Kleópatra... og ástarlíf hennar Ég rakst um daginn á grein hérna á Huga um ritgerð úr grískri goðafræði. þar sem ég var um daginn með fyrirlestur um Kleópötru hef ég ákveðið að herma eftir og leyfa ykkur að njóta;)


Kleópatra var fædd árið 69 f.kr og var þriðja dóttir Ptólemeusar XII konungs Egyptalands. Hún var makedónsk að ætt. Hún var þokkafull í framgöngu, full af lífsþrótti og gædd margháttuðu andlegu atgerfi, blíð í viðmóti og þó hörð sem stál undir niðri. Leikarahæfileikar voru Kleópötru í blóð bornir. Alla ævina brást henni aldrei leiklistin. Gáfur hennar voru mjög fjölhæfar. Hún gat rætt við lærðustu samtímamenn sína um myndhöggvaralist, skáldskap, guðfræði, stjórnfræði, heimspeki og trúmálastefnur. Hinn glæsilegi og mikilfengilegi persónuleiki hennar var ofinn og undinn saman úr mörgum ólíkum og sundurleitnum þráðum. Hún var glæsileg töfrandi, slæg, grimmúðlug, ástríðuheit, léttúðug, stjórnkæn, göfuglynd, ef svo bar undir, en framar öllu valdagjörn. Hún var þyrst í frægð og sólgin í karlmenn. Hún var snillingur í því að njóta unaðssemda lífsins.
Hún kunni gríska sögu, bókmenntir og heimspeki og talaði reiprennandi grísku, egypsku, sýrlensku og ýmis önnur tungumál.

Faðir hennar Ptólimeus XII hafði viðurnefnið Aulete eða flautuleikari því að helsta afþreying hans, fyrir utan að halda háu vínandamagni í blóðinu var að leika á flautu. Afi hennar var kallaður Lathyros eða hneta því að brennivínsnef hans minnti á hnetu. Og langafi hennar kallaður Fyskon eða ístrubelgur.

Ptólemeus faðir Kleópötru átti fjögur börn þegar hann dó sumarið 51 f.kr. en ekkert af þeim með drottningu sinni Kleópötru V. Hann hafði að vísu átt með henni tvær dætur, sem voru báðar látnar. Hin fjögur börnin hafði hann átt með óþekktri hjákonu en þau voru dæturnar Kleópatra sem var 17 ára og Arsínóa 12 ára og tveir synir sem áttu eftir að verða Ptólemeus XIII og XIV . Öll saga Ptólemeanna hafði verið deilur milli ættingja um að komast í hásætið, og til að koma í veg fyrir frekari blóðsúthellingar átti Kleópatra að giftast eldri bróður sínum og þau síðan ríkja saman. Þau giftust aldrei, en höfðu heldur mestan áhuga á að drepa hvort annað. Bróðir hennar hafði samt betur og eftir ítrekaðar morðtilraunir flúði Kleópatra til Sýrlands og leitaði hælis þar. Hún gafst ekki upp og hóf sjálf undirbúning við vinna hásætið. Hún sló upp herbúðum í Sínaí-eyðimörkinni að landamærum Egyptalands og beið tækifæris til að brjótast í gegn og vinna Alexandríu.

Víkur sögunni aðeins til Rómaveldis…

Eftir ósigur sinn fyrir Cæsari flýði Pompejus til Egyptalands og væntist góðs af Egyptum þar sem hann hafði komið Ptólemeusi til valda. Nokkrum dögum seinna kom Cæsar með miklum flota til Alexandríu og var þá búið að drepa Pompejus. Þegar Cæsar frétti af morðinu settist hann að í höllinni og setti fyrirmæli um að systkinin hættu að rífast. Ptólemeus féllst á að gera vopnahlé en fylkti gegn boðum Cæsar nokkrum dögum seinna er hann umkringði hann með her sínum í höllinni. Þá kallaði Cæsar Kleópötru á fund sinn, en það var hægara sagt en gert þar sem Kleópatra yrði drepinn ef bróðir hennar sæi hana. Hún komst svo inní höllina með djörfum hætti.
Hún silgdi að kvöldlagi inn í höfn Alexandríu, þaðan hélt hún með litlum báti í rökkrinu að hallarbakkanum og vafði sig inní klæðastranga og lét trúnaðarþjón sinn Apollódóros bera stangann á öxlinni inn í höllina. Cæsar var að vanda mjög undrandi þegar hann sá drottninguna stíga úr stanganum en mest var þó undrun Ptólemeusar konungs er hann kom næsta dag að Cæsari og við hlið hans stóð Kleópatra. Hún réðst að bróður sínum með óbótaskömm en Cæsar batt svo enda á rifrildið með því að lesa upphátt úr erfðarskrá föður þeirra en þar kom fram að þau ættu að ríkja sameiginlega yfir landinu.
Einangrun Cæsars í höllinni stóð yfir í fjóra mánuði, eina bótin var að hann hafði Kleópötru til að gamna sér við en hann hafði strax orðið hrifinn af uppátæki hennar með að komast í höllina. Árið 47 f.kr. eða þegar kleópatra var tuttugu og tveggja ára gömul eignaðist hún son með Cæsari sem hlaut nafnið Ptólemeus Cæsar en gekk almennt undir nafninu Cæsaríon.
Þann 15. mars 44 f.kr. átti að krýna Cæsar opinberlega sem konung var hann stunginn tuttugu og þrisvar sinnum og drepinn af samsærismönnum.

Eftir dauða Cæsars leið ekki á löngu þar til að Kleópatra hafði varpað örlagateningum sínum öðru sinni og að þessu sinni var það annar rómverskur hermaður að nafni Marcus Antoníus, ungur, hraustur og fríður maður sýnum. Antoníusi var falin stjórnin á löndunum austanvert miðjarðarhaf og hann var í ferðalagi þangað, er fundum þeirra kleópötru bar saman. Samband Antoníusar og Kleópötru var afar náið og ástríkt. Trúarstofnanir Egypta lögðu blessun yfir það, gáfu þau saman í sérstakt hjónaband, sem haggaði ekki við rómverskum hjúskap Antoníusar, en hann var giftur Octavíu. kleópatra eignaðist síðar tvíburasyni með Antoníusi og í september 39 f.kr. eignuðust þau dóttur sem hét Antónía og tengdi barnið hjónin saman.

Meðan Antoníus lifði hamingjusömu hjónabandi með Octavíu, hafði hann engin samskipti við Kleópötru. Henni var vikið til hliðar og fara engar sagnir af hvað hún hafði fyrir stafni.
Ævi Antoníusar lauk með því að hann stakk sig á hol með sverði sínu þegar hann hélt að Kleópatra hefði svikið sig, hann dó samt ekki alveg strax og var borinn inn í grafhýsi til Kleópötru þar sem hann dó. Síðustu orð hans voru, að hann myndi í öðru lífi gleyma þjáningum og ósigrum en,aðeins muna þær unaðsstundir sem hann átti með henni. Ævi Kleópötru endaði svo með því að hún lét eitursnák bíta sig til bana. Líkami hennar fannst ósnertur með eðlilegum litarhætti og sá enga áverka, nema tvö örlítil för eftir eiturtennurnar

DeSwamp
DeSwamp