Auschwitz

Kafli II

Í seinasta kafla fór ég aðeins í gegnum sögu og uppbyggingu Auschwitz fangabúðanna. Hvernig nasistar skiptu niður föngum eftir trú og stöðu í samfélaginu og skipulögðu nauðungarvinnu þúsunda manna.


Þessi kafli mun verða tileinkaður vissum manni sem er einn af fáum einstaklingum er komst lífs af úr útrýmingarbúðunum í Auschwitz. Frásögn hans er svo einlæg og hjartnæm að fólk getur ekki annað en hrifist af henni og hugsað með sér þvílíkan lífsvilja sumir hafa á slíkum ögurstundum. Orð hans eru svo snortin af alúð því þau byggja á reynslu sem er of djúp til að svik verði fundin á hans munni. Margir einstaklingar í dag vilja meina að eitt allsherjar samsæri sé gegn stefnu nasista. En orð Viktors E. Frankl fá aukna þyngd vegna stöðu hans við læknadeild Vínarháskóla og það orð sem fer af lógóþerapískum meðferðarstofnunum sem hafa sprottið upp í mörgum löndum og sniðnar eru eftir frægum spítala hans í Vín.

Sigmund Freud var mikill áhugamaður um eðli og lækningu hugsýki (neurosis). En Viktor E. Frankl tók skrefið áfram í sálfræðinni og greindi í þaula tegundir hugsýkinnar. Dr.Frank rakti sumar þeirra til skorts á tilfinningu fyrir tilgangi og ábyrgð á eigin lífi.

Viktor E. Frank vitnaði oft og iðulega í Nietzsche “Sá, sem hefur eitthvað til að lifa fyrir, afber næstum allt.”

Í einangrunarfangabúðunum lagðist allt á eitt við að koma fanganum á kné. Öll markmið lífsins eru hrifin burt. Það eina sem eftir er “endanlegt frelsi hans til að velja, hvernig hann bregst við því sem að höndum ber, að fara sínar eigin leiðir.”

Hversu oft höfum við ekki heyrt í fréttum að hinir og þessir einstaklingar hafi notið áfallahjálpar við ýmsum áföllum. “Í fréttum er þatta helst, Boeingþota Icelandair tók skyndilega mjög krappa dýfu rétt fyrir utan aðalflugvöll Osló og litlu mátti muna að vélin hafi steypst til jarðar úr 30.000 feta hæð. Flugvélin var aðeins í um 3000 feta hæð þegar flugmenn vélarinnar náðu stjórn á vélinni aftur. Öllum farþegum og áhöfn vélarinnar var boðin áfallahjálp eftir atvikið.”

Eftir að Viktor E. Frankl hafði komist í gegnum sínar verstu hörmungar og gengið lifandi út úr Auschwitz einangrunarfangabúðunum í Póllandi fór hann að sálgreina sjálfan sig. Hann fann upp lækningu við hryllilegum sálrænum áföllum og í dag er enn verið að notast við fræði hans og þá aðferð sem við þekkjum betur í dag sem “Hópmeðferð” eða “Group therapy.”

Nýnasistar hér á Íslandi og erlendis vilja meina að allar þær hörmungar sem lýst hefur verið í gegnum áratugina af fólki sem lifði af útrýmingarbúðir nasista séu hreinn uppspuni og allsherjar samsæriskenning. En eftir að hafa kynnt sér sögu og ævi Viktors E. Frankl er ekki annað hægt en að vorkenna þeim einstaklingum sem trúa ekki að nasistar hafi notað gasklefana alræmdu sem voru í Auschwitz. Gasklefarnir voru áróður bandamanna og Gyðinga á stríðsárunum og því er eins haldið fram að Rússar hafi lagt fram fölsuð sönnunarngögn í Nurnberg réttarhöldunum, og að Rudolf Höss yfirmaður Auschwitz hafi verið pyntaður til að játa á sig stríðsglæpi.

Raunverulegur tilgangur blásýruvetnisins Zyklon-B var að aflúsa dýnur fangana og fatnað , samkvæmt nasistum og blásýran hafi aldrei verið notuð til að myrða fangana í Auschwitz.

Ég ætla ekki að fara í samsærikenningarnar og af hverju þær falla allar um sjálfar sig, það er efni í aðra og mikla grein en ég vil benda fólki á að lesa mjög svo góðar rannsóknir og gögn sem íslenski sagnfræðingurinn Jóhannes E. Skúlason hefur lagt fram.

Ég mun eins koma með innskot hér í þessari grein minni frá einum af þessum hópmeðferðar-fundum sem Frankl stýrði, og er sú frásögn sú sem hefur haft einna mest áhrif á mig og hjálpað mér mikið að móta mína lífsskoðun.


Það sem drepur þig ekki, styrkir þig.

Doktor Frankl, rithöfundur og geðlæknir, spyr stundum sjúklinga sína sem þjást meira eða minna: “Hvers vegna fremurðu ekki sjálfsmorð?” Svörin gefa honum oft vísbendingu um hvernig hann eigi að haga meðferðinni: Einn er bundinn ást á börnunum sínum, annar vill nýta hæfileika sína, þriðji hefur kannski aðeins lifandi minningar að varðveita. Markmið lógóþerapíunnar, sem er afbrigði dr. Frankls af nútíma tilvistargreiningu (existential analysis), er að vefa þessa fínu þræði sundraðs lífs í sterkt mynstur tilgangs og ábyrgðar.

Dr. Frankl segir frá lífsreynslu sinni sem leiddi til þess að hann uppgötvaði lógóþerapíu. Langvarandi fangavist í dýrslegum fangabúðum rændi hann öllu nema lífinu sjálfu. Faðir hans, móðir, bróðir og eiginkona dóu í fangabúðunum eða voru send í gasklefann. Hann mistti alla fjölskyldu sína í fangabúðunum nema systur sína, rétt eins og Elisabeth sem ég greindi frá í fyrsta kafla. En hvernig gat honum, sem misst hafði einnig allar eigur sínar, og sá öll sín lífsins gildi lögð í rúst í einni svipan, sem þjáðist af hungri, kulda og ómannlegri grimmd, sem bjóst við dauða sínum á hverri stundu, hvernig gat honum fundið lífið einhvers virði?

Það er ástæða til að hlusta á geðlækni sem hefur sjálfur mætt slíkum örlögum. Hann ætti fremur en nokkur annar að geta horft á mannlegt líf með visku og samúð. Frásagnarperlan hans fjallar um mesta vanda mannsins. Hún hefur bókmenntalegt og heimspekilegt gildi og er nauðsynlegur inngangur að merkustu sálfræðistefnu nútímans.


Þessi frásögn hans ætti að vera okkur víti til varnaðar, hvernig við mótumst af umhverfi og skoðunum, stjórnmálum og trúmálum. Nú sem endra nær virðist samt að náungakærleikurinn sé enn og aftur á undanhaldi og sú stefna þar sem sókn eftir veraldlegum auð og völdum, er meira metin en mannslíf og mannlegur auður.


Ég mun hér að neðan skrifa eftirfarandi kafla eins og Viktor E. Frankl skrifaði sjálfur í bók sinni, Leitin að tilgangi lífsins. Reyndar hef ég stytt frásögn hans örlítið til að greinin henti ykkur á hugi.is sem best, en orðum hans hef ég ekki breytt á neinn máta. Heldur hvet ég ykkur að eignast bókina og lesa hana.

Ég hef fengið leyfi frá Háskólaútgáfuni og Siðfræðistofnun til að birta hér á hugi.is valda kafla úr bókinni.
Hólmfríður K. Gunnarsdóttir íslenskaði, 1996.


Persónan hverfur fyrir raðtölum, Viktor E. Frankl hét nú 119,104.

Leitin að tilgangi lífsins, eftir Viktor E. Frankl.
Það er auðvelt fyrir þann sem hefur aldrei verið í einangrunarfangabúðum að fá ranga hugmynd um lífið þar. Fólk fer að hugsa til þess með blöndu af angurværð og vorkunnsemi. Fólk veit lítið um blóðuga baráttuna upp á líf og dauða meðal fanganna. Það var grimmilegt stríð fyrir daglegu brauði og lífinu sjálfu.

Við skulum taka dæmi af því þegar opinberlega var tilkynnt að það ætti að flytja tiltekinn fjölda fanga til annara búða. Ekki að ástæðulausu var gert ráð fyrir að leiðin lægi í gasklefann. Veikburða fangar yrði sendir til stærri búðanna þar sem líkbrennsluofnar voru tiltækir. Þetta hratt af stað stríði meðal fanganna eða hópa gegn hópum við að láta strika nafn sitt út af fórnarlambalistanum, þótt allir vissu að annar yrði að koma í stað þess sem bjargaðist. Tiltekinn fjöldi fanga varð að fara með hverri ferð og það skipti ekki öllu hver fór, því hver og einn var aðeins númer.
Þegar fangarnir komu til búðanna voru öll skilríki tekin að þeim ásamt öllum öðrum eigum þeirra. Yfirvöldin höfðu aðeins áhuga á númerum fangana og voru númerin oft tattóveruð á hörund en þau þurfti einnig að sauma á tiltekin stað á buxum, jakka eða frakka. Ef vörður ætlaði að ákæra fanga leit hann aðeins á númerið hans (og hvað fangarnir óttuðust slíkt tillit!). Hann spurði aldrei að nafni.
En flutningurinn til stóru búðanna stóð yfir og undir slíkum kringumstæðum gefst enginn tími til að velta fyrir sér siðfræði. Hver og einn hafði aðeins eitt í huga, að halda lífi.

Kapóarnir.

Kapóar voru fangar sem voru gerðir að gæslumönnum og nutu sérfríðinda. Kapóar fyrirlitu innilega þennan venjulega fanga sem skar sig ekki úr fjöldanum með sérstöku merki á fangabúningnum. Á sama tíma og þessi venjulegi fangi fékk lítið sem ekkert að borða fengu kapóarnir fylli sína. Í raun höfðu margir kapóar það betra en nokkru sinni fyrr í lífinu.
Það voru SS liðarnir sem völdu kapóana og völdu þeir þá með tillit til hrottaskaps og fyrir það að þeir svifust einskis til að geta haldið lífi. SS liðarnir voru fljótir að þekkja sína og eins og máltækið segir, sækjast sér um líkir.

Fangi númer 119,104 vann mest allan tíma sinn í fangabúðunum við vegavinnu og að leggja járnbrautarteina. Einu sinni hafði hann unnið við að grafa göng fyrir vatnsleiðslu einn síns liðs og það afrek átti eftir að borga sig. Rétt fyrir jólin 1944 fékk hann svokallaða “verðlaunamiða” í viðurkenningarskyni. Byggingarfélagið sem við vorum í raun seldir í þrældóm til gaf miðana út. Fyrirtækið greiddi yfirmönnum búðanna tiltekna upphæð á dag fyrir hvern fanga. Miðarnir kostuðu fyrirtækið fimmtíu pfenninga hver; þeim mátti skipta fyrir sígarettur og voru oft gjaldegengir í margar vikur.


Koman í helju.

Sálrænu áfalli fanganna mátti skipta í þrjú stig með viðbrögðum þeirra við lífinu í fangabúðunum. Mig langar aðeins að útskýra þessi stig til að lesandinn getir gert sér betur í hugarlund líðan hjá föngunum og hið rosalega sálræna áfall sem það getur verið að þeir gera sér grein fyrir því að þeirra örlög séu jafnvel á næsta leiti.

Fyrsta tímabilið hefst við komu fangans til búðanna, næsta tímabil nær yfir þann tíma þegar hann er komin vel inn í venjubundið líf þar, þriðja tímabilið tekur við eftir að hann hefur verið látinn laus og er orðinn frjáls.

Fyrsta stigið einkenndist af losti og stundum gat verið að lostið dundi yfir áður en fanginn kom í búðirnar. Sem dæmi gaf fangi númer 119,104 okkur tækifæri á því að fá smá innsýn í þennan hrikalega heim tortímingar.

Fimmtán hundruð manns höfðu verið á ferðalagi í lest í allmarga daga og nætur. Það voru áttatíu manns í hverjum klefa og allir urðu að liggja ofan á farangri sínum, fáeinum leifum af persónulegum eigum. Vagnarnir voru svo fullir að morgunskíman sást aðeins gegnum efsta hluta vagnglugganna. Allir héldu að leiðin lægi til einhverrar vopnaverksmiðju þar sem ætti að nota okkur til þrælkunarvinnu. Við vissum ekki hvort við vorum enn í Slesíu eða þegar komin til Póllands. Flaut eimlestarinnar var kynlegt eins og hjálparkall fyrir ógæfusaman farminn sem lestinni var ætlað að flytja til glötunar. Þá fór lestin inn á hliðarspor og nálgaðist greinilega aðalstöð. Allt í einu braust út óp frá kvíðafullum farþegum. “Þarna er skilti - Auschwitz!” Hjörtu allra slepptu slagi á þeirri stundu. Auschwitz - nafnið eitt var tákn alls hins versta, gasklefa, brennsluofna og fjöldamorða. Lestin rann hægt og eins og hikandi áfram eins og hún vildi forða farþegunum í lengstu lög frá því að þeir gerðu sér grein fyrir því skelfilega sem í vændum var; “Auschwitz!”

Í vaxandi morgunskímunni mátti greina útlínur gífurlega stórra búða: Gaddavírsgirðingar í margföldum löngum röðum, varðturna, kastljós og langar raðir tötraklæddra mannvera sem stauluðust eftir eyðilegum, beinum fangabúðargötunum, gráar í grárri morgunskímunni. Við vissum ekki hvert leið þeirra lá. Einstaka hróp og skipanaflaut hljómuðu. Við vissum ekki hvað þau merktu. Ég ímyndaði mér að ég sæi fólk hanga í gálga. Ég varð skelfingu lostinn en það var eins gott því að við urðum öll hægt og rólega að venjast hræðilegum og ómældum hryllingi.
Svo komum við inn á stöðina. Skipunarhróp rufu þögnina sem áður hafði ríkt. Upp frá þessu áttum við eftir að heyra þessi grófu, hvellu hróp sí og æ í öllum búðunum, Hljóðið var næstum eins og síðasta hróp fórnarlambs en samt var munur á. Hást og sargandi eins og úr hálsi manns sem alltaf varð að halda áfram að æpa svona, manns sem er myrtur án afláts. Lestardyrunum var hrundið upp og lítill hópur fanga kom þjótandi inn, Þeir voru klæddir röndóttum fangabúningum og krúnurakaðir en pattaralegir að sjá. Þeir töluðu öll hugsanleg evrópsk mál með glaðværð sem var afkáraleg við þessar aðstæður. Eins og drukknandi maður í leit að hálmstrái þá greip eðlislega bjartsýnin mín þessa staðreynd á lofti. þessir fangar líta bara vel út? Kannski ég komist í svona góða aðstöðu? (Bjartsýni af þessu toga hefur oft tekið völdin í tilfinningum mínum jafnvel þegar öll von virðst úti.)

Í sálfræði er kunn sjúkdómsmynd sem kallast “náðunarblekking”. Alveg við endalokin, rétt áður en aftaka fer fram, fer hinn dauðadæmdi að ímynda sér að hann verði náðaður á síðustu stundu. Á sama hátt héldum við dauðahaldi í vonina og trúðum því í lengstu lög að þetta yrði ekki sem verst. Að sjá þessa fanga með bústnar, rjóðar kinnar gaf okkur mikinn kjark. Við vissum ekki þá að þeir voru sérstakur úrvalshópur sem hafði árum saman tekið á móti nýkomnum föngum sem komu á stöðina dag eftir dag. Þeir tóku við komumönnum og farangri þeirra, þar á meðal sjaldgæfum hlutum eins og skartgripum sem fangarnir höfðu í fórum sínum. Auschwitz hlýtur að hafa verið furðulegur staður í Evrópu á síðustu árum stríðsins. Þar hafa verið einstæðir fjársjóðir úr gulli, silfri, platínu og demöntum.

Fimmtán hundruð fangar voru lokaðir inni í skýli sem hefur líklega verið ætlað fyrir í mesta lagi tvö hundruð manns. Okkur var kalt og við vorum svöng. Það var ekki nóg rými til að allir gætu sest á bert gólfið, hvað þá lagst. Um 150 gramma brauðbiti var allt og sumt sem við höfðum fengið að borða síðustu fjóra sólarhringana. Samt heyrði ég fangana sem gættu skýlisins prútta um bindisnælu úr platínu og demöntum við einn úr mótökuhópnum. Ágóðanum yrði að mestu leyti varið til skipta fyrir áfengi. Ég man ekki lengur hvað mörg þúsund mörk nægilegt brennivín kostaði fyrir “skemmtilegt kvöld” en ég veit að þessir langtímafangar þörfnuðust brennivíns. Hver gat álasað þeim fyrir að reyna að deyfa sig undir þessum kringumstæðum? Annar fangahópur fékk nærri ótakmarkað brennivín hjá SS liðunum sjálfum. Það voru þeir sem unnu við gasklefana og líkbrennsluofnana og vissu fullvel að einn góðan veðurdag tæki annar hópur við starfi þeirra. Þá neyddust þeir til að hætta nauðungarvinnu sinni sem böðlar en yrðu sjálfir fórnarlömb.

Okkur var skipað að skilja allan farangur eftir í vagninum, fara út og stilla okkur upp í raðir, karlmenn öðrum megin, konur hinu megin. Við áttum svo að ganga framhjá háttsettum SS-foringja. Þótt undarlegt væri hafði ég kjark til þess að fela nestispokann minn undir frakkanum. Röðin mín fór framhjá SS-foringjanum, maður á eftir manni. Ég gerði mér grein fyrir að það væri hættulegt ef foringinn kæmi auga á pokann. Hann mundi að minnsta kosti slá mig niður. Ég vissi það af fyrri reynslu. Ósjálfrátt rétti ég meir og meir úr mér eftir því sem ég nálgaðist foringjann svo að hann tæki ekki eftir byrðinni. Svo stóðum við augliti til auglitis. Hann var hávaxinn og virtist grannur og vel á sig komin í óaðfinnalegum einkennisbúningi. Hann stóð þarna kæruleysislegur í bragði og studdi hægri olnboga í vinstri hönd. Með vísifingri hægri handar benti hann afar rólega ýmist til hægri eða vinstri.
Ekkert okkar renndi grun í grafalvarlega þýðingu þessar litlu fingurhreyfingar mannsins - stundum til hægri, stundum til vinstri - langoftast til vinstri.
Nú var komið að mér. Rétt áður hafði einhver hvíslað að mér, að til hægri lægi leiðin áfram til vinnu, til vinstri lægi leiðin til sérstakra búða fyrir óvinnufæra og veika. Ég beið bara þess sem verða vildi eins og svo oft síðar. Nestispokinn minn seig í á vinstri hlið en ég reyndi að ganga beinn. SS-maðurinn horfði rannsakandi á mig, virtist hika, lagði svo báðar hendur á herðar mér. Ég lagði mig fram um að sýnast vel á mig kominn og hann snéri mér mjög hægt til hægri og ég hélt í þá áttina.
Um kvöldið fengum við að vita hvað vísirfingursleikurinn merkti. Þetta var fyrsta úrvalið - fyrsti úrskurðurinn um að vera eða ekki vera. MIkill meirihluti okkar, um 90 af hundraði, hlaut dauðadóm sem fullnægt var á næstu klukkutímum. Þeir sem sendir voru til vinstri fóru beint af brautrarpallinum til líkbrennslubyggingar. Maður sem vann þar sagði mér að yfir dyrum byggingarinnar hefði verið skilti með áletruninni “bað” á mörgum evrópskum málum. Allir fangar sem þangað komu fengu sápustykki, og svo - sem betur fer þarf ég ekki að segja meira. Margar frásagnir hafa verið skrifaðar um þann hrylling.

Við sem björguðumst, minni hluti hópsins, komumst að sannleikanum um kvöldið. Ég spurði fanga sem höfðu verið lengi í búðunum um hvað orðið hefði um P. starfsbróðir minn og vin.
“Var hann sendur til vinstri?”
“Já,”svaraði ég.
“Þá sérðu hann þarna,” var svarið.
“Hvar?” Höndin benti á reykháf í nokkur hundrað metra fjarlægð.
Hár eldstólpi teygði sig úr reykháfnum upp í gráan himinn Póllands.
Eldsúlan leystist upp í drungalegu reykskýi.
“Þarna svífur vinur þinn til himins,” var svarið. En ég skildi þetta ekki fyrr en mér var sagður sannleikurinn berum orðum.


Fangi númer 119,104 lýsir svo áfram í bók sinni hvernig hann horfir upp á pyntingar samfanga sinna við innritun þeirra fyrsta daginn í Auschwitz fangabúðunum, en ég ætla ekki að vitna í þær hræðilegu lýsingar hér.


Fyrsta nóttin í Auschwitz, lengi má illu venjast.

Fyrstu nóttina í Auschwitz sváfum við saman í kojum og á hverjum palli (um það bil 2 x 2,5 m) lágu níu menn á berum fjölunum. Þessir níu menn höfðu tvö teppi til að breiða ofan á sig. Við gátum auðvitað bara legið á hliðini, fast klemmdir upp að öðrum. Það hafði sína kosti vegna kuldans. Þótt það væri bannað að taka með sér skó upp í þessar kojur notuðu sumir þá í leyfisleysi fyrir kodda þótt þeir væru moldugir. Þrátt fyrir allt kom svefninn með gleymsku og losaði okkur við vanlíðanina í nokkrar klukkustundir. Mig langar til að nefna fáein svipuð dæmi sem ollu okkur undrun vegna þess hvað við gátum þolað. Til dæmis að við stóðum allsnaktir úti í haustnæðingnum, ennþá votir eftir sturtubaðið, næstu daga leysti undrunin forvitnina af hólmi, undrun yfir því að við fengum ekki kvef. Eins að við gátum ekki burstað í okkur tennurnar en þrátt fyrir það og alvarlegan bætiefnaskort höfðum við heilbrigðara tannhold en nokkurn tíma fyrr. Við urðum að vera í sömu skyrtunni í hálft ár þangað til engin leið var að sjá hvernig hún hafði verið í upphafi. Við gátum ekki þvegið okkur dögum saman, ekki einu sinni að hluta til, vegna þess að vatnið var frosið í vatnsleiðslunum. En þrátt fyrir sár á höndunum og óhreinindi frá moldarverkunum gróf ekki í sárunum (ekki nema menn væru með kalsár). Og maður sem áður vaknaði við minnsta hljóð úr næsta herbergi, svaf hér eins og steinn, þótt hann lægi fast upp við félaga sem hraut hátt með nefið alveg upp að eyranu á honum.


“Tilvitnanir úr bókinni Leitin að tilgangi lífsins eftir Viktor E. Frankl, ljúka hér.”


Genocide.

Þetta orð, genocide, er Gyðingum vel kunnugt. Eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar í Evrópu 7. maí 1945, var sex milljón Gyðingum færra í heiminum.

Árið 1994 varð einni milljón manns færra í heiminum og er fólkinu í Rúanda vel kunngt við orðið, genocide. Það tók skæruliðana í Rúanda aðeins þrjá mánuði, að murka lífið úr þessum milljón saklausu konum og börnum. Aðeins einu sinni í mannkynssöguni hefur fólki verið útrýmt hraðar en í Rúanda árið 1994.

Það gerðist á milli árana 1942 og 1943, með fyrirfram ákveðnum og vel skipulögðum aðgerðum. Heinrich Himmler ásamt Adolf Hitler voru arkitektarnir af þeim þjóðarmorðum.


Varnaðarorð við múgsefjun og hugsýki fjöldans.

Hvað hefur mannkynssagan í raun kennt okkur gott fólk?.
Hvaða ályktanir getum við dregið í dag, af gjörðum manna sem í góðri trú leiddu þjóð sína áfram til verka, sem seinna meir voru dæmd af mönnum, sem hin verstu afglöp og sem hin versta skömm, fyrir þjóð, kyn og tíma.

“The might of Rome” var eitt kjörorðið síns tíma, annað var “For the Queen and pride of England”.

Egyptar voru fremstir og fyrst heimsvelda mannkyns. Þá tóku Arsear við, svo Babilonar og var þeirra heimsveldi í Írak og í Daníelsbóks Biblíunar er getið um þá og eins Tígrisfljótið sem við höfum svo oft séð nýlega í frettum vegna Íraksstríðsins. Medear og Persar réðust svo á Babilona og sigruðu þá á eftirminnilegan hátt, þar næst tók við hin mikli Alexander og gríska heimsveldið hans.

Riddarar Rómverja ruddust svo yfir Rínarhéruðin vægast sagt, og neyddu Germana til undirgefni. En áður höfðu gyðingar fengið sinn skammt af hersetu Rómverja og er það einhvernvegin eins og rauður þráður í gegnum mannkynssöguna hvað gyðingar, hin útvalda þjóð Guðs samkvæmt hinni heilögu Biblíu, hafa þurft að þjást og berjast fyrir sinni tilvist. Er þetta bara hrein tilviljun eða grimm örlög þeirra.

Allt frá því að fyrsta heimsveldið, Egyptar, og til hin seinasta, anglo-amerikana, þá hafa Gyðingar verið undir hæl öfga, útrýminga og kúgunar.

Manni er spurn.



Einn mjög vitur Gyðingur orti fyrir þrjú þúsund árum, mestu forvarnarorð fyrir komandi kynslóðir, en því miður fóru allt of fáir eftir þeim.

Varastu slæman félagskap.

Ótti Drottins er upphaf þekkingar,
visku og aga fyrirlíta afglapar einir.
Hlýð þú, son minn, á áminning föður þíns og hafna eigi viðvörun móðir þinnar,
því að þær eru yndislegur sveigur á höfði þér,
og men um háls þinn.
Son minn, þegar skálkar ginna þig,
þá gegn þeim eigi.
Þegar þeir segja: “Kom með oss! Leggjumst í launsátur til manndrápa,
sitjum án saka um saklausan mann,
gleypum þá lifandi eins og Hel - með húð og hári,
eins og þá sem farnir eru til dánarheima.
Alls konar dýra muni munum vér eignast,
fylla hús vor rændum fjármunum.
Þú skalt taka jafnan hlut með oss,
einn sjóð skulum vér allir hafa” -
son minn,
þá haf ekki samleið við þá,
halt fæti þínum frá stigum þeirra.
Því fætur þeirra eru skjótir til ills,
og fljótir til að úthella blóði.
Því að til einskis þenja menn út netið í augsýn allra fleygra fugla,
og slíkir menn sitja um sitt eigið líf,
liggja í launsátri fyrir sjálfum sér.
Þannig fer öllum þeim, sem fíknir eru í rángfenginn gróða, fíknin verður þeim að fjörlestri.

Orðskviðir Salomon konungungs 1 kafli, vers 1 til 19,


Ekki að ég ætla að fara að predika Biblíusögu fyrir ykkur kæru hugarar heldur eru þetta bara mínir hugarrenningar, og hvað ef margur sonurinn hefði haft þessi viskuorð að leiðarljósi er hann ákvað að ganga í herþjónustu, til að svara kalli þjóðarleiðtoga, sem að virtist, geta leitt þjóð sína til glæstra sigra og landvinninga eða bjarga henni úr klóm hins illa.


Í þriðja kafla mun ég fjalla nánar um lógóþerapíu Viktor E. Frankl, fjalla aðeins um böðla SS sveitana og þeirra örlög.


Heimildir:
Viktor E. Frankl
Biblían