandaríkjaforseta, George Bush eldri, sýna best hvernig innrásinni í Kuwait var lýst:
“…Iraqi armed forces, without provocation or warning, invaded a peaceful Kuwait. … There is no justification whatsoever for this outrageous and brutal act of agression. “
Í þessari grein er ekki verið að afsaka Saddam Hussein eða réttlæta gerðir hans, heldur er meiningin að skýra rétt frá þeirri atburðarás sem leiddi til innrásar hans í Kuwait. Hjá Bush eldri og fjölmiðlum þessa tíma, að lýsa innrásinni hvað eftir annað sem “uprovoked” og/eða “without warning” er vægast sagt ekki alveg sannleikanum samkvæmt. Hún átti sér alls ekki jafn einfalda útskýringu eins og margir vestrænir áróðursmenn héldu fram þá, og gera sumir enn.
Írak eftir stríðið
Saddam Hussein bar sig vel eftir lok Íran-Írak stríðsins í ágúst 1988, og lýsti yfir glæsilegum sigri. Það sem hann hafði fyrir sér í því, var að Írökum hafði jú tekist að verjast öllum tilraunum Írana til að ná undirtökum í stríðinu og steypa stjórn landsins. Einnig hafði manntjón hinna mun fjölmennari Írana orðið talsvert meira en Íraka. Hinsvegar hafði ekkert af upphaflegum stríðstakmörkum Saddams náðst; landamærin voru hin sömu og fyrir stríð, og klerkaveldi Khomeinis enn við völd. Fáir aðrir gátu því tekið undir þessa siguryfirlýsingu hans, og oftast er litið á niðurstöðu þessa stríðs sem jafntefli.
Landið hafði orðið fyrir talsverðum skemmdum í stríðinu, og ljóst að einhverja mánuði myndi taka að byggja upp ýmis mannvirki, ekki síst til að koma olíuvinnslu aftur á það stig sem hún hafði verið 1980. En til að standa undir endurbyggingu á mannvirkjum, þurfti að sjálfsögðu góðan efnahag, sem ekki var að heilsa í Írak árið 1988. Efnahagurinn var í kaldakoli, erlendar skuldir sem safnast höfðu í stríðinu voru vel yfir 100 milljarðar dollara. Ekkert bendir til annars en að Saddam hafi ætlað sér að leysa þau mál friðsamlega, í góðri samvinnu við nágrannaríki sín í Flóanum (víkjum nánar að því á eftir). Í bili voru það ekki nágrannalönd hans sem urðu fyrir hótunum, heldur hinn gamli og klassíski óvinur, Ísrael.
Hernaðarveldið Írak
Einu gat Saddam með réttu státað af: Hin gríðarlega hervæðing Íraks hafði gert það að mesta herveldi Arabaheimsins, í því tilliti hafði landið hafði farið fram úr bæði Egyptalandi og Sýrlandi. Í krafti þeirrar stöðu stefndi Saddam að því að verða leiðtogi Arabaheimsins, eins og Nasser Egyptalandsforseti hafði verið á sinni tíð. Varla voru síðustu Íranirnir farnir af íröksku landi þegar Saddam fór í málflutningi sínum að hamast gegn Ísrael, og hótaði þeim bæði leynt og ljóst með her sínum og hinu nýja gereyðingarvopnabúri sem hann væri að koma upp. Og rétt var að hann var að því, Írak hafði þegar yfir að ráða ýmsum efnavopnum og stefndi að því að auka og þróa það vopnabúr sitt enn frekar. Einnig var stefnt að smíði kjarnorkuvopna, en gekk fremur brösuglega eins og seinna kom í ljós.
Ísraelsmenn tóku þessum hótunum alvarlega, þó ekki of alvarlega. Til þess voru þeir orðnir of vanir arabískum einræðisherrum og málflutningi þeirra, sem í mörgum tilfellum var meira lýðskrum en að full alvara lægi á bakvið. Ráðamönnum Ísraels hefur líklega ekki þótt ástæða til að óttast “nýjan Nasser” – þeir höfðu jú sigrað “originalinn” nokkuð auðveldlega í Sexdaga stríðinu árið 1967. En Yom Kippur stríðið 1973 hafði þó kennt þeim að ofmetnast ekki og sofna á verðinum. Ef í harðbakkann slægi voru þeir vel byrgir af kjarnorkuvopnum.
Eftir innrásina í Kuwait varð hernaðarmáttur Íraks einnig mikið um-talaður á vesturlöndum, og í þeim umræðum oft ýktur útyfir allan þjófabálk. Hann hafði vissulega dugað til að halda aftur af Íransher í áraraðir, en var þá (eins og oft gleymdist) studdur af umheiminum gegn einangruðum andstæðingi. Og þó her Íraks árið 1990 væri vissulega sá mesti sem Arabaland hafði yfir að ráða, hafði reynslan sýnt gegnum tíðina að gegn hinum smærri en að öllu leyti mun fullkomnari Ísraelsher, myndi hann líklega mega sín fremur lítils. Gegn herjum vesturlanda mátti hann sín hinsvegar nákvæmlega einskis, eins og bráðum kom í ljós (og verður ekki frekar rakið hér).
Ber er hver að baki…
Flóaríkin, sérstaklega Saudi-Arabía og Kuwait, höfðu nánast verið bandamenn Íraka í stríðinu við Írani. Þau höfðu að miklu leyti staðið undir stríðsrekstri Íraks með gríðarlegum lánum (og stundum reyndar styrkjum). Nú þegar komið var að því að endurskipuleggja efnahagsmálin eftir stríðið, þótti Saddam það ekki nema sjálfsagt að þessi vinalönd sín léttu undir með að gefa Írak eftir stríðsskuldirnar, allavega sem allra mest af þeim. Írak hafði jú staðið eitt í hernaðarþætti stríðsins, en Flóaríkin höfðu sloppið við stríðstjón og nutu nú ávaxtanna, frið fyrir klerkunum í Íran.
Sér til furðu komst Saddam að því að hann var einn um þessa skoðun. Flóaríkin tóku vægast sagt dræmt í þessa málaleitan hans. Ljóst var að hið stríðshrjáða Írak yrði eftir sem áður að standa undir afborgunum til hinna ríkari nágrannalanda sinna, af olíutekjum sem enn voru takmarkaðar vegna skemmda á vinnslu- og flutningskerfinu. Saddam þótti sem hann hefði verið illa svikin af þessum arabísku bræðrum sínum.
OPEC og olíukvótinn
Eins og flest ríki á svæðinu var Írak aðili að Samtökum olíuframleiðsluríkja OPEC (Organization of the Petroleum Exporting Countries). Þessi samtök, sem á vesturlöndum voru oft uppnefnd “Over Pricing Every Can”, höfðu síðan 1965 samræmt olíuverð aðildarlandanna auk þess að ákvarða framleiðslukvóta til að koma í veg fyrir verðlækkanir vegna offramleiðslu. Hverju aðildarlandi var árlega úthlutað kvóta sem það skuldbatt sig til að framleiða ekki umfram. Lang-oftast var þessu hlýtt, vegna þess einfalda markaðslögmáls að offramleiðsla með lækkandi verði kæmi á endanum niður á öllum, líka brotlega landinu sjálfu.
Írakar reyndu allt árið 1989 að fá taxtann hjá OPEC hækkaðan þó ekki væri nema um 2-3 dollara tunnuna, en urðu að sætta sig við að það tækist ekki í bráð. Í ársbyrjun 1990 setti síðan snarlækkandi heimsmarkaðsverð á olíu alvarlegt strik í viðkvæman efnahag Íraka og allar þeirra fjárhagsáætlanir fyrir árið fóru í uppnám. Þær höfðu gert ráð fyrir að olíuverð héldist stöðugt. Verðlækkunina mátti rekja til þess að Kuwait og SAF (Sameinuðu Arabísku Furstadæmin) voru skyndilega farin að framleiða umfram kvóta. Líklega var það fyrir þrýsting frá vinveittum vestrænum aðilum, sem sífellt leituðust við að rjúfa kverkatak OPEC á olíumarkaði heimsins.
Fyrir Saddam var þetta önnur rýtingsstungan í bakið frá þessum fyrrum bandamönnum hans, og hann varð æfur. Í átta ár höfðu þessir feitu furstar notið herverndar hans gegn Írönskum trúaröfgamönnum, og þetta voru þakkirnar! Fyrst var neitað að hlaupa undir bagga við endurreisn Íraks, síðan markvisst unnið að því að draga úr tekjum landsins! Nú fór hann að íhuga þann möguleika að beita Kuwait (og jafnvel fleiri nágrannaríki) hervaldi, í það minnsta hótunum um hervald yrði ekki komist að ásættanlegri niðurstöðu í efnahagsmálunum.
Úrslitakostir Saddams
Á fundi Arabaríkjanna í Baghdad 1990 varð það ljóst að með einhverju móti yrði að koma til móts við Saddam ef afstýra átti átökum. Hann krafðist þess að Kuwait og SAF drægju þegar í stað úr framleiðslu sinni en fékk lítil viðbrögð við því. “Stríð má hefja með hernaði, sagði Saddam í lokaræðu sinni á fundinum, “… en einnig má hefja þau með efnahagslegum aðgerðum. Þeim löndum sem ekki ætla sér að heyja stríð gegn Írak, verð ég bara að segja að þetta er í sjálfu sér einskonar stríð gegn Írak”
Í júní setti Saddam síðan fram kröfur sínar á hendur Kuwaitum: Þeir skyldu greiða Írak andvirði 10.000 olíutunna daglega til að bæta upp fyrir áralangan “þjófnað” sinn á olíu úr hinum miklu Rumailah-olíulindum á landamærum ríkjanna. Réttmæti þessarar kröfu var afar hæpið, en hún var dæmigerð fyrir þann málflutning sem á eftir kom, því fleiri kröfur fylgdu í kjölfarið. Írakska fjármálaráðuneytinu var falið að reikna út “skuldir” Kuwaits við Írak, afturvirkt um mörg ár, þó aldrei hefði verið minnst á neinar skuldir á þeim árum. Kuwait hafði rukkað Írak um stríðsskuldir, svo nú skyldu þeir sjálfir rukkaðir – um eina 90 milljarða dollara! Og fleira var tínt til…
Ryk dustað af gömlum deilum
Eftir innrásina fóru fréttaskýrendur víða um heim að minnast á landakröfur Íraks á hendur Kuwait í gegnum tíðina, og var á mörgum að skilja að alltaf hefði mátt búast við þessu, því þetta væri áratugagamalt deilumál. Rétt var að Írak hafði áður neitað að viðurkenna sjálfstæði Kuwaits þar sem það væri með réttu hluti af Írak. Eftir Fyrri heimsstyrjöld höfðu Bretar og Frakkar skipt með sér landssvæðum hins hrunda Osmánaveldis Tyrkja. Írak varð myndað úr þremur umdæmum hinnar gömlu Mesópótamíu, og fyrir hagkvæmnis-sakir höfðu Bretar aðskilið hið olíuauðuga Kuwait frá Basra-umdæmi og gert úr því “sjálfstætt” furstadæmi.
Staðreyndin er hinsvegar sú að hvorki Saddam né aðrir háttsettir Baath-flokksmenn höfðu nokkurtíman minnst á þetta mál, gerólíkt t.d. landakröfum á hendur Íran. Sá Íraksforseti sem síðast hafði ógnað Kuwait, Qassem árið 1961, var hinn sami og Saddam hafði persónulega reynt að myrða á sínum tíma. Í raun höfðu Saddam og félagar litið svo á að þessi deila væri útkljáð, enda hafði Saddam sjálfur sagt árið 1979 að Írakar myndu ábyrgjast sjálfstæði Kuwaits gagnvart utanaðkomandi öflum, meinandi Íran. Það var því augljóslega aðeins eftir á að hyggja sem Saddam notaði þessar gömlu deilur sem einskonar viðbótar-útspil gegn Kuwait.
21. júlí hóf Íraksher liðssöfnuð við landamæri Kuwaits. Enginn tók þetta útspil hans alvarlega, því þetta leit út fyrir að vera bragð Saddams til að knýja á um hækkun taxta á OPEC-fundinum í Genf. Það virtist líka hafa tekist; Verð fyrir fundinn var 18 dollarar fatið. Írakar heimtuðu að það yrði hækkað uppí 25, en fengu í gegn hækkun uppí 21, sem var það hæsta sem Saudar gætu hugsanlega sætt sig við. Þeir sem yfirleitt voru að spá í þessum málum á þeim tíma, héldu að nú hefðu Írakar fengið sitt fram, og ró myndi færast yfir Persaflóann.
“April’s Fool”
Einn umdeildasti þátturinn í þessari atburðarás er fundur Saddams með bandaríska sendiherranum, April Glaspie. Samskipti Íraks og Bandaríkjanna höfðu farið sí-versnandi allt frá lokum Íran-Írak stríðsins, ekki síst eftir að Saddam hóf að nýju hótanir sínar gegn Ísrael. En báðum löndum var þó í mun að allavega viðhalda stjórnmálasambandi þó ekki væri meira.
Glaspie hafði að sjálfsögðu fylgst vel með gangi mála, og þegar Saddam fór á fundinum að tala um viðbrögð Bandaríkjanna við hugsanlegri innrás hans í Kuwait, hefur hún líklega haldið að þetta væri hluti af blekkingaleik hans til að þvinga upp OPEC-taxtann, enda var það almennt álit bandaríska utanríkisráðuneytisins. Á loðnum svörum hennar var helst að skilja að Bandaríkjunum væri nokk sama um innbyrðis deilur Arabaríkja, og myndu láta slíka innrás afskiptalausa. Líklega hefur Glaspie talað þarna án nokkurra formlegra fyrirmæla frá Washington um hvað hún mætti, mætti ekki, eða ætti að segja, enda var þessi deila ekki litin mjög alvarlegum augum þar.
Reyndar telja margir að Bandaríkin hefðu lítið aðhafst hefðu Írakar gert takmarkaða innrás í Kuwait, aðeins tekið nokkrar olíulindir og smáeyjar við árósana. En allsherjar innrás og hernám landsins var of stór biti að kyngja. Hvað sem slíkum pælingum líður, þá er það víst að á þessum fundi taldi Saddam sig hafa fengið “grænt ljós” Bandaríkjanna á innrás.
Kokhraustir Kuwaitar
Hið furðulegasta í þessu máli hlýtur þó að vera framferði Kuwaita sjálfra gagnvart ógninni. Þeim hefði líklega verið í lófa lagið að hindra innrásina í land sitt með samningum við Saddam á meðan málaleitanir hans voru enn nokkuð sanngjarnar. Illskiljanlegt er því afhverju þeir reyndu ekki einu sinni að sýna samkomulags-viðleitni. Ekkert bendir til þess að það hefði komið þeim í koll síðar, því Saddam hafði eins og áður sagði aldrei ágirnst land þeirra eða verið þeim óvinveittur áður en til deilunnar kom. En nú voru þeir búnir að sjá til þess að viðræður voru líklega um seinan.
Kuwaitar höfðu allt frá byrjun deilnanna haft uppi ögrandi og yfirlætislega afstöðu, sem þeir voru reyndar þekktir fyrir í Arabaheiminum. Þeir komu fram við samningamenn Íraka með hroka, og töluðu oft um “öfluga vini” sem þeir ættu. Þar voru þeir líklega að stórlega ofmeta varnar-skuldbindingar Bandaríkjanna við sig, því hin snöggu viðbrögð þeirra sem urðu raunin, voru síður en svo sjálfgefin. Hvorki Bandaríkin né önnur vesturlönd höfðu nokkrar verulegar varnarskuldbindingar við Kuwait, aðeins olíuhagsmuni sem hvergi nærri var víst að dygðu þeim til að leggja út í stór-styrjöld.
Síðasti sáttafundur Íraks og Kuwaits var haldinn í Saudi-Arabíu þann 31. júlí. Hafi Kuwaitar enn átt möguleika á að hindra innrás í land sitt (sem er óvíst), glötuðu þeir honum endanlega á þessum fundi. Í samninganefnd Íraka voru m.a. hinn alræmdi “Chemical Ali” Hassan al-Majid, og Izzat Ibrahim sem þá var tengdafaðir Udays sonar Saddams. Fyrir Kuwaitum fór krónprinsinn, sonur emírsins, ættarhöfðingja as-Sabah furstaættarinnar og þar með þjóðhöfðinga landsins.
Fundurinn leystist fljótlega nánast upp í slagsmál. Ali al-Majid sagði við krónprinsinn að ástandið í Írak væri það slæmt að fólk ætti ekki ofan í sig. Krónprinsinn hreytti tilbaka “Nú, því senda menn þá ekki konurnar sínar útá næsta horn?” Þarna var hann að vísa í alþekktar kjaftasögur um foreldra Saddams. Sagt er að þegar Saddam heyrði þetta, hafi hann gefið út skipun um að innrásin skyldi hafin, og allt landið hertekið.
Aðfararnótt 2. ágúst hófst innrásin “tilefnislausa og óvænta” og örfáum tímum síðar, eftir að emírs-fjölskyldan hafði í ofboði flúið landið, réð her Saddams yfir Kuwait. Skelfileg ógnaröld átti eftir að ríkja þar næstu mánuði, og lauk henni ekki fyrr en í febrúar 1991, eftir stutta en mannskæða leifturstyrjöld Vesturlanda gegn herjum Saddams. En það er önnur saga.
Heimildir:
The Wars Against Saddam: Taking the Hard Road to Baghdad
Eftir John Simpson, 2003
Iraq: In the Eye of the Storm
Eftir Dilip Hiro, 2002
The Gulf War Reader
Ritstjórar Micah L. Sifry og Christopher Cerf, 1991
_______________________