Ég skrifaði fyrir ári síðan fyrirlestur sem ég átti að flytja í sögutíma í 6.bekk í MR en þar sem fyrirlesturinn var það nálagt stúdentsprófum þá var honum sleppt og ég fékk því aldrei að vita hvort eitthvað var varið í hann. Ég hef því ákveðið að leggja hann fyrir dóm almennings hér á huga og vona að þið hafið gaman af lestrinum, en munið þetta er fyrirlestur ekki ritgerð og einkennist af því. Gaman væri svo að fá álit ykkar á þessu takk fyrir.




Jónas Hallgrímsson

Ég gæti auðvitað byrjað þennan fyrirlestur á þeirri fullyrðingu að Jónas Hallgrímsson sé mesta skáld þjóðarinnar fyrr og síðar. En slík fullyrðing segir í sjálfum sér fátt,- og þeim mun minna, eftir því sem fólk veit minna um skáldskap Jónasar í samanburði við annan íslenskan skáldskap. Það má líka efast um það með sannfærandi rökum, hvort hægt sé að halda slíku fram um nokkurt skáld. Hvort hægt sé að bera saman það besta í skáldskap höfuðskálda eða hvort hægt sé að bera saman eitt bókmenntatímabil við annað. Ég ætla því að draga í land og halda því fram að þegar menn hafa velt því fyrir sér hver sé mesta skáld þjóðarinnar, fyrr og síðar, þá kemst Jónas næst þeim sæmdartitli. Ekkert íslenskt skáld hefur oftar né lengur, né af fleirri skáldum, né af fleirri Íslendingum almennt,verið talinn mesta skáld þjóðarinnar, fyrr og síðar. Og það er nú all nokkuð.

Skáldið
Jónas byrjaði ekki að yrkja að ráði fyrr en í Kaupmannahöfn og lengi vel orti hann vegna hvatninga frá öðrum. Fyrsta ljóð hans sem vakti verulega athygli meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn voru Vísur Íslendinga, ort fyrir kveðjuhóf, haldið Halldóri Einarssyni sem fengið hafði veitingu sýslumannsembættis Borgarfjarðarsýslu. Hófið var haldið í Hjartarkershúsi við Kaupmannahöfn sumarið 1835. Sama ár kemur út fyrsta hefti Fjölnis með ritstjórnargrein Jónasar í bundnu máli, kvæðinu Ísland.
Jónas var rómantískt skáld. Ásamt Bjarna Thorarensen, er hann hvoru tveggja, brautryðjandi og helsta skáld rómantísku stefnunnar á 19. öld. Það var liður í rómantík þeirra Bjarna og Jónasar, að hefja aftur til vegs og virðingar forna bragarhætti, einkum fornyrðisslag og ljóðahátt. En þar með er ekki öll sagan sögð því Jónas var formbyltingarmaður í mun víðtækari skilningi Hann orti mörg sinna merkustu ljóða undir erlendum bragarháttum sem hér voru lítt notaðir, s.s. forngrískum háttum eins og elegískum hætti (Ísland! farsældar frón…) ítalskri sonnettu (Nú andar suðrið sæla…), og tersínu sem er ítalskur bragarháttur frá endurreisnartímanum (Gunnarshólmi).
Og enn er ekki öll sagan sögð með því að vísa einungis til bragarhátta. Jónas innleiddi nýtt og fágaðra fegurðarskyn og reif íslenskan skáldskap uppúr hefðbundnu fari klúðurslegra líkinga og staðnaðra og oft rangra kenninga. Gott dæmi um þetta er kvæðið Móðurást sem birtist í Fjölni til þess að sýna muninn á góðum skáldskap Jónasar í samanburði við leirburð Árna Helgasonar, prófasts í Görðum. (sjá blað).
Halldór Kiljan Laxness segir í frægri ritgerð um Jónas að aðalsmerki skáldskapar hans snúist ekki um mælsku hans eða vald hans á bragarháttum, heldur um það hversu íslensk ljóð hans séu, hversu samofin þau séu íslenskri náttúru og mannlífi og oft einföld í framsetningu. Það er margt til í þessari ábendingu enda eru mörg einföld kvæði Jónasar hreinasta snilld.
Auk skáldskapar Jónasar ber að geta þess að hann skrifaði söguna Grasaferð sem flokkuð hefur verið sem fyrsta íslenska smásagan, og hann skrifaði afar óvæginn og áhrifamikinn ritdóm Um rímur af Tistrani og Indíönu eftir Sigurð Breiðfjörð sem birtist í Fjölni 1837. Sá ritdómur veitti rímunum, þessu vinsæla og alþýðlega bragarformi nánast náðarhöggið, en skrif Jónasar í þessum efnum mun vera fyrsti og einn áhrifamesti ritdómur sem skrifaður hefur verið á íslensku. Máltilfinning Jónasar, stílbrögð og skopskyn koma glöggt fram í í fjölda sendibréfa hans til vina og kunningja en auk þess kemur næm máltilfinning hans fram í því hversu snjall nýyrðasmiður hann var. Í þýðingu hans á Stjörnufræði Ursins frá 1842 koma fram m.a. nýyrðin sjónauki, aðdráttarafl, ljósvaki, rafurmagn, sporbaugur og vetrarbraut svo fátt eitt sé nefnt.

Náttúrufræðingurinn
Í öðru lagi var Jónas náttúrufræðingur og fremstur meðal íslenskra samtímamanna á því sviði. Þó hann nyti einungis rannsókna sinna á náttúru Íslands, yrði að telja hann í hópi merkustu íslensku vísindamanna 19.aldar. Hann fylgdist vel með helstu kenningum á sviði náttúruvísinda, skrifaði langa og ítarlega grein Um eðli og uppruna jarðarinnar í fyrsta hefti Fjölnis, þar sem hann lýsir á alþýðlegan hátt helstu kenningum í þeim efnum, skrifaði grein um stjörnufræði í Fjölni og þýddi síðar vinsælt, alþýðlegt rit um stjörnufræði eftir danska stjörnufræðinginn G:F Ursin.
Jónas framkvæmdi margvíslegar mælingar og rannsóknir á ferðum sínum um Ísland, hafði frumkvæði að því að fá íslenska presta til að semja jarðarlýsingar í sóknum sínum og var fyrstur til að leggja drög að veðurathugunarkerfi um vítt og breytt Ísland.
Þó Jónas væri áhugasamur um dýra- og jurtafræði eins og víða kemur fram í ljóðum hans, var hann fyrst og fremst steina- og jarðfræðingur. Í þeim efnum gerði hann stórmerka vísindalega uppgötvun. Helstu kenningar um jarðmyndun Íslands höfðu verið settar fram af þýska jarðfræðingnum Otto Krug von Nidda. Samkvæmt honum myndaðist landið þannig að blágrýtislögin sem lágu á botni Atlantshafsins, sprungu í sundur vegna þrýstings frá gosgrjóti að neðan en upp um sprunguna vall trakýtleðja sem hóf upp blágrýtið svo landið reis úr sæ en blágrýtið varð ráðandi á Vestur- og Austurlandi. Þá lýsti Nidda fornum sandsteini sem mætti sjá undir blágrýtinu á Austurlandi og væri því örugglega einnig undir blárgrýtinu á Vestfjörðum.
Á ferðalagi Jónasar og vinar hans, Japetus Steenstrup náttúrufræðiprófessors, um Ísland 1840 vöknuðu efasemdir þeirra um landmyndunarkenningu Nidda. Það kom svo í hlut Jónasar að hrekja kenningu Nidda í meginatriðum, með jarðfræðirannsóknum og sýnistökum á Austurlandi í sinni hinstu ferð um Ísland 1842.

Stjórnmálamaðurinn
Í þriðja lagi var Jónas stjórnmálamaður. Hann var ekki stjórnmálamaður í nútímaskilngi, að þiggja laun fyrir þingsetu og nefndarstörf, heldur í miklu merkilegri skilningi. Hann var hugsjónamaður og hugmyndafræðingur. Störf hans í þessum efnum miðuðu að því að breyta sjálfstæðisbaráttu örfárra, sérvitra menntamanna í Kaupmannahöfn, í almenna sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Þetta gerði hann með því að breyta á róttækan hátt, sjálfsvitund þjóðarinnar, söguskilningi hennar og fegurðarsmekk. Slíkt markmið, eins eða fárra einstaklinga hlýtur að vera afar metnaðarfullt langtíma markmið. En vegna þess að Jónas notaði skáldskap sinn til að koma boðskapnum áleiðis, og vegna þess að hann var mikið skáld, þá hafði hann mikil áhrif í þessum efnum á meðan hann lifði og enn meiri eftir sinn dag.
Upphaflega var hann alls enginn spámaður í eigin föðurlandi en náði þó, síðustu æviár sín, að verða, ásamt Jóni Sigurðssyni, virtasti málssvari íslenskrar sjálfstæðisbaráttu á meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn.

Æviágrip
Ævi Jónasar Hallgrímssonar er harmræn og um flest dæmigerð fyrir einmana, rómantískan boðbera nýrra hugmynda og nýrra tíma, spámann sem ekki lifir það að vera spámaður í eigin föðurlandi þó hann öðlist viðurkenningu landa sinna í Kaupmannahöfn sem fóru fyrir sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.
Fjölskylda og bernskulsóðir:
Jónas fæddist að Hrauni í Öxnadal 16. nóvember 1807. Foreldrar hans voru séra Hallgrímur Þorsteinsson af þekktum prestaættum á Norður- og Austurlandi, og k.h., Rannveig Jónsdóttir frá Hvassafelli af svonefndri Hvassafellsætt. Þau hjónin bjuggu þá að Hrauni með fjögur börn sín. Eldri systkini Jónasar voru Þorsteinn, fæddur aldamótaárið 1800, síðar bóndi að Hvassafelli, og Rannveig, fædd 1802, en yngri systir hans var Anna Margrét, fædd 1816.
4. ágúst 1816 var mikill sorgar- og örlagadagur í lífi Jónasar sem þá var aðeins átta ára. Þá drukknaði faðir hans er hann var við silungsveiði í Hraunsvatni. Í kjölfarið varð Jónas að kveðja móður sína, systkini og bernskulóðir en ólst upp hjá móðursystur sinni og hennar manni að Hvassafelli við Eyjafjörð.

Menntun:
Jónas var í tilsögn hjá séra Jóni Jónssyni lærða að Möðrufelli veturinn 1819-20 og hjá séra Einar Thorlacius í Goðdölum í Skagafirði 1820-22. Einar kenndi þá jafnframt bræðrunum frá Víðivöllum í Skagafirði, þeim Pétri, síðar biskupi, og Brynjólfi, síðar Fjölnismanni og ævivini Jónasar. Einar var ágætur málamaður, áhugasamur um evrópskar hræringar þess tíma og eindreginn andstæðingur Dana. Dvöl Jónasar að Goðdölum hefur því haft mikil áhrif á hann á ýmsa lund.
Jónas stundaði nám við Bessastaðaskóla 1823-29. Bessastaðaskóli var um margt vönduð menntastofnun. Þar voru ýmsir afburðakennarar sem höfðu mikil áhrif á Jónas, s.s. málfræðingurinn mikli, Hallgrímur Scheving; skáldið, þýðandinn og grískukennarinn Sveinbjörn Egilsson, og spekingurinn með barnshjartað, stærðfræðingurinn og stjörnufræðingurinn Björn Gunnlaugsson.
Jónas lauk stúdentsprófum með góðum árangri 1829. Hann hafði ekki fjárhagslegt bolmagn til að halda strax til náms í Kaupmannahöfn og var því búsettur í Reykjavík á árunum 1829-32. Reykjavík var þá hálfdanskur verslunarbær sem samanstóð af þremur götum, Aðalstræti, Hafnarstræti og Austurstræti, og hrörlegum tómthúsum þar í grenndinni en bæjarbúar voru þá um 550 talsins. Á Reykjavíkurárunum var Jónas lengst af ritari hjá Ulstrup, bæjar- og landfógeta. Hann hélt sig til í klæðaburði, sótti fræg heimboð til Knudsensfólksins í Landakoti í Reykjavík en Knudsendæturnar þóttu hver annari laglegri, og hann orti nokkur tækifæriskvæði á þessum árum, líklega eftir pöntun.
Jónas sigldi til Kaupmannahafnar 1932 og var þar búsettur lengst af síðan. Hann hóf nám í lögfræði við Kaupmannahafnarháskóla en sneri sér fljótlega að náttúrufræði og lauk prófi í steina- og jarðfræði 1838.

Fjölnir og Fjölnismenn:
Jónas stofnaði tímaritið Fjölni 1835, ásamt Brynjólfi Péturssyni, Konráði Gíslasyni og Tómasi Sæmundssyni. Hann var, ásamt Konráð Gíslasyni, helsti ritstjóri tímaritsins fyrstu árin og skrifaði meira í það en nokkur annar. Fjölnir kom út til 1847. Tímaritið var í upphafi eina málgagn íslenskrar sjálfstæðisbaráttu en deildi síðan því hlutverki með Nýjum félagsritum Jóns Sigurðssonar. Fjölnir átti eftir að hafa mikil áhrif þó þau áhrif létu standa á sér heima á Íslandi fyrstu árin, sökum róttækni tímaritsins, í sjálfstæðismálum og skáldskap.

Rannsóknarstörf á Íslandi:
Jónas fékk opinbera styrki til náttúrufræðirannsókna á Íslandi. Hann ferðaðist um mikinn hluta Íslands á árunum 1837 og aftur 1839-42, með vetursetur í Reykjavík. Þá fékk hann styrk frá Hinu íslenska bókmenntafélgi til að semja ítarlega Íslandslýsingu sem hann vann töluvert að eftir að hann kom aftur til Kaupmannahafnar en lauk þó aldrei við.

Ævilok í Kaupmannahöfn:
Jónas kom aftur til Kaupmannahafnar 1842 og var búsettur í Danmörku til dauðadags, lengst af í Kaupmannahöfn, en veturinn 1843-44 hjá vini sínum, náttúrufræðingnum Japetus Steenstrup, í Sorö. Hann lést á Friðriksspítala í Kaupmannahöfn 26. maí 1845, eftir að hafa hrasað í stiganum á leið heim til sín og fótbrotnað illa.
Jónas var jarðsunginn í Kaupmannahöfn og jarðaður í Hjástoðargarði í Kaupmannahöfn, skammt frá Þrenningarkirkju. Bein hans voru síðan grafinn upp, árið 1946, hundrað og einu ári eftir að hann hafði verið lagður til hvíldar í danskri mold, og flutt til Íslands. Fyrir því stóð Sigurjón Pétursson á Álafossi. Lét hann flytja beinin norður að Bakka í Öxnarfirði og hugðist láta jarðsetja þau þar. Að beiðni íslenskra yfirvalda voru beinin síðan flutt suður og jarsett í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum. Þó fer ýmsum sögum af því að beinin sem flutt voru til Íslands hafi ekki verið bein Jónasar, og eins að hluti beinanna hafi verið jarðsett fyrir norðan, áður en íslensk yfirvöld skárust í leikinn. Því kann svo að vera að Jónas sé grafinn á einum stað í Danmörku og tveimur stöðum á Íslandi. Í dag vilja þó flestir trúa því að bein hans hvíli að minnsta kosti að einhverju leyti á Þingvöllum, þeim stað sem hann, öðrum fremur, gerði að helgu sameiningartákni þjóðarinnar.

Einkalíf og ástamál:
Jónas kvæntist aldrei né eignaðist afkomendur svo vitað sé. Um ástamál hans er það helst að segja að hann varð a.m.k. tvisvar alvarlega ástfanginn, fyrst að kornungri stúlku, Þóru, dóttur séra Gunnars Gunnarssonar, prest í Laufási við Eyjafjörð, er hann varð samferða þeim feðginum norður í land sumarið 1828. Um þá ferð og þá æskuást orti Jónas kvæðið Ferðalok sem oft hefur verið lýst sem fegursta ástarkvæði tungunnar.
Það er einnig vitað að Jónas varð yfir sig hrifinn af annarri stúlku, Kristjönu, dóttur Lauritzar Knudsen, kaupmanns í Reykjavík, en henni kynntist Jónas í Landakoti á Reykjavíkurárum sínum. Talið er nokkuð öruggt að Jónas hafi beðið Kristjönu en hún veitt honum afsvar. Löngu síðar orti hann til hennar ástarkvæðið Söknuður sem er alls ekki síðra en Ferðalok, og eitt fegursta ljóð sem ort hefur verið á íslensku. Margt hefur verið skrafað um Þóru Gunnarsdóttur frá Laufási og Ferðalok, en minna rætt um Kristjönu og Söknuð. Því hefur jafnvel verið ranglega haldið fram að Söknuður hafi einnig verið ortur til Þóru.
Þriðja stúlkan sem vitað er um í lífi Jónasar var Hólmfríður, dóttir hins kræfa kvennamanns, Jóns Þorsteinssonar, prest í Reykjahlíð í Mývatnssveit og ættföður Reykjahlíðarættar. Þeirri stúlku kynntist Jónas á ferð sinni í Mývatnssveit 1839. Margt bendir til þess að hún sé engillinn með rauðan skúf í peysu í kvæðinu Ég bið að heilsa.

Vinir fara fjöld:
Jónas var óheppinn í ástarmálum, var einhleypur alla tíð og lést á besta aldri, einungis 37 ára. Engu að síður lifði hann það að horfa eftir ýmsum í gröfina sem honum þótti vænst um. Hann var átta ára er faðir hans drukknaði. Vinur Jónasar, Skafti Tímóteus Stefánsson, drekkti sér í stundar ölæði í Kaupmannahöfn 1836 eftir að hafa farið út að skemmta sér með Jónasi og Konráð. Skafti var afar náinn vinur Jónasar auk þess sem þeir voru bræðrungar. Jónas tók því fráfall hans mjög nærri sér og ásakaði jafnvel sjálfan sig í þeim efnum.
Séra Þorsteinn Helgason, prestur í Reykholti í Borgarfirði, drukknaði í Reykjadalsá 7.mars 1839. Hann var mikill vinur Jónasar og Tómasar Sæmundssonar og tók Jónas fráfall hans mjög nærri sér.
Einn mesti vinur Jónasar, séra Tómas Sæmundsson, Fjölnismaður og prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð, lést svo úr tæringu 17. maí 1841. Augljós er dauði Tómasar er eitt mesta áfallið sem dundi yfir Jónas enda syrgði hann þennan vin sinn meðan hann lifði og um Tómas orti hann eitt þekktasta erfiljóð tungunnar, er hefst á ljóðlínunum:
,,Dáinn, horfinn’’ – hamafregn!
hvílík orð mig dynur yfir!
Loks virðist Jónas hafa tekið mjög nærri sér dauða Bjarna Thorarensen, amtmanns á Möðruvöllum, í ágúst 1841, þó ýmislegt hefði gengið á í samskiptum þessara tveggja höfuðskálda þjóðarinnar á 19.du öld.
Dugnaður og drykkjuskapur:
Ýmsu hefur verið haldið fram í hálfkæringi og alvöru, um drykkjuskap Jónasar, drabb hans og iðjuleysi. Um drykkju hans er það að segja að hann var aldrei bindindismaður þó hann gengi í hálfkæringi í slíkan félagsskap að áeggjan Brynjólfs Péturssonar, vinar síns, skömmu áður en Jónas lést. Hann drakk hins vegar töluvert mikið á tilteknu tímabili, ekki síst í síðustu rannsóknarferð sinni á Íslandi, sumarið 1842. Sú ferð varð engu að síður að vísindalegri afreksferð. Ekkert bendir hins vegar til þess að hann hafi verið ofdrykkjumaður í þeim skilningi að hann hafi ekki haft stjórn á drykkju sinni í langan tíma. Er hann lést var lík hans krufið og kom þá í ljós að hann hafði engin merki um skorpulifur.
Það er einnig athyglisvert í þessu sambandi að síðustu tvö æviár Jónasar, treysti Jón Sigurðsson Jónasi betur en öðrum Íslendingum í Kaupmannahöfn. Þeir Jónas og Jón fóru fyrir tveimur fylkingum Íslendinga í Kaupmannahöfn, fylgismönnum Fjölnis og fylgismönnum Nýrra félagsrita, en Jónas var kjörinn forseti sameiginlegs félags beggja þessarra arma, Almennra funda Íslendinga, að tillögu Jóns.
Auðvitað vannst Jónasi misvel á mismunandi tímum enda var hann oft févana og jafnvel illa haldinn í Kaupmannahöfn. Honum entist t.d ekki aldur til að ljúka sinni miklu og ítarlegu Íslandslýsingu, enda hlaut það verk að vaxa mjög í meðförum hans. Engu að síður er ótrúlegt hvað eftir hann liggur af skáldskap, óbundnu máli og fræðistörfum. Dylgjur um drykkjuskap hans og leti eru því mjög orðum auknar og að mestu leyti úr lausu lofti gripnar.