Sagt hefur verið að lífshlaup manna geti ráðist af tilviljunum að stórum hluta. Oft verða menn ekki það sem þeir endilega vildu meðan að aðrir geta aldrei orðið það sem þá dreymir um. Margir sem börðust í síðari heimsstyrjöld beggja megin ætluðu sér aldrei að verða stríðshetjur, þeir voru aðeins nógu þrautsegir eða heppnir, kannski hvorttveggja til að komast lífs af út út ótrúlegum aðstæðum eða takast á við hluti sem öðrum mönnum verður um megn. Þeir standa af sér þá eldraun sem aðrir gætu ekki staðist. Þannig verða oft stríðshetjur til, það er ekki hægt að læra til þeirra hluta að öllu leyti.
Þýski landherinn i síðustu heimsstyrjöld var leiddur af Adolf Hitler og undir honum voru svo að sjálfsögðu þeir hershöfðingjar sem honum þóknaðist. Ekki entust þeir allir stríðið út. En einn þeirra var Generalleutnant Fritz Hermann Micheal Bayerlein. Hann er að öðrum hershöfðingjum þýskum ólöstuðum, einn sá besti og líklega sá sem minnst hefur verið fjallað um. Sem herráðsforingi Erwin Rommels var hann ætíð í fremstu víglínu. En maðurinn Fritz Bayerlein er líka alveg sérstakur og af öllum þeim þýskum hershöfðingjum sem ég hef lesið um þá, stendur Bayerlein upp úr sem persóna og mannvinur. Bakgrunnur hans og uppruni, atferli og viðhorf, ekkert finnst mér ólíkara þessum prússnesku aðalsmönnum sem voru meiri hluti hershöfðingja Hitlers. Og það sem gerir þetta kannski enn sérstakara var að afi Fritz Bayerlein var gyðingur og hann því ekki hreinn aríi, en það var með hann eins og fleiri að honum var veitt undanþága af Hitler, sem naut þess valds að gefa fólki líf og frama, alveg eins og að svipta það því. Undir þessum formerkjum barðist Fritz Bayerlein fyrir Þýskaland, hann líkt og stór hluti Þjóðverja, barðist af skyldurækni fyrir stjórnkerfi sem hann fyrirleit en hafði heltekið ættland hans Þýskaland.
Fritz Bayerlein var fæddur í Würzburg í Suður Þýskalandi þann 14. janúar 1897. Faðir hans var komin af millistéttarfjölskyldu og móðir hans var óskilgetin, hún var dóttir gyðings en ættleidd af öðrum manni. Sú staðreynd átti eftir að fylgja Fritz allt tíð, ekki síst á valdatíma nasista. Hann var líka dökkur á brún á brá, með svart hár og svört augu, en það á reyndar við um marga Suður-Þjóðverja. Líf Fritz var ekki ósvipað og annara ungra manna í Evrópu fyrir 1914; framtíðin virtist björt og var lífið í Würzburg ljúft. En í ágúst 1914 skall fyrra stríðið á. “Þið verðið komnir heim áður en laufin falla af trjánum,” sagði Vilhjálmur keisari við hermenn sína er þeir fóru af stað. Laufin féllu fimm sinnum og það liðu fimm ár þar til stríðinu lauk. Fritz var unglingur og horfði á eldri bróður sinn fara haustið 1914 á vígvöllinn, hann hélt áfram sinni skólagöngu og það var svo í janúar 1918 að þýski herinn kvaddi 1899 árganginn til herþjónustu. Þannig hófst 27 ára þjónusta Fritz Bayerlein í þýska hernum. Hann var aðeins 19 ára sumarið 1918 og lenti í hörðustu bardögum stríðsins á vesturvígstöðvunum, óbreyttur hermaður í 9 konunglegu herdeild Bæjaralands. Í mars 1918 hófu Þjóðverjar síðustu sókn sína og þá stærstu. Þeir stefndu 3,5 miljónum hermanna fram og sóttu allt fram Marne við París að krafta þraut í júlí. Þá hófu Bandamenn gagnsókn. Bandaríkjamenn voru komnir með miljónir hermanna á vettvang og þýski herinn varð að hrökklast út úr N-Frakklandi og inn í Belgíu. Þýski herinn missti nærri miljón menn frá því í mars 1918 og til vopnahlés 11. nóvember 1918.
Í þessari eldraun lenti hinn ungi Fritz Bayerlein. Þar kom í ljós eitt það einkenni sem átti eftir að einkenna hann síðar meir, einbeinti og seigla undir álagi og í erfiðleikum. 30. ágúst 1918 lennti hersveit hans í því að vera nærri innkróuð og upprætt í Somme, þar sem Kandadískir hermenn sóttu að þeim. Fritz var þá í vélbyssusveit og ásamt félögum sínum hélt hann opinni undankomuleið gegn margföldu ofurefli. Svo mikla athygli vakti þessi hetjulega frammistaða hans að sjálfur keisarinn Vilhjálmur II sæmdi hann Járnkrossinum fyrir. Það var sjaldgæfur heiður fyrir svo ungan hermann. Hann var einnig hækkaður í tign og gerður að undirliðsforingja. Í nóvember 1918 gáfust Þjóðverjar upp. Þýskaland lá óvígt. Hafnbann bandamanna olli því að Þjóðverjar sultu heilu hungri, herinn á vesturvígstöðvunum var örmagna, spánska veikin hafði gert hundruð þúsunda hermanna óvíga, herir Bandamanna höfðu skriðdreka, en það höfðu Þjóðverjar ekki. Þeir höfðu ekki einu sinni skot sem unnu á skriðdrekunum. Margir þýskir nasistar, þar á meðal Hitler héldu því fram að þýski herinn hefði aldrei verið sigraður 1918, um það sagði Fritz síðar: “Við vorum ekki algjörlega sigraðir en það hefði ekki þurft nema nokkrar vikur til að Þýski herinn hefði hrunið og víglínan opnast.”
Árið 1919, þvert á raunverulegan áhuga sinn, varð Fritz kyrr í hernum og gekk í liðsforingjaskóla. Það var enga vinnu að hafa í Þýskalandi á þessum árum. Versalasamningarnir skáru þýska herinn niður í 100 000 menn; 96 000 hermenn og 4000 liðsforingja. Aðeins þeim bestu var boðið að vera eftir, í þeim hópi var Fritz Bayerlein. Nú er það ekki hægt plássins vegna að rekja nánar í smáatriðum næstu árin, en árið 1933 er Fritz orðinn höfðusmaður. Ógifur og þrátt fyrir að vera mjög myndarlegur maður og draga að sér konur léttilega, þá kýs Fritz að kvænast ekki og stunda skemmtanir eftir því sem þýskum liðsforingja leifðist. Sem frjálslyndur Bæjari er hann ekkert yfir sig hrifinn af Prússunum. Alls ekki nasisti. Það er kominn janúar 1933 og nú tekur Adolf Hitler völdin. Þýskaland er í rúst, fimm miljónir atvinnulausra, verðbólgan gríðarleg, engin lög og regla, nasistar og kommúnistar berjast á götum úti. Þegar Hitler kemur þá kemur reglan og núna byrja Þjóðverjar að efla herinn smátt og smátt. Árið 1934 herskylda og fjölgun upp í 400 000 menn. Gamli 100 000 manna her Weimer lýðveldisins verður grunnurinn af hinum margra miljóna Whermacht. Þaðan koma foringjarnir sem leiða, kenna og þjálfa hina herskyldu ungu þýsku menn. Hitler reisir við brotið þjóðarstolt Þjóðverja og á árunum fram að 1939 vígvæðir hann Whermacht. En Hitler setur líka margskonar lög sem beinast að því að koma gyðingum út úr þjóðlífi Þýskalands. 1934 eru allir gyðingar reknir úr hernum og 15. september setja nasistar Nürnberg lögin, lögin sem svipta alla gyðinga þýskum borgararétti. Allir sem eiga tvo afa eða ömmur sem eru gyðingar missa ríkisborgaréttinn. Fritz Bayerlein er í hópi þeirra sem kallast 1/4 gyðingur og hefði átt að vera rekinn úr hernum ef að hann hefði ekki kynnst hershöfðingja sem þá var strax kominn í kynni við Hitler. Þessi hershöfðingi var Erwin Rommel og fyrir áhrif hans og Heinz Guderian, annars hershöfðingja og yfirmanns brynliðs Panzer deilda Whermacht, þá veitir Hitler Fritz Bayerlein aríavottorð.
Í mars 1938 tekur Fritz svo þátt í fyrstu hernaðraðgerð þriðja ríkisins, hann er í forustu skriðdrekanna sem hertaka Austurríki. Það er svo 1. september 1939 sem síðari heimsstyrjöldin hefst, Hitler sendir 2,2 miljónir inn í Póllandi. Þá er Fritz orðinn Major og hann er í liði því sem mætir Sovétmönnum í Brest-Litowsk er þeir skipta Póllandi. Hann er að lokinni Póllands innrásinni sæmdur Járnkrossinum öðru sinni. Vorið 1940 er Fritz svo með Rommel og brynsveitunum í innrásinni í Niðurlönd og Frakkland. Þar getur hann sér frægð og hylli Hitlers. Hann og menn koma að Dunkirk í maílok og vilja fá að ráðast á Breta sem þar eru innikróaðir en Hitler bannar þeim það. Hann ætlar að leyfa Luftwaffe Hermanns Görings að greiða leifum Breska hersins náðarhöggið. Afleiðingarnar verða þær að Bretar koma undan 330 000 mönnum. “Við vissum að þá myndi stríðið ekki vinnast,” sagði Fritz síðar. Þar reyndist hann sannspár.
22. júní 1941 ráðast svo Þjóðverjar inn í Sovétríkin. 3,5 miljón hermenn með yfir 3600 skriðdreka og studdir af 3500 flugvélum Luftwaffe. Við þekkjum söguna. Þýski herinn kemst að Moskvu þegar vetrar og lendir þá í miklum hremmingum. Fritz í herdeildum Heinz Guderian fram á haust en Erwin Rommel hefur þá verið sendur til að hjálpa Ítölum í Norður-Afríku. Fritz Bayerlein er kvaddur heim í ágústlok 1941 og hækkaður í tign gerður Oberstleutnant. Þá þegar er ákveðið að verða við ósk Rommels um að fá hann sem herráðsforingja sinn í Líbýu. Það gerist líka óvænt atvik í Würzburg í 19. september 1941 þegar Fritz er staddur í fríi á lestarstöðinni í borginni ásamt vinkonu sinni, systur og mági, sem líka er hershöfðingi. Þeir sjá hvar SS-menn eru að misþyrma rússneskum stríðsfanga sem er í hópi manna sem eru í nauðungarvinnu. Fritz skerst í leikinn og gengur á milli ásamt öðrum bæjarbúum sem ofbýður þegar SS maður ræðst á einn Rússann sem fallið hefur við. Í skjóli einkennisbúnings síns og með vopn á lofti stöðva Fritz og nokkrir aðrir menn SS. Það liggur við að til átaka komi milli SS og þeirra en á endanum draga SS mennirnir sig til hlés. En Gestapo er gert viðvart. Fritz er hótað herdómsstól og öllu illu. En svo er málið látið falla niður. Hitler metur Fritz Bayerlein meir en svo að hann vilji draga hann fyrir dómstól, Rommel beitir einnig áhrfium sínum. Í október 1941 er svo Fritz kominn til Norður-Afríku og orðinn foringji herráðs Rommels marskálks. Vinátta þessara tveggja manna helst allt til enda. Saman hefjast þeir handa um gangsókn gegn bretum.
Árin 1941-1943 fóru Þjóðverjar langt með að sigra í átökunum í Norður-Afríku. En þanngað sendu þeir í fyrstu um 200 000 menn til að varna því að Bretar hrektu Mussolini á brott. Öll orka Þjóðverja fer í að hjálpa Ítölum. Margar orustur eru háðar og lengst komast Rommel og menn hans að Egyptalandi. Haustið 1942 snýst svo stríðsgæfan gegn Rommel og þýska hernum. Ekki fæst liðsstyrkur, allt fer á austurvígstöðvarnar. Engir nýjir skriðdrekar, skortur á eldsneyti, aðföngum og þátttaka Bandaríkjamanna í stríðinu. Allt leggst á eitt. Fritz Bayerlein er með í öllum stærstu orustunum Eyðimerkurstríðsins, í sókn og í vörn. Hann er tengiliður Rommels við mennina, lætur sér annt um velferð óbreyttra liðsmanna, er eins manneskjulegur og réttlátur við sína menn og aðstæður leyfa. Í október 1942 er hann sæmdur riddarakrossi Járnkrossins, og gullkrossi járnkrossins. Hann er orðinn einn af fremstu herforingjum þriða ríkinsins. Samt veit Fritz það að Þýskaland getur ekki unnið stríðið. Daginn sem Þjóðverjar sögðu Bandaríkjamönnum stríð á hendur og innrásins í Rússland hafa sannfært hannum það. Og um áramótin 1942-1943 snýst taflið við.
Vorið 1943 eru Þjóðverjar hraktir á brott úr Norður-Afríku og yfir á Sikiley. Undanhald hefst á öllum vígstöðvunum. Í maí 1943 sendi Hitler loks mikinn liðsauka á vettvang til Túnis en alltof seint. Rommel er fluttur veikur til Þýskalands og Fritz Bayerlein er með þeim síðustu sem komast yfir til Ítalíu. Tjón Þjóðverja á vopnum, mönnum og búnaði er óskaplegt. Fritz Bayerlein er örmagna, hann er veikur af ofþreytu og fer á sjúkrahús í Würzburg til að jafna sig. 7 júlí 1943 kveður Hitler hann á sinn fund í höfðustöðvar sínar í Rastenburg í Austur-Prússlandi og sæmir hann eikarlaufum riddarakross járnkrossins.
Þegar haustar 1943 liggur leiðin á austurvígstöðvarnar. Þar þjónar Fritz fram í janúar 1944 að hann er enn kvaddur heim og núna er hann skipaður æðsti yfirmaður yfir nýja bryndeild, Lehr bryndeildina. Henni var ætlað að mæta innrás bandamanna í Frakkland sem Þýska herstjórnin býst við með vori 1944. Lehr bryndeildin var mynduð úr kjarna hermanna sem börðust með Afrika corps í N-Afríku og eins eru henni fengnir nýjir skriðdrekar, þar á meðal hinir miklu Tiger skriðdrekar. Þessari hersveit er jafnframt falið í mars 1944 að hernema Ungverjaland sem þá var farið að leita leiða til að losna úr stríðinu á austurvígstöðvunum. Í Ungverjalandi er svo Panzer Lehr við æfingar allt til í maí 1944 að henni er skipað að fara til Norður-Frakklands. Þar skyldi hún vera varalið að baki strandvörnum og geisast til strandar og stöðva landgöngu bandamanna. Eða svo höfðu Þjóðverjar ætlað sér að hafa það. En sökum þess hve algjöra yfirburði bandamenn hafa í lofti, þá fór það svo að í júní 1944 þegar innrásin hófst að Lehr bryndeildin var nánast þrukuð út með síbreiðuárásum bandarískra og breska sprengjuflugvéla. Hún komst ekki lönd né strönd. Svo krafðist Hitler þess að hún héldi hverri landspildu í júlí og ágúst 1944 þegar vígstöðvarnir hrundu með útrás bandamanna úr Normandí. Fritz og menn hans börðust eins hetjulega og þeir gátu en aðstaðan var vonlaus.
Í júlilok 1944 þegar yfirherstjórnin skipaði Fritz að halda víglínunni hvað sem það kostaði, svaraði hann með því segja: “Allir mínir menn halda stöðu sinni, skriðdrekaliðar, fótgönguliðar, stórskotaliðar, allir, óbreyttir og hátsettir. Þeir halda stöðu sinni. Þeir eru staðfastir í stöðvum sínum, þeir hörfa ekkert, þeir eru stilltir og yfirvegaðir í stöðvum sínum. Þeir eru nefninlega allir fallnir. Dauðir, skiljið þið það?” Tæpitungulaust.
Stríðslokin nálguðust. Þýskaland var að gjörtapa stríðinu, í desember 1944 tók Fritz Bayerlein þátt í Ardenna sókninni, síðustu örvæntingarfullu gagnsókn Þjóðverja á vesturvígstöðvunum. Svo slæmt var ástandið að til að halda sókninni áfram urðu Þjóðverjar að stela eldsneyti frá bandamönnum á skriðdreka sína. Luftwaffe þýski flugherinn sem varla hefur sést í stríðinu á vesturvígstöðvunum frá D-degi veitir aðstoð sína; 1 janúar 1945 gera leifar hans, 800 flugvélar tilraun til árásar á flugvelli bandamanna, en svo slæmt er ástandið á flugmönnum Þjóðverja að þeir verða að láta reynda flugmenn fljúga fremst til að nýliðar sem á eftir koma rati! Ekki höfðu þýskar hersveitir heldur verið látnar vita og fyrir mistök skjóta þær niður flestar þær flugvélar sem farast, enda Luftwaffe ekki haft sig í frammi að ráði síðan um sumarið. Allt fer úrseiðist. Fritz heldur áfram að berjast, hann veit að hann gefist hann of fljótt upp, þá mun SS taka hann af lífi fyrir svik og uppgjafaranda en gefist hann of seint upp þá muni hann sóa mannslífum fyrir málstað sem ekki er hans og jafnvel sjálfur falla.
16. apríl gafst Fritz Bayerlein upp fyrir Bandaríkjamönnum í Ruhr héraði, ásamt 55 þúsund öðrum þýskum hermönnum. Þá var hann innikróaður, skotfæralaus og búinn að leita að hentugu tækifæri til að gefast upp, eftir að hafa tekið þátt í sex ára stríði sem hann barðist í fyrir málstað sem hann fyrirleit, einungis knúinn áfram af sjálfsbjargarviðleitni og ást til síns föðurlands, Þýskalands. Allan lokaþátt stríðsins gæti hann sín vandlega að koma fram af sæmd og virðingu við óvini sína, hann óttaðist að verða bendlaður við stríðsglæpi annars og eins og margir þýskir hermenn vildi hann ekki hafa mikið saman við SS að sælda. Hann var í haldi bandamanna til 1947. Í fangelsisvistinni tók hann sér fyrir hendur að sinna viðgerðum og viðhaldi á bílum í eigu bandaríska hersins til að stytta sér stundir enda mikill áhugamaður um bíla. Í varðhaldinu varð Fritz mjög vinsæll meðal sinna fyrri óvina, hann lærði ensku á skömmum tíma og var mjög hrifinn af öllu bandarísku, öllum vestrænum gildum.
Fritz Bayerlein lést í Würzburg 30. janúar 1970.
Heimild: BAYERLEIN From Afrikakorps to Panzer Lehr
by P.A Spayd.