Ég ákvað að deila með ykkur ritgerð sem ég gerði í trúarbragðasögu….enjoy


Upphafið

Fyrst var Kaos, nokkuð sem er ekki hægt að útskýra alminnilega, nema kannski með tilvísun í ásatrú, og líkist þá hlest Ginnungagapi. Nokkuð sem er algerlega tómt. Úr Kaosi spratt Jörðin eða eins og Grikkir kölluðu hana, Gea. Sonur hennar, Úranos (himinn) skapaði jörðina og mótaði hana eins og hún er ennþá í dag. Hann skapaði einnig blóm, tré og dýr. Gea ól einnig þríhöfðaða jötna og eineygða Kýklópa sem eignuðust seinna syni og urðu þeir að vinna í smiðju Hefestosar smíðaguðs. Úranos fleygði Kýklópunum til Undirheima. Gea ól einnig Úranosi önnur tólf börn sem urðu Títanar. Gea taldi Títana á að leita hefnda vegna fyrstu barna sinna og var Krónos (tíminn) yngstur þeirra í forsprakki. Hann réðst á Úranos í svefni með sigð, og féllu þá þrír blóðdropar til jarðar (Geu) og urðu þeir að Fúríum eða Refsinorninar sem lifa í Undirheimum. Uppfrá því stjórnaði Krónos Títönum ásamt konu sinni Reu. En rétt áður en hann dó spáði Úranos því að Krónos myndi hafa sömu örlög og hann, þannig að einn sona hans myndi hrifsa völdin frá Krónosi. Til að koma í veg fyrir það ákvað Krónos að éta öll börn sem Rea fæddi í fimm ár. Það þarf varla að geta þess að Rea var ekki allskostar ánægð með þessar aðgerðir Krónosar. Því afréð hún þegar hún vissi að von væri á sjötta barni sínu fór hún á laun í felur til Lýkeonsfjalls í Arkadíu á Pelopskaga og þar fæddist sveininn Seifur. Rea faldi hann í helli í umsjá dísanna Adrastíu, Íó og Amalþíu. Þegar Krónos uppgötvaði aðgerðir Reu varð hann æfareiður og fyrirskipaði leit að sveinbarninu. Þegar leitarmenn voru að nálgast hellinn gerðu dísirnar ærandi hávaða til þess að yfirgnæfa barnsgrátinn. Einnig brugðu þær á það ráð að hengja vöggu Seifs upp í trjágrein til þess að hann var hvorki á jörðu né himni ná á sjó. Rea brá á það ráð að vefja steinhnullung í klæði og gaf Krónosi hann og sagði að þetta væri týnda sveinbarnið. Gleypti Krónos það og varð þannig fullviss um að vera óhultur. Þegar Seifur óx úr grasi varð hann áfjáður í að bjarga systkinum sínum. Svo þegar Rea mælti með honum sem skutilsveini við Krónos og Krónos aldrei lagt augu á drenginn varð það auðvelt mál. Seifur blandaði drykk handa föður sínum og gaf honum. Krónosi varð strax flökurt og kastaði upp Hadesi, Pósídoni, Demetru, Heru og Hestíu og svo einnig steininum sem hann gleypti, steininn féll til jarðar í helgidóminn í Delfí þar sem hann var tilbeðinn og er þar enn. Þegar Pósídon og Hades voru frjálsir vildu þeir leita hefnda. Þeir töldu Seif á að veita þeim forystu gegn Títönum sem enn voru hliðhollir Krónosi, herforingi Títana var öflugur guð að nafni Atlas. Stríðið milli hina eldri goða og hinna yngri var langvinnt og erfitt. Seif var þá ráðlagt að leita liðsinnis Kýklópa sem höfðu þá verið í haldi í Undirheimum. Seifur fór til Undirheima og frelsaði þá, í þakklætisskyni færðu þeir sonum Krónosar þrjár gjafir. Seifur fékk þrumufleyginn sem varð hans helsta vopn, Hades fékk huliðshjálm sem gerði hann ósýnilegan og Pósídon fékk þríforkinn. Með þessum vopnum hittu þeir Krónos í einrúmi, Hades með huliðshjálminn gat óséður rænt vopnum hans, Krónos uppgötvar það og Pósídon ógnar Krónosi með þríforknum en Seifur kemst aftan að honum og fellur hann með þrumufleyg. Lést Krónos þar samstundis. Þegar Títanar sáu foringja sinn falla, misstu þeir móðinn og létu Kýklópar banvænt regn af klettum dynja á Títönum sem voru þá auðveld bráð. Allir Títanar voru sendir til Tartarosar nema Atlas sem var gert að halda uppi himinhvelfingunni um aldur og ævi. Einnig er minnst á að Krónosi var leyft að dveljast á ódáinsvöllum Elýsíons.

Sköpun mannana og Askja Pandóru
Seifur sneri sér að öðrum verkum nú, eins og til dæmis að skapa mannkyn. Fyrst skapaði hann menn gullaldar sem lifðu í paradís. Þeir hlógu og sungu allan daginn og allt stóð þeim til boða, ávextir trjánna, hunang og hnetur, mjólk úr geitum og kindum. Þeir þurftu ekki að vinna, þeir eltust og dóu seinna, en síðan reikuðu andar þeirra um jörðina og vöktu yfir velferð seinni kynslóða. Næst voru skapaðir menn silfuraldar. Ólíkt þeim sem á undan komu voru þeir frekar gáfnasljóir og líktust frekar dýrum en mönnum. Einnig neituðu þeir að færa fórnir handa sköpurum sínum eins og þeim hafði verið innrætt. Í stað þess deildu þeir mikið innbyrðis. Þegar Seifur sá að þeir myndu aldrei skána eyddi hann þeim með engri eftrisjá. Næstir voru menn bronsaldar, þeir voru gæddir meiri skynsemi en voru litlu skárri. Þeir beittu ekki gáfum sínum til þess að búa til fallega og gagnlega hluti, heldur beittu þeir öllu sínu í að framleiða drápstæki. Með þeim börðust þeir þar til þeir voru allir dauðir og komnir til Undirheima. Seifur ákvað að reyna einu sinni enn. Í þetta sinn urðu til menn hetjualdar. Seifur fékk þá aðstoð frá góðum og vitrum Títan Prómeþeifi til að hjálpa sér við mótun þeirra. Prómeþeifur (fyrirhyggjumaður) var einn þeirra Títana sem höfðu stutt Seif í baráttu sinni við Krónos. Prómeþeifur skapaði fyrstu mannverurnar úr leir og lét þær ganga uppréttar og horfa í átt til guðanna, Seifur blés í þær lífsanda. Þessar fyrstu manneskjur voru frumstæðar og lífðu á því sem þau veiddu með bogum og örvum. Einnig kunnu þau engin skil á eldinum, og átu því allt hrátt. Þau kunnu enga smíðalist og gátu þess vegna ekki smíðað nein ker til að geyma matvæli í. Seifur var ánægður með þess útkomu, vegna þess að ef mannkynið yrði gáfað gæti einhver þaðan farið að keppa við hann um völdin. Prómeþeifur sem var aðeins framsýnni en Seifur hafði fengið nokkuð dálæti á mönnunum. Hann taldi að hann væri að stofna mannkyn en ekki bara aðra dýartegund. Prómeþeifur vissi hinsvegar að hann gæti ekki talið Seif á að kenna mönnunum neitt. Hann brá á það ráð að fara til Ólympufjalls þar sem eldar loguðu glatt, dag sem nótt. Kveikti hann þar á blysi, með því hitaði hann viðarkolamola þar til hann glóði og faldi hann svo í holum stöngli og faldi svo innan á sér. Fór hann svo með leynd aftur ofan af fjallinu og fór til mannana og kenndi þeim. Af þessum fyrsta jarðneska eldi urðu til margir fleiri. Prómeþeifur kenndi þeim að nýta eldinn á hagkvæman hátt og einnig margt fleira, t.d. að skilja eftir gómsætustu bitana eftir handa guðunum þegar fórnir voru gerðar. Með aðstoð Prómeþeifs þróaðist mannkynið hratt. Menn lærðu að gera krukkur og vasa, fagra skartgripi, lærðu að smíða hús með leirsteinum í stað stráþaka. Einnig lærði það málmsmíði þannig að það gat varist árásum og farið á veiðar með sverð og spjót.

Þegar Seifur uppgötvaði aðgerðir Prómeþeifs kallaði hann Prómeþeif til sín og ákvað að refsa honum. Seifur lét fara með hann til fjalla langt í austri þar sem hann var hlekkjaður við klett. Örn sveif þar yfir í sífellu og kroppaði skinn Prómeþeifs, en skinnið óx alltaf tilbaka og héldu þannig pyntingarnar alltaf áfram. Mörg ár liðu þartil hann var leystur frá klettinum, sumir segja þrjátíu þúsund ár og aðrir segja að það hafi verið Herkúles sem frelsaði hann. Seifi var hinsvegar ekki nóg að refsa Prómeþeifi, heldur varð mannkynið að fá sinn skerf einnig. Seifur bað hina guðina um aðstoð, Heferstos að móta stúlku úr leiri, Aþenu að blása henni lífsanda og kenna henni kvenlegar listir, Hermes kenndi henni flærð, blekkingar og uppgerðaþokka og Afródíta kenndi henni að vekja girnd karlpeningsins. Seifur lét hana fá öskju, sem var með þeim fyrirmælum frá Seifi að aldrei mætti opna hana. Nafn konunnar var Pandóra ( sú sem allt er gefið). Seifur skipaði svo fyrir að hún myndi giftast Epímeþeifi (eftirhyggjumaður) ungur og laglegur og jafnframt bróðir Prómeþeifs. Hann var frekar ábyrgðarlaus sem var alger andstæða við bróður sinn. Þrátt fyrir að Prómeþeifur hafi varað bróður sinn við að þiggja gjafir frá Seifi var hégóminn viðvörunum yfirsterkari og einnig kannski hræðsla við að neita Seifi. Epímeþeifur tók öskjuna af Pandóru og einnig lykilinn að henni. Eftir þó nokkurn tíma varð forvitnin svo yfirgnæfandi hjá Pandóru að hún laumaðist að manni sínum sem svaf og stal lyklinum að öskjunni. Hún tók öskjuna og setti hana upp á borð og opnaði öskjuna. Um leið heyrðist mikill hvinur frá öskjunni og Pandóra veltist við, út flaug allt böl mannkyns, erfiði, örbrigð, elli, sóttir, afbrýði, lestir, ástríður og tortryggni. Full af ótta nálgaðist Pandóra öskjuna og leit ofan í hana. Þar neðst niðri var einn lítill hlutur, en þar sem Pandóra hafði tekist að loka öskjunni áður en hann slapp út tókst henni að halda í það sem mikilvægast er; vonin sem var enn eftir í öskju Pandóru.

Hverjir voru hinir guðirnir?
Ólympos, þar sem guðirnir áttu heima var talið hæsta fjall veraldar. Af þeim sem þar bjuggu voru mestir guða þeir Seifur, Hermes, Pósídon, Hefestos, Ares og Appolon, en gyðjurnar voru Aþena, Hera, Artemis, Afródíta, Hestía og Demetrea. Þessi goð voru æðst, undir forsæti Seifs. Næst þeim voru goð á borð við Helíos, Letó, Díónýsos og Þemis. Hjarðmannaguðinn Pan var oftast tengdur sveitalíferni og fer því sjaldan á Ólympustind.
Líf á Ólympustindi var mjög gott og eintómt sældarlíferni. Goðin vörðu miklum tíma í veisluhald og gæddu sér þá á kjöti sem mennirnir fórnuðu handa þeim. Einnig voru minniháttar guðir í þjónustustarfi sem hirðfólk s.s. Heba og Ganýmedes. Meðan goðin átu og drukku spilaði Appolon á hörpu fyrir þau og Menntagðjurnar níu sungu betur en nokkur dauðlegur maður gæti ímyndað sér.

En samt freistaði þeirra mikið að fara til jarðar og leika sér aðeins að mannkyninu, og hefðu ekki goðin verið ódauðlega hefði örugglega fækkað um einhver sæti á Ólympustindi. En þó goðin væru ódauðleg var í raun hægt að særa þau, en sár þeirra greri mjög hratt því í æðum þeirra rann ekki blóð heldur íkhor, sem bjó yfir furðulegum eiginleikum. Goðin gátu einnig skipt um ham til þess að vekja ekki eftirtekt á ferðum sínum.

Fyrsta kona Seifs var Metis af ætt Títana. Næst var Þemis dóttir Úranosar, og ól hún börnin Frið, Réttvísi og svo loks Örlagagyðjurnar, þær réðu hverjum manni hvernig hann lifði. Sú þriðja var Mnemósýna (minning), hún ól Seifi níu dætur, Menntagyðjurnar. Sú fjórða var Evrýmóna sem ól Seifi Þokkagyðjurnar þrjár. Þemis var þó um kyrrt á Ólympustindi jafnvel eftir að Hera tók við þar sem bústýra og varð síðasta eiginkona Seifs. Hera ól Seifi orustuguðinn Ares, smíðaguðinn Hefestos og Hebu.

Hera og Seifur voru nokkuð undarleg hjón, voru sífellt að deila og brugga einhver ráð til að klekkja á hinum. En samt var það oftast Seifur sem átti upptökin, með sínum ástarævintýrum. Hera komst nánast alltaf að því hvað eiginmaður sinn var að gera, þó hún kvartaði yfir hátterni hans fór hún ekki yfir ákveðin mörk. Seifur var þeim leiðinlega kost búinn að geta orðið ástfanginn mjög skyndilega af fegurra kyninu og stundum fögrum piltum eins og Ganýmedes.

Hades
Nafnið Hades kann að valda sumu ruglingi, því að nafnið er bæði yfir Undirheima og svo einnig þann sem þar ríkir, Hades bróðir Seifs.
Hades er einn höfuðguðinn sem fer sjaldan eða aldrei á Ólympustind, honum leið vel í sínum Undirheimum og drottnaði þar.

Þó Hades væri ríki dauðra minnir það ekkert á helvíti í seinni tíma sögum. Hades var staður þar sem góðir jafnt sem slæmir færu undir handleiðslu sendiguðsins Hermesar. Þegar á leiðarenda kom voru örlög þeirra ákveðin, sumir sem höfðu styggt goðin voru látnir þjást, en aðrir sem höfðu átt góða ævi í samræmi við goðin gátu átt von á góðu “líferni” handan grafarinnar. Hades var dómarinn þar og var hann strangur en alltaf réttlátur. Hades fór ekki oft út fyrir Undirheima, nema kannski þegar einhver dís vakti hjá honum ástarþrá. Hades hrifsaði til sín Persefónu, dóttur Demetreu, og gerðði hana að eiginkonu sinni. En að jafnaði hélt Hades kyrru fyrir.
Ríki Hadesar er hins vegar stór þáttur í grískum goðsögum þar sem mörgum köppum er gert að fara þangað að áeggjan goðanna sem þraut.

Þegar látinn maður var greftraður var oft lagður lítill peningur undir tungu hans, kallaður óbolos, til þess að borga ferjugjaldið yfir Stýx. Hermes leiddi hann burt frá gröfinni og syrgjandi ættmönnum sífellt niður til Undirheima. Venjulega var farið yfir Stýx til Undirheima en hefði óbolosið týnst einhvers staðar eða ekki verið til staðar gat viðkomandi ekki borgað Karoni (ferjumanninum) fyrir farið yfir ána og var því dæmdur til bíða endalaust eftir fari yfir á hinn bakkann. Hades hafði lagt það fyrir að enginn lifandi maður myndi fara yfir Stýx, alveg sama með hvaða rökum og yrðu þá þungar refsingar við því broti. Einstaka ofurhuga tókst þó að komast yfir fljótið og einnig til baka. Á hinum bakkanum var Kerberos, afskræmdur þríhöfða varðhundur. Hann vildi þeim sem inn komu ekkert illt, hann var þarna til að koma í veg fyrir þá sem vildu komast aftur til mannheima. Einnig varnaði hann óboðnum gestum inngöngu. Þegar inn var komið komu menn inní Gullrótarengi, þar voru menn sem voru með engin rök fyrir dómarann þegar þeir voru dæmdir og voru dæmdir í endalaus leiðindi þarna. Handanvið Gullrótarengið lágu græn engi Erebosar og pollur Leþu, sem hafði þann eiginleika að þeir sem drukkur gleymdu öllu frá ævi sinni. Þar fyrir handan var glæst höll Hadesar og þangað mátti enginn koma inn, nema guðir og einnig þeir sem voru kallaðir fyrir guð Undirheima og Persefónu, drottningu hans. Fyrir framan höllina voru dauðir dæmdir, dómarar voru Mínos, Hradamanþýs og Eakos, þeir vorur valdir fyrir gott líferni þeirra og vísdóm á jarðvistardögum þeirra. Þeir sem gátu ekki sannfært dómarana um sérmeðferð fóru til Gullrótarengis og var það langstærsti hópurinn. Þeir sem höfðu lifað sem hetjur og lifað samkvæmt guðunum fóru til ódáinsvalla Elýsíons. Þar skein sól í heiði og nægur drykkur og matur þar handa öllum. Títaninn Krónos var þar, en ýmsir voldugir og eldri guðir áttu sjálfkrafa rétt á veru þar. Þriðji staðurinn var sá sem enginn vildi fara. Tartaros er staður eilífra pyntinga og fordæmingar. Þangað fara þeir sem höfðu storkað guðunum. Angistaróp heyrðust þaðan oft um alla Undirheima. Enginn komst þaðan undan.

Pósídon og ríki hans


Þegar Seifur, Hades og Pósídon steyptu föður sínum af stóli, skiptu þeir jörðinni milli sín. Í hlut Pósídons kom hafið. Hann var samt ekki eini sjávarguðinn, því aðrir höfðu verið sjávarguðir fyrir hans tíð. En þeir létu sér yfirstjórn Pósídons lynda. Ókeanos, sonur Úranosar var skapari allra vatna, hann tók á sig mynd hins mikla Jarðarstraums sem umlukt alla jörðina. Börn hans voru úthöfin, innhöfin, stöðuvötn, ár og lækir. Sólguðinn Helíos sigldi daglega eftir Ókeanosi til að komast austur aftur, þegar hann hafði ekið vagni sínum yfir himinhvolfið.

Höll Pósídons var skreytt með hvítum smáturnum, stórum bogadregnum dyrum sem voru alsett kóröllum og skeljum og svo voru málverk í hásætissalnum af ýmiss konar sæskrímslum. Pósídon kvæntist Amfitrítu og átti með henni þrjá syni.
Pósídon varð ekki ánægður með sitt sjávarríki og vildi einnig drottna á landi. Hann gerði tilkall til Attíkuskagans sem heyrði undir Aþenu. Aþena reyndi að verja sitt landsvæði og bjóst til bardaga gegn ofureflinu Pósídoni. Seifur kom þó í veg fyrir bardaga og hélt þing á Ólympustindi. Allir guðirnir voru með Pósídoni en allar gyðjurnar vorum Aþenu, en þar sem Seifur átti að kveða upp úrskurðinn var hann ekki með atkvæðarétt og þannig tapaði Pósídon máli sínu. En Pósídon vildi enn ríkja á landi en þar sem goðin komu alltaf í veg fyrir þau áform ásamt fljótagoðunum Ínakkos, Asteríon og Kefissos, þurrkaði Pósídon fljótin upp. Það var ekki fyrr en með vetrarregninu að vatn fór að flæða þar aftur. Og æ síðan rýrna þær og þverra á sumrin.

Hefestos og Afródíta
Hefestos
Við hirð Seifs var mikil eftirvænting því að Hera var við það að eignast barn. Seifur hafði séð það fyrir að það yrði sveinn og gaf honum nafnið Hefestos. Fæðingin var löng og erfið og þegar barnið fæddist var það vanskapað og ófrítt. Við það að sjá vansapað barnið missti hún stjórn á sér og fleygði því út og ofan af Ólympustindi. Því var gæfunni að þakka að hann lifði af fallið með því að lenda í vík einni þar sem Nereifsdætur voru, Þetis og Evrýnóma og gripu hann þegar hann sökk í sæinn. Árin liðu og gyðjurnar tvær ólu hann upp sem eigið afkvæmi. Hann varð brátt mjög handleikinn og gat smíðað ótrúlegustu hluti þrátt fyrir vanskapaðar en þróttmiklar hendur.

Einn dag var Þetis boðið til veislu á Ólympustindi og bar hún þá men sem Hefestos hafði smíðað og var það mikill fagurgripur. Vissi hún þá að menið myndi vekja öfund hjá gyðjunum. Hera kom til hennar og spurði um gripinn og spurði hver hafi smíðað svo fagran grip. Þetis kemst ekki hjá því að ljúga og segir Heru sannleikann. Hera biður um að Hefestos verði strax sendur til hennar. En þar sem Hefestos hafði ekki gleymt grimmd móður sinnar neitaði hann strax. Hefestos smíðaði handa Heru í sáttargjöf gullstól. En þegar Hera tók við honum á Ólympustindi og settist í hann gat hún ekki staðið upp úr honum aftur. Hvernig sem hún reyndi gat hún ekki bifað sér. Jafnvel Seifur gat ekki losað hana úr þessum stól. Þar sem Hefestos neitaði í sífellu að koma til hjálpar var brugðið á það ráð að senda Díónýsos (guð vímu og annarra annarlegra ástanda) bróður hans og gerði hann svo kófdrukkinn að Hefestos kom Heru til hjálpar. Þegar sættir tókust milli Hefestosar og Heru, lét Hera útbúa glæsta smiðju handa bækluðum syni sínum. Og sem fullkomna sáttargjöf var honum lofað hönd Afródítu. Þegar Seifur og Hera lentu í sínum venjulegum hjónarifrildum ákvað Hefestos að styðja Heru í deilum sínum, það endaði þannig að Seifur kastaði Hefestosi aftur ofan af tindinum og nú var engin tjörn sem hann gat lent í. Hann barðist utan í fjallshlíðina og braut báðar lappirnar. Hann komst þó aftur upp og öðlaðist fyrirgefningu Seifs og smíðaði gullspelkur til þess að geta horfst í augu við brúður sína, ástargyðjuna Afródítu.

Afródíta

Uppruni Afródítu má rekja til Títana þegar Krónos banaði föður sínum Úranosi með sigð.Sundurlimuðum líkama Úranosar var varpað í hafið og umhverfis hann ólguðu öldurnar og urðu að tærri hvítri löðursúlu. Úr henni reis Afródíta eins og yndisleg sjávardís og ljómaði skærar en sólin í fegurð sinni. Pósídon kom henni fyrir á eyjunni Kýþeru. Pósídon vonaðist til að halda henni útaf fyrir sig, en fæðing hennar var of skrítin til þess að vekja ekki athygli meðal goðanna. Afródíta barst Seifi til eyrna og hann lét flytja hana til Ólympusfjalls. Afródíta stóð í ráðsalnum og var allt annað en feimin við augnatillit guðanna sem horfðu á fullir aðdáunar. Þó fegurðin var yfirgnæfandi var eitt enn sem hún gat notað, töfrabelti sem hún gat notað til þess að gera hvern sem er ástfanginn af henni. Allir guðirnir stigu fram og lofuðu henni gull og græna skóga ef hún yrði þeirra. En Afródíta beið því hún vissi að hún gæti fengið þá alla eða þá að eitthvað betra myndi koma. Reyndar fékk hún ekki að velja því að Hera valdi fyrir hana. Hera skipaði svo fyrir að Hefestos myndi fá hana fyrir eiginkonu. Þó að Afródíta væri nú orðin gift, var það á móti hennar eðli sem gyðja ástarinnar að halda sig við einn karlmann eða guð. Ares varð ástmaður hennar og var það alvitað meðal guðanna.

Ares og Eris
Þó að Ares hafi verið orustuguð var hann ekki happasæll í stríðum. Það var líkega vegna þess að hann óð út í alla bardaga án þess að gera sér rellu út af málstaðnum. Hann hafði dálæti á bardögum bardaganna vegna og einskis annars. Hann var ákafur og mikill skaphundur í bardögum sínum. Systir hans, Eris þrætugyðja var ekki síður skapbráp og hann og ráðabrugg hennar leiddi oft til styrjalda milli ríkja eða borga. Í bardögum komu til liðs við þau sysktini tveir synir Aresar, Ótti og Flótti, ásamt villtum mannskæðum hestum sem hann hafði fengið til að draga stríðsvagna þeirra.
Tvisvar barðist Ares gegn herjum undir stjórn Aþenu og í bæði skiptin tapaði hann. Einnig lenti þeim saman í Trójustríði.
Eitt sinn var gerð innrás á Ólympustind og var Ares þar fremstur í flokki til að verjast innrásinni. Þótt herir Seifs hafi haft fullnaðarsigur var Ares tekinn höndum og falinn í leirkrukku í þrettán mánuði. Gerð var mikil leit að honum en hann fannst hvergi. Ekki fyrren Hermes var á ferðum sínum þreyttur eitt kvöldið og ákvað að fá sér blund í hlöðu þar sem Ares var geymdur. Hermes heyrði dauft klapp og gekk á hljóðið. Þar fann hann Ares í krukkunni og leysti hann úr prísund sinni. Merkilegur stríðsguð.

Aþena
Metis giftist Seifi nauðug, og varð mjög fljótt barnshafandi. Seifur varð forvitinn um það hvort það yrði sveinur eða stúlka. Hann fór því til véfréttarinnar í Delfí og leitaði ráða. Hann fékk þau svör að frumburður Metisar yrði stúlka gædd mörgum gáfum og vitur og góð. En myndi hún eignast annað barn með Seifi myndi hann þá steypa honum af stóli svipað og Seifur gerði við Krónos. Seifur ákvað því að eiga ekkert á hættu, ekki einu sinni við frumburðinn. Hann greip því Metis og gleypti hana, svipað og Krónos gerði við systkini Seifs. Metis var horfin en í stað var kominn óþolandi hausverkur. Ekkert meðal virkaði sem skyldi og hann kvaddi því Hefestos á sinn fund. Smíðaguðinn greip þá stóran hamar og og lamdi fleyg inní hauskúpu Seifs til að reka hinn illa anda út. Enginn illur andi kom út heldur var það fögur kona í herklæðum og vissi Seifur þá að þetta var dóttir Metisar. Hann gat ekki fengið af sér að drepa hana og nefndi hana Aþenu. Hún var þekkt fyrir röklist og einnig vefnað. Hún var oft beðin um að sitja í dómarasæti því dómar hennar væru miskunnsamir og sanngjarnir.

Herkúles
Seifur var faðir Herkúlesar, en móðirin Alkmena, var dauðleg kona. Heru var meinilla við enn eitt lausaleiksbarnið eftir manninn sinn og ákvað því að drepa það. Hún sendi þá tvær eiturnöðrur til að sjá um verkið. Herkúles var þá orðinn það sterkur að þær voru lítil ógn, og Hera sætti sig þá við orðinn hlut. Eftir mikla þjálfun og einnig uppvöxtinn var Herkúles a ferð um Kíþeronsfjall og hitti hann þar tvær konur, önnur hét Munúð og hin Dyggð. Munúð bauð honum hóglífi og allsnægtir en Dyggð bauð honum baráttu og allmiklum hörmum samfara mikilli frægð áður en yfir lyki. Herkúles tók boði Dyggðar og hóf að leita að verðugum málstað til að berjast fyrir. Fyrsta velgerð Herkúlesar var að losa Þebu við þungan skatt sem henni hafði verið gert að greiða nágrannaríki. Í þakklætisskyni gaf Kreon Þebukonungur Herkúlesi hönd dóttur sinnar, Megöru, og eignuðust þau mörg börn. En nú var komið að hörmungum sem Herkúlesi var lofað. Hera sá sér leik á borði og svipti hann vitinu svo hann hélt að Megara og börnin sín væru fjendur sem vert væri að deyða. Herkúles drap konu sína og börn í æðiskasti. Herkúles fór til véfréttarinnar í Delfí til þess að vita hvernig væri hægt að bæta fyrir þessi voðaverk. Hann fékk þau fyrirmæli að fara til Tirynsborgar í Argverjalandi og þjóna þar konunginum Evrýsþeifi samfleytt í tólf ár. Þar urðu til Þrautirnar Tólf.


Trójustríðið

Sagan um Trójustríðið er sögnin um lokaskeið hinna miklu grísku garpa. Margir þeirra lifðu ekki af hin tíu umsátursár. Tildrög Trójustríðs voru þau að París, ungur sonur Príamosar Trójukonungs nam á brott Helenu fögru dóttur Seifs. París þverneitaði að skila henni og var hún um kyrrt í Tróju. Margir grískir konungar og kappar gerðu með sér bandalag og sigldu með heri sína til Tróju og flytja Helenu aftur heim. Jafnvel goðin tóku afstöðu og sum voru með Grikkjum og önnur voru með Trójumönnum.
Yfirforingi grísku herjanna var Agamemnon, konungur Mýkenu og bróðir Menelaosar Spartverjakonungs sem var kvæntur Helenu. Mestu kappi í liði Grikkja var Akkiles, sonur Peleifs og Þetisar. Þetis áformaði að gera son sinn ódauðlegan og dýfði honum því í ána Stýx fyrir utan hæl hans sem hún hélt um. Þannig varð allur líkami hans ósæranlegur nema hællinn sem móðir hans hélt utan um.Einnig varð hún að svíða burt dauðleik hans í eldi. Peleifi var ekkert kunnugt um þessar áætlanir konu sinnar. Peleifur sakaði konu sína um að reyna að drepa barnið, Þetis brá þá á það ráð að fara með Akkiles til Kíron Kentára sem hafði þá alið upp marga kappa.

Þó var Akkiles einn margra kappa sem dóu í þessu stríði. Þegar Grikkir voru ráðþrota um hvernig það átti að sigra Tróju útbjuggu þeir leynivopnið sem var þá Trójuhesturinn sem er orðinn að eins konar samnefnara fyrir leynivopn í mannkynssögunni. Mikill tréhestur var skilinn eftir fyrir utan hlið Tróju og umsátrinu var aflétt. Trójumenn draga hestinn inn og hefja veislur. Um tuttugu Grikkir bíða nætur innaní hestinum og fara svo út og ná valdi á hliðunum inní borgina. Skip Grikkjanna höfðu þá snúið við og var það auðveld yfirtaka þegar Grikkir höfðu hliðin á sínu valdi. Þegar stríðinu var lokið sneru flestir heim, en samt var það einn maður sem var ekki svo heppinn að geta fundið sína réttu leið heim. Það var Ódysseifur og lenti hann í miklum ógöngum í ferðum sínum heim.


Ég þakka þeim sem lásu alla greinina….
Ég afsaka það að ég er því miður ekki með heimildaskrána með, einfaldlega því hún er ekki lengur á tölvunni minni…
Sokrates