Nú ætla ég að skrifa um sögu BNA frá stofnun og mögulega gera greinar um hvernig ríkisstjórn BNA virkar. Ég tek mér þetta ekki fyrir hendur af því að ég er sérlega fróður um efnið, heldur bara af því ég er að lesa mér til um forseta BNA þessa stundina og held að þessar greinar sjái til þess að ég muni betur.
Þessar greinar eru lauslega byggðar á: http://www.americanpresident.org/history
Þar höfum við það.
George Washington
George Washington var fæddur 1732, þegar austurströnd BNA var á valdi Bretlands. Faðir hans dó þegar hann var ellefu ára og George hlaut aldrei meiri menntun heldur en grunnskólamenntun, þrátt fyrir að sýna hæfileika á sviði stærðfræði.
Við megum ekki halda að hann hafi verið fátækur, fjölskyldan var sæmilega efnuð en þó ekki rík. George vann hjá Lord Fairfax (afar efnuðum plantekrubúa í Virginíu) þegar hann var sextán ára við það hafa umsjón með garði hans.
Seinna þegar eldri bróðir George lést, þá erfði hann frá honum tóbaksplantekru og átti hana til dauðadags (sagði ykkur að hann væri ekki fátækur). En stuttu eftir lát bróður hans var George kallaður í breska herinn og barðist gegn Frökkum.
George vann nokkra frækna sigra á Frökkum þó að til að byrja með hafi stríðið gengið fremur illa. (Sjö ára stríðin enduðu þó með sigri Breta og Prússa, á Frökkum, Austurríkismönnum, Saxlendingum, Rússum og Spánverjum sem verður að teljast nokkuð gott).
Hershöfðingi
Að stríðinu loknu var litið á George sem nokkurs konar hetju. Miðað við reynslu hans úr stríðinu er ekki skrítið að hann skyldi hafa verið valinn síðar meir af uppreisnarmönnunum til að leiða her þeirra.
Ég ætla ekki að rekja frelsisstríðið og sögu þess eða ástæður. George tókst að sigra ofurefli Breta með herkænsku, hermenn hans voru mun tryggari gagnvart honum heldur en þeir bresku voru gagnvart sínum hershöfðingjum, sennilega af því að þeim fannst þeir hafa verðugan málstað. BNA menn græddu líka á því að berjast á heimavelli og Bretar sem ekki þekktu til aðstæðna urðu oft klunnalegir í hernaðaráætlunum. Einnig græddu BNA menn á biturð Frakka yfir því að hafa misst Kanada til Breta og hjálp þeirra kom að miklu gagni. (Það væri hollt fyrir núverandi stjórnvöld að muna að ekki er nóg með að Frakkar hafi hjálpað þeim í frelsisstríðinu heldur gáfu þeir þeim frelsisstyttuna líka, rétt eins og Frakkar ættu að muna að BNA menn frelsuðu þá frá Nasistum og veittu þeim Marshallaðstoðina. “Why can't we all just be friends?”).
Forseti
Margir af ofurstum og hermönnum sem höfðu barist með Washington vildu að hann yrði konungur. Það leist Washington guði sé lof ekki vel á, þrátt fyrir að hann hefði sennilega vel getað orðið konungur að loknum sigrinum á Bretum. Hann varð þó seinna forseti eftir að hafa verið kallaður á þing 1787 og það sem hann gerði sem forseti markaði mjög djúp spor í stjórnkerfi BNA. Það er meðal annars honum að þakka að enginn forseti má vera lengur en tvö kjörtímabil. Hann hafði lítinn áhuga á að bjóða sig aftur fram að loknu sínu fyrsta kjörtímabili, en það má segja að sökum fjölda áskoranna hafi hann látið undan.
George barðist ávallt gagnvart myndunum pólitískra fylkinga, sem hann taldi vera skaðlegar gagnvart almenningi. Í stjórn sinni hafði hann marga sem voru ósammála. Meirihluti þingmanna voru “Federalists”, og vildu sterka miðstýringu. Svokallaðir “Democratic-Republicans” undir forystu Thomas Jeffersons vildu takmarka völd ríkisins eins mikið og mögulegt væri.
Forystumaður “Federalista”, Alexander Hamilton, og forystumaður “Democratic-Republicans”, Thomas Jefferson, sátu báðir í stjórn Washingtons sem taldi mikilvægt að viðhalda jafnvægi milli beggja fylkinga þrátt fyrir að hallast eilítið meira yfir á væng “Federalista”.
Washington lýsti yfir hlutleysi 1793 í stríði Breta og Frakka sem þá hófst, og síðan þá hafa forsetar haft nánast ótakmörkuð völd á sviði utanríkismála.
Þegar bændur í Vestur Pennsylvaníu gerðu uppreisn til að mótmæla whiskýsköttum, þá bældi Washington það niður með valdi. (Sem er sérkennilegt í sjálfu sér, því á sínum tíma gerði Washington ásamt öðrum uppreisn meðal annars út af of háum sköttum).
Að undanskildu Vestur Pennsylvaníu málinu finnst mér Washington hafa staðið sig vel sem forseti. Það eru fáir pólitíkusar sem reyna að takmarka sín eigin völd með almannahagsmuni í fyrirrúmi. Það er afar sjaldgæft verð ég að segja.
En hvað gerðist eftir að seinna kjörtímabilinu lauk?
Komist að því í Forsetar BNA 2. hluta