Woodrow Wilson vann kosningar með því loforði að fara ekki út í stríð. Hann rauf það loforð þegar BNA hóf þáttöku í fyrri heimsstyrjöld og hafði þar með úrslitaáhrif á niðurstöður þeirra. Sókn Þjóðverja var stöðvuð 50 kílómetrum frá París. Nú þegar voru Þjóðverjar í slæmri stöðu, þeir höfðu tapað á sjónum gagnvart Bretum og fyrir utan mikin matvælaskort í landinu þá voru Þjóðverjar líka með verkföll, uppþot og mótmæli innanlands.
Það má segja að innan BNA hafi farið ýmiskonar fasískir tilburðir á tímum heimsstyrjaldarinnar. Fólk brenndi þýskar bækur, réðst á fólk af þýskum uppruna (sem flest breytti eftirnafni sínu í eitthvað enskt) og breyttu nöfnum á hlutum. Sauerkraut var t.d. breytt í frelsis kál. (Þetta minnir óneitanlega á það þegar þing BNA lét breyta frönskum kartöflum í frelsiskartöflur þegar Frakkar andmæltu íraksstríði).
Mörg tónlistarfélög bönnuðu tónlist Bach og Beethovens. Skólar í BNA hættu að kenna þýsku. Sum fylki í BNA bönnuðu fólki að nota erlend nöfn yfirhöfuð í þjóðernisæsingnum sem einkenndi landið þá.
En það voru ekki allir sem studdu stríðið. Margir BNA menn af þýskum og írskum ættum héldu fjölmenn mótmæli gegn þessu. Sósíalistaflokkurinn var mótfallin stríðinu en þrátt fyrir að hann væri ekki sterkur á landsvísu þá hafði hann þó talsvert fylgi í borgunum. (Á þessum tíma náðu kommúnistar 20-30% atkvæða í borgarstjórnarkosningum bæði Chicaco og New York).
Til þess að kveða niður gagnrýni á stríðið og styrkja þjóðerniskennd BNA manna stóð ríkið fyrir miklum áróðri fyrir stríðinu. Svokallaðir fjögurra mínútna menn urðu áberandi, en nafn þeirra vísar til einnar mínútu manna frelsisstríðsins. Þessir fjögurra mínútna menn hlutu ekki nafngift sína fyrir litla getu í bólinu, heldur af því að þeir voru reiðubúnir til þess að halda ræðu í fjórar mínútur um nauðsyn stríðsins í hvert sinn sem mikill fjöldi manna safnaðist.
Í BNA voru 150,000 manns skráðir fjögurra mínútnamenn.
Wilson heimilaði svokölluð njósnalög sem heimiluðu ríkisstjórninni að handtaka menn og sekta þá, fyrir að gagnrýna stríðið. 1500 Manns voru handteknir fyrir það. Þar á meðal Eugene V. Debs formaður sósíalistaflokksins.
Á þessum tíma stóðu BNA menn fyrir miklu átaki heima fyrir í matvælaframleiðslu. BNA tók að sjá um að fæða herji sína, Breta og Frakka. Þetta olli því að skammtanir voru teknar upp heima fyrir. „Meatless Mondays” og „Wheatless Wednesdays” einkenndu bandarískt heimilislíf, en stjórnvöld hvöttu fólk til að skera niður neyslu á kjöti og hveiti. Yfir þessu átaki var Herbert Hoover sem seinna varð forseti.
Í stríðinu lagði Wilson áherslu á að tilgangur stríðsins væri að gera heimin öruggan fyrir lýðræði. Þegar Bandarískir hermenn bættust við víglínurnar urðu bandamenn 600.000 mönnum fleiri en Þjóðverjar og gerði það loka útslagið. Viss kaldhæðni felst í því að 600.000 BNA menn létust í kjölfar Inflúensu sem hermennirnir veiktust af í Evrópu og tóku með sér heim.
Wilson fór til Evrópu fyrstur Bandarískra forseta. Flestir forsetar höfðu reyndar heimsótt Evrópu áður, en Wilson var sá fyrsti sem fór í embættisför þangað. Hann hafði hugsjónir. Hann ætlaði sér að binda endi á nýlendustefnuna, koma á algjörri afvopnun og stofna bandalag allra þjóða fyrir friði.
Mikil bjartsýni ríkti í París þegar friðarviðræður hófust, en það má segja að þetta sé einn af þeim tímapunktum í sögunni þegar hlutum er klúðrað.
Wilson lagði til að Rússland yrði viðurkennt í samfélagi þjóðanna sem réttmætt ríki. Frakkar og Bretar neituðu að viðurkenna kommúnistastjórn Rússlands og gerðu innrás í landið síðar. Þetta varð til þess að Rússland einangraðist frá umheiminum og lagði grunnin að kalda stríðinu síðarmeir.
Wilson kom því þó í gegn að þau ríki sem áður tilheyrðu Þýskalandi og Austurríki fengu sjálfstæði. Frakkar og Bretar tóku þó að sér að „vernda” nýlendurnar. Frakkar og Bretar neituðu einnig að gefa Aröbum fullt sjálfstæði, en það hafði verið eitt af aðalskilyrðum Arabanna fyrir því að berjast með bandamönnum gegn Tyrkjum. Bretar tóku að sér Írak, Jórdaníu, Ísrael og Kúvæt. Frakkar tóku Sýrland og Líbanon. Það má segja að vernd Breta hafi verið eitt stórfenglegasta klúður sögunnar, en þeir leyfðu jú gyðingum að flytja til Ísrael í þúsunda tali. Þar höfum við upphaf einnar af þeim deilum sem síðar meir hrjáðu mannkynið.
Ítalía hafði gengið í lið með bandamönnum gegn loforði um ríkuleg landsvæði. Ítalir urðu aftur á móti fyrir miklum vonbrigðum um hversu lítil landsvæði þeir fengu. (Í raun fengu þeir bara nokkur héröð í ölpunum). Óánægja fólks með hversu lítið þau höfðu fengið fyrir allar fórnirnar átti eftir að greiða leiðina fyrir valdatöku fasista síðar meir.
En eflaust það versta sem gerðist þarna var hvernig bandamenn fóru með Þýskaland. En þó vil ég koma með nokkur orð til varnar Frökkum og stríðskaðabótunum.
Árið 1871 töpuðu Frakkar stríði við Þjóðverja og þvinguðu Þjóðverjar þá til að greiða háar stríðsskaðabætur eða um 1 milljarð punda. Árið 1918 var sú fjárhæð sem Frakkar þvinguðu Þjóðverja til þess að greiða svipuð efnahagsleg byrði og Frakkar höfðu á sínum tíma neyðst til að greiða.
Í öðru lagi, þá var efnahagur Frakka í rúst árið 1918 og skuldir þeirra til BNA risavaxnar. Clemencau forseti Frakklands, lagði til þess að BNA myndi leggja niður skuldir Frakklands. Annars myndi efnahagur Frakka hrynja. Wilson kvaðst ekki geta það. Þá lagði Clemencau til þess að Þjóðverjar myndu greiða þeim skaðabætur upp í skuldirnar, og sú varð raunin.
Flestir pólitíkusar hefðu gert það sama og Clemencau, hvernig ætti hann annars að réttlæta það fyrir kjósendum sínum að þeir ynnu stríðið, en á meðan efnahagur þeirra hryndi, yxi efnahagur Þjóðverja?
Austurríki og Þýskaland afvopnuðust eins og Wilson lagði til. Aftur á móti tókst honum ekki að sannfæra Breta, Frakka eða Ítali um að gera hið sama. En á hin bógin tókst honum að stofna þjóðabandalagið, sem að vísu innihélt ekki stærsta land heimsins, Rússland.
En þjóðabandalagið, sem átti að tryggja frið, hagsæld og réttlæti urðu stærstu vonbrigði Wilsons. Þing BNA neitaði að ganga inn í þetta bandalag. Meirihluti þingsins óttaðist að innganga í bandalagið myndi síðarmeir leiða BNA út í enn meiri stríð. Wilson sem átti heiðurinn af stofnun bandalagsins varð aldrei meðlimur í því. Án mesta stórveldisins, (BNA hafði orðið mesta efnahagsveldi heims með viðskiptum sínum í heimsstyrjöldinni) var bandalagið vanmáttugt um að koma nokkru í framkvæmd. Þing BNA neitaði inngöngu í bandalagið bæði 1919 og 1920. Árið 1921 unnu svo Repúblikanar hvíta húsið aftur, og tóku að boða sterka einangrunarstefnu.
Wilson yfirgaf hvíta húsið án þess að ná að koma mestu hugsjónum sínum framkvæmd. En hann má þó eiga það kallin, að eftir seinni heimsstyrjöld urðu sameinuðu þjóðirnar stofnaðar. (En þær eru þó ekki það sem Wilson sá fyrir sér með þjóðabandalagið).
Áhrif Wilsons eru þó afar mikil. Hann breytti hlutverki forsetans úr því að vera handhafi neitunarvalds og yfirmaður heraflans, yfir í það að vera yfirmaður þingsins. Wilson jók völd forsetans yfir í þau sem þau eru í dag. Það má líka segja að hann hafi markað framtíðarstefnu Demókrata í utanríkismálum, en áherslur hans á samvinnu við aðrar þjóðir, andstaða við nýlendustefnu og sú stefna að forðast stríð eins lengi og mögulegt er, hefur haldist í einhverri mynd við Demókrata.
En næstu kjörtímabil áttu eftir að tilheyra Repúblikönum.