Hámark þíðunnar
Um miðjan áttunda áratuginn var samkomulag Vesturlanda og Sovétblokkarinnar almennt með besta móti. Bandaríkjamenn höfðu dregið sig útúr Víetnam og leitast við að bæta samskiptin bæði við Sovétríkin og Kína, í báðum tilfellum með ágætis árangri. Sumarið 1975 virtust endalok Kalda stríðsins vera í augsýn nýjir tímar í alþjóðastjórnmálum að renna upp. 1. ágúst var Helsinki-sáttmálinn undirritaður, mjög víðtækt plagg sem festi heimsskipan eftirstríðsáranna í sessi, og kvað á um vinsamleg samskipti risaveldanna. Eins og til að undirstrika sáttmálann voru Soyuz og Skylab geimför Sovétríkjanna og Bandaríkjanna tengd saman á sporbaug um jörðu, og geimfararnir tókust í hendur.
En það reyndist vera of mikil bjarsýni. Enn var meira en áratugur í að voraði í Kalda stríðinu, og áður en það gerðist þurftu menn að þola eitt mjög hart hret enn.
Carter tekur við embætti
Þegar James Earl Carter tók við embætti Bandaríkjaforseta í ársbyrjun 1977 var hann nánast óskrifað blað í stjórnmálum almennt, en þó sérstaklega utanríkismálum. Í Sovétríkjunum var kjöri hans tekið nokkurri varúð. Carter var “hugsjónapólitíkus” sem prédikaði um mannréttindi og kristileg gildi, Sovétmönnum þótti betra að eiga við gamalreynda “real-pólitíkusa” eins og Nixon og Ford, því reynslan hafði sýnt að hjá þeim var “geltið verra en bitið” í samskiptum við hinn kommúníska heim.
Carter var einlægur friðarsinni, en að sama skapi einlægur and-kommúnisti. Honum var í mun að viðhalda góðum samskiptum við Sovétmenn, en á sama tíma beitti hann áhrifum sínum í þágu sovéskra andófsmanna, og gerði mikið mál úr því sem hann kallaði brot Sovétmanna á mannréttindaákvæðum Helsinki-sáttmálans. Þessi “afskiptasemi” fór í taugarnar á þeim, og samskiptin tóku strax að kólna til muna.
Reynsluleysi sitt í utanríkismálum reyndi Carter að bæta upp með að reiða sig á ráðgjafa, og þeim tveim helstu bar ekki saman um eitt eða neitt. Cyrus Vance utanríkisráðherra vildi oftast halda í Nixon-Ford stefnuna gagnvart Rússum, fara varlega og leysa ágreiningsmál með samningum, jafnvel þó það þýddi að Bandaríkjamenn yrðu að kyngja einhverju misjöfnu stundum. Þjóðaröryggisráðgjafinn Zbigniew Brzezinski var á öndverðum meiði, vildi sína hörku og helst ekkert gefa eftir. Að Carter skyldi taka mark á þessum mönnum til skiptis var ekki til þess fallið að móta heildstæða utanríkisstefnu, og varð fljótlega til þess að ráðamenn Sovétríkjanna misstu tiltrú á Carter-stjórninni.
Vígbúnaðarkapphlaupið í Vestur-Evrópu
Árin 1978-80 voru SALT-afvopnunarviðræðurnar (Strategic Arms Limitation Talks), sem gengið höfðu ágætlega fyrri hluta áratugarins, í uppnámi. Rússar voru byrjaðir að koma sér upp meðaldrægum flugskeytum af gerðinni SS-20 í Austur-Evrópu. Þau voru nákvæmari en fyrri gerðir, hreyfanleg á stórum trukkum, og gátu borið marga kjarnaodda í stað eins. Rússum var þetta heimilt samkvæmt SALT I samkomulaginu sem aðeins hafði kveðið á um fjölda flugskeyta, ekki kjarnaodda á þeim.
Carter, studdur og jafnvel hvattur af flestum NATO ríkjum sem málið varðaði (þ.e.a.s. voru innan skotmáls SS-20), brást við þessari nýju ógn með að fyrirskipa uppsetningu nýrra Pershing II flugskeyta í Vestur-Evrópu, auk þess sem að hann heimilaði þróun tveggja nýrra vopnakerfa: Stýriflauga (Cruise Missiles, sem við þekkjum vel í dag), og hinnar svokölluðu neutron-sprengju. Það átti að vera kjarnorkusprengja búin þeim eiginleikum að gefa frá sér sem mesta geislun með sem minnstum sprengikrafti. Hugmyndin var að hanna vopn sem gæti eytt sem mestu af hugsanlegum innrásarher í Vestur-Evrópu, með sem sem minnstum skemmdum á mannvirkjum. Neutron-sprengjan komst aldrei af teikniborðinu, en nýttist Austurblokkinni vel sem áróðursvopn. Þeir kölluðu hana “hið fullkomna kapítalistavopn, drepur fólk, hlífir verðmætum”.
Þrátt fyrir þetta, tókst lokst að berja saman SALT II samkomulagi árið 1979. Carter fór í fyrsta og eina skiptið til fundar við Bréznev Sovétleiðtoga í Vínarborg og undirritaði samkomulagið. Ekki þótti fundurinn að öðru leyti vel heppnaður, og var árangur hans að engu gerður þegar Bandaríkjaþing neitaði að staðfesta samkomulagið. Carter var af harðlínumönnum úr báðum flokkum heimafyrir sakaður um friðþægingarstefnu (appeasement) við Sovétmenn. Til að bregðast við þeim ásökunum heimilaði Carter enn eitt rándýrt kjarnorkuvopnakerfið, kallað MX. Það átti að sameina kosti niðurgrafinna og hreyfanlegra flugskeyta með að hafa flaugarnar hreyfanlegar neðanjarðar eftir samtengdu neti af neðanjarðarbyrgjum.
Illa var nú komið fyrir ímynd Carters sem sannkristins “friðarins manns”. Carter var síður en svo alls varnað í utanríkismálum, eins og hinar árangursríku sáttasemjara-aðgerðir hans milli Ísraels og Egyptalands sýndu best. En annarstaðar í Miðausturlöndum tókst honum herfilega upp.
Íran
Í Íran höfðu Bandaríkin frá fornu fari stutt gerspillta einræðisstjórn Reza Pahlavis keisara. Íran var þá eins og nú einstaklega olíuríkt, og höfðu Bandaríkjamenn séð sér tvöfaldan hag í því að styðja keisarann; Þarna höfðu þeir bandamann með löng landamæri að Sovétríkjunum, sem að auki var nógu ríkur til að staðgreiða risavaxnar pantanir á nýjustu hernaðartækni frá Bandaríkjunum. (Fyrir hernaðarfræðinga má t.d. geta þess að Íran keisarans var eina landið sem bæði var nógu ríkt og nógu vel treyst til að kaupa F-14 orustuþotur.)
1978 fór hinsvegar veldi keisarans að hrynja undan uppreisn íslamskra bókstafstrúarmanna undir forystu Khomeinís erkiklerks. Í ársbyrjun 1979 þurfti keisarinn að flýja land, og í stað tryggs bandamanns var Íran orðið svarið óvinaland Bandaríkjanna. Það sannaðist mjög fljótlega þegar ráðist var inn í bandaríska sendiráðið í Teheran og tugir gísla teknir. Atburðir í Íran næsta árið snertu ekki Kalda stríðið beint, en höfðu þó sín áhrif á það. Bandarískur almenningur var pirraður á “getuleysi” Carters við að leysa Íran-málið, og átti það sinn þátt í falli hans í forsetakosningunum 1980. Einnig hafði “missir” Írans áhrif á stefnu bandaríkjamanna á svæðinu almennt, og áttu atburðir í nágrannalandindu Afganistan eftir að valda því að enn kólnaði í samskiptum austurs og vesturs.
Í framhaldsgreininni mun ég fjalla um innrás Rússa í Afganistan og afleiðingar hennar. Fall Carters og valdatöku Reagans, og hið hættulega ástand sem skapaðist í Kalda stríðinu fyrstu árin af valdatíð hans. Einnig verða málin í Sovétríkjunum sjálfum skoðuð betur.
_______________________