Ákvað að birta hér lokaritgerð sem ég gerði í Sögu3136 í FB. Frekar löng, en þó ýmislegt áhugavert. Bið ykkur um að koma ekki með skítkast yfir lengd hennar þar sem að það er ykkar val að lesa hana.
Hún fjallar um hryðjuverk með tilliti til hugtaksins jihad, eða heilags stríðs í því formi sem það birtist nú á tímum. Sem tímaviðmiðun ritgerðarinnar verður í upphafi vitnað til ávarps hryðjuverkamannsins Usama Bin Laden sem hann hélt og birtist í sjónvarpi í lok október sl.
Ritgerðin byggir að mestu leyti á traustum heimildum fréttamiðla, sagnfræðinga og ýmissa annarra fræðimanna um hryðjuverk í bland við rannsóknarspurningar höfundar. Rakin verður undirstaða hryðjuverkasamtaka og fjallað verður um al-Qaeda sérstaklega í þeim efnum. Ljóst er af upplýsingum sem fram hafa komið að hryðjuverkasamtökin Al Qaeda eru í raun toppurinn á þeim ísjaka sem hryðjuverk skýla sér undir.
En þess ber að geta að hryðjuverkabaráttan er árekstur tveggja ólíkra menningaheima. Ljóst er að ekki eru ekki öll kurl kominn til grafar hvað varðar ástæðuna fyrir hryðjuverkum eða þær málsbætur sem framkvæmd þeirra gæti haft. Við vitum að mörg verri, mannskæðari og kaldrifjaðri átök sem eiga sér stað í heiminum frá degi til dags en atburðurinn sem markaði upphafið að þessu öllu, 11 september. Ber þar að nefna innrás BNA í Írak, þar hafa Bandaríkjamenn að margra mati farið með offorsi og hafa um það bil 100.000 óbreyttir borgarar látið lífið.(Horton, Richard. 2004)
Sé litið á staðreyndir er stríðsrekstur hryðjuverkamanna ógnvænlegur þó hann sé ekki í eðli sínu verri en það sem í gangi er í löndum heimsins á vettvangi glæpa, átaka og árása. Vissulega er þó ógn og ábyrgð al-Qaeda fyrir hendi. Ritgerðin er byggð á hlutlausum grundvelli og ekki er ætlað að vekja áróðurskennd í umfjölluninni um hryðjuverk heldur hlutlausa umfjöllun á báða bóga að undanskildum skoðunum höfundar í lok ritgerðar.
Usama Bin Laden ávarpar heiminn
þann 29. október 2004
Sé vikið nánar að tilkomu þess sendi Bin Laden frá sér ávarp á arabísku sjónvarpsstöðinni
Al-Jazeera þann 29. október. Þegar þessi orð eru rituð hefur ekki fengist upplýst hvernig eða hvaðan sjónvarpsstöðin Al Jazeera fékk myndbandið.
Viðtalið var markaði á vissan hátt tímamót fyrir annan aðilann í hinu heilaga stríði hryðjuverka, ríkisstjórn Bandaríkjanna. Í þessum töluðu orðum viðurkenndi Usama í fyrsta skipti hreint út að hann væri maðurinn á bak við árásirnar á tvíburaturnana á Manhattan-eyju. Orðrétt sagði hann: “Við ákváðum að eyðileggja háhýsi í Bandaríkjunum,” yfirvegaður og ákveðinn hélt hann áfram “Öryggi ykkar byggist ekki á Kerry, Bush eða al-Qaeda. Öryggi ykkar er í ykkar eigin höndum”
En gæti verið köttur í bóli bjarnar? Usama Bin Laden, maðurinn sem fólkið elskar að hata en hatar að elska, lét í þessu sama ávarpi þau orð falla að hann lofaði að útlista “bestu leiðina til þess að forðast annað Manhattan”. Fræðimenn hafa og eiga áfram eftir að velta fyrir sér merkingu þessara orða. Hvaða skilaboð er þessi maður að senda Vesturlöndum? Á myndbandi þessu gagnrýnir Bin Laden George W. Bush, endurkjörinn forseta voldugasta ríki heims, Bandaríkja Norður Ameríku fyrir að hafa villt um fyrir þjóðinni í þau þrjú ár sem liðin eru frá hryðjuverkaárásinni sem gerð var þann 11. september, á öðru ári Bush í embætti “voldugasta og heimskasta manns heims”(að mati andstæðinga hans), forseta Bandaríkjanna.
Bin Laden áréttar að árásirnar hafi verið gerðar vegna þess að “við (arabar) erum frjáls þjóð og viljum endurheimta frelsi okkar”. Spjótum sínum beinir hann að bandarísku þjóðinni, í þetta skipti í orðum og segir bestu leiðina til þess að forðast frekari hamfarir sé að reita ekki Araba til reiði. “Frjálslyndir hunsa ekki öryggi þeirra, þvert á það sem Bush gerir, sem segir okkur hata frelsið” segir Bin Laden og fréttaskýrendur bæði fullyrtu og veltu fyrir sér á þeim tíma sem ávarpið komst í pressuna að ef til vill mætti túlka þessi orð Bin Laden sem stuðningsyfirlýsingu við John Kerry, forsetaframbjóðanda demókrata í kosningunum 2004 og andstæðing Bush .
Það er ljóst að stríð Bandaríkjamanna og annarra Vesturvelda gegn hryðjuverkamönnum hefur ekki farið leynt en séu málin skoðuð ofan í kjölinn má greinilega sjá að um gríðarlegan árekstur tveggja menningarheima er að ræða. Almennt tengja menn hugtakið heilagt stríð einungis við hryðjuverk og þá sérlega eftir hina margumtöluðu árás þann 11. september. Í raun og veru boðar hugtakið heilagt stríð frið og velsæmi til handa þeim sem það er háð fyrir.
Hér á eftir verður litið á hugtakið með hliðsjón af hryðjuverkum.
Heilagt stríð (Jihad)
Hugtakið Jihad, eða heilagt stríð hefur margar ólíkar merkingar bæði í huga umheimsins alls sem og innan Íslam. Þegar talað er um heilagt stríð nú á tímum vekur það ugg í huga almennings og berst þá hugsunin til hryðjuverka eða hryðjuverkasamtaka vegna þess að fylkingar og einstaklingar sem tengjast þeim nota þetta hugtak í samhengi við gjörðir sínar. Sé litið á uppruna hugtaksins í sagnfræðilegu samhengi þá er þess að geta að þessu hugtaki eru gerð góð skil í Kóraninum, helgasta riti múslima. Það skiptist í grófum dráttum í tvennt. Annars vegar í Stærra jihad sem lýsir baráttu í daglegu lífi svo og þeirri baráttu sem við eigum innra með okkur til þess að standast freistingar djöfulsins. Hins vegar er hið Smærra jihad, það er oft nefnt hið ytra jihad og má þar sjá þá þætti sem finna má sem réttlætingu þess heilaga stríðs sem við sjáum fyrir okkur í heiminum í dag, með hryðjuverkum manndrápum og hörmungum. Samkvæmt Kóraninum er hið ytra jihad barátta múslima gegn trúleysingjum. Ef samfélagi múslima stafar ógn af trúleysingjum er það skylda þeirra að berjast á móti þeim. Kóraninn hvetur múslima til þess að berjast með lífi sínu og eignum . Auðvelt er fyrir múslimatrúa öfgamenn að nota þessa skýringu til þess að réttlæta hryðjuverk sín. En einnig skal geta þess að eitt af hlutverkum Kóransins og lagasetningu múslima var að mynda nýjan flöt á samskiptum manna og losa þau undan hefðum ættbálkasamfélagsins í Arabíu. Eitt helsta einkenni ættbálkanna var svokölluð rassía sem lýsti sér í stjórnlausu stríði milli ættbálkanna. Jihad kom meðal annars fram í Kóraninum í þeirri merkingu að koma á reglu í samskiptum manna í stað hinnar afstæðu rassíu. Jákvæð merking jihad er því mikil því að henni er meðal annars ætlað að “varðveita friðinn”. En hugtök geta haft áhrif og merkingu á báða bóga. Jihad felur meðal annars í sér þá viðurkenningu að maðurinn hafi tilhneigingu til þess að syndga, virða ekki rétt náungans og samfélagsins almennt og eðli samfélaga til þess að vera oft í stríði við hvort annað.
Athyglisvert er að Kóraninn virðist vera ritaður með skoðanir í mótsögn hvor við aðra vegna þess að vers í honum gefa múslimum ekki skýr svör um hvort þeir eigi að stunda jihad í vörn eða sókn. Fjöldi fræðimanna í efnum Kóransins vilja hinsvegar meina að það sé einungis réttlætanlegt í sjálfsvörn. Einungis megi beita því í sókn ef landsvæði múslima og trúariðkun sé í hættu. Hlutaðeigandi aðilar hafa ýmsir þá skoðun að hugtakið eigi einnig að notast í sókn og jihad ætti ekki að linna fyrr en allur heimurinn tilheyrir múslimum. Ef við lítum á þau átök sem háð eru í heiminum á trúarlegum forsendum er ljóst að mistúlkun á hugtakinu er algeng og oft einungis til hins verra. Þrátt fyrir þessa mistúlkun inniheldur lagakerfi múslima, sem heitir Sharía, skýrar reglur . Þar er varað því við að múslimar hegði sér með ofbeldisfullum hætti í nafni trúarinnar. Sé kafað enn dýpra inn í túlkun á hugtakinu jihad er ljóst að það hefur ýmsar merkingar innan Íslam og hugmyndafræði þess, bæði til friðar og átaka.
Sé fjallað á ný um árekstur menningaheimanna, heims Íslams og Vesturlandanna, menningaárekstur sem á sér stað milli þessara tveggja heilda er rétt að fjalla um dulin,en oft miskilinn skilaboð sem George W. Bush sendir heiminum í enda fjölmargra ræða sinna þegar hann talar gegn hryðjuverkamönnum: ,,God bless America”. Túlkun Araba á þessum orðum er nákvæmlega eins og túlkun Vesturlandabúa þegar hryðjuverkahópar tala um heilagt stríð gegnt þeim. Arabar meðtaka þessi orð eins og að Bush sé að biðja Guð um hjálp í stríðinu gegn hryðjuverkum. Þó svo að Bush hafi margsinnis sagt að hann sé ekki í herferð gegn trú múslima, heldur hryðjuverkamönnum þá er vert að geta þess að George W. Bush missti eitt sinn út úr sér að Bandaríkin ætluðu í krossferð gegn hryðjuverkum. Það þarf ekki mikið til að múslímar taki þau orð náið til sín og ljóst er að þetta var það sem Usama Bin Laden var að sækjast eftir til stuðnings fyrir sinn málstað og sínar aðferðir. Þessi viðbrögð og þessi orð George W. Bush getur Usama Bin Laden notað til þess að sýna múslímum fram á það að Vesturlönd séu hið vonda vald.
(Magnús Þorkell Bernharðsson. 2001)
Mikilvægi herferðar gegn hryðjuverkum.
Vissulega er herferð gegn hryðjuverkum mikilvæg en í mörgum tilfellum eru Vesturlandabúar ekki skárri en þeir sem barist er gegn. Vesturlandabúar berjast gegn hryðjuverkum undir formerkjum friðar, frelsis, lýðræðis og frjáls markaðar . Í heiminum er einn milljarður múslíma og eru þeir að mestu leyti mesta friðsemdarfólk þó að vissulega séu svartir sauðir inn á milli.
Hægt er að slá því föstu að ef allir múslímar í heiminum myndu heyja stríð gegn Vesturlöndum myndi það ekki veita á gott og ein mesta styrjöld í sögu stríðsrekstrar kæmi í ljós.
Sé tillit tekið til sjónvarpsávarps Usama Bin Laden þá er ljóst að hann er ekki einungis að minna á sig og ógn sína. Setja má fram þá kenningu að hann sé einnig að sækjast eftir viðbrögðum Bandaríkjamanna með ávarpi sínu sem gæti leitt til aukins stuðnings við hann og samtök hans, al-Qaeda í heimi Íslams. Eins og áður hefur komið fram er gífurlegur árekstur tveggja menningarheima að eiga sér stað. Vesturlönd mistúlka Íslam og Íslam mistúlkar Vesturlönd. Bin Laden notfærir sér þessa stöðu og mistúlkun þessi er veita á aukinn stuðning við Bin Laden og stefnu samtaka hans.
Stefnubreyting Bin Laden og al-Qaeda nú og á þeim tíma sem ósköpin 11. september dundu yfir er til staðar en hefur þó ekki breyst mikið til hins betra.
Bin Laden hefur eflaust aukið fylgi sitt með þeirri stefnu sem ríkjandi er nú í hans búðum. Ýmis málefni einkenna stefnu hans og ber þar helst að nefna örlög Palestínu, andúð múslima á herstöðvar Bandaríkjamanna í Sádi-Arabíu sem nánar verður fjallað um hér á eftir og svo loks það sem mótaði stefnu hans fyrir árásina 11. september; að skapa glundroða í Mið-Austurlöndum hafa sett sitt mark á baráttu þessara landa þar sem ofstæki landstjórnenda, harðstjórn og fleira er til staðar sem heldur íbúum þessara landa í nauðargreipum. Bin Laden er ekki eins róttækur í stefnu sinni og orðum og hann var áður og sést það meðal annars á sjónvarpsávarpinu og túlkun fræðimanna á því sem fram kom í lok október. Ofsatrú, líkt og Bin Laden boðar með hryðjuverkum sínum og hinum ýmsu ávörpum sem komið hafa fram undanfarin ár er af fræðimönnum talinn leiða til þess að fólk aðhyllist hana sökum þess eins og sannast hefur að trúin veitir styrk og er greinilegt að þeir sem óbeint eða óbeint fylgja Usama Bin Laden hafa lítinn styrk að sækja annað.
Í blekkingu sinni heldur fólk að ef al-Qaeda stjórnuðu högum sínum myndu yfirráðasvæði þeirra vera laus við þá ringulreið sem ríkt hefur í þeim fyrir tilstillan landstjórna. Það er nánast gefið að sjá að samtök líkt og al-Qaeda eru ekki fýsilegur kostur í yfirráðum.
Frá því að rannsókn á samtökunum leit dagsins ljós hefur það komið upp á borðið að al-Qaeda er að reyna að leggja undir sig lönd eins og t.d. Sádi-Arabíu og önnur víðsvegar í Miðausturlöndum.
Sú kenning fréttaskýrenda um að með sjónvarpsávarpi sínu hafi Usama Bin Laden verið að reyna að koma Bush úr embætti og styðja Kerry er sennilega ekki á rökum reist, sökum þess að Bush og Kerry eru ekki með ólíkar skoðanir á utanríkismálum. Ef Bush hefði horfið úr embætti þá er ljóst að Kerry hefði ekki barist fyrir bættum kjörum í mið-Austurlöndum bæði vegna þess að það myndi sína undirgefni í stríðinu við hryðjuverk og að stefna hans er eins og áður sagði ekki af því sauðahúsi.
Ber er hver að baki nema sér bróður eigi?
Í ljósi stuðnings Usama bin Laden við Palestínumenn er mikilvægt að skýra frá málum eins og þau standa í Sádi-Arabíu og Jórdaníu, sem hvortveggja innihalda Palestínumenn í miklum mæli. Í Sádi-Arabíu eru tvær af helgustu borgum múslima, Mekka og Medína. Þaðan kemur spámaðurinn Múhameð og því er ljóst að tilvist þessa lands hefur mikið að segja. Landið er samt sem áður talið nýsmíð sem myndað var af ættbálkaleiðtoganum Ibn Saud, sem naut aðstoðar Breta gegn sameiningu Araba í stórt og öflugt ríki. Fyrir greiðsemi Breta var gerður samningur við þá um að Sádi-Arabía myndi lúta forystu þeirra í utanríkismálum. Eftir uppreisn Palestínumanna gegn Bretum árið 1936 fór hinsvegar að halla undan fæti og lá þá hugur leiðtogans til Bandaríkjanna. Þeim var veitt leyfi til olíuvinnslu í landinu og einnig leigðu þeir flugstöð í Dharan. Síðan hefur konungsættin í Sádi-Arabíu staðið vörð um vestræna hagsmuni í Miðausturlöndum og þá sérlega innan OPEC, samtaka olíuútflytjenda. Sár fátækt ríkir í landinu en samt sem áður beitir konungsstjórn landsins sér ekki fyrir henni, heldur hugsar fyrst og fremst um hag fjölskyldunnar og lætur ekki mikið af sér leiða í þágu íbúana. Sádi-Arabía er talinn hafa heimsins mest af mannréttindabrotum á sínum snærum en Vesturlöndin láta þar við sitja, þó svo að þau ráðist inn í ýmis önnur ríki undir formerkjum mannréttinda. Ekki er mikill munur á stefnu beggja landa því Sádi-Arabía og Jórdanía hafa gert hvað sem í þeirra valdi stendur til þess að halda aftur af Palestínumönnum sem t.d. eru í miklum meirihluta í Jórdaníu en fá lítið að segja um stjórnarfarið. Bandaríkjamenn hafa stutt bæði ríkin svo um munar og er vert að geta þess að Bandaríkjamenn lánuðu konungi Jórdaníu 50 milljón Bandaríkjadali eftir að hann endurreisti einræði í landinu, bannaði alla pólitíska flokka og kom á herlögum í landinu. Palestínumenn eru þvingaðir til þess að leiða hjá sér vinfengi konungsættar Jórdaníu við Bandaríkin. Ljóst er af þessum staðreyndum að dæma að hagur Palestínumanna í þessum löndum, svo og fleiri Mið-Austurlöndum er mjög bágur. Vesturlöndin undir forystu Bandaríkjamanna styðja þessi lönd vitandi það að mannréttindi eru fótum troðinn og hagur íbúana og þá sérstaklega í Sádi-Arabíu er nánast enginn. Usama bin Laden og samtök hans hafa sett það á stefnuskrá sína að berjast fyrir málefnum Palestínu. Ljóst er einnig að hatur hans og annarra Íslamstrúar á Bandaríkjunum er einnig til staðar vegna þess að grundvöllurinn að trú Íslams rekur leiðir sínar beint til Sádi-Arabíu og hefur augljóslega mikið að segja um stefnu samtakanna því að Bandaríkjamenn hafa komið sér upp herstöðvum víðsvegar í hinu heilaga landi. Stefnan hefur því ekki einungis að geyma brenglaðar hugmyndir Usama bin Laden um að ná fram ætlunum sínum heldur er ljóst að mannréttindi og sjálfsögð réttindi til trúariðkunar liggja einnig að baki.
(Sverrir Jakobsson. 2003)
Hryðjuverk og umheimurinn.
Sagt er að eins manns hryðjuverk sé annars frelsisstríð. Eins og áður hefur komið fram er nokkuð til í þeirri fullyrðingu. Í flestum tilfellum er hryðjuverkum ætlað að sýna fram á málstað hlutaðeigandi og krefjast betrumbóta á þeim málum sem hryðjuverkamennirnir setja fram. Það er gefið að hryðjuverk knýja fram angist í huga fólks en ljóst er að skoðun almennings skiptist í tvær fylkingar, með og á móti.
Vissulega er ekkert sem réttlætir hryðjuverk á borði, en ljóst er að neyð einstaklinga sem hlut eiga að máli er mikil. Þorri hryðjuverkasamtaka í heiminum eru að berjast gegn skoðanakúgunum, stéttaskiptingu, landtöku og trúarlegri mismunun. Oft ber mönnum ekki saman um hvað ber að flokka sem hryðjuverkasamtök.
Aðskilnaðarsinnar, mótmælendur eða ofsatrúarhópar eru oftast nefndir til sögunnar.
Í sagnfræði er orðið hryðjuverk talið eiga upptök sín í Frönsku byltingunni og kallaðist tímabilið frá september 1793 til júlíloka 1794 “Le terreur”. Þaðan er nafnið “terroristi” komið og er í daglegu tali notað um þann sem reynir að vinna málum sínum brautargengi með þvingunum og ógnunum . Merkilegt er að á þessu tímabili var það stjórn Frakklands sem var í hlutverki hryðjuverkamanna, ekki íbúar.
Hin eiginlega hryðjuverkastarfsemi sem við sjáum í dag, í formi samtaka er í sagnfræðinni talin eiga sín raunverulegu upptök við stofnun hryðjuverkasamtakana Narodnaya Volya árið 1878 sem voru lítil samtök byltingasinnaðra í Rússlandi. Meðal þess þekkta sem samtökin gerðu var að þau stóðu fyrir morðinu á Alexander II, keisara í Rússlandi.(Stefán Pálsson. 2004)
Ef mark er tekið á upphafinu og það skoðað með hryðjuverkasamtök al-Qaeda til hliðsjónar er ljóst að mikið hefur breyst og þróun hryðjuverka er á þá leið að ekki verður langt að bíða að beitt verði efna- og jafnvel kjarnorkuvopnum. Ógnin er bersýnilega meiri nú en hún var fyrir 30 árum og al-Qaeda er vissulega lokið á pottinum í þeim efnum. Hér á eftir mun nánari umfjöllun verða um stærstu hryðjuverk al-Qaeda gegn Bandaríkjamönnum, frá formlegri stofnun samtakana árið 1988 og fram til dagsins í dag.
Þróun hryðjuverka al-Qaeda gegn Bandaríkjunum.
Sé stiklað á helstu hryðjuverkaárásum al-Qaeda á hendur Bandaríkjamönnum frá formlegri stofnun þeirra árið 1988 og nú á 21. öldinni má sjá gífurlegan mun í bæði aðgerðum og alvarleika.
Fyrstu hryðjuverk samtakana gegn Bandaríkjunum er talin vera bílsprengingin í World Trade Center árið 1993. Þar létust sex manns og þúsundir særðust. Sú árás heppnaðist greinilega ekki sem skyldi því ætlunin með þeim hryðjuverkum var bersýnilega að valda meiri usla en hún gerði. Staðsetning er gott dæmi um hversu magnþrungnar árásirnar áttu að vera. Árásirnar á sendiráð Bandaríkjanna í Tansaníu og Kenía árið 1998 settu sinn svip á hryðjuverkastarfsemi al-Qaeda. Bílsprengjur urðu 220 manns að bana. Árás þessi markaði upphafið af stríði Bandaríkjamanna gegn hryðjuverkum því stuttu síðar hófu Bandaríkjamenn loftárásir á þjálfunarbúðir al-Qaeda. Því næst ber að nefna árás á tundurspilli Bandaríkjamanna í Yemen, þann 12. október árið 2000. Þar létust 17 bandarískir hermenn og af fréttum af þessum árásum og árásunum í Suður-Afríku þá virðist það vera eins og Bandaríkjamenn taki þessa árás mun meira til heldur sín og líti hana alvarlegri augum og ýmsar kenningar hafa verið settar fram um það .
Stærsta árás samtakana á Bandaríkin var eins og kunnugt er gerð þann 11. september árið 2001. Flugvélum var flogið á World Trade Center og varnarmálaráðuneytið í Pentagon. Yfir 3000 manns létu lífið. Georg W. Bush lýsti opinberlega yfir stríði á hendur hryðjuverkasamtökum og sprengjuárásir hófust á Afganistan. Landið var hernumið og hundruðir meintra al-Qaeda liða voru handteknir og færðir í fangabúðirnar í Guantamano á Kúbu.
Greinilegt er að al-Qaeda liðar eru síður en svo hættir því alvarleiki árásanna í Madrid í mars á þessu ári settu sinn svip á aðgerðir samtakana en þar létust 191 óbreyttir borgarar. Þess ber að geta að atburðirnir sem taldir eru upp hér að ofan eru einungis þeir stærstu og afdrifaríkustu að undanskildum fyrri árásum á World Trade Center árið 1993, sem talin er marka upphafið af árásum al-Qaeda frá formlegri stofnun þeirra.
Sé litið á þessar helstu árásir má glöggt sjá að með þriggja ára millibili hafa samtökin gert viðamiklar árásir í heiminum og er hægt að setja fram þá kenningu að heimurinn gæti átt von á víðtækum hryðjuverkum árið 2007. Erfitt er að gera sér ljóst hvenær eða hvar hryðjuverk eigi sér stað en ýmsar vísbendingar hafa legið fyrir í þorra fyrrnefndra árása. Ber þar að nefna að Bill Clinton fyrrverandi forseti Bandaríkjanna hafði ýmsar vísbendingar um hryðjuverkin 11. september í stjórnartíð sinni og lét hann þær George W. Bush í té að hans eigin sögn.(Arndís Þorgeirsdóttir.2004) Þó að kenningin um árásir árið 2007 geti staðist er ljóst að Bin Laden ætlar greinilega ekki að láta gleyma sér nærri strax og sést það greinilega á ávarpi hans í lok Október á þessu ári.
Hið heilaga stríð Usama Bin Laden mun ekki hætta fyrr en samtökin eru upprætt og virðist það ganga upp og ofan hjá Bandaríkjamönnum að hafa uppi á ýmsum stórum hlekkjum innan þeirra. Menn eins og Khalid Sheikh Mohammed sem talinn var einn af þeim stóru hlekkjum sem héldu samtökunum uppi var handsamaður í stórri aðgerð CIA í Pakistan þann 1. mars 2003. Hann er talinn hafa átt stóran þátt í skipulagningu árásanna 11. september. Samt sem áður gengur Osama Bin Laden ennþá laus og er hann númer eitt á lista yfir eftirlýsta hryðjuverkamenn.(BBC. 2004)
Hryðjuverk og Ísland.
Menn hafa löngum velt því fyrir sér hvort hryðjuverkamenn seilist eftir aðgerðum á Íslandi, og þá sérlega í kjölfar stuðnings okkar við Íraksstríðið. Einn maður hefur þó stutt þessa kenningu svo um munar og er það fyrrum forsetaframbjóðandinn Ástþór Magnússon. Fyrir síðustu kosningar sendi hann frá sér yfirlýsingu þess efnis að hér á Íslandi væru ákjósanleg skotmörk fyrir hryðjuverkamenn.
Verslunarmiðstöðvar víða um heim hafa verið skotmörk hryðjuverkamanna og vildi Ástþór þá meina að verslunarmiðstöðin Smáralind væri augljós kostur sem og næturklúbbar hér í Reykjavík.
Ástþór segir einnig að Alþingi sé fýsilegur kostur fyrir hryðjuverkamenn og að Ísland sé berskjaldað ef til átaka komi.(Símon Birgisson. 2004) Augljóslega er eitthvað til í þessum staðhæfingum og sérstaklega í ljósi þess að við Íslendingar sáum flutninga á ýmsum aðföngum til Nató herja í Afganistan og heimild lá fyrir til vopnaflutninga. Herstöðin hér á landi hefur einnig mikið að segja. Friðarsinnar eru þeirrar skoðunar að vörnin gagnvart pólitískum hryðjuverkum sé sú vörn að reka friðsamlega stefnu og forðast það að leysa mál með vopnavaldi, taka ekki þátt í hernaðarbandalögum með harðstjórum, heimsvaldasinnum og yfirgangsseggum og síðast en ekki síst að styðja ekki hernaðaraðgerðir, líkt og við Íslendingar gerum.(Einar Ólafsson. 2001)
Sú stefna er eitthvað sem við Íslendingar gætum vissulega tileinkað okkur en samt virðist það mikilvægara fyrir stjórnarmenn landsins að styðja þjóðir eins og Bandaríkjamenn í einu og öllu. Íslendingar eru þó ekki þeir einu sem liggja vel við höggi. Nýverið kom fram að frændur okkar í Noregi gætu átt von á árás hryðjuverkamanna. Ljóst er að ef grunur leikur á um hryðjuverk hér á Norðurlöndum ættu Íslendingar að taka til hendinni svo ekki verði af áformum hryðjuverkamanna, séu þau fyrir hendi.
Lokaorð og álit höfundar.
Að lokum er rétt að fram komi að hryðjuverk og hörmulegar afleiðingar þeirra eru mannanna verk. Mannlegt eðli er innst inni hið sama hvort sem er í Súdan eða Grímsnesinu. Að heyja stríð undir formerkjunum ,,gegn hryðjuverkum” er afstætt. Það er í líkingu við það að heyja stríð gegn hugtakinu leti, því að uppræting á hvorutveggja er mjög erfið viðureignar og er hvort tveggja framið af einstaklingum og hryðjuverkin reyndar einnig samtökum. Bandaríkjamenn hafa farið offorsi í stríðinu gegn hryðjuverkum og er þá ályktun meðal annars hægt að draga af bæði Íraksstríðinu og innrásinni í Afganistan.
Heimur versnandi fer. En menn verða að gera sér von um að einhvern tíma renni upp sú stund að réttsýnir, trúaðir og velviljaðir menn sameinist í baráttunni gegn hryðjuverkum sem og öðrum stríðsrekstri. Hvenær sú stund finnur sér stað er óvissunni háð en samkennd og samhugur manna mun vonandi fyrr en síðar reka stríðsherrana út á gaddinn og ef friður í heiminum ríkti og mannréttindi væru í hávegum höfð er ljóst að þá gætu hryðjuverk heyrt sögunni til.
Heimildir:
Dagblöð:
Arndís Þorgeirsdóttir. 2004. ,,Varaði Bush við” DV, gagnasafn. 22.04
Símon Birgisson. 2004. ,, Forsetaframbjóðandi óttast hryðjuverk í Smáralind” DV, gagnasafn. 20.03
Af veraldarvefnum:
Horton, Richard. 2004
,,The Lancet and the bodies in question” The Observer.
http://observer.guardian.co.uk/focus/story/0,,1345400,00.html
Reynolds, Paul. 2004 ,,Bin Laden's October surprise” BBC NEWS
http://news.bbc.co.uk/1/hi/world/middle_east/3967565.stm
BBC News. 2004.
,,Bin Laden video threatens America”
http://news.bbc.co.uk/1/hi/world/middle_east/3966741.stm
BBC News. 2004. ,,al-Qaeda timeline”
http://news.bbc.co.uk/1/hi/world/3618762.stm
Sverrir Jakobsson. 2003. ,,Óskiljanleg reiði?”
http://murinn.is/eldra_b.asp?nr=291&gerd=Hledsla&arg=4
Einar Ólafsson. 2001.
,,Hryðjuverk, hernaður og ábyrgð okkar”
http://www.fridur.is/listi.asp?nr=91
Magnús Þorkell Bernharðsson. 2001,
“Af hverju hata þeir okkur?”
http://www.visindavefur.hi.is/malstofa_m-th-b.html
Magnús Þorkell Bernharðsson. 2004.
,,Hvað er Jihad?”
http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=4339
Pratt, Chris. 2002. ,,Inside terrorism”
http://www.saturatedpratt.com/insideterrorism.html
Munnlegar heimildir:
Stefán Pálsson. 2004. Samtal höfundar við Stefán Pálsson sagnfræðing, um hryðjuverk í heiminum. Átti sér stað 14. nóvember.
Endilega komið með ykkar álit….