Theodore Roosevelt er einn vinsælasti forseti í sögu BNA. En hver var þessi maður og hvernig komst hann til valda? Hann var fæddur 1858 og er því fyrsti forsetinn sem var of ungur til að taka á einhvern máta þátt í borgarastyrjöldinni. Theodore var af ríkri ætt, hann lagði mikla stund á íþróttir, var í námi við Harvard og giftist hinni fögru Alísu Hathaway. Að námi loknu við Harvard hélt hann í Columbia háskólann að stunda lögfræði. Hann hætti eftir eitt ár í því námi og hélt út í pólitík. Hann átti sæti í borgarstjórn New York borgar árið 1882 aðeins 24 ára gamall. Vegurinn var beinn fram á við.
Þar til Alísa dó við barnsburð. Eftir það hætti Theodore í pólitík og lagðist í þunglyndi, hann hélt vestur á bóginn frá heimaborg sinni New York í von um að ná sér upp úr sorginni og gerðist kúreki. Eftir að hafa eytt tveimur árum út í óbyggðum bæði sem kúasmali og sem lögregluþjónn sneri hann tilbaka til New York. Hann bauð sig á fífldjarfan hátt til borgarstjóra og tapaði. (Honum skorti algjörlega pólitískt bakland).
Í stað þess varð hann með sínum góðu ættartenglsum forseti New York lögregludeildarinnar. Repúblikanarnir sem komu honum í stöðuna urðu þó fyrir vonbrigðum með hann. Búist var við að Roosvelt myndi gera þeim greiða tilbaka og líta hjá ýmsum spillingarmálum en þess í stað fór hann algjörlega eftir lögunum og gerði sitt ýtrasta til að uppræta spillingu meðal annars í pólitísku flokkunum.
Þegar stríðið við Spán braust út bauð Roosevelt sig fram í herinn og varð yfirmaður frægustu sveitar Bandaríska hersins: The rough riders.
Hann sneri tilbaka til New York sem stríðshetja og næst þegar hann bauð sig fram til borgarstóra gjörsigraði hann andstæðinga sína.
Flokksmenn hans tóku að hafa miklar áhyggjur af þessum kúreka þegar hann tók að hreinsa til í stjórnkerfinu og fækka embættismannastöðum osfrv. En sagt er að til þess að losna við þennan „bölvaða kúreka” hafi æðstu flokksmenn beitt tengslum sínum til þess að gera hann að varaforsetaefni William McKinleys. Roosevelt var hæstánægður og stað hans í borgarstjórn komu aðrar stýranlegri menn. McKinley varð forseti og Roosevelt sem varaforseti hafði núna stærri málefni til að fást við og engan tíma til þess að róta til og breyta stjórnkerfinu.

En McKinley lést sama ár og árið 1901 tók Roosevelt við völdum, ýmsum íhaldsömum flokksmönnum til gremju. (Það virðist vera síendurtekið þema í bandarískri sögu að varaforsetar verði til vandræða, John Tyler, Andrew Johnson og Chester Arthur eru allt menn sem komu róti á pólitískt landslag síns tíma).

Roosevelt ákvað að komin væri tími á samkeppnislöggjöf og ég veit ekki betur en að hann hafi verið sá fyrsti til þess að koma með slíka löggjöf. Hann lét skipta upp járnbrautafyrirtæki JP Morgans (sem eins og kom fram fyrir 2 greinum síðan var það ríkur að forseti BNA varð háður fjármagnsstuðningi hans) af því að fyrirtækið var með einokunarstöðu á markaðinum.
Morgan sagði síðar þegar Roosevelt fór í Safaríferð til Afríku að hann vonaðist til þess að eitthvert ljón myndi gera skyldu sína.
Repúblikanar voru ekki sáttir við þennan forseta sem ógnaði fjáröflunarleiðum þeirra. Mikið af peningum flokksins kom frá stórum verksmiðjum sem gáfu Repúblikönum þá á móti því að Repúblikanar gæfu hagsmunum þeirra tillit við lagasetningar. En Roosevelt gaf ekki mikið fyrir fyrirtækin og þótt að hann glataði þar með miklum fjárstuðningi tryggði þetta honum líka endurkjör því hann var álitin „maður fólksins”.
(Sjálfur skal ég játa að maður fólksins er titill sem ég er oftast fremur tortryggin gagnvart, en að vísu ekki jafn tortryggin og ég er gagnvart flokkum sem virðast eiga nóg af peningum fyrir kosningabaráttur sínar).
Roosevelt varð kjörin forseti aftur 1904 og sór þess þá eið að hann myndi ekki bjóða sig aftur fram. Það var loforð sem hann átti eftir að sjá eftir að gefa. (Rík hefð var fyrir því að forsetar BNA byðu sig ekki fram til forseta í þriðja sinn, en þó var það ekki bannað með lögum á þeim tíma. Einungis einn forseti hefur setið þrjú kjörtímabil og það vill svo til að það var frændi Theodore Roosevelts).
Roosevelt braut blað í sögu umhverfisverndar þegar hann varð fyrsti forseti BNA til að friðlýsa landsvæði. Hann kom upp þjóðgörðum á borð við t.d. Yellowstone og hann friðlýsti í forsetatíð sinni 190 milljón skógarekrur. Sem verður segjast nokkuð vel af sér vikið a.m.k. í augum umhverfissinna á borð við mig.
Aftur á móti fær Roosevelt enga plússa í kladdan fyrir viðhorf sín gagnvart öðrum kynþáttum. Roosevelt var fyrsti forseti Repúblikana sem ekki tók á einhvern þátt í borgarastyrjöldinni og hann var líka sá fyrsti þeirra til að líta (a.m.k. opinberlega) svo á að svartir væru óæðri hvítum. (Það skaðaði lítið fylgji hans þar sem þetta var almennt viðurkennd staðreynd þess tíma og að auki voru Demókratar mun verri hvað þetta varðaði). Roosevelt leit svo á og sagði oft að hinir kynþættirnir væru byrði hvíta mannsins sem yrði að bera ábyrgð fyrir þá. Hann leit svo á að Indíánar, svertingjar og asíubúar væru á ábyrgð hvítra manna og þær ættu að passa upp á þá og hugsa fyrir þá.
Þetta var ein af megin röksemdafærslum nýlendustefnunnar sem réttlæti herferðir sínar með því að það þyrfti að siða fólk til í nýlendunum.
Roosevelt leit þó ekki svo á að BNA ætti að eiga nýlendur, en stefnan sem hann setti fram á þessum tíma í utanríkismálum loðir en við BNA.

Roosevelt taldi að BNA ætti að vera lögregla heimsins. Hann leit svo á að það væri ábyrgð BNA að koma upp lýðræðisríkjum víða um heiminn og vernda þau lönd sem ekki bæru þroska til að sjá um sig sjálf. Þessi stefna náði nokkrum vinsældum en hún glataði þeim tímabundið á millistríðsárunum. Í kalda stríðinu og svo síðar meir hefur hún snúið tilbaka nú í breyttri og nútímalegri mynd. Stefna Roosevelts hét „New Imperialism”, meðan stefna nýhægrimanna í BNA í dag heitir „Project New American Century”.
Roosevelt var mjög aktívur í utanríkismálum líkt og forveri hans McKinley. Meðal þess sem Roosevelt ber ábyrgð er Panamaskurðurinn. Roosevelt hafði komið í gegn stækkun flotans, enda gerði hann sér grein fyrir að BNA hafði átt í miklu meiri vandræðum með Spán en þeir hefðu þurft að gera ef flotinn í stærðarhlutföllum við landið. Eitt annað vandamál sem kom var það að helmingur flotans var kyrrahafsmegin en átökin fóru fram við Atlantshafið. Því höfðu skipin þurft að taka krók í kringum suðurameríku til að komast til Kúbu að berjast. Roosevelt hafði líka fleiri ástæður fyrir að koma upp skurðinum. Það gefur auga leið að þessi skurður var mikilvægur efnahagslega séð og er einn mikilvægasti skipaskurður sögunnar í efnahagslegu tilliti.
Eitt vandamál kom upp. Kólumbía var ekki tilbúin til að leifa BNA mönnum að setja upp skurðinn. Eða öllu heldur þá krafðist Kólumbía þess að fá mikið af pening fyrir að leyfa uppsetningu skurðsins.
Roosevelt brást við með því að aðstoða við uppreisn á svæðinu þar sem skurðurinn var reistur. Bandarískt fjármagn rann í átök á svæðinu, Bandaríkjin réðu leiguliða til að berjast þar og flotinn aðstoðaði. Þegar Kólumbía bakkaði og Panama var stofnað. (Smáríki sem þarfnaðist verndar BNA til að halda velli). Bandaríkin settu upp herstöðvar í landinu og keyptu réttindi til að reisa skurðinn fyrir 10 milljón dollara. Fjárhæð sem er algjörlega út í hött miðað við að BNA skáru landið í tvennt og tóku yfir umtalsverð landsvæði. BNA menn gerðu svo leigusamning á svæðinu og greiddu ríkistjórninni 250 þúsund dollara á ári.
Árið 1914 kláraðist gerð skurðarins.
Roosevelt aðstoðaði við samningaviðræður í stríði Japans og Rússlands og fyrir það hlaut hann friðarverðlaun Nóbels. Rússar höfðu verið gersigraðir öllum að óvörum af Japan, og Roosevelt studdi Japanana óbeint. Hann taldi að best væri að Japönsk ítök væru mest af öllum þjóðum í Kína, enda gætu Japanir aldrei tekið yfir Kína sem væri of stórt fyrir þá, en á móti gæfu þeir Kína vernd frá öðrum nýlendu þjóðum.
Þessi ágiskun Roosevelts var röng, hún var vanmat á styrk Japans og þetta var vandamál sem frændi hans síðarmeir átti eftir að kljást við.
Einnig var Roosevelt sáttasemjari í Marakkó deilunni milli Þjóðverja og Frakka. (Marakkó deilan átti sér stað þegar þýsk herskip fóru inn á franskt verndarsvæði og kröfðust þess að Þjóðverjar nytu sem verslunarréttinda þar og Frakkar). Talið er að Roosevelt hafi hindrað það að styrjöld brytist út á milli Frakka og Þjóðverja. (Sem hefði leitt til heimsstyrjaldar). Fyrir það að hafa tafið 1. heimsstyrjöldina um nokkur ár er eitt og sér góð ástæða til að gefa honum friðarverðlaun Nóbels. (Hvað svo sem okkur kann að finnast um utanríkisstefnu hans að öðru leyti).
Árið 1906 braust út uppreisn á Kúbu sem Roosevelt lét berja niður. Hann áskildi BNA rétt til að vernda „sjálfstæði” Kúbu og koma á ró í landinu. Einnig tóku BNA menn á þessum tíma Guantanamo flóa á leigu og gerðu að herstöð. Að nafninu til tilheyrir þetta Kúbu en BNA menn leigja jú þessa stöð ennþá þrátt fyrir að þau stjórnvöld sem BNA telja réttmæt séu horfin og Kastró fái ekki eyri af leigunni.
(Ekki það að ég telji Kastró einhvern réttmætan leiðtoga og persónulega þætti mér best að hann myndi drattast til að halda kosningar í landinu).
En árið 1909 bauð Roosevelt sig ekki fram, þrátt fyrir óskir hans sjálfs, flokks hans og jafnvel meirihluta þjóðarinnar. En í stað þess var hans útvaldi að forsetaefni William Taft sem síðar var uppnefndur William T.A.F.T. (Take Advice From Theodore). William Taft átti þó eftir að lenda í deilum við Theodore í valdatíð sinni, en meira um það síðar.