Hér á eftir fer ritgerð sem ég gerði í Íslensku 303. Njótið vel.
Inngangur
Í þessari rannsóknarritgerð er ætlunin að greina frá ævi Ara Þorgilssonar, sem yfirleitt var kallaður hinn fróði. Ég mun velta fyrir mér ýmsum málefnum varðandi hann og greina frá ýmsu sem ekki er almenn þekking í dag. Spurningin sem ég legg fram er einföld og er svohljóðandi: “Hver var Ari fróði og hver voru helstu verk hans.”
Vinnuaðferð mín við þessa rannsókn var ósköp einföld, ég fann efnið og gerði heimildaskrána jafnóðum. Þá vann ég úr þessu öllu saman og setti saman ritgerð.
En nú skulum við vinda okkur yfir í efnið.
Ari fróði
Æviágrip
Á ótilgreindum degi á því herrans ári 1067 eignuðust þau Þorgils Gellisson og Jóreiður Hallsdóttir son sem þau nefndu Ara. (skv. www.islendingabok.is) Talið er að hann hafi átt albróður, sem nefndist því óvenjulega nafni Húnbogi, en heimildum ber ekki saman um faðerni hans svo mögulegt er að þeir hafi einungis verið hálfbræður. Lítið segir frá æsku Ara en þó er sagt: “Þorgils, annar son Gellis, drukknaði ungur á Breiðafirði og allir þeir er á skipi voru með honum.” (Laxdæla 1997:78. kafli) og er þá átt við föður Ara. Þá var Ari ekki eldri en 7 ára gamall, því sagt er frá því að honum hafi verið komið í fóstur til Gellis afa síns á Helgafelli. 7 ára var hann svo sendur til Halls Þórarinssonar í Haukadal en um hann var almælt: “at mildastr væri ok ágætstr at góðu á landi hér ólærðra manna.” (Íslendingabók, 1968:20) Ari dvaldist í Haukadal í fjórtán ár. Þar kenndi honum Teitur “margláti” Ísleifsson sem var einmitt sonarsonur Gissurs “hvíta” sem kom þónokkuð fyrir í Njálu og því var téður Teitur sonur Ísleifs Gissurarsonar Skálholtsbiskups (1056-1080), (www.skalholt.is). Skömmu eftir það nám er talið að Ari hafi hlotið prestsvígslu.
Ari var mjög stórættaður maður. Í viðauka Íslendingabókar rekur hann ættir sínar aftur um 39 ættliði, eða sem virðist allt aftur til Yngva Tyrkjakonungs. Langamma Ara í föðurætt var Guðrún Ósvífursdóttir, en um hana er sagt: “Hún var kvenna vænst er upp óxu á Íslandi, bæði að ásjónu og vitsmunum”. (Laxdæla 1997:32. kafli) Móðir Ara var langafabarn Síðu-Halls Þorsteinssonar, goðorðsmanns í Þvottá í Álftafirði.
Þann 9. nóvember á því herrans ári 1148, lést Ari í hárri elli, en þá var hann orðinn 81 árs, sem þótti ansi gott í þann tíma. (skv. www.islendingabok.is)
Sagnaritarinn
Ari fróði hefur allt frá því að hann var uppi, verið álitinn einn fremsti rithöfundur þjóðarinnar, fyrr og síðar. Flestir sem láta í ljós skoðun sína á honum sýna honum mikla virðingu, sem oft jaðrar við lotningu.
Árni Magnússon sagði fyrstur manna á að Ari hefði þjónað sem prestur á þeim stað á Ölduhrygg sem nefnist Staður (sennilega á sunnanverðu Snæfellsnesi). Margir fræðimenn hafa fallist á þá tillögu Árna, en helstu rök þess til stuðnings er að þar bjó Þorgils sonur Ara og síðar Ari sterki Þorgilsson sonur hans, sem lést árið 1188. Hann var goðorðsmaður og réði hluta Þórsnesgoðorðs. Af þeim sökum er nokkuð víst talið að Ari fróði hafi haft mannaforráð á stórum hluta, ef ekki öllu Snæfellsnesi. Halldór Hermannsson nokkur hefur haldið fram að Ari hafi verið í föruneyti Gissurar biskups á yfirreiðum hans um landið og fengið þannig góða yfirsýn og vitneskju um menn og staði. Þann fróðleik hefur hann svo líklegast nýtt sér við ritstörf sín. (Sverrir Tómasson. 1992:292)
Íslendingabók
Það eru fáar þjóðir sem eiga heimildir um það hvernig land þeirra byggðist. Íslendingar eru svo lánsamir að eiga tvær heimildir, Íslendingabók og Landnámu.
Íslendingabók, sem er skrifuð á árunum 1122-1133, er án efa hans frægasta rit og í rauninni eina ritið sem er vitað með vissu að hann skrifaði. Hún er í tíu kapítulum sem fjalla um mismunandi hluti sem þó tengjast allir landnámsöldinni og tímanum fram að um 1120 þegar sögu Gissurar Ísleifssonar Skálholtsbiskups lýkur.
“IN HOC CODICE CONTINENTUR CAPITULA”
(Í þessari bók eru þessir kapítular)
Frá Íslands byggð I.
Frá landnámsmönnum II ok lagasetning.
Frá alþingissetning III.
Frá misseristali IV.
Frá fjórðungadeild V.
Frá Grænlands byggð VI.
Frá því, es kristni kom á Ísland VII.
Frá byskupum útlendum VIII.
Frá Ísleifi byskupi IX.
Frá Gizuri byskupi (X).
(Íslendingabók 1968:4)
Líklegt getur talist að svo lærður maður sem Ari var, hafi verið í þjónustu biskups. Íslendingabók er ekki sögð hafa getað verið skrifuð fjarri biskupsstólnum í Skálholti. Jafnvel má gera ráð fyrir að þangað hafi komið og dvalist staðkunnugir klerkar sem hefðu getað miðlað þekkingu sinni til hans um menn sem bæði hafa verið lífs og liðnir. Eins og glöggt má sjá í Íslendingabók hefur Ari víða notað frásagnir heyrnarvotta. (Sverrir Tómasson. 1992:292)
Landnáma
Ari er einnig talinn hafa átt hlut í máli með að skrifa Landnámabók. Landnáma er safn heimilda og sagna um það hvernig landið byggðist en hún er ekki rituð fyrr en á 12. öld þannig að þær sögur hljóta þá að hafa borist mann fram af manni í munnmælum.
Landnáma gefur mynd af því hvernig landið leit út þegar það var numið, þar er til dæmis sögð hin fræga setning: “ok var þá skógr milli fjalls ok fjöru.” (Landnáma 1968:36) Af frásögnum að dæma voru jöklar litlir og veðurfar gott. Einnig er eftirtektarvert hve hratt landið byggist og byggðin dreifðist víða. Landið hefur verið búsældarlegt og því laðað að fólk. Árið 930 er landnámi sagt lokið en það er árið sem Alþingi kom saman í fyrsta sinn.
Í upphafi landnámu segir frá því að hingað til lands hafi aðrir komið á undan Ingólfi Arnarsyni. Fyrst er minnst á munka frá Írlandi og þar á eftir koma menn eins og Naddoddur, Garðar Svavarsson og Hrafna-Flóki Vilgerðarson. Þessir menn kölluðu landið nöfnum eins og Thule (munkarnir), Snæland (Naddoddur), Garðarshólmi (Garðar ) og loks Ísland (Hrafna-Flóki).
Landnáma segir um Ingólf Arnarson að hann: „…er frægastr allra landnámsmanna, því at hann kom hér at auðu landi ok byggði fyrst landit, ok gerðu aðrir landnámsmenn eptir hans dæmum síðan.” (Landnáma) Hér skal tekið fram að Ingólfur var ekki sá fyrsti til að setjast að á Íslandi því maður sem hét Náttfari hafði komið til landsins með Garðari. Þegar Garðar fer af landi brott: „ …sleit frá honum mann á báti, er Náttfari hét, ok þræl og ambátt. Hann byggði þar síðan, er heitir Náttfarvík.” (Landnáma) Það var hinsvegar Ingólfur sem nam fyrstur land með þeim hætti sem síðar einkenndi landnámsöldina.
Landnáma segir síðan frá því hvernig menn komu hér hver á fætur öðrum til landsins. Flestir til að flýja ofríki Noregskonungs og höfðu oft viðkomu á Bretlandseyjum þar sem teknir voru þrælar. Þessir menn komu hingað á skipum sínum með búfé og þræla. Eftir að hafa helgað sér land gáfu margir landnámsmenn þrælum sínum jarðskika sem oft fengu nöfn eftir þrælunum eins og t.d. fékk Ketill – Ketilstaðir, Hörður – Hörðadal o.s.frv. (Landnáma), (A.S. 1930), (B.Þ. & B.J, 1991), (E.L. 1995), (G.K. 2003).
Lokaorð
Við úrvinnslu þess efnis sem kemur fram í heimildaskránni og byggingar þessar rannsóknarritgerðar hef ég orðið margs vísari um líf og störf Ara fróða. Þar hefur kennt ýmissa grasa en þó lítið skrifað á mörgum stöðum, og því er heimildaskráin eins og löng og raun ber vitni. Þó er vel mögulegt að eitthvað hafi verið skilið útundan um Ara og gaman væri að taka þetta mál upp síðar.
Heimildaskrá:
Arnór Sigurjónsson, 1930, Íslendingasaga – yfirlit handa skólum og alþýðu, Prentsmiðja Odds Björnssonar, Akureyri.
Bernharður Guðmundsson. [Án árs] Biskupar í Skálholti. http://www.skalholt.is/biskupar/index.htm [Sótt 24. nóvember 2004]
Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson, 1991, Íslands saga – til okkar daga, Sögufélag Reykjavíkur, Reykjavík.
Einar Laxness, 1995, Íslandssaga II-bindi i-r, Alfræði vöku-Helgafells, Reykjavík.
Gunnar Karlsson (ritstýrir), 2003, Fornir tímar, Mál og Menning, Reykjavík.
Íslendingabók - Ættfræðigrunnur. 1997-2003 http://www.islendingabok.is [sótt 22.nóv.], “Ari Þorgilsson”
Íslenska Alfræðiorðabókin, 1. bindi. 1990. Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir ritstýrðu. Örn og Örlygur, Reykjavík.
Jakob Benediktsson. 1968. Íslensk Fornrit, 1.bindi, Íslendingabók - Landnámabók, fyrri hluti. Hið íslenska fornritafélag, Reykjavík.
Laxdæla saga. 1997. Netútgáfan. http://www.snerpa.is/net/isl/laxdal.htm [sótt 11.okt 2003]
Salvör Gissurardóttir. 2000. Menningarnet Íslands, Frásögn í Íslendingabók af Kristnitöku. http://www.menning.is/frodleikur/islendingabok_kristnitakan.htm [Sótt 24. nóvember 2004]
Silja Aðalsteinsdóttir. 1992. Orð af orði, bókmenntasaga og sýnisbók fram til 1550. Prentsmiðjan Oddi hf. Reykjavík.
Sverrir Tómasson. 1992. Sagnarit um íslensk efni - þjóðarsögur, í Íslenskri bókmenntasögu 1. Ritstjóri: Vésteinn Ólason. Mál og menning. Reykjavík.
VisIT 4.22. 2002. Landmælingar Íslands. Reykjavík [margmiðlunardiskur]