Stefnuför Grímkels goða árið 951

Eftir Örn H. Bjarnason

Inngangur
Frá því segir í Harðar sögu og Hólmverja að Grímkell goði bjó á Ölfusvatni sunnanvert við Þingvallavatn. Hann átti í talsverðum útistöðum við mág sinn Torfa á Breiðabólsstað í Reykholtsdal. Torfi hafði ætlað að láta bera út Þorbjörgu dóttur Grímkels, sem hann átti með Signýju systur Torfa, en Signý hafði dáið af barnsburði er hún var í heimsókn hjá bróður sínum. Einnig deildu þeir um heimanmund Signýjar. Með brögðum var hins vegar komið í veg fyrir að Þorbjörg yrði borin út.

Til þess að bæta gráu ofan á svart hafði Torfi svo sent Þorbjörgu á verðgang með Sigmundi nokkrum, sem fór um á beiningaflakki, ásamt konu sinni og Helga syni þeirra. Þetta hafði hann gert til þess að storka Grímkatli. Í framhaldi af þessu hugðist Grímkell fara stefnuför til Torfa og reið hann að heiman þeirra erinda seint í mai árið 951. Þetta hefur verið heppileg tímasetning, gróður farinn að taka við sér og hross víða getað tekið niður, en auk þess var stutt fram að Alþingi þar sem málið yrði væntanlega tekið fyrir.
Um þetta segir í Harðar sögu og Hólmverja: “Um fardagaskeið reið Grímkell goði heiman út í Ölfus um Hjalla en utan um Arnarbæli upp eftir Flóa í Oddgeirshóla, þaðan í Grímsnes og gisti í Laugardal og svo heim.” Hann virðist ekki gista neins staðar á leiðinni nema í Laugardal, þannig að það er eins og hann fari þangað í einni reið. Það er svo sem ekki alveg útilokað þó að þetta sé nokkuð löng dagleið. Vera má að hann hafi haft hestaskipti á leiðinni. Frá því segir t.d. í Vatnsdæla sögu að í tíð Þorsteins Ingimundarsonar á Hofi í Vatnsdal hafi ferðamönnum verið þar “heimill matur og hestaskipti og allur annar farargreiði…” Sjálfsagt hefur verið boðið upp á þess háttar þjónustu víðar.
Síðan segir í Harðar sögu: “Hann stefndi öllum bændum á sinn fund til Miðfells, þeim sem þá hafði hann hitt, á tveggja nátta fresti því að Grímkell hafði goðorð yfir þessum sveitum öllum. Til Miðfells komu sex tigir þingmanna hans. Grímkell segir þeim nauðsynjamál sitt við Torfa og kveðst ætla að fara stefnuför til Torfa. Öllum þótti það vorkunn.” Geta má þess að Miðfell er bær austanvert við Þingvallavatn.
Frá Ölfusvatni um Hjalla að Arnarbæli
Nokkuð augljóst er að frá Ölfusvatni hafi Grímkell farið upp hjá Króki í Grafningi og um Klóarveg með rótum Klóarfjalls að vestanverðu og niður hjá Reykjum, en Klóarvegur er gömul þjóðleið milli Grafnings og Ölfuss. Þaðan svo sem leið lá með hlíðarrótum út að Hjalla.

Frá Hjalla fer hann svo niður að Arnarbæli. Sennilega hefur hann farið um Sigmundarvað yfir Þorleifslæk, en þetta vað er rétt fyrir norðan Hólsós. Þarna var all fjölfarin leið fyrrum og þegar presturinn á Arnarbæli fór að messa á Hjalla, þá fór hann yfirleitt um Sigmundarvað. Á Sigmundarvað má fara hvort sem vill af Bakkabakka eða Riftúnsbakka.

Frásögnin ber það nokkuð með sér að Grímkell hafi farið yfir Ölfusá á ferju hjá Arnarbæli í Ölfusi. Fyrir austan ána hefur hann svo væntanlega farið hjá bæjunum Kaldaðarnesi, Kotferju og Laugardælum. Björn Gunnlaugsson teiknar þar leið á korti sínu frá 1844. Lögferjur á seinni tímum voru við Óseyri fram við sjó, Kotferju og hjá Laugardælum. Þessir lögferjubæir voru allir fyrir austan ána og var það nokkurt óhagræði fyrir ferðafólk, sem kom að vestan. Þess vegna notuðu þeir sem að vestan komu stundum ferjur hjá Arnarbæli og Auðsholti. Þar voru hins vegar ekki lögferjur. Fyrir austan ána var einnig ferja við Kaldaðarnes. Hvergi var Ölfusá reið.

Frá þessum ferjum segir í Sýslu- og sóknalýsingum Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1843, sem Svavar Sigmundsson hjá Örnefnastofnun sá um útgáfu á. Þessar lýsingar eru, sérstaklega hvað varðar alfaravegi, ómetanlegur stökkpallur yfir í fornsögurnar enda hygg ég að reiðgötur hafi lítið breyst í aldanna rás.

Snemma hafa sjálfsagt verið gerðar vegabætur í Ölfusi, enda þar þéttbýlt strax á landnámsöld. Þekktar brýr þar eru Bakkabrú, Króksbrú og Bugabrú. Yfirleitt fór Arnarbælisprestur af Sigmundarvaði og áfram um Bakkabrú að messa á Hjalla. Hún lá að Bakka og síðan fór prestur reiðgötur að Hjalla. Bakkabrú var engjavegur, upphlaðinn garður gerður úr torfi og sér enn móta fyrir henni. Bugabrú var hins vegar niður af Þurá og fór hann þar ekki nema íllfært væri um Bakkabrú. Í fornleifaskráningu í Ölfushreppi eftir þau Hildi Gestsdóttur og Orra Vésteinsson eru þessar brýr nefndar.

Frá Laugardælum í Laugardal
Frá Laugardælum hefur Grímkell hugsanlega farið hjá Langholti að Oddgeirshólum. Einnig má vera að leið hans hafi legið frá Laugardælum að Hraungerði og þaðan í Oddgeirshóla. Hjá Oddgeirshólum var Arnarbælisferja svonefnd kennd við Arnarbæli í Grímsnesi, bær handan við Hvítá. Arnarbælisferju er m.a. getið í örnefnalýsingu yfir Oddgeirshóla og var þar lögferja lengi vel. Ugglaust hefur hann farið á þeirri ferju yfir Hvítá.

Nú er hann kominn í Grímsnesið og þaðan liggur leiðin um Ferðamannavað yfir Höskuldslæk og svo fyrir austan Seyðishóla og hjá Klausturhólum um Bakkagötur að Björk, en síðan fornar götur að Þóroddsstöðum og sem leið lá í Laugardal. Frá þeim bæjum sem hann átti leið framhjá hefur hann væntanlega komið boðum til sinna manna. Úr því að hann gistir aðeins á einum stað má gera ráð fyrir, að hann hafi farið skemmstu leið.

Úr Laugardal að Ölfusvatni
Heim fer Grímkell svo væntanlega Bakkagötur hjá Þóroddsstöðum og Björk og Klausturhólum. Síðan yfir öxlina norðan við Seyðishóla og áfram hjá Miðengi að Álftavaði. Álftavað var nánast eina færa leiðin yfir Sogið áður en brýrnar komu og hlýtur hann því að hafa farið þar. Frá Álftavaði fór hann svo sem leið lá um Grafning og heim. Þess má geta að í örnefnalýsingu yfir Björk í Grímsnesi er minnst á þessar gömlu götur milli Þóroddsstaða og Bjarkar.

Frá Ölfusvatni að Miðfelli
Aftur fer Grímkell um Álftavað og síðan fyrir austan Búrfell að hitta sína menn hjá Miðfelli. Á korti Björns Gunnlaugssonar frá árinu 1844 er teiknuð leið þarna og að Gjábakka. Ugglaust hefur hann farið þá leið frá Álftavaði og sveigt út af henni niður að Miðfelli. Ósennilegt er að hann hafi farið fyrir vestan Búrfell, enda þar víða önugt undir fót. Um leiðir þarna segir í Sýslu- og sóknalýsingum yfir Klausturhóla- og Búrfellssóknir: “Hjá Búrfelli liggur þjóðleið austanmanna, þeirra er vestur eiga leið, yfir endann á Lyngdalsheiði upp í Þingvallasveit, við hálfa þingmnnaleið að lengd.”

Frá Miðfelli að Breiðabólsstað
Áfram heldur frásögnin í Harðar sögu: “Þeir riðu um Gjábakka, svo til Klufta og um Ok, svo hina neðri leið ofan hjá Augastöðum og svo á Breiðabólsstað. Torfi var eigi heima og var farinn upp í Hvítársíðu. Grímkell stefndi Torfa um fjörráð við Þorbjörgu og um heimanfylgju Signýjar. Hann stefndi málunum til alþingis og reið heim síðan…….”

Vera má að þeir hafi farið Gjábakkastíg yfir Hrafnagjá og þaðan um Skógarkot að Sleðaási. Trúlegra þykir mér þó að þeir hafi farið yfir á Hrafnabjargaveg og um Prestastíg yfir Hlíðargjá og að Ármannsfelli hjá Víðivöllum.

Hvað sem þessu líður þá hafa þeir farið um Hofmannaflöt og Kluftir. Síðan áfram um Tröllháls, Víðiker og Biskupsbrekku að Brunnum. Hjá Brunnum hafa þeir svo farið á Okveg. Mér finnst að af samhenginu megi ráða, að af Okvegi hafi þeir komið niður hjá Giljum og síðan hjá Augastöðum að Breiðabólsstað. Þekktir áningastaðir á þessari leið eru m.a. á Hofmannaflöt, við Víðiker og Brunna.

Leiðin heim
Enn á eftir að púsla saman heimferðinni. Allir hafa orðið samferða um Okveg, Kluftir og Hrafnabjargaveg undir Hrafnabjörg. Þeir sem ætluðu austur í Laugardal hafa svo farið um Hrafnabjargaháls yfir að Reyðarmúla og í Laugardal. Hinir hafa orðið samferða um Gjábakka og fyrir austan Búrfell. Þaðan svo hjá Seyðishólum niður á Arnarbælisferju yfir í Flóa.

Um Álftavað fóru svo þeir sem ætluðu í Grafning og Ölfus. Yfir í Ölfus hafa menn farið um Grafningsháls og þaðan hver til síns heima eftir því sem verkast vildi. Grímkell fór hins vegar heim að Ölfusvatni.

Niðurlag
Ég hef stundum verið að velta því fyrir mér, hvernig staðið getur á öllum þessum látum í fornöld. Helst hef ég komist að þeirri niðurstöðu, að mönnum hafi hreinlega leiðst. Það er ótrúlegt hvað lífsleiði getur leitt til mikilla vandræða. Altént hefur það verið nokkur tilbreyting að fara í önnur byggðarlög að pikka í fólk og svekkja.

Lítið var um að vera heima á bæjunum, sérstaklega í myrkasta skammdeginu. Til marks um þetta má nefna, að jafnvel flækingar eins og Sigmundur voru aufúsugestir. Þeir voru eins konar skemmtikraftar síns tíma og raunar fyrsti vísir að leikarastétt hér á landi. Á nútíma leikhúsmáli myndi heita að Sigmundur hafi verið á “tourné.” Um þetta segir í Harðar sögu: “Oftast voru þau í gestahúsi þar sem þau komu nema Sigmundur væri inni til skemmtunar.”

Það að gert hafi verið ráð fyrir gestahúsi á bæjum sýnir, að talsverð velmegun hefur verið í landinu um miðja tíundu öld. Eins hitt að Sigmundur er með þriggja manna fjölskyldu á verðgangi og virðist ekki muna um að bæta Þorbjörgu við. Ég er hræddur um að bændur í dag þyldu ekki slíka gestanauð og engan veit ég hér á höfuðborgarsvæðinu með vísitölufjölskyldu á bísanum.

En sleppum þessu og snúm okkur að framvindu þessa máls. Nú kemur Grímur litli til skjalanna, fóstri Signýjar. Hann hafði verið í vinnumennsku á Ölfusvatni og iðulega náð að sætta Grímkel og Signýju. Grímkell var harðráður og stirðlyndur, en Sginý fálát og uppstökk á köflum. Þau þurftu því oft á sáttasemjara að halda.. Þegar hér er komið sögu býr Grímur hins vegar á Grímsstöðum í Þingvallasveit, en sá bær var nokkurn veginn miðja vegu milli Svartagils og Brúsastaða.

Grímur fer nú til Reykjavíkur á fund Þorkels mána lögsögumanns. Hann biður Þorkel um að hafa hönd í bagga með sættum milli Grímkels og Torfa. Til að liðka fyrir málum hellir hann “hundraði silfurs” í kné Þorkels. Síðan fer hann heim aftur.

Bærinn sem þeir eru að grafa upp á horni Aðalstrætis og Túngötu virðist vera frá þessum tíma. Álitið er að Ingólfur Arnarson hafi búið þar og kannski Þorkell máni líka, en Ingólfur var afi hans. Mér geðjast vel að þeirri hugsun, að þeir Grímur hafi verið að skeggræða nánast þar sem ég strákur vandi komur mínar í Uppsalakjallara beint á móti Hjálpræðishernum.

Á Alþingi urðu svo sættir milli Grímkels og Torfa fyrir milligöngu Þorkels. Torfa var gert að greiða Grímkatli sex hundruð þriggja álna aura og leigi sex vetur og gjaldi þá tólf hundruð. Þeir urðu ásáttir um þetta og lét Grímkell svo ummælt, að þetta skyldi verða móðurarfur Harðar sonar hans. Enn eiga eftir að gerast mikil tíðindi í Harðar sögu og Hólmverja, en þau eru utan við þessa frásögn.

Netfang:ornhelgi@simnet.is