Gagnrýni á grein Mark Weber: “Auschwitz: Þjóðsögur og staðreyndir” sem birt er á http://www.gagnauga.is og http://www.sigurfreyr.com
Jóhannes Þ. Skúlason
Mark Weber er ritstjóri “Journal of Historical Review” sem er eitt helsta tímarit endurskoðunarsinna á sviði sagnfræði. Endurskoðunarsinnar stæra sig af því að efast um velflest sem hefur hingað til verið viðtekin söguskoðun, hvort sem um er að ræða helförina eða annað. Þeir þykja ekki sérlega fínn pappír í sagnfræðiheiminum. David Irving er líklega einna þekktastur þessarra sagnfræðinga.
Mér sýnist nú að flest það sem kemur fram í þessari grein Webers sé vafasamt. Annars vegar er þar ýmislegt sem í raun skiptir engu máli, t.d. klausan um Önnu Frank og föður hennar sem er augljóslega höfð með í því augnamiði að vekja einhver samúðarminni hjá lesandanum. Spurningin sem Weber slengir fram í lok þess kafla um að “þau feðgin hefðu nú ekki lifað svona lengi ef nasistarnir hefðu ætlað sér að drepa þau” er einfaldlega lélegustu rök sem ég hef heyrt. Anna Frank dó. Hún var ein af milljónum og hvort hún dó strax eða seinna skiptir ekki nokkru einasta máli. Hér er einungis verið að nota þekkt nafn á aumkunnarverðan hátt í tilraun til að tengja lesandann við textann.
Flest höfuðrök Webers í greininni eru eitthvað sem er fyrir löngu búið að hrekja, eins og til dæmis “Leuchter skýrslan” sem hélt því fram að gasklefarnir hefðu ekki getað virkað eins og haldið var fram. Það eru fáir sem leggja trúnað á Leucther skýrsluna í dag því að hún hefur verið hrakin algerlega og sýnt fram á að hún er í raun tilbúningur á köflum þar sem Fred Leucther er að geta í eyðurnar varðandi útlit og notkunarmöguleika bygginga sem voru sprengdar í loft upp árið 1945! (sjá t.d. TRUTH PREVAILS: Demolishing Holocaust Denial: The End of the Leuchter Report)
Varðandi Fred Leuchter og skýrsluna sem hann gaf um þetta efni í Ernst Zündel réttarhöldunum á sínum tíma get ég bent á afar góða síðu sem hrekur röksemdir skýrslunnar lið fyrir lið og þar er vísað í mun traustari heimildir en Mark Weber gefur upp í greininni þeirri arna. Þetta má t.d. finna á http://www.faqs.org/faqs/holocaust/usa/leuchter/ og er mjög góð lesning. Þarna er til dæmis bent á að Leuchter villti á sér heimildir og var ekkert verkfræðingur eftir allt saman, heldur bara sjálfskipaður besserwisser. Einnig er þarna vísað í fleiri skjöl sem vert er að skoða viljii menn kynna sér útrýmingarbúðirnar nánar.
Annar fræðimaður sem Weber vitnar í er William B. Lindsey efnafræðingur. Hann var einnig vitni verjenda í Zündel málinu og hélt því fram að Zyklon B (3/4 hlutar vetnisblásýra) hefði aldrei drepið neinn í útrýmingarbúðunum, m.a. vegna þess að dyrnar á gasklefunum hefðu verið óþéttar tréhurðir og gasið hefði getað lekið út. Þetta byggði hann á ályktunum sem hann dró af því sem hann sá á staðnum í kring um 1980. Hins vegar er ekki til nema ein hurð sem er talin vera af gasklefunum sjálfum og sú er rammgerð járnhurð styrkt með stálboltum yfir hana þvera. Þeirri gerð ber saman við framburði vitna úr búðunum sjálfum. Lindsey er því á villigötum hér. Einnig hélt hann því fram að blásýrukristallarnir hefðu ekki getað leyst upp nógu fljótt því að það hefði verið of kalt í klefunum sem voru neðanjarðar. Hann varð hins vegar að játa að það hitnar fljótt í kompu þar sem 100-200 manns er troðið inn, og suðumark blásýrukristallanna er aðeins 26 gráður! Þessi fullyrðing hans féll því um sjálfa sig. Framburður Lindseys hefur því jafn lítið vægi í þessari umræðu og framburður Leuchters. Jafnvel endurskoðunarsinninn David Irving hefur lítið álit á William B. Lindsey og “sérfræðiáliti” hans.
Þessi tvenn “grundvallarrök” Mark Webers standast því ekki nánari skoðun og falla dauð og ómerk.
Weber eyðir í greininni miklu púðri í að sannfæra lesandann um að margt hafi breyst í áliti og þekkingu manna á Auschwitz og þeim fjölda sem dó þar. Það er svo sem alveg rétt að flestir eru nú sammála um að það sé fáránlegt að halda að fjórar milljónir hafi dáið þar. Sú tala er að öllum líkindum einhversstaðar á milli 900 þúsund og 1.6 milljónir, meirihlutinn gyðingar. Hér erum við að tala um einar útrýmingarbúðir og það breytir því ekki að fjöldi gyðinga í Evrópu var 5.7 milljónum færri eftir stríð, þar af er talið fullvíst að rúmlega fjórar milljónir hafi fallið í útrýmingarherferð nasista á stríðsárunum.
Villan sem Weber gerir hins vegar er að leggja út af þessari eðlilegu heimildaendurskoðun sem orðið hefur síðan 1945 og leiða af því að þess vegna verði að endurskoða helförina alla, hún hafi aldrei farið fram. Þar liggur skyssan hjá honum.
Það segir sig sjálft að sagnfræðingar líta ekki sömu augum sögu stríðsáranna nú sextíu árum síðar eins og sigurvegararnir gerðu strax við lok stríðsins. Margt af því sem þá kom fram hefur sýnt sig að var ranglega áætlað,t.d. hafa játningar nasistaforingja við Nürnberg réttarhöldin ekki sama vægi nú og þær gerðu þá. Hins vegar hafa komið fram í dagsljósið ýmis ný gögn sem varpa ljósi á málið, t.d. framburðir vitna, bæði fanga og gæslumanna í búðunum sem hafa verið að tínast saman til að mynda heildarmynd af því sem þar gerðist og það sem meira er að í yfirgnæfandi meirihluta tilfella ber þessum vitnisburðum saman um að skipuleg fjöldamorð hafi í raun átt sér stað í Auschwitz og öðrum útrýmingarbúðum nasista. Einnig hafa síðan komið í leitirnar skjöl og fjöldi ljósmynda sem renna stoðum undir helförina. Bendi ég þar t.d. á Yad-Vashem stofnunina í Jerúsalem, (http://www.yad-vashem.org.il) sem geymir fjölda slíkra gagna.
Allt þetta kýs Mark Weber að þegja um og þar gerir hann sig sekan um stóra fræðilega skyssu. Hann lítur einfaldlega fram hjá þeim heimildum sem ganga gegn þeirri lokaniðurstöðu sem hann vill sjá. Tilgangurinn ræður heimildanotkuninni og hann minnist ekki á það sem kemur æskilegri niðurstöðu illa. Ég sem sagnfræðingur tek því ekki nokkurt einasta mark á því sem Mark Weber er að skrifa í þessari grein, til þess er of margt í henni sem er einfaldlega rangt eða byggt á lélegum og/eða vafasömum heimildum svo vægt sé til orða tekið.
Það sem mér þykir verst í þessu er að maður er endalaust að heyra um og sjá greinar og skoðanir frá fólki sem í raun veit ekki betur og heldur að þetta séu góðar greinar og traustar heimildir. Það eru svo fáir sem í raun reyna að finna báðar hliðar á málinu og taka svo gagnrýna afstöðu. Menn halda að þetta sé bara kúl samsæriskenning þegar í raun er um að ræða líf milljóna manna. Greinar eins og þessi eftir Mark Weber er einfaldlega slæm og illa unnin sagnfræði og gera engum gagn, hvorki okkur né málfrelsinu.
Heimildir:
Pressac, J. C. Auschwitz: Technique and Operation of the Gas Chambers.
New York: Beate Klarsfeld Foundation, 1989
TRUTH PREVAILS: Demolishing Holocaust Denial: The End of the Leuchter Report. ed. Shelly Shapiro. New York: The Beate Klarsfeld Foundation, 1990.
Nazism 1919-1945: Foreign Policy, War and Racial Extermination: A Documentary Reader. ed. G Noakes & J. Pridham. Exeter 2001.
“Holocaust Revisionist Admits He Is Not Engineer.” The Washington Post, 18. júní, 1991 Christopher B. Daly
http://www.fpp.co.uk/ , 9. mars 2004
http://www.vho.org/GB/Journals/JHR/4/3/Lindsey2 61-303.html , 9. mars 2004
http://www.nizkor.org/hweb/people/p/prutschi-ma nuel/zundel-affair/ , 9. mars 2004
http://www.nizkor.org/faqs/auschwitz/index.html , 9. mars 2004
http://www.faqs.org/faqs/holocaust/usa/leuchter / , 9. mars 2004
http://www.yad-vashem.org.il/exhibitions/album_ auschwitz/home_auschwitz_album.html , 9. mars 2004
http://www.yad-vashem.org.il/exhibitions/album_ auschwitz/air_photo/air_photographs.html , 9. mars 2004