Á jóladag 1979 fóru Sovétmenn með óvígan her inn yfir landamæri hins múslimska nágrannalands síns, Afganistan. Innan tveggja sólarhringa höfðu þeir höfuðborgina Kabúl á valdi sínu. Of langt mál væri að rekja ástæðurnar og aðdragandann að þessari innrás í smáatriðum, en tilgangurinn var að koma frá ríkisstjórn sem Rússar óttuðust að væri að svíkja sig í tryggðum. Undanfarin ár höfðu afgönsk stjórnvöld verið vinveitt Sovétríkjunum. En landið var alltaf róstusamt, svokallaðir “mujaheddin” skæruliðar af ýmsum fornum ættbálkum óðu uppi og gerðu stjórn landsins erfitt fyrir. Hingað til höfðu Rússar ekki viljað flækjast inní átök í landinu og aðeins veitt litla hernaðaraðstoð, og það treglega. En nú óttuðust þeir að afgönsk stjórnvöld hefðu í hyggju að snúa sér til vesturlanda um stuðning, og fyrirskipuðu því innrás.
Viðbrögð Bandaríkjamanna við þessari innrás urðu mun harðari en Rússar bjuggust við. Carter-stjórnin lá á þessum tíma undir hörðum ásökunum um “friðþægingu” við Rússa, auk þess sem Íran-málið var að komast í hámæli. 1980 var kosningaár, og Carter var nauðugur einn sá kostur að fylgja ráðum síns eitilharða þjóðaröryggisráðgjafa Brzezinski og gefa hvergi eftir. Í stefnuræðu sinni í janúar 1980 kallaði Carter innrásina “alvarlegustu ógn við heimsfriðinn síðan í Seinni heimsstyrjöld” og ítrekaði að “tilraunir utanaðkomandi aðila til að ná völdum á Persaflóasvæðinu væru skoðaðar sem alvarleg ógn við hagsmuni Bandaríkjanna, og yrði mætt með öllum tiltækum ráðum, hervaldi þar á meðal”.
Bandaríkin settu ýmsar viðskiptaþvinganir á Sovétríkin, þó ekki væri það algert viðskiptabann. Bandarískum íþróttamönnum var (þeim til ægilegrar gremju) meinað að taka þátt í Ólympíuleikunum í Moskvu. Bandarísk stjórnvöld reyndu með fremur slökum árangri að fá bandamenn sína í NATO til að grípa til svipaðra aðgerða. Jafnframt var hvarvetna í heiminum hert verulega á and-Sovéskum áróðri.
Hin stöðnuðu Sovétríki
Bandaríkjamenn vissu það ekki þá, en því fór víðs fjarri að innrásin í Afganistan væri “fyrsta skref” í einhverri víðtækri áætlun heimsvaldasinnaðra Sovétmanna til að ná yfirráðum yfir Persaflóasvæðinu. Innrásin hafði verið ákveðin á fundi Æðsta ráðs (Politburo) Sovétríkjanna þann 12. desember. Mörgum árum síðar kom í ljós að þessi fundur hafði verið ákaflega ruglingslegur, og innrásar-ákvörðunin verið tekin nánast í hálfkæringi.
Það var vel varðveitt leyndarmál í þá daga, en síðar hefur komið í ljós að Sovétríkin voru á þessum tímapunkti alls ekki það ofur-máttuga risaveldi sem þau gáfu sig út fyrir að vera (eða voru útmáluð af vestrænum kaldastríðshaukum). Eftir valdatöku Leoníds Bréznevs árið 1964 hafði stefnan almennt verið sú að halda í horfinu, með þeim afleiðingum að um 1980 var allt stjórnkerfi þessa mikla veldis gersamlega staðnað, framtakssemi nýrra stjórnenda var litin hornauga fremur en að til hennar væri hvatt.
Ekki bætti úr skák að Bréznev sjálfur var orðinn aldraður og heilsulaus. Á fundinum örlagaríka þar sem innrásin var ákveðin, var hann t.d. undir áhrifum áfengis og deyfilyfja og yfirgaf fundinn áður en ákvörðun var tekin. Það kom í hlut Júrí Andropovs yfirmanns KGB, og hins aldna flokksgæðings Mikhail Suslovs að taka ákvörðunina. Andrei Gromyko utanríkisráðherra var andvígur, og vitað var að Alexei Kosygin flokksformaður var það líka, en hann sat ekki fundinn. Utan Andropovs voru voru allir þessir menn komnir yfir sjötugt, og allir höfðu þeir hafið valdaferil sinn í Kommúnistaflokknum á tímum Stalíns og jafnvel fyrr. Þeir voru dæmigerðir fyrir hið steinrunna kerfi sem þeir stjórnuðu. Enn voru nokkur ár í að reynt yrði að breyta þessu ástandi.
Get Carter
Hafi Jimmy Carter eygt von um að verða endurkjörinn árið 1980, varð sú von að engu þegar leið á árið. Íran-málið sá rækilega til þess. Engin leið virtist vera til að fá gíslana úr sendiráðinu í Teheran leysta úr haldi, og herfilega misheppnuð hernaðaraðgerð til að bjarga þeim gerði bara illt verra. Ofan á Afganistan- og gíslamálin bættist svo enn eitt vandamál við þegar Saddam Hussein, hinn tækifærissinnaði einræðisherra Íraks, hóf allsherjar stríð við klerkaveldið í Íran. Á einu ári hafði þessi mikilvægi heimshluti farið að loga í stríðsátökum, sem að sjálfsögði leiddi til snar-hækkandi olíuverðs og verðbólgu á vesturlöndum.
Hinn ofur-íhaldssami repúblikani Ronald Reagan var andstæðingur Carters í forsetakosningunum, og nýtti sér ógöngur hans til hins ítrasta. Hann prédikaði “gömul, góð amerísk gildi”, og hét því að endurreisa stolt og mátt Bandaríkjanna. Hann var fyrrum Hollywood leikari sem kunni að hrífa fólk, og jafnframt á sinn hátt klókur pólitíkus sem margir höfðu brennt sig á að vanmeta. Árið 1980 hefði líklega nánast hvaða meðal-repúblikani sem er getað marið sigur á Carter, en gegn Reagan átti hann ekki minnsta séns. Reagan hlaut yfirburðakosningu, 50,7 % á móti 41,2 % Carters – eða sé litið til ríkja, 45 ríki á móti 5. Það var dagljóst að nýjir tímar myndu renna upp, hvernig sem þeir yrðu.
Ronald Reagan í aðalhlutverki
Fyrir mjög undarlega tilviljun var gíslunum í Íran sleppt úr haldi daginn sem Reagan tók við embætti, 20. janúar 1981. Margir halda því fram að Reagan-menn hafi gert leynisamning við Írana um að halda gíslunum fram að þessum degi, svo embættistaka hans mætti fá meiri Hollywood-brag. Enn hefur ekkert af þeim getgátum sannast, hvað sem síðar verður.
Út á við í það minnsta, tók Reagan við embættinu með Hollywood-hugarfari sem fór vel í bandaríska þjóðarsál. Nú skyldi sko engin djöfuls seventies “real-pólitík” gagnvart kommadindlum stunduð í Hvíta húsinu; kjarninn í boðskap Reagans var “Við erum góðu kallarnir, Rússarnir eru vondu kallarnir, og við munum vinna!” Enn í dag er deilt um að hve miklu marki Reagan var einlægur í þessari trú sinni, og hvað var sýndarmennska til að ganga í augu almennings.
Strax á fyrstu dögum sínum í embætti gerði Reagan það ljóst að hann hyggðist ekki semja við Sovétmenn um eitt eða neitt, framvegis yrði “yfirgangi” þeirra mætt af fullkominni hörku. Eitt af fyrstu embættisverkum Reagans var að auka hernaðarútgjöld (sem Carter hafði þegar aukið umtalsvert) um 32 milljarða dollara. Þetta var fjármagnað með gríðarlegum lántökum ríkissjóðs, auk þess sem ýmsum þjóðþrifaverkefnum innanlands var slátrað með niðurskurðarhnífnum. Allt var þetta í anda íhaldsstefnu Reagans.
Með kjöri Reagans efldist líka hægri-bylgja sem fór yfir önnur vesturlönd á þessum tíma. Í Bretlandi var hin ofur-íhaldssama Margaret Thatcher þegar við völd, en fljótlega varð íhaldssöm og herská and-kommúnísk stefna einnig ofaná með Francois Mitterand í Frakklandi og Helmut Kohl í Vestur-Þýskalandi. NATO varð öflugra en nokkru sinni fyrr. Gömlu mennirnir í Kreml fóru að verða alvarlega órólegir.
Reagan um víða veröld
Í raun boðaði Reagan krossferð gegn kommúnisma, og víða um heiminn urðu menn varir við stóraukin afskipti Bandaríkjamanna. Í Mið-Ameríku voru borgarastyrjaldir í gangi bæði í El Salvador og Nicaragua, og þar lét leyniþjónustan CIA mjög til sín taka. Í fyrrnefnda landinu studdu Bandaríkin blóðuga herforingjastjórn gegn skæruliðum kommúnista, en í síðarnefnda landinu var því öfugt farið því þar voru svokallaðir Contra-skæruliðar studdir gegn vinstrisinnaðri Sandinista-stjórn.
Í október 1983 réðist Bandaríkjaher með gífurlegu ofurefli liðs á smáeyjuna Grenada í Karíbahafi. Samkvæmt áróðrinum voru kúbanskir kommúnistar, með aðstoð Sovétmanna, að koma upp hernaðarbækistöð þar. Lítið fannst til að sanna það eftir öll lætin, en bandarískur almenningur studdi aðgerðirnar, feginn loksins væri herinn að sýna kommúnistum tennurnar aftur eftir ófarirnar í Víetnam fyrir áratug síðan.
Í Afganistan áttu Rússar í endalausum skærum við mujaheddin-skæruliða, sem nú voru dyggilega studdir af Bandaríkjamönnum með vopnasendingum. Reagan lýsti mujaheddin sem frelsishetjum, “freedom fighters” í hetjulegri baráttu gegn hinu illa Sovét-heimsveldi. Í raun hafði Reagan-stjórnin lítinn áhuga á að losna við Rússa úr Afganistan í bráð, því stríðið var að verða mikill dragbítur á þá bæði hernaðarlega og á áróðurssviðinu. Það var því orðið Bandaríkjamönnum í hag að láta Rússum blæða í Afganistan sem allra lengst, og sjá til þess að þeim tækist aldrei að sigra “frelsishetjurnar” múslimsku. En stuðningur við frelsi og lýðræði í Afganistan var ekki ókeypis; herforingjastjórnin í Pakistan og konungsveldið í Saudí-Arabíu fengu milljarða dollara og aðgang að bandarískum hátæknivopnum fyrir stuðning sinn við aðgerðirnar.
Örlagaflugið KAL 007
Árið 1983 var Kalda stríðið orðið kaldara en það hafði verið síðan í Kúbudeilunni 1962. Reagan var sífellt herskárri, hann hafði í ræðu kallað Sovétríkin “Heimsveldi illskunnar” (“Evil Empire”). Hernaðarútgjöld Bandaríkjanna voru orðin gríðarleg og nú átti enn að auka þau með svokölluðu geimvarnakerfi (SDI – Strategic Defense Initiative). Þetta kerfi átti að skapa skjöld gegn kjarnorkuflugskeytum með gervihnöttum, eldflaugum og jafnvel laser-byssum utan við gufuhvolfið. Þetta voru í raun skýjaborgir, er tæpast einu sinni framkvæmanlegt nú á dögum. Enda var mikið gert grín að þessu og kallað “Star Wars” kerfið. En Rússar urðu engu að síður órólegir. Hótanir og skætingur gengu nú nánast daglega á víxl milli Hvíta hússins og Kreml.
1. september 1983 gerðist hörmulegur atburður sem markaði hámark “vorhretsins”. Kóreönsk Boeing 747 farþegaflugvél, Flug KAL 007, flaug inn yfir lofhelgi Sovétríkjanna á leið sinni frá Alaska til Suður-Kóreu. Hún stefndi beint yfir margar af mikilvægustu og leynilegustu herstöðvar Rússa við Norður-Kyrrahaf, og orustuþotur flughersins voru strax sendar á loft. Loftvarnakerfi Rússa fylgdist með vélinni bæði í lofti og á radarskermum á jörðu niðri í næstum 2 klukkutíma, og grunaði að hér væri bandarísk njósnaflugvél á ferð.
Atvik eru enn umdeild í dag, en það lítur út fyrir að röð af mannlegum mistökum stressaðra yfirmanna í loftvarnakerfinu hafi orðið til þess að skipun var gefin um að vélin skyldi skotin niður. Flugmaður SU-15 orustuþotunnar sem fylgdi kóresku vélinni eftir, sagði síðar að hann hefði séð greinilega að þetta væri Boeing 747, en hlýtt skipun úr stjórnstöð um að skjóta hana niður treystandi því að menn á jörðu niðri vissu eitthvað sem hann vissi ekki, og þetta væri í raun og veru bandarísk njósnavél. Hvað sem því líður, var farþegaþotan skotin niður og 269 manns týndu lífi.
Suður-Kórea var einn af tryggustu bandamönnum Bandaríkjanna, og á meðal farþega þotunnar höfðu verið margir Bandaríkjamenn. Ástandið í alþjóðamálum hafði verið spennuþrungið undanfarin ár, en nú fór gífurleg reiði- og hneyklsunaralda um öll vesturlönd (greinarhöfundur man vel eftir þessu, þó mjög ungur væri). Margir sem áður höfðu verið skeptískir á Reagan-áróðurinn, fóru að hallast að því að Sovétríkin væru í raun “Heimsveldi illskunnar”.
Reagan og hans menn notuðu þetta frábæra áróðstækifæri til hins ítrasta. Bandarísk stjórnvöld vissu sem var, að Rússar höfðu hér gert ótrúlega klaufaleg og hörmuleg mistök, en voru ekkert að segja almenningi frá því. Þau héldu því fram fullum fetum að hinir vondu Rússar hefðu allan tíman vitað nákvæmlega hvað þeir væru að gera. Á þingi SÞ kallaði bandaríski fulltrúinn þetta “wanton, calculated, deliberate murder”. Hið steinrunna sovéska stjórnkerfi bætti gráu ofan á svart með viðbrögðum sínum. Í stað þess að viðurkenna strax hörmuleg mistök og biðjast afsökunar, þögðu Rússar þunnu hljóði í heila viku, og gáfu þá loks út fremur týpíska fordæmingu á áróðursherferð Bandaríkjanna gegn sér, sem ekki bætti ímynd þeirra neitt.
Styrjaldarhætta í hámarki
Það var í þessu pólitíska andrúmslofti sem vígbúnaðarkapphlaupið í Evrópu hélt áfram, og Bandaríkjamenn réðust inn í Grenada. Í nóvember 1983 var síðan haldin mjög víðtæk heræfing NATO-ríkja í Vestur-Þýskalandi, kölluð “Able Archer 83”. Þessu fylgdi að sjálfsögðu mikið brambolt landherja, og meðal þess sem var æft var gagn-kjarnorkuárás á hugsanlega innrásarheri austurblokkarinnar. Það fól í sér að kjarnorkuflaugar voru settar í síðustu viðbragðsstöðu eins og fyrir raunverulega kjarnorkuárás.
Það var almenningi ekki kunnugt þá, en síðar kom í ljós að ráðamenn Sovétríkjanna voru á þessum tímapunkti í fullri alvöru hræddir um að nú ætluðu vesturveldin að gera allsherjar árás á þá. Júrí Andropov hafði nýlega tekið við leiðtogahlutverki eftir lát Bréznevs, en var sjálfur orðinn gamall og heilsulaus. Stöðnunin var orðin alger, og gömlu mennirnir í Kreml voru komnir í umsáturs-hugarástand eftir áralangan Sovét-barning Reagans og áður Carters. Í nóvember 1983 hefði líklega ekki þurft mjög mikið til að þeir fyrirskipuðu “forvarnar-árás” á Vestur-Evrópu af svipaðri rælni eins og þeir réðust inní Afganistan árið 1979, sem hefði að sjálfsögðu leitt til þriðju heimsstyrjaldar.
Reagan frétti fljótlega af uppnáminu sem “Able Archer 83” hafði valdið í Kreml, og varð mjög brugðið. Í kappsemi sinni við að vinna Kalda stríðið, hafði honum aldrei dottið í hug að “vondu kallarnir” yrðu hræddir um að hann væri sjálfur í árásarhugleiðingum. Reagan hugsaði alvarlega sinn gang, og ákvað að fara varlegar framvegis. Í ræðu í janúar 1984 mátti heyra sáttatón, og skömmu síðar hittust utanríkisráðherrar landanna, Schultz og Gromyko, á fyrsta fundi æðri ráðamanna þessara landa síðan 1979.
Kalda stríðinu var ekki enn lokið, en eftir mörg mjög ísköld ár mátti loksins greina smá-þíðu. En það var ekki fyrr en eftir að vorað hafði nokkrum árum síðar, sem menn sáu nákvæmlega hversu hættulegt þetta síðasta hret hafði verið.
Helsta heimild:
Cold War eftir Jeremy Isaacs og Taylor Downing
_______________________