William Taft vann auðveldlega, enda naut hann stuðnings Theodore Roosevelts fráfarandi forseta. Repúblikanar nutu líka yfirgnæfandi meirihluta allstaðar annarsstaðar en í suðurríkjunum svo demókratar höfðu litla von. Það er athyglisvert að mótframbjóðandi Tafts, William Bryan Jennings var að bjóða sig fram sem forseti BNA í þriðja sinn.
Í kosningabaráttu sinni lofaði Taft að viðhalda stefnu Roosevelts. Að vísu var utanríkisstefna hans aðeins friðsamari. Taft var þó kannski ekki það sem mætti kalla maður friðar. Hann var landstjóri Filippseyja áður en hann varð forseti, og hann bældi niður uppreisn þar sem kostaði 20.000 manns lífið í átökum og síðan 200.000 í hungursneyð sem fylgdi á eftir.
Stefna Tafts var að beita hernum einungis til að tryggja viðskiptahagsmuni BNA sem mestir voru þá í suðurameríku. Á þessum tíma fór vaxandi andúð gagnvart BNA mönnum í suður og miðameríku. Þjóðir þessara svæða mættust saman á ráðstefnum til að ræða hvernig þær gætu komið í veg fyrir aukin bandarísk áhrif.
Á sama tíma braust út borgarastyrjöld í Mexíkó. William vildi gera innrás inn í landið með 2000 manna liði til að vernda bandarískar fjárfestingar. Þingið aftur á móti var ósammála honum og William lét undan pressu frá þeim og hætti við.
Í innanríkismálum kom Taft sér á kant við sinn eigin flokk. Hann lét brjóta upp stálsjóðinn, sem var stór iðnaðarstyrktarsjóður sem Roosevelt hafði sett upp. Roosevelt varð brjálaður yfir þessu og hann lýsti því yfir að Taft skorti framtíðarsýn. Þegar kom að kosningunum 1913 bauð Roosevelt sig fram gegn Taft.
Repúblikana flokkurinn klofnaði í tvær fylkingar: Repúblikana sem fylgdu Taft og „The Bull Moose Party” sem Roosevelt var yfir. (Ég spyr sjálfan mig, hver átti hugmyndina af þessu nafni.)
Þegar Repúblikana flokkurinn klofnaði náðu Demókratar að sigra kosningarnar í fyrsta sinn í fjögur kjörtímabil. Woodrow Wilson varð forseti með einungis 42% atkvæða. William Taft varð síðar formaður hæstaréttar og þar með fyrsti og eini maðurinn sem hefur gegnt æðsta framkvæmdavaldi BNA og æðsta dómsvaldi.
Woodrow Wilson boðaði breytta tíma. Hann ávarpaði þingið fyrstur allra forseta frá dögum James Madison. Þar tilkynnti hann að hann ætlaði sér að taka mun meiri þátt í lagasetningu en fyrri forsetar höfðu gert. Ein af afdrifaríkustu áhrifum Wilsons á BNA var aukið mikilvægi forsetans. Wilson leit svo á að forsetinn ætti að vera svipað embætti forsætisráðherra Bretlands. Hann taldi að forsetinn ætti að vera yfirmaður þingsins, en fram að þessu hafði það verið viðtekin skoðun að þingið og forsetinn væru jafnokar. Wilson tók mikin þátt í allri þjóðmálaumræðu, mun meiri en fyrri forsetar og eftir hans daga hafa allir forsetar ávarpað þingið.
Wilson var andimperíalisti, og hefur stefna hans í utanríkismálum æ síðan einkennt Demókrata. Sá mismunur þróaðist á milli Demókrata og Repúblikana á hans tíma að flestir Demókrata voru á móti nýlendustefnu á vegum BNA, en Repúblikanar studdu hana. Á einn eða annan hátt hefur þetta loðað áfram við flokkana.
Wilson gaf íbúum Puerto Rico bandarískan ríkisborgararétt. Hann lofaði Filippseyjum sjálfstæði. (Mjög andstætt seinustu þremur repúblikanaforsetum sem höfðu þá skoðun að eyjarnar væru best geymdar undir þeirra verndarvæng).
Wilson barðist fyrir því að barnaþrælkun yrði ólögleg. (Í dag heitir þetta barnaþrælkun en í þá daga þótti ósköp eðlilegt að börn myndu vinna í verksmiðjum með fullorðnum). Wilson kom í gegn lögum sem bönnuðu barnaþrælkun en hæstiréttur felldi þau 1918.
Wilson lét lækka verndartolla innanlands og stækkaði varapeningaforða ríkisins. Hann vildi aukið mótvægi gegn milljónamæringum á borð við t.d. J.P. Morgan og Rockafeller. Að mati Wilsons höfðu þeir hættulega mikil áhrif á bandarískt peningaflæði. Að mínu mati aftur á móti þá var þetta algjör óþarfi.
Wilson bannaði verðsamráð og kom því í gegn að sama manneskjan mætti ekki sitja í stjórn tveggja fyrirtækja sem eru í samkeppni.
Wilson var fyrsti forsetinn til að útnefna gyðing í hæstarétt árið 1916, þegar hann útnefndi Louis Brandell sem barðist með honum gegn barnaþrælkun. Þegar járnbrautaverkamenn hótuðu verkfalli þá þvingaði Wilson járnbrautafyrirtækin til að láta undan kröfum þeirra og samþykkja kröfur þeirra um átta tíma vinnudag.
Woodrow Wilson og William Bryan Jennings (sem hafði þrisvar verið forsetaefni Demókrata en var nú secretary of state) höfðu enga reynslu af utanríkismálum. En eins og áður var sagt þá voru þeir andimperíalistar og vildu byggja utanríkisstefnu BNA á siðferði. Ekki efnahyggju eins og þeir ásökuðu Repúblikana um að hafa gert.
Eftir að Filippseyjum hafði verið lofað sjálfstæði urðu lönd mið og suðurameríku bjartsýn um að tímar bandarískra afskipta væru lokin.
Wilson var þó ekki afskiptalaus. Hann lýsti því yfir að hann teldi að BNA þyrfti að gæta lýðræðis í löndunum í kringum sig.
Bandarískir hermenn bældu niður byltingar í Haítí 1915, og Dominíska lýðveldinu 1916. BNA keypti Virgin eyjur af Danmörku á 25 milljónir og héldu áfram nýlendustefnu þeirra.
Þrátt fyrir að Wilson hafi ekki ávallt staðið við andimperíalísk orð sín þá fær hann að mínu mati prik fyrir að hafa ekki látið leiða sig út í stríð við Mexíkó. Þegar Huerta varð forseti Mexíkó og bauð upp á hentuga samninga fyrir erlenda fjárfesta fór Wilson þvert á hagsmunastefnu BNA manna og neitaði að viðurkenna þetta sem réttmæta stjórn. Enda hafði hún komist til valda á ólýðræðislegan hátt. Þegar Pancho Villa (sjá bíómynd með Antonio Banderas) réðst inn í suðurhluta BNA og drap nokkra BNA menn túlkaði Wilson það þó ekki sem ástæðu til þess að fara í stríð. Hann vann saman að því með Huerta að reyna að handsama Pancho. (Sem mistókst).
En á meðan allt þetta var á seyði geysaði stríð í Evrópu og restina af heiminum reyndar. Wilson var kjörinn forseti 1913 og fyrri heimsstyrjöld hófst 1914. Wilson lýsti yfir að BNA væri hlutlaust ríki, en þó studdi BNA leynt Bretland og Frakkland. Bandaríkjamenn áttu líka í miklum viðskiptum við þau lönd, og héldu hergagnaframleiðslu þessara ríkja gangandi. Árið 1916 sökk Bandaríska farþegaskipið Lúsitanía þegar þýskur kafbátur réðst á það. Wilson lýsti því yfir að kafbátahernaður væri stríðsglæpur. Hann ásakaði Þjóðverja um að stunda glæpi gagnvart mannkyninu. Þjóðverjar kröfðust þess tilbaka að BNA hætti verslun við Breta. Wilson lét ekki undan þeim kröfum, en hann hætti sér ekki í stríð að svo stöddu enda kosningar í nánd.
Wilson vann sigur með slagorðinu: Hann hélt okkur frá stríði. Það var að vissu leyti rétt, Wilson var yfirlýstur friðarsinni og hafði haldið BNA frá stríðinu þrátt fyrir að BNA hefði vissa hagsmuni að gæta í sigri Breta og Frakka. En stuttu eftir að hann vann kosningarnar bárust honum fregnir frá Mexíkó. Forsætisráðherra Mexíkó tjáði honum að Þýskaland hefði boðið sér bandalag gegn BNA.
Augljóst var að Þjóðverjar óttuðust mjög svo að BNA myndi ganga í stríðið með Bretum, Frökkum og Rússum. Aftur á móti þá töldu þeir sig hafa fundið lausn í því að bjóða Mexíkó fjármagn og hergögn til þess að hefja stríð á hendur BNA. Ef BNA væri í stríði á heimavelli þá myndu þeir ekki geta tekið þátt í stríði í Evrópu.
En það var mjög stór skyssa af hendi Þjóðverja að halda að Mexíkó myndi taka tilboðinu. Forsætisráðherran sá vel að Mexíkó myndi tapa stríðinu þrátt fyrir stuðning Þýskalands. Í raun sá forsætisráðherran meiri ávinning í því að vinna sér traust og stuðning BNA forseta til að viðhalda völdum sínum.
Og nú var BNA í þokkabót komið með ástæðu til að taka þátt í stríðinu.
En hvað hefði gerst ef Mexíkó hefði tekið tilboðinu. BNA hefði fundið fyrir nútímahernaði á heimavelli?
Ímyndum okkur að á seinustu stundum stríðsins fái bandamenn engan liðsauka. Rússland dregur sig úr stríðinu í kjölfar byltingar og veitir Þjóðverjum umtalsverð landsvæði. Þjóðverjar fá meir en nóg af liði á vestur vígstöðvarnar og hefja sókn í aðeins 50 kílómetra fjarlægð frá París. (eins og þeir gerðu í raunveruleikanum).
Í þetta sinn vinna Þjóðverjar. Frakkar eru endanlega knésettir. Friðarsamningar eru haldnir í Brandenburgar höll í Berlín. Bretar afsala sér Indlandi og Suðurafríku, Frakkar afsala sér Indókína, Madagaskar, Korsíku og neyðast til að greiða miklar stríðsskaðabætur. Ítalir skipta um lið og hljóta að launum nýlendur Frakklands í Afríku. Austurríki fær Serbíu. Tyrkland hlýtur alla Arabíu (og verður olíuveldi) og Krít.
Á meðan leggur Mexíkönsk loftárás Los Angeles í eyði, miðstöð kvikmyndaiðnaðarins færir sig norður til Kanada. (Hún nær þó aldrei að toppa Þýska kvikmyndagerð, en í krafti öflugs kvikmyndariðnaðar verður Þýska alþjóðamál). BNA menn sigra Mexíkana eftir harkalegt stríð og innlima Mexíkó. Ekkert verður af þjóðabandalags draumum Wilsons.
Mikil kreppa leggst yfir heiminn 1929 við hrun Berlínar hlutabréfamarkaðarins. Í kjölfar þess ná lýðræðissinnar völdum í Þýskalandi. Aftur á móti ná fasískar hreyfingar völdum í Frakklandi, Bretlandi og Spáni. Í Frakklandi byggjas fasistarnir stefnumál sín á þjóðernishyggju og gyðingaandúð.
Ég gæti haldið endalaust áfram með þessar pælingar. En þetta er ekki það sem gerðist… Það sem gerðist kemur fram í næstu grein. Við sjáumst þá.