James Monroe

James Monroe var fimmti forseti Bandaríkjanna og sá fjórði sem var fæddur í Virginíu. Hann var afkomandi ríkra plantekrueigenda. George Washington, Thomas Jefferson og James Madison áttu allir plantekrur. Kannski er þetta ekki ólíkt því og að vera olíubarón í dag. Maður hefur alltaf þurft fjármagn til að verða forseti BNA. Thomas Jefferson og allir Repúblikanaforsetarnir mega eiga það að þeir studdu rétt allra til að kjósa, en Federalistar vildu að einungis landeigendur mættu það. Þó var kosningaþátttaka ekki gríðarleg í þá daga. Ekki voru allir læsir, ekki voru allir upplýstir um stefnumálin og þaðan af síður höfðu allir álit á þeim. Svo var náttúrulega ekki heldur nein góð skrá yfir kjósendur því það bættust alltaf sífellt fleiri íbúar við. Landnemar streymdu inn frá Evrópu og BNA stækkaði með gríðarlegum hraða.

Flestir sagnfræðingar líta á tímabil Monroe sem nokkurs konar gullöld. Þetta tímabil var síðar meir nefnt “The era of good feelings”. Ekki svo skrítið, BNA menn litu svo á að þeir hefðu unnið stórsigur á Bretum og staðfest að þeir væru sjálfsstæð þjóð sem myndi aldrei nokkurn tímann lúta einhverri Evrópuþjóð. Það sem Monroe er frægastur fyrir í dag er sjálf Monroe kenningin, en hún er stefna sem BNA menn hafa haldið síðan þá. Engin Evrópuþjóð skyldi komast til áhrifa á meginlandi Ameríku aftur.

En Evrópuþjóðirnar reyndu samt…

Monroe sendi Andrew Jackson hershöfðingja inn í Flórída sem þá var á valdi Spánverja. Tilgangur herferðarinnar var að ráðast á Seminóla indíána sem Monroe taldi ógna landnemum. Í herförinni uppgötvaði Jackson þó að Spánverjar voru gífarlega óvarðir í Flórída. Monroe keypti Flórída á lágu verði af Spánverjum sem óttuðust að annars yrði innrás.

Evrópuþjóðirnar stefndu að því að koma Spánverjum aftur til valda í nýlendunum sem allar höfðu lýst yfir sjálfsstæði. Þegar Monroe lýsti því yfir að BNA myndi ganga til bandalags við suðurameríku ríkin bökkuðu þau út úr því. Bretar voru einfaldlega ekki til í að lenda í stríði við BNA eftir allt vesenið 1812.

Tímabil Monroe

Monroe varð tuttugu ára liðþjálfi í sjálfsstæðishernum undir stjórn Washington á sínum tíma. Hann barðist fyrir því síðar að forsetar yrðu kosnir í beinum kosningum, og lærði lögfræði hjá Thomas Jefferson. Hann var Repúblikani, og þar með sá þriðji í röð þeirra.

Monroe tók við af Madison sem forystumaður Repúblikana, burstaði kosningarnar og var svo gríðarlega vinsæll að enginn bauð sig gegn honum þegar fyrsta kjörtímabili hans lauk og hann var því sjálfkjörinn yfir á annað kjörtímabilið.
Fyrra kjörtímabilið gekk þó ekkert rosalega vel, á því urðu margir ríkisbankar gjaldþrota og atvinnuleysi jókst.

Ef lesendur hafa lesið fyrri greinar mínar þá vitið þið að Thomas Jefferson var eindreginn andstæðingur ríkisbanka, þeir voru ástæða þess að hann sagði sig úr embætti utanríkisráðherra eða “secretary of state” á tímum Washingtons. En nú þegar Repúblikanaflokkurinn var búinn að vera við völd í sex kjörtímabil þá var hann búin að taka mörg baráttumál Federalista og gera að sínum. Strax á seinna kjörtímabili Jefferson var tekið til við að auka miðstýringu og styrkja völd ríkisstjórnarinnar. Ekki það að ég vilji meina að þetta hafi verið röng stefnubreyting. Ég er ekki viss um það og ætla ekki að dæma. (Enda ómögulegt að dæma ef maður hefur ekki afstöðu).

John Quincy Adams

Hér kemur kunnuleg persóna, eða öllu heldur kunnulegt nafn. Þetta er enginn annar en sonur John Adams, varaforseta Washingtons og fyrsta (eina) forseta Federalista. John Quincy Adams byrjaði feril sinn sem Federalisti en gekk í Repúblikanaflokkin (eða Democratic Republicans eins og þeir hétu þá).

Þegar hann var tíu ára fór hann til útlanda með föður sínum, hann bjó bæði í Hollandi, Rússlandi og Frakklandi meðan hann ólst upp. Þegar hann kom heim lærði hann lögfræði en gekk afar illa sem lögfræðingur. Faðir hans sem þá var forseti, útvegaði honum þá starfi sem sendiherra í Hollandi. Þar giftist hann konu sem var af erlendum uppruna, föður hans til gremju. (Reyndar var hún bandarísk bara ekki alin upp í Ameríku).

Seinna meir kom hann heim til Massachusetts og bauð sig fram á þing og komst þar inn sem Federalisti. Hann var eini Federalista þingmaðurinn sem studdi kaupin á Louisiana fylki.
Þetta þýddi það að hann varð ekki endurkjörinn á þing. Massachusetts var á þessum tíma sterkt Federalistaríki og hann fékk ekki að bjóða sig fram fyrir þá.

James Madison launaði honum þó fyrir að hafa greitt þetta atkvæði ef svo má segja þegar hann gerði hann að sendiherra í Rússlandi. Síðar John Adams sem kom á friði á milli Breta og BNA árið 1814 og endaði stríðið yfir Kanada.

Meðan James Monroe var forseti var Adams utanríkisráðherra eða “Secretary of state” og eftir að kjörtímabilum Monroe lauk var Adams því hið rökrétta val fyrir forsetaefni. Þrátt fyrir það varð Repúblikanaflokkurinn klofinn í því hver yrði forsetinn.

Kosningabaráttan

Fjórir menn börðust um það að verða forseti BNA árið 1824. John Adams, Andrew Jackson, Henry Clay og William Crawford. Þetta voru fyrstu kosningarnar þar sem flest fylkin létu meirihlutakosningu ráða hver yrði forseti. Með öðrum orðum fylkin kusu ekki menn til að ákveða hver fengi atkvæðin heldur runnu atkvæðin beint til forsetaframbjóðendanna.

John Adams hlaut ekki meirihluta, enginn frambjóðandanna gerði það. Henry Clay aftur á móti gerði kosningabandalag við John Adams og það endaði þannig að John varð forseti og Henry varð “secretary of state”. Andrew Jackson sór þess eið að sigra hann í kosningunum 1828 en hann hafði hlotið flest atkvæðin af öllum fjórum þrátt fyrir að hafa ekki nægan meirihluta. Andrew sagði upp þingmannastöðu sinni í bræði og hóf að undirbúa kosningabaráttu sína.

Einungis eitt kjörtímabil

John Adams tókst að koma afar fáum af draumum sínum í lög. Hann naut ekki nógu víðtæks stuðnings af þinginu. Honum tókst þó að setja upp verndarlög fyrir bandarískan varning, en það leiddi til þess að vörur hækkuðu í verði og Adams varð kennt um það allt saman.
Andrew Jackson hafði farið um landið í þrjú ár og lýst því yfir Adams hefði hlotið forsetaembættið með svikum og prettum. Stuðningsmenn Adams svöruðu með harðri kosningabaráttu, eiginkona Jacksons var m.a. útlistuð sem hóra af þeim.

En eftir hatramma kosningabaráttu missti Adams embættið. Hann var þó þingmaður fyrir hönd Massachusetts það sem eftir var ævi sinnar. Hann gegndi því embætti með vissum þokka, og varð frægari fyrir afrek sín sem þingmaður fremur en forseti. Hann skipti svo um flokk síðar á ævi sinni, yfir úr Repúblikönum til svokallaðra “Whigs” en ég mun síðar fjalla um þá.

Sjáumst síðar í Forsetum BNA. 6. hluta

heimildir:

www.historyguy.com

americanhistory.about.com

www.americanpresidents.org