James Abram Garfield. Annar forsetinn úr Ohio fylki. Hann kom öllum á óvart þegar hann sigraði Ulysses Grant í framboði hans til forsetaefnis Repúblikana. Hann kom engum á óvart þegar hann sigraði forsetakosningarnar, enda Repúblikanar óhemju vinsælir eftir tíð Rutherford Hayes. Hann kom aftur á móti eflaust sjálfum sér og öllum öðrum þegar hann var skotin til bana fjórum mánuðum eftir að valdatíð hans hófst.
Morðingji hans var Charlie Giteau, sem m.a. samdi lag um atburðinn áður en hann var hengdur. Charlie Giteau var ekki heill á geði en það kannski segjir sig svolítið sjálft á fyrri setningunni.
Án þess að Garfield hafi náð að koma í raun nokkru í verk tók varaforsetinn Chester A. Arthur við völdum.
Það er fremur kaldhæðið að hugsa til þess að stuttu áður en Garfield dó, þá áttu Arthur og hann í deilum. Garfield hafði ráðið í mikilvægar stöður svokallaða „halfbreeds” sem voru pólitísk hreyfing innan Repúblikana flokksins sem Arthur var andsnúinn. Arthur var sjálfur úr fremur vafasamri deild innan flokksins, en hann var einn af aðstoðarmönnum Conklings þingmanns, sem var tengdur ýmisskonar spillingu á valdatíð Grants.
Svo þrátt fyrir að Arthur hefði hugsanlega sagt sig úr stjórn einhverntímann síðar á árinu þá var hann nú orðin forseti fyrir nánast tilviljun.
En Arthur átti eftir að koma fjölmörgum á óvart þegar hann settist í forsetastólinn. Flestir bjuggust við að þessi maður sem hafði prílað hægt upp flokksvaldastigann myndi halda áfram þeirri stefnu að verðlauna flokksgæðingum og hlýða meirihlutanum kom á óvart þegar hann byrjaði að berjast gegn spillingu. Hann bannaði það að flokkar á borð við Repúblikana gætu fengið vissa upphæð af launum ríkisstarfsmanna til að fjármagna sig. (Svipað viðgengst á Íslandi þar sem framsóknarmenn sem framsóknarflokkurinn hefur komið í stöður hjá ríkinu borga vissa upphæð launa sinna til flokksins, það sagði Valgerður Sverrisdóttir í fréttatíma Rúv þegar hún var spurð um hvaðan flokkurinn fengi alla peninganna fyrir auglýsingaherferðum sínum).
Repúblikanar voru þá eins og nú einnig studdir af ýmsum verksmiðjueigendum. Arthur tók upp á því, þrátt fyrir mikla gremju flokksmeðlima og leggja niður verndartolla á iðnaðarvörum. Hann kom því líka í gegn að ríkið aðstoðaði skulduga smábændur við að komast undan gjaldþroti og lækkaði skatta.
Arthur eyddi þó miklum upphæðum í það að endurgera hvíta húsið sem honum þótti ekki nógu flott fyrir sig. Það hvíta hús sem við sjáum í dag komst í þetta form á hans stjórnartíð. Einnig þá bannaði Arthur Kínverjum að flytja inn til landsins næstu tíu árin með nýrri lagasetningu.
Arthur bauð sig ekki fram aftur því að hann vissi að hann hafði krónískan nýrnasjúkdóm. Tveim árum eftir að hann hætti í embætti lést hann.
Repúblikanar voru á þessum tímapunkti komnir á hálan ís hvað varðar fjáröflun. Árið 1885 vöknuðu fyrst upp spurningar um hvernig peningunum var aflað og mörgum leyst illa á það hversu miklu leyti Repúblikana frambjóðandinn James G. Blaine var fjármagnaður af verksmiðjueigendum og járnbrautafyrirtækjum. Almennt var talað um að hann væri í framboði fyrir Wall Street sem á þessum áratug óx með miklum hraði úr því að vera lítill markaður yfir í einn af stærstu hlutabréfamörkuðum heims. (Og síðar náttúrulega sá stærsti).
Demókratar unnu naumlega aðallega út af þessum ásökunum. Margir Repúblikanar gengu til liðs við forsetaframboð Demókrata sem studdu New York borgarstjórann Stephen Grover Cleveland sem hafði getið sér góðs orðs fyrir baráttu gegn spillingu. Á þessum tíma var BNA að breytast úr landbúnaðarsamfélagi í iðnsamfélag. Borgir eins og Chicaco og New York voru að verða milljónaborgir, Indíánarnir voru komnir á lítil verndarsvæði og járnbrautalestir tengdu BNA frá strönd til strönd. BNA var að vísu ekki farið að láta til sín taka á alþjóðavettvangi en ítök þess og áhrif voru tekin að vaxa óhemju mikið.
Cleveland var á móti blönduðum skólum og áleit svertingja vera óæðri hvítum. Hann áleit að hlutverk forsetans væri ekki að setja á lög eða vera leiðtogi heldur bara að passa upp á að þingið færi ekki of geyst. Hann nýtti neitunarvaldið óspart en kom afar sjaldan með tillögur til lagasetninga. Hann afnam ríkisstyrkjakerfi Arthurs enda áleit hann að ríkið ætti ekki að skipta sér af gjaldþrotum eða fátækt. Ríkið ætti einungis að vernda réttindi hvers og eins.
Árið 1888 tapaði hann fyrir framboði Repúblikana sem eyddu hæstu fjárupphæðum í kosningabaráttu sína sem um hafði getið í bandarískri sögu fram til þessa. (Þetta er þó ekki í seinasta sinn sem Cleveland kemur til sögunnar).
Við tók Benjamín Harrison. Benjamín er merkilegur forseti að því leitinu til að hann þótti óhemju kaldur og var nefndur oft á tíðum mennski ísjakinn. Hann var óframfærinn og stirður, og því er hægt að fullyrða að ef sjónvarpið hefði verið komið til á þessum tíma hefði hann eflaust tapað þegar mannfjöldin sæji hann í spjallþáttum. En á þessum tíma skiptu auglýsingaplaköt og fjárveitingar flokkana en mestu máli, og að sjálfsögðu málefnin.
Harrison var ríkur og hann var barnabarn William Harrisons, níunda forseta BNA, sem tókst á sínum tíma að drepa sjálfa sig með of langri stefnuræðu og þar með verða fyrsti forseti BNA til að deyja í embætti. (Nánari upplýsingar má sjá í fyrri grein minni Forsetar BNA 6.hluti). Ríkidæmi Harrisons hjálpaði mikið til við pólitískan frama hans, en hann eins og flestir forsetar á seinni hluta nítjándu aldar kom frá Ohio.
Benjamin Harrison lét mest til sín taka í utanríkismálum og er afar athyglisverður að því leyti. Demókratar gagnrýndu stjórn Harrisons fyrir að mynda bandalög við Evrópsk konungdæmi og skipta sér af í valdatafli heimsins. Á þessum tíma var einangrunarstefna vinsæl í BNA, enda hafði BNA einbeitt sér aðallega að innanríkismálum frá lokum borgarastyrjaldarinnar með góðum árángri.
Harrison leysti úr deilum yfir Samóa eyjunum á kyrrahafi. Bæði BNA, Bretar og Þjóðverjar deildu um yfirráðarétt á þeim og lauk deilunni á því að eyjurnar urðu sameiginlegt verndarsvæði þeirra allra.
Harrison kom á samamerískri ráðstefnu í fyrsta sinn í sögunni þar sem leiðtogar allra ameríkuríkjanna hittust til að ræða málin. Einnig skipaði hann fyrsta svarta ráðherran, Frederick Douglass, sem sá málefni Haítí. (Á þeim tíma var sérstakt ráðuneyti yfir þeirri eyju, en BNA menn voru með mikla hagsmuni þá og nú á Karíbahafinu).
En Harrison var ekki alltaf friðarforseti. Hann hótaði Chile stríði yfir máli þar sem bandarískir sjómenn voru blandaðir í málin, en þeir höfðu orðið fyrir skaða af hendi hermanna í Chile, þótt að enginn hafi látist. Til að komast hjá stríði bað stjórn Chile afsökunar og borgaði 75000 dala skaðabætur.
Harrison vildi einnig innlima Hawaii í BNA, en Hawaii var á þeim tíma bara verndarsvæði. Hvítir menn höfðu 150 manna byggð og Harrison vildi senda herinn til að styðja þá í að fremja valdarán á drottningu eyjarinnar. Harrison náði ekki stuðning fyrir því, enda hafði hann ekki meirihluta á þingi seinni hluta kjörtímabils síns.
Harrison var líka fyrsti forseti BNA sem beitti sér í þágu umhverfisstefnu en hann fékk Breta til að setja veiðitakmörk á selum í Kanada af ótta við að annars yrði stofninum útrýmt.
Harrison kom því líka í gegn að BNA menn stækkuðu sjóher sinn yfir í sjö brynvarinn skip, sem á þeim tíma þótt það jafnaðist ekki á við Bretland þótti nokkuð stór og góð tala í þeim málum.
Harrison var einn af þeim forsetum sem ekki höfðu hreinan atkvæðameirihluta og hann náði aldrei að afla sér nægilegra vinsælda til að koma stefnumálum sínum í gegn, á miðju kjörtímabili náðu Demókratar aftur þingmeirihluta og árið 1893 varð Stephen Grover Cleveland fyrsti forseti BNA til að ná aftur forsetastólnum eftir að hafa misst hann, og varð þar með 22 forseti BNA og sá 24.
Ég hef samúð með Harrison. Harrison dreymdi alltaf um að sanna sig og hataði að vera borinn saman við afa sinn „hinn mikla hershöfðingja”. Þrátt fyrir að vera nægilega efnaður til að sleppa gerðist hann sjálfboðaliði í borgarastyrjöldinni og neitaði að beita ættartengslum til að koma sér í háa stöðu innan hersins. Engu að síður sannaði hann sig í átökum og í lok stríðsins hafði hann unnið sig upp í hershöfðingja stöðu á eigin verðleikum.
Á þriðja ári Harrisons í forsetastól dó eiginkona hans úr berklum en fram að því hafði hann þegar verið fremur dapurlegur í hvíta húsinu og bar það oft saman við fangelsi. Hann lýsti því yfir að hann væri feginn yfir því að hafa tapað fyrir Stephen og hét því að hér eftir myndi hann aldrei einblína á frama sinn eða vinnu heldur reyna að lifa lífinu.