Hér á eftir kemur grein eftir mig um Ólaf pá, mikilvægan hlekk í Laxdælu. Njótið vel.
—
Ólafur Höskuldsson, kallaður Ólafur pá, var sonur Höskulds Dala-Kollssonar og Melkorku Mýrkjartansdóttur. Höskuldur átti tvo syni með konu sinni Jórunni, þá Þorleik og Bárð. Þegar Höskuldur fór utan á fund við konung þar sem mikil veisluhöld voru hitti hann Gilla hinn gerska sem var kaupmaður mikill. Höskuldur keypti af honum ambátt sem þóttist vera mállaus dýru verði og svaf hjá henni um nóttina. Þá var Ólafur pá getinn.
Þegar Höskuldur kemur síðan aftur heim fer kona hans Jórunn í fýlu út í hann vegna hinnar nýju frillu sem Melkorka hét. Ólafur fæddist um vorið og varð strax altalandi tveggja ára gamall. Stuttu síðar komst Höskuldur að því að Melkorka gæti talað þegar hann heyrði á tal þeirra Ólafs. Melkorka segir honum að hún sé dóttir Mýrkjartans Írlandskonungs. Það dylst sem sagt ekki að Ólafur sé af góðum og stórum ættum kominn sem jafnframt vísar veginn fyrir það sem koma skal.
Þegar Ólafur var sjö ára gamall var hann sendur í fóstur til Þórðs godda, bónda í Laxárdal. Þar vex Ólafur upp og verður mikill maður. 12 ára ríður hann til þings og undrast menn yfir því hversu glæsilega hann er klæddur. Á sama tíma gefur Höskuldur honum viðurnefnið pá vegna þess hvað mörgum þótti hann líkur páfugli hvað varðaði klæðaburð.
Þegar Ólafur verður frumvaxta(s.s. 18 ára gamall) leggur hann upp í för til Írlands að hitta afa sinn Írlandskonung. Melkorka segir að “eigi nenni eg að þú sért ambáttarsonur kallaður lengur.” Hún vill sem sagt senda hann til Írlands til að sanna sig og sýna fram á að hann sé virkilega mikill maður en ekki einhver ambáttarsonur.
Ólafur gerir glæsiför til Írlands. Með viðkomu í Noregi fá þeir góðar viðtökur frá hirð Haralds hárfagra, sem fólst meðal annars í því að þeir fengu skip með öllu nema hráum.
En þegar þeir halda til Írlands lenda þeir í miklum hafvillum og þoku, og þegar þeir fyrir hundaheppni rata til Írlands verða þeir í fyrstu fyrir írskum ribböldum sem ætla sér að ræna þá. Ólafur nær að tala við Mýrkjartan konung og skýrir frá því hver hann sé. Brátt kemst hann í náð hjá konunginum þegar hann sýnir dýrgripina sem Melkorka hafði gefið honum til að sanna fyrir konungi hver hann væri. Svo dvelur hann með liði sínu um veturinn á Írlandi. Konunginum líst svo vel á hann að um vorið bauð hann Ólafi konungdóm sinn eftir sinn dauðadag. Ólafur afþakkar þó kurteislega og stuttu eftir heldur hann heim á leið. Koma hans til Íslands breiðist út, og Ólafur hefur vaxið gríðarlega af þessari för. Nú efast fáir um glæsileika hans og mikilmennsku.
Svo ríður til næsta þings með Höskuldi og fleirum vinum hans. Höskuldur hafði sagt Ólafi frá dóttur Egils Skalla-Grímssonar sem hét Þorgerður. Ólafur var sem fyrr glæsilegastur manna á að líta þannig að hann heldur að Þorgerður muni giftast honum án þess að hann þurfi að hafa nokkuð fyrir því.
Þeir feðgar komust þó að því að Þorgerður myndi ekki giftast neinum manni sem hún elskaði ekki, enda lík pabba sínum. Egill fer og talar við dóttur sína um bónorð Ólafs, og hún fer strax í vörn með því að segja að “það hefi eg þig heyrt mæla að þú ynnir mér mest barna þinna. En nú þykir mér þú það ósanna ef þú vilt gifta mig ambáttarsyni þótt hann sé vænn og mikill áburðarmaður.”
Egill segir Ólafi alla sólarsöguna. Hann fer og klæðir sig upp í gullhjálm og sverð sem Mýrkjartan hafði gefið honum og fer til búðar Egils.
Ólafur verður strax hrifinn af henni þegar hann sér þennan glæsta kvenmann. Þau byrja að ræða saman í einrúmi allan daginn. Þorgerður ákveður að giftast töffaranum og það gera þau stuttu síðar.
Næsta vor flytjast þau á Goddastaði þar sem Þórður goddi hafði áður búið. Ólafur verður auðugur og mikill höfðingi. Hann kaupir jörð af manni sem hét Trefill og reisir þar bóndabæ sem hann nefndi Hjarðarholt. Í sögunni segir að þegar hann reið frá Goddastöðum og upp í Hjarðarholt að þegar Ólafur var kominn með forustusauðina í Hjarðarholt hafi síðustu klyfjahrossin lagt af stað frá Goddastöðum.
Í Hjarðarholti verður hann mikill maður og gríðarlega vinsæll. En þegar Höskuldur tekur sótt og er við það að deyja kallar hann á syni sína Þorleik og Bárð. Hann segir þeim að synir hans þrír fái hver og einn þriðjung af öllu fé sínu. Þorleikur og Bárður verða nokkuð skúffaðir við þetta því þeim finnst að Ólafur sé ekki nærri jafnmerkilegur sonur og þeir tveir. Þeir láta þó undan eftir að hafa tuðað svolítið í þeim gamla. Ólafur fékk gullhring Hákonarnaut, sem var einnar merkur virði, og sverðið konungsnaut frá Höskuldi. Þorleikur verður fúll út í hann og finnst að Ólafur hafi fengið meira frá Höskuldi heldur en þeir Bárður.
Þessar gjafir eru að sjálfsögðu táknrænar. Ólafur fær konungsgjafir á meðan bræður hans fá bóndabæ og jarðir og þess háttar. Höskuldur hefur þarna viljað sýna að Ólafur væri af konunglegum ættum kominn og væri engu minni en tignir menn.
Síðan ríða þeir bræður til næsta þings. Þar stígur Ólafur á stokk og býður næstum því öllum sem þar eru í erfidrykkju eftir Höskuld. Hann lofar þeim stórri veislu og góðum gjöfum að skilnaði. Þegar hann spyr bræður sína hvað þeim finnst um þetta verða þeir fámálir og segja að þeim þykir þetta alger óþarfi. Þegar veislan er síðan haldin leggur Ólafur meira til veislunnar heldur en bræður sínir. Hann er hérna sjálfsögðu að auka vinsældir sínar með því að vera rausnarlegri en flestir aðrir. Í veislunni voru í kringum þúsund manns, eða níu stór hundruð. Það er sagt að þetta sé næst stærsta veisla sem haldin hefur verið á þessum tíma. Í veislunni talar Ólafur við Þorleik bróður sinn og býður honum sáttir með því að taka son hans, Bolla. Þeir bræður verða síðan mjög sáttir hvor við annan, en Bárður er alltaf jafn kuldalegur við bróður sinn.
Nú eignast Ólafur og Þorgerður mörg börn. Þau hétu Kjartan, Steinþór, Halldór, Helgi, Höskuldur, Bergþóra, Þuríður og Þorbjörg. Hólmgöngu-Bersi tekur Halldór að sér í fóstur. Þegar Bolli og Kjartan urðu smám saman eldri byrjuðu þeir að verða miklir vinir.
Þegar nokur ár hafa liðið fer Ólafur til Noregs að kaupa sér timbur. Hann dvelur með sína menn hjá Geirmundi um veturinn sem var hirðmaður Hákonar jarls. Hann fær síðan timbur og gullöxi gefins frá jarlinum. Síðan heldur Ólafur heim og Geirmundur sníkir sér far með honum. Ólafur reisti eldhús fyrir timbrið og þótti það eitt stærsta sinnar tegundar á Íslandi. Geirmundur giftist síðan Þuríði stuttu síðar. Síðan flosnar það samband upp og hún giftist Guðmundi Sölmundarsyni. Nú giftast flest börn Ólafs, enda er hann kominn á efri ár.
Hann átti nú alls konar dýr í Hjarðarholti, m.a. Uxa sem hét Harri. Einu sinni féll brunnvaka af höfði hans, sem var horn sem náði niður fyrir augu á honum. Og um haustið lét Ólafur fella hann. Um nóttina dreymir hann að kona kæmi til sín sem var mjög reið. Hún skammaði hann fyrir að fella son sinn, og leggur á hann þau álög að hann eigi eftir að sjá son sinn þeim er hann þótti kærastur alblóðugan.
Nú líður nokkur tími. Kjartan vex upp og verður mikill maður, og Bolli fylgir honum eins og skugginn, en er alltaf nokkrum skrefum á eftir. Kjartan byrjar síðan í einhverju Haltumér-slepptumér – sambandi við Guðrúnu. Svo fara þeir Bolli til Noregs í þrjú ár og Kjartan segir Guðrúnu að bíða sín. Hún nennir því hálfpartinn ekki. Þegar Bolli kemur heim á undan honum byrjar hann að dúlla sér með henni og spyr síðan Ósvífur hvort hann megi giftast henni. Hann játar því og þegar Kjartan kemur heim og sér hvernig er farið verður hann mjög fúll út í Bolla. Þetta er eiginlega meginástæðan fyrir drápi Bolla á Kjartani. Bolli verður ekki vinsæll af því drápi og hann sér meira að segja eftir því strax og hann drap Kjartan. Þarna rætist draumur Ólafs.
Ólafur lifir síðan í þrjú ár til viðbótar eftir þetta. Eftir dauða hans verður Bolli strax drepinn, þannig að Ólafur hélt eins konar varnarskildi yfir fóstursyni sínum þessi ár.
Nú. Ólafur var nokkurs konar föðurbetrungur. Þrátt fyrir að vera það sem kallað er bastarður þá er hann öllum fremri, t.d. þegar hann kveður niður draug sem Höskuldur náði ekki að kveða niður o.s.frv. Þetta er allt tákn um gjörvileika hans. Hann var andleg hetja og ótrúlega snjall en kannski ekki mikil ofstopamaður eins og Kjartan sonur hans. Hann varð ríkur og bar sig eins og konungur, alltaf í flottustu skikkjunni og svona. Annars var Ólafur frekar rólegur maður og snjall, hann var ekki kristinn en er samt betra dæmi um kristinn mann en Kjartan. Bolli, fóstursonur hans, er líkari honum en Kjartani, þeir voru báðir sáttasemjarar. Þeir vildu báðir halda friðinn en voru samt ótrúlega klókir.
Það er einkenni með þeim fósturfeðgum að þeir kunnu að koma sér í mjúkinn hjá valdamiklum mönnum, t.d. þegar Ólafur gefur Agli Skalla-grímssyni dýrgripi vitandi það að hann væri mjög hégómlegur maður. Ólafur var heldur ekki nema átján ára þegar hann fór til Írlands, en þrátt fyrir þennan unga aldur náði hann að heilla alla upp úr skónum.
Mamma hans, Melkorka, hafði að hluta til gifts Þorbirni til fjárs til að geta komið syninum til útlanda. Hún hafði því fórnað sér fyrir Ólaf að einhverju leiti.
Svo þegar Bolli drepur Kjartan, fóstbróðir sinn og raunverulegan son Ólafs, þá gerir Ólafur ekkert í málinu og bannar fjölskyldunni sinni meira að segja að hefna Kjartans. En þessi atburður var samt sá sem reið honum að fullu. Hann deyr þremur árum síðar og þá fyrst sést hversu ólík konan hans, Þorgerður, var honum. Enda lætur hún syni sína hefna Kjartans og drepa Bolla.
Þannig er saga Ólafs pá. Hann er hlekkur í ættarsögunni sem Laxdæla er, og skilar hlutverki sínu sem slíkur.
Takk fyrir lesturinn.