Hómer var grískt skáld sem var trúlega uppi á 8. öld f. Kr. Hann var fæddur á eynni Kíos, talinn hafa verið blindur. Hann var mikils metinn af samtímamönnum sínum og nefndur ,,faðir grískrar skáldlistar”. Hann á að hafa samið Ilíonskviðu og Ódysseifskviðu u.þ.b. fjórum öldum eftir að atburðirnir gerðust, þó er ekkert víst í þeim efnum og voru fræðimenn til forna ekki á eitt sáttir um hvort sami maður hafi samið Ilíonskviðu og Ódysseifskviðu. Hins vegar er talið mjög líklegt að einhver einn hafi farið höndum um Hómerskviðurnar í þeim búningi sem þær eru núna. Jafnvel hefur verið deilt um það hvort Hómer hafi nokkru sinni verið til. Rökin fyrir því eru þau að Forn-Grikkir voru mjög vissir um tilvist hans þótt svo að vitnisburðir um hann væru óljósir og mótsagnakenndir. Þ.a.l. vildu Forn-Grikkir hugsanlega að hann væri til og skópu sjálfir höfund bókmennta sinna.
Hómerskviðurnar eru ortar undir hrynjandi sexliða bragarhætti, hexameter.
Ilíonskviða, sú fyrri, er um 15,700 ljóðlínur. Ódysseifskviða, sú síðari, er styttri, eða um 12,000 ljóðlínur.
Þess má til gamans geta að Sveinbjörn Egilsson, fyrrverandi rektor Menntaskólans í Reykjavík (1846-1852), þýddi kviðurnar yfir á íslensku og er það talið eitt mesta þýðingarafrek á íslensku fyrr og síðar.
Fyrst kemur hér formáli að atburðum Ilíonskviðu til þess að sagan skiljist en hún byrjar ekki fyrr en á 51. degi 10. árs Trójustríðsins.
Þetta byrjaði á því að þegar París fæðist (en hann var einn 50 sona Príamosar og Hekúbu, konungar og drottningar Tróju) þá dreymir drottninguna að hún hafi alið af sér eldibrand sem muni eyðileggja Tróju. París er borinn út, alinn meðal hjarðmanna og þegar hann er fullvaxta vinnur hann bræður sína í glímu og er þá tekinn í sátt. Hins vegar í Grikklandi eignast dauðlegur maður, Peleifur með sjávardísinni Þetis, barn sem heitir Akkiles og verður síðar mestur grískra hermanna. Þegar þau kvænast er deilugyðjunni Eris ekki boðið og við það verður hún móðguð og sendir gullepli í veisluna með eftirfarandi áletrun: ,,Handa þeirri fegurstu”. Aþena, Hera og Afródíta telja sig allar eiga eplið og á endanum lætur Seifur París dæma um það hver þeirra sé fallegust. París velur Afródítu sem hafði boðið honum fallegustu konu í heimi fyrir. Sú heitir Helena, dóttir Lenu og Seifs. En það er einn hængur á, hún er gift Melenás konungi í Spörtu. En þangað fer París og strýkur með Helenu til Tróju. Allir grísku prinsarnir sem höfðu beðið Helenu höfðu einnig bundist eiði um að vernda hana fyrir hvers konar svívirðingu í framtíðinni. Menelás og Agememnon bróðir hans, konungur Argos, kalla þessa prinsa saman og sigla til Tróju að hefna búðarránsins. Síðan eru Akkilles og Ódysseifur fengnir með. Þeir sigla til Tróju og sitja um hana í 10 ár. Á meðan umsátrinu stendur stelur Agememnon Kríseis, dóttur Krísesar hofprests Apollons.
Og það er hér sem Ilíonskviðan byrjar.
Kríses biður um dóttur sína aftur, þeirri beiðni neitar Agememnon, þá biður presturinn Apollon um að bana Grikkjunum. Þá ríður yfir herbúðirnar mikil plága og eftir nokkra daga kemur orsökin í ljós og neyðist Agememnon að skila dótturinni aftur. Þá heimtar Agememnon aðra konu, Bríseisi, sem var herfang Akkillesar. Við það verður Akkillesar mjög reiður og neitar að berjast lengur. Við það grípur Hektor, elsti sonur Príamosar, gæsina og gerir áhlaup út um borgarhliðin og kemst að skipum Grikkja, særir og drepur marga gríska hermenn. Þá biður Patróklos, besti vinur Akkillesar, Akkilles um herklæði sín og vopn svo að Trójumenn haldi að Akkilles sé með í bardaganum. Akkilles gerir það tregur til, en svo er Patrókles veginn af Hektori. Akkilles fyllist af bræði og hleypur út á vígvöllinn og eltir Hektor 3 hringi í kringum borgarmúra Tróju og endar á því að drepa hann í einvígi. Akkilles svívirðir líkið og hengir það aftan í vagn sinn og keyrir það í kringum gröf Patróklosar. En guðirnir neyða Akkilles til þess að afhenda líkið og fær í staðinn lausnargjald af Príamosi. Þá er haldin útför Hektors.
Hér með lýkur Ilíonskviðu. Hún er að efni og uppbyggingu ólík Ódysseifskviðu. Þetta er stríðskvæði og frásögnin er yfirleitt ekki bein heldur eru atburðir settir fram í samtölum.
Eftirmálar Trójustríðs eru þeir að París drepur Akkilles með því að skjóta ör í hæl hans sem er eini veiki staðurinn á líkama hans. Það er vegna þess að móðir hans dýfði honum í undirheimafljótið Styx til þess að gera hann ódauðlegan en hélt í hælinn. Ódysseifur fær herklæði hans og stuttu síðar drepur Filoktetes París.
Næst verður rakin saga Ódysseifskviðu í grófum dráttum. Ódysseifskviða gerist eftir Trójustríðið. Hún er nær því að vera hrein ævintýrasaga og segir frá för Ódysseifs heim sem var ekki vandræðalaus þar sem Grikkir höfðu svívirt helgidóma Tróju þegar þeir eyddu henni og reitt guðina til reiði.
Ódysseifur og félagar gengu í gegnum ótalmargar hættur á leið sinni. Þeir hreppa óveður þar sem skipin hrekjast af leið inn í heim skrímsla og norna, þeir kynnast lótusblómi sem veldur því að menn missa minnið, lenda í baráttu við kíklópann Pólífemos, son Póseidonar, en hann lætur Ódysseif velkjast um höfin í 10 ár, hann fær belg með vindum frá Eólós, konungi vindanna, en fylgimenn Ódysseifs opna hann meðan Ódysseifur er sofandi og við það losna vindarnir úr belgnum og úr verður hrikalegur stormur. Þeir kynnast gyðjunni Kirku sem breytir fylgdarmönnum Ódysseifs í svín, sírenum, furðuskepnum með fuglshöfuð og kvenlíkama, reiðri sól, gyðjunni Kalypsó og svo framvegis.
Loks þegar Ódysseifur kemur heim eru þar fyrir biðlar konu hans, Penelópu. En þá drepur hann með hjálp Telemakkosar og fylgimanna hans. Penelópa hafði dregið það á langinn að giftast einhverjum biðlana með því að segja þeim að hún myndi gera upp hug sinn þegar hún væri búinn að sauma vef, en hún rakti hann alltaf upp á nóttunni.