Ef málið er skoðað betur kemur í ljós að þessi algenga skoðun er ansi fjarri sannleikanum. Í raun voru Reagan og Bush eldri fulltrúar tveggja arma innan Repúblikanaflokksins, sem á tímabili börðust harðar um völd í flokknum en við Demókrata um sjálf völdin. Reagan og Bush eldri voru aldrei samherjar; þeir voru meira eins og Geir og Gunnar (eða Davíð og Þorsteinn) bandarískra stjórnmála.
Allt frá því Ronald Reagan var kjörinn ríkisstjóri Kaliforníu árið 1967 og hóf valdabaráttu sína innan Repúblikanaflokksins, var litið niður á hann af stórum hluta flokksmanna. Jú, hann hafði vissulega mikinn kjörþokka og nýttist flokknum, en hann var “upstart”, hálfgerður trúður, enda fyrrum Hollywood-leikari. Að auki þótti þessi ofur-íhaldssama og einfeldningslega hægripólitík hans (sem hann sýndi vel í ríkisstjóraembættinu) minna um of á Barry Goldwater og því alls ekki líkleg til að afla atkvæða fyrir Repúblíkana á landsvísu.
Reagan gældi fyrst við hugmyndina um forsetaframboð fyrir Repúblikana árið 1968, en varð fljótt að bakka fyrir meiri stórlöxum eins og Nelson Rockefeller og Richard M. Nixon. Einn af mörgum flokksgæðingum sem þá hneyksluðust á ósvífninni í þessum Hollywood-spjátrung var þingforsetinn (Speaker of the House) Gerald R. Ford.
Eins og allir vita náði Nixon tilnefningunni árið 1968, og var kjörinn forseti síðar það sama ár. Hann þótti fylgja mun hófsamari stefnu en búist var við, sérstaklega í utanríkismálum. Hann náði hátindi vinsælda sinna árið 1972 þegar hann var endurkjörinn með yfirburðakosningu, og var á þeim tíma óumdeildur leiðtogi Repúblikanaflokksins. Í kjölfar fjármálahneykslis neyddist þó varaforsetinn Spiro Agnew til að segja af sér árið 1973. Gerald Ford var nánast sjálfkjörinn eftirmaður hans í embættið, og enginn átti von á öðru en allt myndi komast í samt lag fljótlega, þrátt fyrir ásakanir á hendur Nixon varðandi Watergate-innbrotið.
En það var aldeilis ekki. Þegar Nixon neyddist loks til að segja af sér embætti árið 1974, lenti Gerald Ford alsendis óvænt í því að vera orðinn forseti. Þó hann hefði náð háum metorðum innan flokksins og á þinginu, hafði Ford aldrei ætlað sér, eða búið sig undir að verða leiðtogi flokksins, hvað þá forseti. En nú sat hann uppi með orðinn hlut. Fyrst örlögin höfðu komið honum í þessa aðstöðu, varð hann að taka því og leiða flokkinn í forsetakosningum árið 1976.
Ford vænti ekki mikillar andstöðu innan síns eigin flokks, enda gamalgróinn og virtur. En andstöðu fékk hann: Ronald Reagan, nýstiginn uppúr ríkisstjórastól Kaliforníu, bauð sig fram á móti honum sem forsetaefni Repúblikana. Auk kjörþokka síns hafði Reagan fram að færa “gömul góð amerísk gildi” sem mörgum þótti Nixon (og Ford) hafa svikið.
Ford hlaut tilnefninguna á flokksþinginu, en þetta leiddi þó til klofnings sem greri ekki fyrr en mörgum árum seinna. Repúblikanaflokkurinn skiptist nú í “Ford-arm” með hófsömum hægrimönnum í anda Nixons, og “Reagan-arm” með róttækari hægrimönnum á borð við Goldwater. Líklega var þessi klofningur óhjákvæmilegur fyrr eða síðar, en fall Nixons flýtti ferlinu um nokkur ár.
Þegar Ford tapaði forsetakosningunum naumlega fyrir Demókratanum Jimmy Carter árið 1976, var það augljóslega Reagan-armi Repúblikanaflokksins í hag, og ljóst að Reagan hlyti að fá annað tækifæri á forsetastólnum árið 1980. En Ford-armurinn var þó ekki í sáttahug, “svik” Reagans við formanninn voru í fersku minni. Sjálfur hafði Ford að sjálfsögðu dregið sig í hlé, en þó var vígahugur í stuðningsmönnum hans; þeir skyldu fjandinn hafi'ða ekki láta Reagan fá tilnefninguna baráttulaust.
Innan beggja stóru flokkanna í Bandaríkjunum er löng hefð fyrir málamiðlunum varðandi “The Ticket”, þ.e.a.s hver er forsetaefni og hver varaforsetaefni á kjörseðlinum. Sérstaklega hafði þó borið á þessu hjá Demókrötum, (til dæmis varð norðanmaðurinn Kennedy að hafa sunnanmanninn Johnson með sér á kjörseðlinum til þess að tryggja atkvæði íhaldssamra sunnanmanna árið 1960).
Árið 1980 var staðan hjá Repúblikönum sú að nokkuð ljóst var að Reagan hlyti tilnefningu. En ef það átti að gerast án meiriháttar innanflokks-átaka með tilheyrandi atkvæðatapi, varð hann að hafa Ford-mann sem varaforsetaefni. Og einhvern ekki það þekktan að hann næði nokkurntíman að skyggja á Reagan. Og þar kom George Bush eldri inn í myndina.
Bush var þá vel þekktur flokksgæðingur hjá Repúblikönum, þó ekki væri hann frægur meðal almennings. Hann hafði setið á þingi, og síðar hafði hafði hann m.a. gegnt starfi sendiherra hjá SÞ, sendiherra í Kína, og forstjóra CIA. Og það sem mestu skipti, hann var trúr og tryggur Ford-maður.
Eins og við öll vitum (og flest munum) var Reagan kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 1980. Hann fylgdi harðri hægristefnu bæði í efnahags- og utanríkismálum, og á sinn sess í sögunni sem einn umdeildasti forseti Bandaríkjanna. Þegar mjög viðburðaríkum embættisferli hans lauk árið 1989, hafði varaforsetinn George Bush eldri verið kosinn forseti. Því þykir mörgum í dag að hans valdaferill (1989-93) hafi aðeins verið framlenging á “Reagan-tímanum”, að Bush eldri hafi í raun aðeins fylgt stefnu “lærimeistara” síns í einu og öllu.
Hið rétta er að Bush eldri tók lítinn þátt í stjórn mála allan Reagan-tímann, og gagnrýndi forsetann oft (Frægt var þegar hann fussaði og nefndi hina nýju efnahagsstefnu Reagans “Voodoo economics” árið 1981). Einnig urðu talsverðar breytingar bæði á stefnumálum og stjórnunarstíl við embættistöku hans, og töldu margir að Bush væri mun líkari Nixon og Ford í sínum stjórnunarháttum en nokkurntíman Reagan. Þegar hér var komið sögu var Kalda stríðinu nánast lokið, en áhugavert væri að vita hvernig Bush eldri hefði tekið á utanríkismálum hefðu þau verið á svipuðum forsendum og í upphafi Reagan-tímans.
Það er síðan allt annað mál að núverandi Bandaríkjaforseta, syni þess er hér um ræðir, svipar meira til Reagans en föður síns á ýmsa vegu.
_______________________