Warren Harding kom frá Ohio. Það er stórmerkilegt hversu margir forsetar BNA hafa komið frá Ohio, rúmlega helmingur þeirra frá tímum Lincolns, framm á tíma Hardings voru frá Ohio. Önnur fylki sem hafa verið stór í forsetakosningum, eru Massachusett og Virginía.
Þetta orsakast ekki endilega út af hversu mörg atkvæði koma þaðan, heldur kannski frekar af því baráttan á sumum svæðum getur verið svo jöfn. Ef Demókratar hefðu unnið Ohio í seinustu kosningum þá sæti John Kerry eflaust í forsetastól. Kannski hefði verið sniðugara fyrir Demókrata að velja frambjóðanda frá Ohio? Það munaði jú ekki nema 1% stigi, og augljóst er að smá fylkiskennd hefði getað gefið smá bónus í kosningabarátttuni þar.
En hvað um það, samkvæmt www.americanpresidents.org þá er Harding að mati sagnfræðinga versti forseti í sögu BNA. Því er ég gjörsamlega ósammála og tel marga hafa verið verri þrátt fyrir að Harding hafi ekki verið ýkja glæsilegur forseti.
Bæði Demókratar og Repúblikanar höfðu forsetaefni frá Ohio í kosningunum 1921. Harding og Repúblikanar unnu kosningarnar. Hvers vegna?

Demókratar boðuðu áframhaldandi stefnu Woodrow Wilsons í utanríkismálum. Þeir litu svo á að BNA ætti að berjast fyrir lýðræði víðsvegar um heimin og beita sér fyrir því á friðsamlegan máta. Þeir vildu líka að BNA gengi inn í þjóðabandalagið. Repúblikanar voru nú andsnúnir miklum umsvifum í utanríkismálum. Gamli „ný imperíalisminn” var farinn úr tísku og einangrunarsinnar höfðu völdin í flokknum. Þeir vildu að snúið yrði til „eðlilegs horfs”.
Kosningabarátta þeirra snerist um að BNA ætti að snúa tilbaka til þeirrar utanríkisstefnu sem ríkti í BNA 1890. (Athyglisvert er, að á þeim tíma boðuðu Repúblikanar meiri umsvif erlendis, en Demókratar vildu halda hlutleysi BNA). Repúblikanar unnu með sjö milljóna atkvæða mismun. Ljóst var að Repúblikanar voru búnir að ná aftur gamla meirihluta sínum. (Reyndar höfðu þeir einungis misst hann í klofningnum 1913 þegar Wilson og Demókratar náðu völdum. Repúblikanar höfðu verið með þingmeirihluta mest allan þann tíma sem Wilson var forseti.).

Harding leit svo á að forsetinn væri ekki valdastaða í samfélaginu, heldur táknræn staða. Hann beitti ekki neitunarvaldi, leit ekki svo á að hann ætti að mynda mótvægi við þingið. Hann hafðist lítið að á framkvæmdasviðinu, heldur lét framkvæmdavaldið í hendur aðstoðarmanna sinna Calvin Coolidge varaforseta og Herbert Hoover verslurnarráðherra.
Það má því segja að þrátt fyrir að Harding afrekaði ekkert í embætti, þá gerði hann heldur engin mistök. Hann var líka fyrsti forsetinn í langan tíma sem lét sig varða réttindi minnihlutahópa. Hann hélt marga fyrirlestra í suðrinu þar sem hann andmælti aðskilnaðarstefnunni.
En Harding er eins og Jefferson. Báðir töluðu mikið um réttindi svartra, hvorugur gerði nokkuð í því.

Það sem mér þykir athyglisvert við Harding er það að hann lenti í nokkrum kynlífsskandölum. Bandaríska leyniþjónustan borgaði fjárkúgurum pening til 1960 fyrir það segja ekki frá vandræðagangi Hardings við það halda sig við giftingarheitin. Þessir fjárkúgarar höfðu á sínum tíma beitt sér fyrir því að Harding kysi gegn stríðsyfirlýsingu á Þýskaland. (Þegar hann var í þingmannasæti). Þrátt fyrir það var gefin út bók sem fjallaði um óskilgetið afkvæmi Hardings.
Nan Britton hét konan sem gaf bókina út. Hún sagði frá ástarsambandi sínu við Harding sem hófst þegar hann réð hana sem ritara 1916, í fyrirtæki sem hann hafði ítök í. Síðar þegar hann varð forseti hittust þau á laun í hvíta húsinu. 1919 fæddist þeim barnið Elísabet Ann.
Það sem bendir til þess að Nan hafi rétt fyrir sér í þessu máli er það að Harding gaf henni gríðarlega mikið af peningum. (Sem leyniþjónustan kom til skila, á þeim tíma þótti það lítið tiltökumál að leyniþjónustan væri nýtt til að hilma yfir svona hluti). Ég hef ekkert annað fyrir mér í þeim efnum, en tel ekki ólíklegt að eitthvað sé til í metsölubókinni hennar: The president´s daughter. Sem seldist í 90,000 eintökum.

En Harding var látinn áður en bókin kom út. Harding lést 1923 úr hjartaáfalli. Hann var í framboði fyrir endurkjöri og staddur í Alaska þegar þetta átti sér stað. Engu að síður unnu Repúblikanar kosningabaráttuna.

Calvin Coolidge, var oft kallaður hinn þögli. Sagan segir að þessi maður hafi verið þögull mest allan tíman á ríkisstjórnarfundum fyrir forsetatíð sína og þegar hann varð forseti hélt hann áfram að vera fremur fámáll. Calvin var endurkjörinn eftir að hafa verið forseti í eitt ár, eftir dauða Hardings.

Mestu vandamál sem Harding og Coolidge lentu í voru spillingarmál. Hið svokallaða Ohiogengi hafði náð fjölmörgum mikilvægum stöðum í ríkisstjórn Hardings. Eitt fyrsta verk Coolidge var að láta þessa félaga Hardings fjúka. Þessir menn voru ásakaðir um fjárdrátt og fjölmörg spillingarmál. Það er til marks um sterka stöðu Repúblikana á þessum tíma, að Demókratar gátu ekki unnið kosningarnar þrátt fyrir spillingarmál í hvíta húsinu.
En eftir að Coolidge hafði hreinsað eilítið til í stjórninni hélt hann inni flestum af ráðherrunum frá tíma Hardings. Þar á meðal Herbert Hoover sem átti eftir að taka við af honum sem forseti.

Athugasemd höfundar greina: Það er athyglisvert að hugsa til þess að bæði Harding og Coolidge þóttu laglegir menn. Konur voru nefnilega nýkomnar með kosningarétt á þessum tíma og því þótti það í fyrsta sinn skipta máli hvernig forsetinn leit út. (Sem að sjálfsögðu var karlmaður). Ástæðan fyrir því að ég hef ekkert fjallað um baráttu kvenna fyrir kosningarétti (sem þær fengu á seinasta kjörtímabili Wilsons) er sú að enginn forsetanna tjáði sig um málið. Roosevelt, Taft og Wilson lýstu sig hvorki hlynnta né á móti. Þetta var mál sem var of umdeilt til þess að pólítíkusar á framabraut treystu sér til að tjá sig um það. En ég mun taka þetta til umfjöllunar í næstu greinum þó þar sem þetta skiptir augljóslega miklu máli.

Árið 1929 virtist gatan vera greið fyrir Coolidge til að ná endurkjöri, en hann bauð sig ekki fram aftur þrátt fyrir að vera líklegur til endurkjörs. Sumir segja að það hafi verið af heilsufarsástæðum, en aðrir segja að hann hafi séð fyrir þróun næsta kjörtímabils. Coolidge hafði á þessum tíma selt mikið af verðbréfum og samræðum við konu sína talaði hann um að kreppa gæti verið í aðsigi. Coolidge sagði þó ekkert um það opinberlega.
Aftur móti má segja að augljóst var að verðbréfamarkaðurinn stefndi í hrun. Frá lokum fyrri heimsstyrjaldar hafði hann rokið beint upp á við. Fólk keypti hlutabréf, án þess að velta því fyrir sér hvernig og seldi svo daginn eftir á hærra verði. Ávallt var einhver kaupandi sem lék svo sama leikinn morguninn eftir. Þetta var í fyrsta sinn sem almenningur verslaði með hlutabréf.
Að lokum náði markaðurinn hámarksverði og hrundi niður og hið tíu ára stöðuga hagvaxtartímabil snerist í andhverfu sína.

Næsta grein: Kvenréttindi, Kreppa og Hoover forseti. Sjáumst síðar.