Almennt er talið að heimspeki og skipuleg náttúruvísindi eigi uppruna sinn í Grikklandi. Þeir fræðimenn sem halda því fram trúa að heimspekin sé ekki að neinu leyti arfur frá hinum gömlu menningarþjóðum austursins. Rökstyðja þeir það á ýmsan hátt m.a. með því að segja að án stærðfræði og rökfræði getur heimspeki ekki verið til og að þessi vísindi séu upprunin með Grikkjum. Einnig með því að segja að saga heimspekinnar hefjist með Grikkjum vegna þess að þeir fyrstir stunduðu hana án eiginlegs tilgangs og með því að segja að vegna þess að veðurfarsins í austri er ekki nógu góð skilyrði til að fóstra vísindi og heimspeki. Menn lifðu, hjátrúafullir í hræðslu við náttúruöflin en í Grikklandi hafði það verið kjörið þar sem náttúran er mildari. En þessar röksemdir fræðimanna eru þó, þegar vel er að gáð, ekki reistar á bjargi staðreynda og eru sumir sem telja að menn haldi því fram að þessar fræðigreinar séu upprunar í Grikklandi af gömlum vana. en í stað þess að leita að hinum sanna uppruna heimspekinnar ætlum við frekar að fara yfir sögu grískrar heimspeki og vísinda og greina frá helstu frumkvöðlum og mikilmönnum þessara greina.
Rekjanleg saga náttúruvísinda skiptist í tvö megintímabil, hið fyrsta er hið forngríska tíma bil sem stóð yfir frá því um 600 f.kr. til um 200 e. Kr. Hið síðara hófst í Evrópu um 1450 e.kr. og stendur enn yfir.
Skipuleg náttúruvísindi og heimspeki eru, eins og áður sagði, venjulega talin hefjast í Grikklandi með Þalesi, sem jafnframt var samtímamaður Gautama Búdda og Lao Tze, í grísku borginni Míletos í Litlu-Asíu. Hann var einnig heimpekingur sem var uppi á fyrri hluta 6. aldar f.kr. og gerði m.a. ýmsar uppgötvanir í flatarmálsfræði. Þau fræði voru að áliti Grikkja sjálfra upprunin í Egyptalandi en þar í landi höfðu menn þó látið sér nægja hagnýt not af vissum hlutföllum í þríhyrningum, ferhyrningum, píramídum og hvelum. Þalesi og samtímamönnum hans tókst að finna algengar reglur um slík sértæk tilvik eða dæmi og þeir gerðu jafnframt ýmsar aðrar stærðfræðilegar uppgötvanir. Það þykir frekar ólíklegt að Þales og lærisveinn hans Anixamander hafi verið einu heimspekingarnir í borginni Míletos þó svo að Þales kemur fram í sögunni sem forystumaðurinn. Ekki mikið er þó vitað um Þales og er talið að hann hafi ekki skrifað neina bók. Hann er því einungis þekktur af skrifum heimspekinga seinni tíma sem lýstu honum sem vísindamanni , með mikla þekkingu á auðlegð jarðarinnar.
Anaximander, lærisveinn Þalesar skrifaði bók um heimspeki sína og vísindi og er sú bók sú fyrsta sem skrifuð er á gríska tungu í óbundnu máli og um leið talin fyrsta heimspekirit Vesturlanda. Aðeins örlítið brot af þessari bók hefur varðveists.
Þáttaskil urðu svo í sögu vísinda með kennslu Pýþagórasar og lærisveina hans. Hann fæddist um 582 f.kr. og ferðaðist víða þar til hann hóf að kenna á Sikiley u.þ.b. fimmtugur að aldri. Pýþagóras og lærisveinar hans héldu fram sérkennilegum kenningum um tölur. Þær voru taldar eiga sér raunverulega, sjálfstæða tilveru. Sá háttur Grikkja að tákna tölur með bókstöfum hefur lyft undir slíka hugmynd. Lærisveinar Pýþagórasar töldu margt líkt með tölum og áþreifanlegum hlutum. Nánast allt í heiminum töldu þeir unnt að tákna með tölum, einkum eiginleika og hlutföll tónstigans. Þeir töldu því tölur vera grundvallareindir allra hluta og álitu hvelfingu himins stórfenglegan kvarða tóna og talna. Pýþagóras og fylgjendur hans gerðu tilraunir með myndun tóna. Þeir uppgötvuðu lögmál um samsvörun tóna við ákveðin lengdarhlutföll strengja sem slegið er á. Þessi heillandi sannindi urðu upphaf að djarfri kenningu um samhljóm himnanna. Þeir álitu sama lögmál gilda á himinhvelinu, fjarlægðir hnattanna frá sameiginlegri miðju væru í sömu hlutföllum og þeim sem réðu tónunum.
Empedókles (492-432 f.kr.), lærisveinn Pýþagórasar var frá Akragas og kom með aðra kenningu sem hafði langvarandi áhrif. Hann hélt því fram að kærleikur og ósætti toguðust á í öllum hlutum, jafnvel áþreifanlegum efnishlutum. Hann greindi efnið í fjórar grundvallartegundir, vatn, jörð, eld og vatn sem mynduðu frumeiginleika í veröldinni, hita, raka, þurrk og kulda eftir því hvernig efnin voru samansett. Hann stofnaði einnig læknaskólann á Sikiley.
Um miðja 5. öld f.kr. var svo komið að menntasetur Grikkja í austri sem vestri voru smám saman að hverfa í skugga menntaiðju Aþenumanna. Í Aþenu tóku hugsuðir að skipta með sér verkum og temja sér sérhæfða þekkingarleit í stað þess að ætla sér alla þekkingu mannkyns. Var þá litið á stærðfræði og læknisfræði sem óháðar fræðigreinar. Helstu frumkvöðlar í þessum fræðigreinum voru stærðfræðingurinn Hippókrates frá Kios sem gerði merkar uppgötvanir í flatarmálsfræði og læknirinn Hippókrates, samnafni hans, frá Kos sem er m.a. kunnur fyrir leit að samhengi orsakar og afleiðingar í læknisfræðilegri greiningu. Einnig komu fram á sjónarsviðið á svipuðum tíma heimspekingarnir Xenófanes (570-480 f.kr.) og nánasti lærisveinn hans Zenó (490-430 f.kr.). Xenófanes var heimspekingur og jafnframt innblásið skáld og spámaður. Einnig kom til Aþenu um 460 f.kr. frá Klazomenai Anaxógóras sem varð mjög fátækur vegna frægða sinna eins og Sókrates og er þekktur fyrir hugmyndir sínar um smáagnir og skynsemi. Um 460 f.kr. var svo uppi Demókrítos sem er fægur fyrir að að vera höfundur atómkenningarinnar og efnishyggjunnar og Prótagóras sem reyndi að ráða gátu mannsins og djúp hans og takmarkanir og var hann svo dæmdur fyrir skoðanir sínar og bækur hans voru opinberlega brenndar á báli á Agóru 411 f.kr.
Sókrates fæddist 470 f.kr. og er hann talinn einn mesti heimspekingur sögunnar. Grundvöllurinn undir boðskap hans var heimspeki, varfærin leitandi, ókerfisbundin en þó svo raunveruleg að fyrir hana lagði hann líf sitt í sölurnar. Fljótt á litið finnst engin sérstök Sókratesar speki en ástæðan er einkum sú að Sókrates tók upp afstæðishyggju Prótagórasar, hafnaði allri kreddufestu og var ekki viss um neitt nema sína eigin vanþekkingu. Munurinn á honum og öðrum grískum mikilmennum var sá að hann trúði að menn skyldu ekki iðka náttúruvísindi meiri en nauðsynlegt væri til að lifa farsællega; utan tiltekinna marka tæki við dimmur þokuhjúpur og þegar búið væri að leysa einn leyndardóm birtist annar enn dularfyllri leyndardómur að baki honum. Hann var einnig ákaflega bjartsýnn á manneðlið og taldi m.a. að menn sem gerðu rangt gerðu það því þeir þekktu ekki né skildu hið rétta. Sókrates var því með aðrar kenningar en þeir sem boðuðu það að maður ætti að álíta sig á mannlegum takmörkunum. Sókrates sagði „vertu meðvitaður um hvers mannsandinn er megnugur“. Kenningar Sókratesar féllu ekki í góðan jarðveg, hann var sakaður um að óvirða guðina og spilla lýðnum. Sókrates varði sjálfan sig fyrir dómurunum en hlaut ekki miskunn og var dæmdur til dauða um 390 f.kr.
Á 4. öld f.kr. voru svo uppi hinir frægu Platón, lærisveinn Sókratesar, og Aristóteles. Platón var bæði heimspekingur og vísindamaður og virti stærðfræði mikils og margar frummynda hans gera ráð fyrir stærðfræðilegum búningi og hann var gjarn á að meta verðleika tiltekinna vísinda eftir stærðfræðilegu stigi þeirra. Hann áleit, í anda Pýþagórasar, gang himintunglanna dæmi um fullkomnar flatarmálsfræðilegar myndir. Platón bar einnig mikla virðingu fyrir stjörnufræði, einkum fræðilegum kenningum vísindagreinarinnar, og meðal fylgjenda heimspekingsins rann stærðfræði saman við stjörnufræði. Lærisveinar og fylgjendur Platóns að fornu urðu urðu yfirleitt afhuga nákvæmum athugunum á náttúrunni, en þo eru dæmi um áhrif Platóns í gagnstæða átt. Platón hélt á lofti fræðum Pýþagórasar um hina fimm reglulegu margflötunga með jafnlangar hliðar og jafnstór horn. Mörgum öldum síðar heilluðu þeir einn helsta frumkvöðul hins síðara tímabils náttúruvísinda Jóhannes Kepler. Platón var einnig með þá kenningu að það sem skilningarvitin sögðu manni væri ekki hinn eini sanni veruleiki, heldur aðeins skuggi frummyndanna. Kenning hans var byggð á því að mannsálin væri upprunin úr heimi frummyndana og myndi losna úr fjötrum sínum við dauða líkamans. Þessi kenning Platóns hafði síðar meir mikil áhrif á kristna trú og aðrar kenningar hans höfðu líka ótrúlega mikil áhrif á heimspeki, trúmál og stjórnmál seinni alda.
Aristóteles, sem var uppi 384-322 f.kr. er í hópi mestu náttúruvísindamanna sögunnar og einn áhrifamesti hugsuður sem uppi hefur verið. Hann fæddist á grísku nýlendunni Stagíru við norðvestanvert Eyjahaf. Hann varð nemandi Platóns 17 ára gamall og varð það hans hlutskipti að dveljast og starfa í skóla hins miklu meistara í 20 ár. Þegar að Aristóteles var 49 ára, eftir að hafa starfað á ýmsum stöðum, stofnaði hann skóla sinn Lýkeion. Þar lauk hann við og samdi ótal merk rit um allt milli himins og jarðar. Hann stundaði, ólíkt Platón, þá heimspeki sem menn hafa kallað „heimspeki heilbrigðrar skynsemi“. Hann taldi að tilveran væri saman sett úr ótal einingum sem mismunandi voru af efni. Hann notaðist við aðleiðsluaðferð þ.e. að leggja áherslu á að rannsaka sem flestar einingar áður en ákveðin regla var sett fram. Það er e.t.v. hér sem leiðir Aristótelesar og Platóns og Sókratesar skiljast. Aristóteles var meiri vísinda- og raunhyggjumaður og var með eindæmum athugull og skarpskyggn náttúruskoðari. Fræðileg flokkun hans á mörgum tugum lífvera var einstakt afrek og varð um aldir viðmiðum náttúrufræðinga. Rit hans á þessu sviði fjalla m.a. um líkamshluta, fjölgun og hreyfingu dýra og eru þau talin með því merkasta sem eftir hann liggur. Aristóteles leitaðist einnig við að greina eðli sköpunar og eðli erfða og kynskiptingar. Í líffræðilegum kenningum sínum útskýrir hann lífríkið með flokkun í sífellt flóknari heildir. En Aristóteles var eins og áðan var sagt frá í fremstu röð vísindalegra náttúruskoðara, jafnvel miðað við ströngustu nútímakröfur. Hann gerði einnig óteljandi aðrar aðdáunarverðar athuganir. Aristóteles var einnig, líkt og Platón, áhugamaður um stjörnufræði og líka nokkru hallur undir kenningar Pýþagórasar. Hugmyndir Aristótelesar um alheiminn varð grundvöllur heimsmynda manna næstu 2000 árin. Hinar fjölþættu og víðamiklu ritgerðir Aristótelesar urðu er fram liðu stundir álitnar fullnaðarsannindi.
Næstu 500 árin eftir líf og starf Aristótelesar var miðstöð vísinda í heiminum í Alexandríu og skipta má því tímabíli í tvö skeið. Fyrra skeiðið stóð yfir frá 300-30 f.kr. og þar tók Evklíð saman flatarmálsfræði sína og bók hans varð grundvöllur kennslu í þeim fræðum í 22 aldir. Í Alexandríu bjuggu einnig Aristarkos, sem gerði fyrstu tilraunina til að mæla fjarlægðir sólar og tungls frá jörðu og hlutfallslegar stærðir þessara himintungla, Hipparkos sem var mesti stjörnufræðingur fornaldar. Hann reisti á Ródos fyrstu stjörnuathugunarstöðina sem sögur fara af.En mesti vísindamaður Alexandríuskólans var Arkímedes. Afrek hans voru á sviði stærðfræði og aflfræði, en hann var jafnframt frægur fyrir snilli sína í verkfræði og smíði hagnýtra, aflfræðilegra áhalda. Hann skilgreindi einnig eðlisþyngd og uppgötvaði grundvallar lögmálin um vogarafl. Annar mikill fræðimaður og samtímamaður Arkímedesar var fræðimaðurinn Eratosþenes sem reiknaði út stærð jarðar með með samanburði á lengd skugga á hádegi í Alexandríu og mun sunnar í Egyptalandi, í Sýneu þar sem nú heitir Aswan. Hann komst mjög nærri hinu sanna.
Þrátt fyrir veraldleg yfirráð Rómverja voru grísk viðhorf allsráðandi í Alexandríu sem fyrr. Þetta lokaskeið grískra vísinda 30 f.kr.-200 e.kr. einkenndist af áhrifum tveggja mikilmenna vísindasögunnar sem störfuðu hvor á sínu sviði, þeirra Ptólemeosar og Galenosar. Rit stjörnufræðingins Ptólemeosar urðu grundvallarrit um aldir. Hann skýrði gang reikistjarna með hjálp hjáhringja og gerði nákvæmar athuganir og ákvarðaði fjarlægð tunglsins. Galenos gekk í skóla í Alexandríu og gerði ýmsar tilraunir og lagði fram kenningar um gerð mannslíkamans. Sagt hefur verið að fræðirit Galenosar hafi verið meðal áhrifamestu bóka allra tíma. Þegar að hann lést hættu líkamsfræðilegar og lífeðlisfræðilegar rannsóknir og rannsóknir í stærðfræði og aflfræði héldust litlu lengur. Með endalokum forngrískra vísinda um 200 e.kr. hefjast ófrjóar miðaldir þessara fræða.
Þrátt fyrir að það sé ekki vitað fyrir víst hvort að heimspeki og náttúruvísindi séu í raun og veru upprunin með Grikkjum þá leikur engin vafi á að frá þeim eru komnir flestir áhrifamestu og frægustu iðkendur þessara greina og kenningar þeirra og fræði höfðu áhrif á heiminn löngu eftir dauða þeirra.