Þó Rússland hefði alltaf verið vanþróað miðað við vesturlönd á ýmsum sviðum, hafði það þó talsvert sterkan bakgrunn vísindalega. Í Rússlandi keisaranna var menntun almennings á ömurlegu stigi og aðeins yfir- eða millistéttarfólk hafði aðgang að hærri menntun. En að gæðum stóðu samt rússneskir háskólar vestrænum síst að baki, og landið gat af sér marga fræga vísindamenn. Má þar nefna Mendelyev, sem fyrstur raðaði frumefnunum í lotukerfi, Pavlov sem rannsakaði atferli dýra, og Tsiolkovsky sem var brautryðjandi að nútíma geimrannsóknum.
En rétt eins og gerðist með félagsvísindin (og auðvitað bókmenntir og listir), varð mikill skaði á rússneskum raunvísindum á millistríðsárunum með valdatíma Leníns og sérstaklega Stalíns. Bolsévikar vantreystu há-menntuðu fólki yfirleitt, “Intelligensían” var eitthvað sem Alþýðan þurfti að vara sig á, ef ekki bara hreinir óvinir hennar. Líkt og annað menntafólk flúðu margir færir raunvísindamenn landið, og gátu sér gott orð erlendis. Aðrir lentu í “hreinsunum” Stalíns. Þeir sem þraukuðu máttu þola að vinna undir stöðugu eftirliti og gera það sem þeim var sagt. Í Þýskalandi Hitlers var afstæðiskenning Einsteins kölluð “gyðingavísindi”, í Rússlandi Stalíns “borgaraleg vísindi”, og undir ýmislegt svona urðu menn að beygja sig ætluðu menn starfi (og jafnvel lífi) sínu að halda.
Eins og mörg önnur viðhorf Stalíns, fór viðhorf hans til raunvísindamanna að breytast í Seinni heimsstyrjöld, þegar hann sá klárlega hverju öflugt raunvísindasamfélag gat skilað. Þjóðverjar fundu upp þotur og eldflaugar. Bandaríkjamenn réðu til sín hæfileikafólk allstaðar að (þar á meðal menn sem flúið höfðu Sovétríkin) og tókst að smíða hrikalegasta vopn allra tíma, kjarnorkusprengjuna. Á Potsdam-fundinum í júlí 1945 sagði Truman Bandaríkjaforseti Stalín frá nýju vopni sem hann hefði yfir að ráða. Truman til furðu, lét Stalín sér fátt um finnast. Hélt Truman jafnvel að Stalín hefði ekki skilið sig. En hann hafði skilið mæta vel, og í raun var honum hreint alls ekki sama.
Stalín vissi af kjarnorkuáætlun Bandaríkjamanna (Manhattan Project) strax árið 1943, gegnum njósnara sína. En hvorki hann né aðrir valdamenn virðast hafa haft mikla trú á þessu. Að vísu var helstu kjarneðlisfræðingum Rússa skipað að athuga málið, en lítið meira en það. Ekkert víðtækt prógramm á borð við “Manhattan” var sett í gang, enda erfitt um vik fyrir iðnaðinn í stríðinu miðju. Það var því eins og Stalín vaknaði við vondan draum sumarið 1945 þegar í ljós kom að sprengjan virkaði.
Kjarnorkuáætlun Sovétríkjanna var sett í gang strax haustið 1945, og skyldi ekkert til sparað, Stalín fyrirskipaði orðrétt að þetta skildi gert “á rússneskum skala”. Kjarneðlisfræðingurinn Igor Kurchatov varð “hinn rússneski Oppenheimer”, yfirmaður vísindarannsókna. Framkvæmdastjórnin var hinsvegar sett í hendur Lavrentí Bería og stofnunarinnar sem hann stýrði, NKVD. Bería var skuggalegur karakter, oft nefndur “yfirböðull Stalíns” og NKVD var einhver illræmdasta og víðtækasta kúgunarstofnun sögunnar.
Bería þótti af ýmsum ástæðum hentugur æðsti yfirmaður verkefnisins. Í fyrsta lagi yrðu öryggismálin á hreinu, ekkert læki út. Í öðru lagi myndu vísindamennirnir fá hæfilega “hvatningu” við störf sín, vitandi að meiriháttar mistök gætu haft afar slæmar afleiðingar fyrir þá persónulega. Og síðast en alls ekki síst, þá voru hæg heimatökin fyrir NKVD að útvega frítt og jafnvel “einnota” vinnuafl í allar þær gífurlegu framkvæmdir sem til þurfti. Talið er að þúsundir Gúlag-fanga hafi látið lífið við byggingu kjarnakljúfa og önnur hættuleg störf við kjarnorkuáætlun Stalíns.
Engu að síður hafa vísindamenn og aðrir sem sjálfviljugir unnu við þessa áætlun sagt að þeir hafi unnið af ósviknum áhuga og metnaði. Andinn frá í “Föðurlandsstríðinu mikla” var enn við lýði, og menn vildu ólmir rjúfa einokun Bandaríkjanna í kjarnorkumálum, og síðan vinna upp forskot þeirra. Einn af þeim vísindamönnum sem síðar sögðu frá þessu var Andrei Sakharov, sem síðar varð einn frægasti andstæðingur kjarnorkuvígbúnaðar í heiminum og mátti þola útskúfun og fangelsun í eigin landi fyrir vikið.
Sér til stuðnings í þessu verkefni höfðu rússneskir vísindamenn að sjálfsögðu allar upplýsingar sem njósnarar gátu náð í erlendis. Talið er að upplýsingar sem kjarneðlisfræðingurinn Klaus Fuchs veitti Rússum um Manhattan-rannsóknirnar hafi sparað þeim nokkura mánaða vinnu, þó enginn haldi því fram lengur (eins og gert var þá) að þær upplýsingar hefðu ráðið úrslitum.
Vísindamennirnir höfðu einnig aðra ástæðu til að vera ánægðir með verkefnið: Strax í upphafi fyrirskipaði Stalín að ekkert skyldi til sparað, og því fengu vísindamennirnir betri laun og kjör en þá hafði áður dreymt um að gerst gæti í Sovétkerfinu. Þeir voru að vísu undir eftirliti NKVD, en á sama tíma var séð til þess að þá skorti ekkert í lífsþægingum. Byggð voru stór og þægileg hús fyrir þá, vísindaþorp, og þangað fluttur allskonar varningur sem hvergi fékkst annarsstaðar. Eins og æðstu valdamenn Kommúnistaflokksins, lifðu þeir nú lífi sem almenningur í hinum stríðshrjáðu Sovétríkjunum gat varla hugsað sér. Eftir því sem árin liðu var sífellt bætt við þessi “vísindaþorp” þar til þau urðu loks heilar borgir sem enginn almennur borgari hafði aðgang að. Frægust þeirra er Arzamas-16, þar sem mikilvægustu kjarnorkurannsóknirnar fóru fram.
Sovétríkin voru svo lokað land að á eftirstríðsárunum höfðu jafnvel leyniþjónustur vesturlanda litla hugmynd um hvað þar fór fram. Bandaríkjamenn vissu lítið sem ekkert um kjarnorkuáætlunina, en voru sannfærðir um að Rússar ættu 15-20 ár eftir í að smíða sprengju. Það kom þeim því mjög á óvart í september 1949 þegar veðurkönnunarflugvél frá flughernum greindi óvenju háa geislavirkni í háloftunum yfir Norður-Kyrrahafi. Ljóst var að hún gat aðeins stafað frá kjarnorkusprengingu einhversstaðar í Sovétríkjunum.
Kurchatov og hans mönnum, undir vökulu auga Bería, hafði tekist það. Fyrsta kjarnorkusprengja Rússa var sprengd í Kazakstan þann 29. ágúst 1949. Hún var að allri gerð mjög svipuð þeirri sem Bandaríkjamenn höfðu sprengt yfir Nagasaki fjórum árum fyrr. Rússar voru enn talsvert á eftir í kjarnorkutækni, en höfðu þó náð mun lengra en nokkurn á vesturlöndum grunaði. Bandaríkjamenn biðu ekki boðanna og Truman fyrirskipaði strax að fullur kraftur skyldi settur í þróun og smíði vetnissprengjunnar. Enda herti nú verulega á Kalda stríðinu og varð brunagaddur næstu árin.
Bandarískir stjórnmálamenn og almenningur rak strax upp ramakvein við tíðindin af “Rauðu sprengjunni. Var því slegið föstu að Rússar hefðu í stórum stíl stolið kjarnorkuleyndarmálum, með aðstoð innlendra (og ekki-svo-innlendra) aðila sem starfað höfðu við Manhattan-áætlunina. Þetta mál jók enn á McCarthy-hysteríuna sem þá var að grafa um sig. Robert Oppenheimer, sá er hafði verið yfirmaður Manhattan í stríðinu, var gerður útlægur úr öllum bandarískum kjarnorkurannsóknum, þó ekkert sannaðist á hann annað en efasemdir um kjarnorkuvopn yfirleitt. Bandaríkjamenn gátu ekki náð til Klaus Fuchs, þar eð hann var breskur ríkisborgari, en annar eðlisfræðingur Julius Rosenberg var ásamt konu sinni tekinn af lífi fyrir njósnir.
Í dag er ljóst að mikilvægi þessara manna var stórlega ýkt. Rússar höfðu sparað einhverja mánuði á njósna-upplýsingum, en það er þó ljóst að vesturlandamenn höfðu vanmetið rússneska vísindamenn verulega. Það fékkst rækilega staðfest nokkrum árum síðar þegar Rússar urðu (aftur flestum að óvörum) fyrstir út í geiminn.
_______________________