Eins og fram kom í fyrri hluta, hafði um skeið árið 1980 litið út fyrir að innrásin í Íran, hinn hættulegi leikur Saddams Hussein í hinni alþjóðlegu Persaflóaskák, myndi ganga upp. Stórveldi heimsins héldu að sér höndum og fylgdust með. En þegar verr fór að ganga hjá Saddam, fóru honum að birtast ýmsir haukar úr hornum, reyndar ekki í öllum tilfellum mjög óvænt. Stríðið hélt því áfram og magnaðist á ýmsum sviðum.
Írönum blæðir í Írak
“Úrslitasókn” Írana árið 1982, sem átti að steypa Saddam af stóli og gera út um stríðið, fjaraði fljótlega út í grimmilegum bardögum sem helst minntu á orustur Fyrri heimsstyrjaldar; Íranir óðu þúsundum saman gegn vel útfærðum varnarvirkjum Íraka, og voru jafnskjótt sallaðir niður með sprengjuregni og vélbyssuskothríð. Það sem síðan gaf líkingunni við Fyrri heimsstyrjöld enn meira gildi, var að Írakar hófu fljótlega notkun á efnavopnum, sem mörg voru sömu gerðar og í þeirri styrjöld – klórgas, sinnepsgas, fosgen og fleira.
Varnarvirkjum sínum höfðu Írakar hlaðið upp með sovéskri aðstoð fljótlega eftir að fór að síga á ógæfuhliðina. Rússar gátu með engu móti hugsað sér að Klerkaveldið í Íran sigraði í stríðinu. Þeir stóðu í hatrammri baráttu við bókstafstrúaða múslima í Afganistan, og síst vildu þeir að nágrannalandið Íran yrði áhrifameira á múslima svæðisins en orðið var. Það kom enda í ljós strax eftir eftir fall Sovétríkjanna áratug síðar, að herskáir múslimar voru einnig alvarlegt innanlandsvandamál sem kraumaði undir sléttu yfirborðinu í syðstu Sovétlýðveldunum. Sovéskur stuðningur við Írak hélst allt stríðið, um 80% af “military hardware” Íraks (byssum, flutningatækjum, skriðdrekum, flugvélum) var rússneskt. En í baráttu sinni við bókstafstrúar-Sjíta átti Saddam sér einnig fleiri stuðningsmenn, eins og nánar verður vikið að síðar.
Styrjaldarleiðtoginn Saddam
Önnur ástæða þess hversu vel Írökum gekk að stöðva sókn Írana, var að Saddam ákvað í nauðvörn sinni að láta Khomeini bragða eilítið á sínum eigin meðulum. Saddam Hussein, sem alla sína ævi hafði verið múslimi á svipaðan hátt og flestir vesturlandabúar eru kristnir (á pappírnum, en ekki í daglegu lífi), gerðist allt í einu í fjölmiðlum ákaflega trúrækinn. Hann hóf að vitna óspart í Kóraninn í hvatningarræðum sínum til þjóðarinnar, og oft var því sjónvarpað beint þegar hann sótti mosku og kraup á kné í átt að hinni helgu borg Mekku. Í vestrænu landi hefði fólk eflaust gert stólpagrín að þessari skyndilegu “frelsun” Saddams, en í Írak þótti gárungunum betra að þegja en deyja. Þetta virkaði hinsvegar vel á fátækt og trúrækið dreifbýlisfólk, efldi bæði mannafla og baráttuþrek Írakshers verulega, auk þess að hafa sín áhrif meðal almennings víðar í Arabalöndum. Trúin var þema sem Saddam hafði ekki spilað inná áður, enda andstætt sosíalískri hugmyndafræði Baath-flokksins. En trúræknin virkaði vel, enda átti hann óspart eftir halda þessu áfram allt til loka síns valdaferils.
Saddam Hussein var yfirlýstur aðdáandi bæði Hitlers og Stalíns, og mátti reyndar greina það á stjórnarháttum hans alla tíð. Á áróðurssviði Íran-Írak stríðins var það mjög greinilegt hvert hann sótti innblásturinn í hið nýja styrjaldarleiðtoga-hlutverk sitt. Frá báðum þessum fyrirmyndm sínum sótti hann ýmsa stjórnunartaktík, og áróðursbrögð eins og að útmála stríðið sem hetjulega vörn hins lang-kúgaða arabíska móðurlands gegn persneskum innrásarskríl. Frá Hitler sótti hann t.d. furðulega hugmyndafræði um að Írakar væru beinir arftakar hins forna Babylón-veldis. Lét hann mála áróðursmyndir af sér í líki fornra stríðsmanna, sem í vestrænum augum voru absúrd og hlægilegar. Auk þess voru herdeildir í úrvalssveitum hans “Lýðveldisverðinum” að SS-fyrirmynd skírðar nöfnum fornra stríðskappa og konunga; Nebúkadnezar-deildin, Hammúrabí-deildin o.s.frv. Allt hjálpaði þetta vestrænum áróðursmönnum síðar í að útmála Saddam sem nýjan Hitler, en það er önnur saga.
Barátta borganna
Þegar stríðið hafði að því er virtist koðnað niður í tilgangslítinn skotgrafahernað árið 1983, fóru stríðsaðilar að leita fyrir sér með aðrar leiðir til að ná undirtökunum. Og þar komu flugherir landanna til skjalanna. Sökum viðskipta-einangrunar Írans, hafði Írakski flugherinn yfirburði allt stríðið. Hann notaði rússneskar og franskar flugvélar, hafði óhefta viðhaldsþjónustu frá framleiðendunum, og gat auðveldlega bætt upp þær vélar sem hann missti með nýjum. Hinsvegar urðu Íranir mest að beita fyrir sig þeim bandarísku vélum sem keisarinn hafði keypt fyrir byltinguna.. Afar kostnaðarsamt og tímafrekt er fyrir flugheri að skipta alfarið um flugvélategundir. Þó Íranir væru að reyna það, t.d. með kaupum á kínversk-smíðuðum MiG þotum, urðu þeir að mest að stóla á gömlu vélarnar. Varahluti í þær urðu þeir oftast að kaupa á svörtu í gegnum einkaaðila, og mátti teljast heppni ef þeir komust einhversstaðar í heiminum yfir flughæf og “samræmanleg” notuð eintök af bandarískum vélum til að bæta upp sitt flugvélatjón.
Írakar hófu reyndar lofthernað gegn almenningi óvinalandsins strax í upphafi stríðs í september 1980 þegar 8 Tu-22 “Blinder” sprengjuþotur gerðu loftárás á Teheran. Þeim var ætlað var að valda slíkri skelfingu almennings að Khomeini yrði steypt af stóli, en eins og sagan hafði margoft sannað áður, voru áhrifin þveröfug. Síðan varð að mestu hlé á slíkum árásum þar til 1983. Þá svöruðu Íranir fyrir sig með að skjóta hrinu af Scud-flugskeytum sem Kínverjar höfðu selt þeim, á Baghdad. Lofthernaður gegn höfuðborgunum og fleiri borgum hélt áfram með hléum út stríðið, en árásirnar voru afar ónákvæmar og aldrei nógu miklar til að hafa veruleg áhrif á almenningsmóralinn.
Íranir sækja aftur á
Allt frá því Khomeini ákvað árið 1982 að sigra Írak fremur en semja um vopnahlé, hafði það verið óska-markmið Íranska hersins að rjúfa hina mikilvægu samgönguæð Íraka milli Baghdad og hafnarborgarinnar Basra, sem stendur við ósa “fljótanna miklu” skammt frá botni Persaflóa. Margar sóknaraðgerðir þeirra miðuðu að þessu marki, en það var þó ekki fyrr en í janúar 1986 sem þeir komust verulega nálægt því, með best heppnuðu sókn sinni. Þar tókst þeim að koma Írökum í opna skjöldu og náðu undir sig hinn olíuríka og hernaðarlega mikilvæga Faw-skaga skammt frá ósum fljótanna.
Í örvæntingu sinni beittu Írakar öllu sínu afli til að brjóta sóknina á bak aftur. Hundruðir af flugvélum og þyrlum, skriðdrekum og stórskotaliði, auk þess sem annað eins magn af ýmiskonar eiturgasi hafði ekki verið notað í einu síðan í Fyrri heimsstyrjöld. Einn af hershöfðinjum Saddams ávann sér þarna viðurnefnið “Chemical Ali”. Hann líkti þessu í skýrslu til Saddams, við að spreyja eitri á skordýr. Þetta bar enda þann árangur að enn einu sinni urðu Íranir að láta undan síga.
Flóabandalag Saddams
Það fór frá upphafi aldrei á milli mála, hvorn aðilann hin formlega hlutlausu Arabaríki við Persaflóa studdu. Sameinuðu Arabísku Furstadæmin, Quatar, Oman, Saudi-Arabía og Kuwait studdu Írak með hagstæðum lánum og stundum hreinum styrkjum upp á tug-milljarða dollara. Tilfellið var að öllum þessum ríkjum var stjórnað af mis-spilltum furstum, prinsum og konungum, sem áratugum saman höfðu velt sér uppúr olíugróðanum, og litu margir á löndin sem persónulega eign sína. Þeir skulfu á beinunum við tilhugsunina um frekari uppgang Khomeinis á svæðinu. Hin múslimski púritanismi klerkaveldisins var eitthvað sem alls ekki gat átt samleið með stjórnunar- og lifnaðarháttum þeirra.
Þá var Saddam Hussein betri kostur: Þó hann væri fremur mótfallinn bæði konungsveldum og hverskonar bókstafstrú (fyrir stríðið, allavega!), þá var hann “bróðir”, semsagt Arabi, maður sem hægt var að semja við. Miðað við Írak voru Flóaríkin fámenn og hernaðarlega vanmáttug, en af einu áttu þau nóg – peningum. Það varð óskrifað samkomulag um að fyrst Írakar hefðu tekið á sig allar hernaðbyrðar af stríði “Arabaheimsins” gegn Írans, myndu nágrannalöndin aðstoða við fjármögnun þess.
Saudí Arabía og Kuwait gengu lengst í þessum ekki-svo leynilega stuðningi sínum við Írak, og voru bandamenn þess “í öllu nema á pappírnum”. Kuwaitsk risaolíuskip fluttu írakska olíu um Flóann, og allar hreyfingar Írana sem Kuwaitar urðu varir við, voru strax tilkynntar til Bagdad. Írakskar herflugvélar í lofthelgi Sauda voru látnar afskiptalausar. Auk þess voru bæði löndin oft milliliðir þar sem vopn á leið til Íraks millilentu til að salan yrði lögleg heima í sölulandinu.
Þess ber líka að geta að til þess að geta haldið hinu ótrúlega háa hers-mannafla hlutfalli sínu, urðu Írakar að flytja inn vinnuafl í stórum stíl frá öðrum Arabalöndum. Fæstir voru frá nágrannalöndum en margir frá minna efnuðum löndum eins og Egyptalandi og Palestínu. Lánsféð kom sér ekki bara vel í vopnakaup, heldur einnig innanlands.
Bandaríkin leika tveimur skjöldum
Fræg eru sú orð háttsetts bandarísks embættismanns þegar stríðið hófst “It’s a pity they can’t both lose”. Íran hafði eins og fram hefur komið nýlega orðið óvinur númer eitt á svæðinu. En Írak var heldur ekki sérlega hátt skrifað í Washington. Ólíkt Egyptalandi hafði Írak ekki samið frið við Ísrael, og var í Arabaheimunum að reyna að taka við leiðtogahlutverki í andtöðunni gegn því landi. Auk þess hafði Írak allt frá valdatöku Baath-flokksins 1968 hallað sér að Sovétríkjunum meira en vesturlöndum. Bandaríkin létu því stríðið að mestu afskiptalaust til 1982 þegar halla fór undan fæti hjá Írökum. Þá þótti þeim vissara að fara að gera eitthvað í málum, því eftir alltsaman þótti þeim Saddam skárri en Khomeini.
Viðræður hófust árið 1983 með heimsóknum sendinefnda til Bagdad (fyrir einni þeirra fór enginn annar en Donald Rumsfeld). Varð það fljótlega niðurstaðan að ýmsum viðskiptahömlum sem verið höfðu á Írak var aflétt, auk þess sem landið var tekið af lista yfir lönd sem studdu hryðjuverkastarfsemi.
Bandaríkin veittu síðan Írak mikilvæga aðstoð með sölu ýmiss varnings, þó ekki væri það mikið af hergögnum. Víðtækar sendingar á bandarískum hergögnum til Íraks – svarins óvinalands Ísraels - hefðu verið of áberandi og vakið óþarflega mikla athygli heimafyrir, og voru því enn ólöglegar. Þó var eitthvað um að farið væri í kringum þau lög, t.d. voru Írökum seldir nokkrir tugir af Bell og Hughes þyrlum “til almennra nota”. Ómetanlegasta hjálp Bandaríkjanna til Íraka var hinsvegar aðgangur sem þeim var veittur að gögnum úr njósnagervihnöttum. Í hvert skipti sem Íranir bærðu á sér, námu gervihnettirnir það, og það vissu Íranir. Þeir vissu hinsvegar ekki að þær upplýsingar voru komnar á borð hershöfðinga Saddams örskömmu seinna. Vel má vera að þessar upplýsingar hafi stundum bjargað Írökum frá ósigri, eins og á Faw-skaga 1986.
Hið furðulegasta við þetta er þó að segja mátti að Bandaríkjamenn léku tveimur skjöldum; Á sama tíma voru þau einnig að selja vopnabúnað til Írans! Hið svokallaða Íran-Contra mál er eitthvert furðulegasta hneykslið í bandarískri stjórnmálasögu. Að rekja ævintýralegan gang þess máls er efni í aðra grein, en í stuttu máli snerist það um kol-ólöglegar bandarískar vopnasölur til Írans, sem ætlað var að liðka fyrir lausn gísla sem íransk-studdir hryðjuverkamenn héldu í Líbanon og víðar. Ágóðanum af þessum bissness átti síðan að koma í öruggan lóg með álíka ólöglegum vopnasendingum til Contra-skæruliða í Mið-Ameríku! Nokkuð ljóst þótti æðstu embættismönnum Hvíta hússins og jafnvel Reagan sjálfum hafi verið full-kunnugt um þetta, en þeir höfðu flestir passað sig á því að hafa það sem kallað er “plausible deniability” ef upp kæmist.
Þáttur Ísraels er álíka furðulegur. Khomeini erkiklerk hafði vægast sagt aldrei verið hlýtt til “Zíonista”, en með hvatningu frá bandarískum CIA mönnum í Íran-Contra prógramminu, ákváðu þeir þó að “óvinir óvina minna eru vinir mínir”. Ísrael veitti Íran talsverða hernaðaraðstoð, mestu skipti þar aðstoð við að halda gömlum bandarískum vopnakerfum starfhæfum.
Gróðalind vopnasala
Íran-Írak stríðið var ein mesta veisla sem vopnasalar um víða veröld muna eftir, enda ekki á hverju ári sem tvö af olíuauðugustu löndum heims fara í áralangt stríð. Nánast hver einasta þjóð sem eitthvað hafði með hergagnaiðnað að gera, seldi eitthvað til annaðhvort Íraks eða Írans (og stundum beggja landa) á meðan stríðinu stóð. Hræsni stjórnvalda var víða yfirgengileg; heita átti að vopnasölur til beggja þessara landa væru bannaðar með lögum og ráðamenn töluðu grátklökkir um að hversu ömurlegt þetta stríð væri, en á sama tíma aðstoðuðu leyniþjónustur landanna skuggalega einkaaðila við að koma vopnunum á áfangastað. Allstaðar tókst peningunum að smyrja kerfið svo vopnin slyppu í gegn, og víst er að margir urðu ríkir á mis-löglegan hátt.
Frakkland var á eftir Sovétríkjunum næst-stærsti “vopnabyrgir” Íraks, þaðan fengu þeir m.a. fullkomnar Mirage orrustuþotur, og síðan fengu þeir leigðar franskar Super-Etentard árasarþotur með Exocet-flugskeytum til árása á skip í Flóanum. Vestur-Þýskaland veitti Írak víðtæka aðstoð við byggingu efnavopnaverksmiðja. Bretar aðstoðuðu m.a. við smíði risafallbyssu sem reyndar varð aldrei úr. Sænskar Bofors-fallbyssur fundu sér leið á vígvellina þrátt fyrir vopnasölubann. Frá Kína fengu Íranir svokölluð Silkiorms-flugskeyti til nota gegn skipum. Og hér er bara brot af því helsta upp talið.
“Tankskipastríðið” í Persaflóa - Alþjóðavæðing stríðins
Stríðið hafði allt frá upphafi haft merkjanleg áhrif á hinn alþjóðlega olíumarkað. Olíulindir og uppskipunarstöðvar Írans og Íraks við Persaflóa urðu fyrir árásum, og dró strax mjög verulega úr framleiðslu beggja landa. Útflutningsleiðir landanna voru misjafnar. Íran hafði langa strandlengju meðfram öllum Persaflóa, og gat því treyst á sínar eigin útflutingshafnir, t.d. hina gríðarmiklu uppskipunarstöð á Kharg-eyju. Hinsvegar var Basra eina höfn Íraka við Flóann, og var hún óhentug risaolíuskipum. Þeir höfðu því mest þurft að reiða sig á hafnir í vinveittum löndum eins og Kuwait, og pípulagnir yfir Saudi-Arabíu og Sýrland.
Báðum aðilum var í mun að stöðva olíuflutninga hins í Flóanum. Kharg-eyja og fleiri slíkar stöðvar urðu fljótlega fyrir árásum írakska flughersins. Árið 1984 brugðust Íranir við með árásum á skip sem voru nýlögð upp úr höfnum í Saudi-Arabíu og Kuwait, og þá hófst fyrir alvöru sá þáttur stríðsins sem kallaður er “Tanker War”, Tankskipastríðið.
Þessar árásir beggja aðila á tankskip urðu brátt svo þrálátar að aðeins ævintýramenn fengust til að manna skipin, oftast fyrir veglegan áhættu-bónus á kaupið. Með þessum truflunum á siglingunum var að sjálfsögðu komið við lífæðar margra landa, og nú gátu stórveldi heimsins ekki lengur setið auðum höndum. Herskipaflotar voru sendir inná Persaflóa, og var þeim beint fyrst og fremst gegn öðrum stríðsaðilanum, Íran. Bandaríkjamenn gerðu samninga um svokallaða “umflöggun” kuwaitskra og saudískra olíuskipa. Þetta þýddi að skipin fengu leyfi til að flagga bandarískum fána, og nutu þar með verndar Bandaríkjaflota.
1984-1988 ríkti því sannkallað styrjaldarástand á Persaflóa. Olíuskipin sigldu um flóann í sífelldri hættu á árásum Írana eða Íraka, eftir því hverra olíu þau fluttu. Flotar Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands auk nokkurra skipa frá öðrum löndum, reyndu sitt besta til að sýnast “hlutlaus”, þó í raun væri þeim ætlað að verja skip Flóaríkjanna gegn Íran. Flugherir Fljóaríkjanna voru einnig á sveimi, og fyrir kom að þeir skytu niður íranskar flugvélar í sinni lofthelgi.
Hlutleysis-tvískinnungur Bandaríkjanna kom best í ljós í maí 1987 þegar herskipið USS Stark varð í misgripum fyrir árás hinna frönsku Super Etendtard-véla Íraks. Exocet flugskeyti hitti skipið um miðbik með þeim afleiðingum að skipið stórlaskaðist og 37 sjóliðar létu lífið. Í Washington voru menn fljótir að fallast á innilega afsökunarbeiðni Íraka, og gefa í leiðinni út fordæmingu á framferði Írana í Flóaum!
Stríðslok
Í ársbyrjun 1988 höfðu Íranir gefist upp á tilraunum sínun til frekari sókna á suðri, og beindu sjónum sínum að fjallahéruðum Norður-Íraks, sem einnig er kallað Kúrdistan eftir þeim þjóðflokk sem þar býr. Íranir höfðu lengi reynt að ávinna sér stuðning hinna sjálfstæðissinuðu Kúrda, og héldu að kannski gæti þeim gengið betur í sókn sinni með stuðningi heimamanna. Eins og allar aðrar sóknir Írana gegn Írökum fór þessi upp og ofan, en leiddi þó til atviks sem lengi var í minnum haft. Her Saddams hafði um tíma tekist að brjóta sóknina á bak aftur, og þá var kominn tíma til hefnda gegn Kúrdum, sem jafnframt myndi virka sem viðvörun til annara.
Í fjall-lendi Kúrdistans, m.a. í þorpinu Hallabja lét áðurnefndur “Chemical Ali” til sín taka. Flugvélar Írakshers mætttu á svæðið og dreifðu eiturgasi yfir gersamlega varnarlausa íbúana. Þegar Íranir náðu þorpinu nokkrum dögum seinna var það helvíti líkast. Lík hundruða þorpsbúa lágu eins og hráviði um allt, innan um rotnandi búfénað þeirra. Úr munnvikum mátti sjá gulleita froðu leka. Erlendir fréttamenn komu á svæðið, og fréttin fór í loftið um allan heim. Ríkisstjórnir vesturlanda reyndu hinsvegar að gera sem minnst úr henni – í bili, allavega.
Skömmu síðar hófu Írakar gríðarlega gagnsókn í suðri, og unnu aftur Faw-skaga sem tapast hafði tveimur árum áður. Voru þeir þar dyggilega studdir með vestrænum njósnaupplýsingum. Íranir voru nú komnir að fótum fram, og ekki bætti úr að ýmis teikn virtust vera á lofti um að Bandaríkjamenn ætluðu á næstunni að blanda sér af fullum mætti í stríðið gegn þeim.
3. júlí varð annar hörmulegur atburður sem flýtti fyrir endi þessa langa stríðs. Bandaríska herskipið USS Vincennes var á venjulegu eftirliti í Persaflóa, þegar áhöfn þess sá á radarnum að því er virtist grunsamlega flugvél. Var því slegið föstu um borð að hér væri einn af írönsku F-14 “strokuköttunum” á ferðinni, og væri að undirbúa árás á skipið. Skipverjar voru ákveðnir í að láta ekki hið sama henda sig eins og USS Stark árið áður, og jók það á taugatitring þeirra. Þeir skutu flugskeyti að hinnu ókunnu vél, og í sjónvarpsfréttum um allan heim mátti sjá þegar þeir fögnuðu yfir að hafa grandað henni. Fögnuðurinn var skammvinnur, því skömmu síðar kom í ljós að hér var um íranska Airbus 310 farþegaflugvél að ræða. Þarna höfðu 290 manns látið lífið.
Þessi atburður jók enn pressuna á stríðsaðila að ljúka þessu stríði, áður en það yrði enn víðtækara (og hefði þá líklega leitt til innrásar vesturlanda í Íran). Khomeini var orðinn veikur, og raunveruleg völd að færast í hendur Rafsanjani forsætisráðherra. 18. júlí samþykktu Íranir ályktun Sameinuðu Þjóðanna um vopnahlé. 8. ágúst samþykktu Írakar einnig að gangast undir vopnahlésskilmálana. Eftir átta ára allsherjar styrjöld þögnuðu loks byssurnar. Landamæri ríkjanna voru þau sömu og við upphaf stríðsins.
Til að gefa betri hugmynd um hversu umfangsmikið Íran-Írak stríðið var, er að endingu fróðlegt að skoða eftirfarandi tölur og bera saman við önnur stríð eftir 1945:
Mannfall:
Íran: 200.000 fallnir, 500.000 særðir
Írak : 160.000 fallnir, 350.000 særðir
(Í báðum tilvikum lágmörk, er líklega meira)
Stríðskostnaður:
Íran: 91 milljarður dollara
Írak: 112 milljarðar dollara
…og þá er ótalið gríðarlegt tekjutap sem bæði ríkin urðu fyrir vegna skerðingar á olíuútflutningi.
Til að fjármagna þessi ósköp hafði Írak tekið erlend lán uppá tugi milljarða: 8 frá Sovétríkjunum, 25-35 frá Vesturlöndum og Japan, og 50-55 frá Flóaríkjunum, aðallega Saudi-Arabíu og Kuwait. Íranir voru hinsvegar víðast hvar í viðskiptabanni og urðu að greiða kostnað sinn alfarið út í hönd.
Þegar upp var staðið höfðu allir malað gull á þessu stríði, nema stríðsaðilar sjálfir.
Eftirmálinn
Upphaflega var ætlun mín að ljúka þessari grein með að skýra frá eftirmála stríðsins og þeirri atburðarás sem loks leiddi til innrásar Saddams í Kuwait árið 1990. Þegar ég fór að skoða efnið betur, sá ég hinsvegar að sá kafli er allt of áhugaverður til að afgreiða með 2-3 málsgreinum í lok þessarar greinar. Ég hef því ákveðið að setja það efni í sér-grein, sem verður þá einskonar “companion piece” við þennan tvípartara. Vona að lesendur séu sáttir við þá ákvörðun.
Helstu heimildir:
(fyrir áhugasama mæli ég með þessum bókum, og læt því smá-kynningu fylgja með.)
The Longest War: The Iran-Iraq Military Conflict
Eftir Dilip Hiro, 1991.
Dilip Hiro er bresk-indverskur blaðamaður sem skrifað hefur fyrir mörg virtustu dagblöð heims og hefur sérhæft sig í málefnum Miðausturlanda. Hann dvaldi sjálfur langdvölum bæði í Íran og Írak á meðan stríðinu stóð, og fékk að heimsækja vígstöðvarnar beggja megin. Hann er yfirleitt mjög gagrýninn á stefnu Vesturlanda, en gætir þó hlutlægni. Margir telja þessa bók hans um Íran-Írak stríðið þá bestu og ítarlegustu sem komið hefur út um efnið. Hann hefur síðan skrifað fleiri góðar bækur um málefni þessa heimshluta.
The Wars Against Saddam: Taking the Hard Road to Baghdad
Eftir John Simpson, 2003
John Simpson hefur lengi verið einn af þekktustu sjónvarpsfréttamönnum BBC. Það var hann sem (særður og í sjokki) sendi út frétt um árás bandarískra flugvéla á kúrdíska bílalest sem hann var í, nokkrum mínútum eftir þann atburð í Írakstríðinu 2003. Í bókinni segir hann frá þessu atviki og mörgum öðrum á rúmlega tveggja áratuga fréttamannsferli sínum á Persaflóasvæðinu. Hann lét næstum lífið Írans-megin á vígstöðvunum á Faw-skaga 1986, og var í fyrsta fréttamannahópnum sem kom að óhugnaðinum í Hallabja tveim árum síðar. Heildarsöguna og atburði sem hann var ekki sjálfur viðstaddur, rekur hann eftir öðrum heimildum og viðtölum sínum bæði við háttsetta menn og almenning í viðkomandi löndum. Bókin er því bæði spennandi og fróðleg, en skiljanlega er Simpson vægast sagt gagnrýninn á stefnu vesturlanda.
_______________________