Andrew Johnson tók við af Lincoln. Hann á það sameiginlegt með Lincoln að báðir voru algjörlega ómenntaðir, Andrew Johnson sjálfur hafði ekki lært að lesa fyrr en hann hitti eiginkonu sína sautján ára sem kenndi honum það. Hann eins og Lincoln var komin af fátækri fjölskyldu sem bjó í bjálkakofa, að vísu ólst Andrew upp í norður Karólínu fylki, en þeir eiga það sameiginlegt að þeir voru fátækir landnemasynir.
Mismunur er þó á hvar Andrew og Lincoln ólust upp. Faðir Andrews vann fyrir sér sem húsvörður í hóteli, og Andrew ólst upp nálægt byggð.
Á bak við alla stóra menn er stór kona hefur stundum verið sagt, í Andrews tilviki þá er þetta rétt. Andrew flutti til Tenessee sautján ára, giftist þar Elísu McCardle sem kenndi honum að lesa og reikna, og fjárfesti að auki peninga fyrir hann. Andrew vann fyrir sér sem klæðskeri meðan eiginkona hans sá til þess að þau urðu vel efnuð.
Andrew var Demókrati og studdi þrælahald. Það er furðulegt að hann skyldi hafa verið varaforseti Lincolns, en það æxlaðist til á mjög rökrænan máta.
Andrew varð þingmaður fyrir hönd Demókrata, hann studdi stríðið við Mexíkó ólíkt Lincoln, hann studdi frekari útbreiðslu þrælahalds ólíkt Lincoln, en það sem gerði það að verkum að hann gekk ekki í lið með Suðurríkjunum var að hann var sammála Lincoln í því að BNA væri ekki ríkjabandalag heldur eitt ríki.
Hann barðist fyrir því að fylki hans Tenessee myndi ekki ganga í lið með suðurríkjamönnum og hann leit á aðskilnaðarhreyfinguna sem samsæri plantekrueigendanna. Andrew var af fátækum ættum upprunalega og fyrirleit ríku plantekrueigendurna en meira en honum mislíkaði frelsunarstefna Repúblikana.
Fyrir það að taka afstöðu gegn aðskilnaðarhreyfingunni voru eigur hans teknar með valdi af suðurríkjamönnum sem höfðu sigur í Tenessee. Hann var stimplaður sem svikari og fjölskyldu hans var hent út úr fylkinu. Sjálfur var Johnson í Washington og hann var eini suðurríkjaþingmaðurinn sem sagði ekki af sér.
Fyrir það tóku norðanmenn Andrew sem hetju og föðurlandsvin. Þegar Tenessee var hertekið gerði Lincoln Andrew að fylkisstjóra. Andrew lét banna öll blöð sem gagnrýndu stefnu yfirvalda, tók yfir eigur þeirra sem höfðu stutt Suðurríkin (svipað og hans eigur höfðu verið teknar áður), tók yfir allar samgöngur í fylkinu og stýrði hernaðaraðgerðum frá nýjum höfuðstöðvum sem hann setti upp í Nashville.
En hann lét ekki frelsa þrælanna í Tenessee. Því var hann á móti og varði þær aðgerðir sínar með því að segja að hann vildi ekki styggja hvíta meirihlutann um of.
En hversvegna var þrælasinni varaforseti Lincolns? Ástæðan er sú að Lincoln vildi vera viss um að vera endurkjörinn forseti, og hann var ekki vinsæll í þeim suðurríkjum sem höfðu verið núþegar hertekinn. (Stríðið var samt enn í gangi). Hann sannfærði Repúblikana um að skynsamlegast væri að sleppa Repúblikananum Hamlin í framboðinu og láta Andrew stað þess bjóða sig fram. Þannig vonaðist hann til að geta rétt fram sáttahönd til Demókratanna. Auðvitað gerði Lincoln ekki ráð fyrir því að deyja í embætti. En kosningalega séð var þetta skynsamlegt, stjórnarandstaðan náði inn tuttugu þingmönnum, en Lincoln hélt velli með 212 þingmenn.
En sú varð rauninn og Andrew Johnson sem studdi áframhaldandi kúgun svertingja varð öllum að óvörum valdamesti maður landsins.
Nú hafði flokkur Johnsons og Lincolns það megin markmið að sjá til þess að svertingjar fengju full borgararéttindi. Repúblikanar vildu sjá til þess að svertingjar næðu að kjósa svo að þeir hefðu trygg atkvæði í suðrinu. Skyndilega var forsetinn farinn að vinna gegn þeim og þvert á vilja þingsins. Viðtók barátta forseta og þings. Forsetinn beitti neitunarvaldi gegn tillögum þingsins um að veita öllum íbúum BNA jafna lagalega vernd. Aftur á móti þá tókst þinginu að sýna styrk sinn með því að ganga framhjá neitunarvalds réttinum. (Ef nægilegur þingmeirihluti næst þá getur þingið litið framhjá neitunarvaldi forsetans. Neitunarvald forsetans dugar því einungis þegar um málefni sem ná naumum meirihluta er að ræða). Þingið setti inn ný lög sem bönnuðu forsetanum að taka fólk úr embætti sem þingið hafði ráðið og að auki heimilaði þingið stjórnarskrárbreytingu þvert á vilja forsetans. (Stjórnarskrárbreytingin snerist um að tryggja réttindi blökkumanna). Forsetinn var svo auðmýktur í þingkosningum 1866 þegar meirihlutinn hélt velli en forsetinn fór í langa kosningaherferð fyrir hönd demókrata minnihlutans. Ég veit ekki hvort það sé rógburður eða ekki en að sögn ýmsra sjónarvotta frá 1866 kosningabaráttunni leit Johnson út fyrir að vera drukkin í ræðupúltinu.
En forsetinn náði líka sínu fram í ýmsum málum. Meðal annars náðaði hann þúsundir suðurríkjamanna og leyfði suðrinu að setja upp aðskilnaðarstefnu sína í friði. (Sem átti eftir að endast frammá miðja tuttugustu öld). Það er athyglisvert að velta því fyrir sér hver framtíð BNA hefði orðið ef Andrew hefði ekki verið forseti BNA, eða ef Lincoln hefði ekki dáið. Hugsanlega hefði aðskilnaðarstefnan ekki orðið að raunveruleika og svertingjar hefðu notið jafnra réttinda á við hvíta. Mögulega væri ekki jafn mikil spenna á milli hvítra og svartra og hefur verið á milli þeirra í BNA alla tuttugustu öld.
Þvert á vilja Johnsons þá tókst svertingjum að ná þingsætum í hans stjórnartíð og á næstu kjörtímabilum á eftir því. En sá tími eftir að líða hjá, því núþegar voru að verða til samtök sem börðust gegn svertingjum. KKK, eða Kúklúxklan eins og maður ber það fram varð til á þessum tíma, og samkvæmt heimildum frá þessum tíma var ráðist á einn tíunda svartra frambjóðenda á þessum tíma. Eftir rúm þrjú kjörtímabil náðu hvítir aftur stjórninni í suðrinu og eftir það leið langur tími þar til svartir menn myndu aftur ná þingkjöri. Dæmi eru um það, jafnvel í kosningum í dag að svertingjum hafi verið meinaður aðgangur að kjörstað. (En í þetta sinn eru það Repúblikanar sem eru ásakaðir um það ekki Demókratar).
Á seinasta ári síns kjörtímabils var Andrew ásakaður um að gera lítið úr forsetaembættinu með hegðun sinni og þingið greiddi atkvæði um hvort honum ætti að vera refsað fyrir það. Andrew rétt svo slapp frá ávítum með einu atkvæði.
Þegar kjörtímabili Andrews lauk, gerði hann tilraun til að verða forsetaefni Demókrata (enda ekki mikil von á því að verða fulltrúi Repúblikana). Demókratar kusu frekar að láta George H. Pendleton leiða sig til ósigurs í næstu kosningum, en þá unnu Repúblikanar stórt með hershöfðingjann Ulysses S. Grant í broddi fylkingar, en sá maður sem einnig var að fátækum uppruna, hafði á sínum tíma orðið hershöfðingji fyrir vissa heppni.
Grant var liðsforingji í byrjun stríðsins, en sökum þess að Lincoln treysti ekki öllum hershöfðingjum til að berjast af fullum krafti gegn suðrinu þá gerði hann Grant að yfirmanni hersins eftir að hafa fylgst með vinnubrögðum hans í svolítinn tíma. Eftir sigurinn við Gettysburg varð Grant þjóðhetja, og eins og gjarnt er með fræga hershöfðingja þá endaði Grant sem forsetaefni og að lokum forseti árið 1868.
Sem er vægast sagt athyglisvert miðað við það að Grant var afar feiminn þegar hann var lítill og lagður í einelti. Sagan segir að hann verið uppnefndur „Useless” af krökkum í þorpinu sem hann ólst upp í. Og áður en hann gekk í herinn hafði hann verið rekinn úr hverju starfinu á fætur öðru.
En Grant varð forseti og sagt er að þau tvö kjörtímabil sem hann sat hafi verið þau sveiflukenndustu í sögu BNA. Við fáum að lesa meira um þau í næstu grein.