á þriðja og fjórða áratug 20. aldar.
eftir Hjört J. Guðmundsson
II. hluti
Kommúnistahreyfingunni vex fiskur um hrygg
Tímamót urðu í þróun kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi árið 1926 þegar kommúnistar stofnuðu Jafnaðarmannafélagið Spörtu, einkum vegna vaxandi ágreinings við Ólaf Friðriksson, og sögðu þar með skilið við Jafnaðarmannafélag Reykjavíkur. Hlutverk félagsins var m.a. að undirbúa jarðveginn fyrir stofnun íslensks kommúnistaflokks og varð félagið síðar Reykjavíkurdeild flokksins þegar hann var loks stofnaður árið 1930.
Á 6. ráðstefnu framkvæmdanefndar Kominterns árið 1926 kom fram sú skilgreining, á samstarfi kommúnista og sósíaldemókrata, að kommúnistar ættu ekki einungis að berjast gegn hægri armi sósíaldemókrata heldur einnig vinstri armi þeirra. Ólafur Friðriksson mun hafa tilheyrt vinstri arms sósíaldemókrata og því má ætla að sú ákvörðun kommúnista að stofna Spörtu hafi verið tekin í samræmi við tilmæli Kominterns.
Við stofnun Spörtu tók sá félagsskapur við hlutverki Jafnaðarmannafélags Reykjavíkur hjá Komintern, enda var síðarnefnda félagið í andarslitrunum. Hélt Sparta uppi tengslum við Komintern sem félag íslenskra kommúnista uns Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður 1930 og tók við því hlutverki.
Aðstandendur Spörtu sóttu um aðild að Alþýðusambandinu á þingi þess 1926, en var neitað um inngöngu. Á þessu sama þingi var einnig samþykkt að Alþýðuflokkurinn gengi í Alþjóðasambandi sósíaldemókrata, II. Internationale. Var þar með ljóst að sósíaldemókratar höfðu náð undirtökum í flokknum. Í fyrsta skipti kom einnig fram andstöðuarmur innan flokksins undir kommúnískri forystu.
Tillagan um aðildina að Alþjóðasambandi sósíaldemókrata kom mjög skyndilega fram og hafði engin umræða farið fram um hana fyrr en á þessu þingi. Hafði hún hvorki verið rædd í aðildarfélögum Alþýðusambandsins né heldur hafði verið greidd atkvæði um hana þar. Litu kommúnista svo á að fulltrúarnir á þinginu hefðu ekkert umboð til þess að samþykkja tillöguna að félögunum forspurðum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir eftirfarandi um tillögu forystu Alþýðuflokksins: „Erfitt er að segja til um hvað fyrir forystumönnum Alþýðusambandsins vakti, með því að láta samþykkja þessa tillögu svo skyndilega, því enginn skynsamlegur rökstuðningur kom fram af þeirra hálfu.“
Fram til þessa hafði Alþýðuflokkurinn staðið fyrir utan alþjóðasamtök, en engu að síður hafði fulltrúi frá Jafnaðarmannafélagi Reykjavíkur setið alþjóðaþing Kominterns bæði 1921 og 1922. Að sögn Einars Olgeirssonar var það litið hornauga af sósíaldemókrötum, sérstaklega þeim dönsku. Að sögn Einars höfðu þeir mikil áhrif á hægrimenn í Alþýðuflokknum, einkum í krafti fjárhagsaðstoðar, og knúðu það fram að flokkurinn gekk í Alþjóðasamband sósíaldemókrata og ennfremur að kommúnistar, og samtök þeirra, væru útilokuð frá honum. Klofningur Alþýðuflokksins hafi því hafist að fyrirmælum erlendra sósíaldemókrata.
Vitað er fyrir víst að Alþýðuflokkurinn fékk mikinn erlendan fjárhagsstuðnings á árinu 1926, einkum frá dönskum sósíaldemókrötum, og að sá stuðningur hafi verið bundinn því skilyrði að kommúnistum í flokknum væri haldið frá áhrifum innan hans og ennfremur að flokkurinn gengi í Alþjóðasamband sósíaldemókrata. Umræður um aðildina að alþjóðasambandinu varð hörð. Kommúnistar gagnrýndu hreyfinguna harðlega fyrir að hafa svikið málstað verkalýðsins í heimstyrjöldinni fyrri með því að beita sér ekki nægjanlega gegn stríðsrekstri heimsveldanna. Þannig segir Einar Olgeirsson frá afstöðu kommúnista til samþykktar aðildarinnar að sambandinu:
„Okkur kommúnistum fannst það hart að Alþýðuflokkurinn skyldi vera keyrður inn í það samband sósíaldemókrata er brugðist hafði alþjóðahyggju verkalýsins 1914 og bar meðábyrgð á því að auðvaldið gat fórnað lífi milljóna verkamanna í innbyrðis heimsvaldastríði sínu 1914-1918. Við treystum þess vegna tengslin við Komintern, án þess að nokkurt af okkar jafnaðarmannafélögum færi úr Alþýðuflokknum, en undirbjuggum eigin flokksmyndun því greinilegt var hvert stefndi.“
Kommúnistar vöruðu einnig við því að aðildin að Alþjóðasambandin sósíaldemókrata fæli í sér að samþykktir aðalstjórnar hreyfingarinnar væru bindandi fyrir aðildarfélögin. Töldu kommúnistar að slíkar skuldbindingar gætu reynst hættulegar fyrir sjálfstæði landsins, einkum þar sem danskir sósíaldemókratar væru valdamiklir innan alþjóðasambandsins og væru líklegir til að tefja fyrir eða skaða íslenska sjálfstæðisbaráttu. Allt kom þó fyrir ekki og var aðildin samþykkt sem fyrr segir með miklum meirihluta og missti vinstri armurinn ennfremur eina fulltrúa sinn úr stjórn Alþýðusambandsins.
Annað mál, sem olli miklum deilum innan Alþýðuflokksins, í lok þriðja áratugarins, var hvort Ísland skyldi gerast aðili að Þjóðabandalaginu. Voru sósíaldemókratar hlynntir aðildinni, einkum þar sem þeir töldu hagsmunum landsins best borgið með þeim hætti, en kommúnistar voru henni alfarið andvígir. Vildu kommúnistar að Íslendingar héldu í hlutleysi sitt og stæðu utan hernaðarbandalaga. Töldu þeir ennfremur Þjóðabandalagið og Alþjóðasamtök sósíaldemókrata væri ætlað að gegna lykilhlutverki í árásarstríði gegn Sovétríkjunum sem þeir töldu auðvaldsríkin vera að undirbúa. Ekkert varð þó af aðild Íslands að bandalaginu og féllu deilur um það mál niður.
Eftir útreið sína á Alþýðusambandsþinginu 1926 álitu kommúnistar sig ekki eiga annarra kosta völ en að snúa bökum saman og mynda sérstakan andstöðuarm innan Alþýðusambandsins. Vildu sumir þeirra jafnvel ganga svo langt að stofna kommúnistaflokk og átti sú hugmynd einkum mikinn stuðning innan Jafnaðarmannafélagsins Spörtu.
Á árunum fram að næsta Alþýðusambandsþingi skipulögðu kommúnistar lið sitt og bjuggu sig undir aukaþing Alþýðusambandsins sem átti að koma saman haustið 1929. Sömuleiðis versnaði enn samkomulag kommúnista við Ólaf Friðriksson og var svo komið á þinginu 1928 að vinstri armurinn var endanlega klofinn. Komu kommúnistar þá í fyrsta sinn fram sem sjálfstæð heild innan sambandsins.
Uppgjör í aðsigi
Þegar komið var fram á árið 1929 þótti mönnum ljóst að komið væri að uppgjöri innan Alþýðuflokksins. Í raun gengir það furðu hversu lengi kommúnistar og sósíaldemókratar tókst að hanga saman í Alþýðuflokknum þrátt fyrir langvarandi deilur og oft á köflum gjörólík sjónarmið. Var þetta í nær einsdæmi í Evrópu og hafði þróunin verið sú á hinum Norðurlöndunum að kommúnistar höfðu farið út í að stofna eigin flokka sem kepptu við sósíaldemókrata um fylgi verkalýðsins.
Það sem einna helst varð valdandi að þessu var sú staðreynd að íslenski Alþýðuflokkurinn hafði töluverða sérstöðu á við sambærilega flokka annars staðar í Evrópu. Fram til ársins 1926 tók flokkurinn sem slíkur ekki afstöðu til alþjóðlegra deilna kommúnista og sósíaldemókrata. Flestum var þó ljós stuðningur forystu Alþýðuflokksins við málstað sósíaldemókrata, í það minnsta eftir 1922.
Annað sem kemur til álita er að kommúnistar höfðu ekki það bakland sem nauðsynlegt var til að geta stofnað eigin flokk. Það sem skiptir stóru máli í því tilliti var félagafjöldinn. Lengi framan af töldu kommúnistar sig ekki nógu fjölmenna til að fara út í það að stofna eigin stjórnmálaflokk, ekki síst þar sem það myndi líklega þýða aðskilnað frá Alþýðusambandinu. Þeir hafi því talið hag sínum best borgið framan af innan Alþýðuflokksins meðan unnið væri að því að undirbúa jarðveginn fyrir stofnun kommúnistaflokks.
Um afstöðu Komintern, til stofnunar íslensks kommúnistaflokks, segir í bók Þórs Whitehead, um kommúnistahreyfinguna á Íslandi, að heimildarmönnum beri saman um:
„… að Komintern hafi ekki reynt að reka á eftir Íslendingum [á Kominternþinginu 1928 til að stofna kommúnistaflokk] enda vitað mál að þeir stefndu að flokksstofnun. … Ráðamenn Komintern hafi því látið íslenskum kommúnistum það eftir að stofna flokk sinn þegar þeir teldu sér það best henta. Fulltrúi sambandsins … hafði þá nýlega verið á Íslandi til að undirbúa flokksstofnunina. Gat hann staðfest öll þau vandkvæði sem væru á því að flýta málinu. Var ekki laust við að forráðamönnum Kominterns þætti íslenska kommúnistahreyfingin næsta fámenn. Var það því fastmælum bundið í Moskvu að Íslendingarnir reyndu að styrkja stöðu sína og réðust síðan í flokksstofnun, helst innan sex mánaða.“
Forysta Alþýðuflokksins reyndi þó sitthvað lengi vel til að reyna að tryggja einingu flokksins og hafa kommúnistana í flokknum góða þó þannig að þeim væru veitt sem allra minnst áhrif innan hans. Þetta sjónarmið forystunnar er auðvitað ekki einkennilegt í ljósi þess að klofningur innan flokksins hefði óhjákvæmilega veikt stöðu vinstrimanna gagnvart hægri öflunum, auk þess sem ýmis verkalýðsfélög voru á bandi kommúnista. Ýmsir í röðum kommúnista voru einnig hlynntir samfylkingarhugmyndinni og reyndu einnig að miðla málum þannig að sósíaldemókratar og kommúnistar gætu staðið saman gegn hægri öflunum. Vonuðust þessir menn ennfremur um að geta smám saman breytt Alþýðuflokknum í sósíalistaflokk.
Heimildaskrá:
Arnór Hannibalsson: Moskvulínan: Kommúnistaflokkur Íslands og Komintern. Halldór Laxness og Sovétríkin. Reykjavík. 1999.
Árni Snævarr og Valur Ingimundarson: Liðsmenn Moskvu: samskipti íslenskra sósíalista við kommúnistaríkin. Reykjavík.1992.
Einar Olgeirsson: Ísland í skugga heimsvaldastefnunnar. Jón Guðnason skráði. Reykjavík. 1980.
Einar Olgeirsson: Kraftaverk einnar kynslóðar. Jón Guðnason skráði. Reykjavík. 1983.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: Vinstri andstaðan í Alþýðuflokknum 1926-1930. Reykjavík. 1979.
Ingólfur Á. Jóhannesson: Úr sögu kommúnistaflokks Íslands. Reykjavík. 1980.
Þorleifur Friðriksson: Gullna flugan: saga átaka í Alþýðuflokknum og erlendrar íhlutunar um íslensk stjórnmál í krafti fjármagns. Reykjavík. 1987.
Þór Whitehead: Kommúnistahreyfingin á Íslandi 1921-1934. Reykjavík. 1979.
(Þessi ritgerð er það löng að ég sá mig knúinn til að skipta henni í fjóra hluta. Síðari hlutarnir munu birtast hér á næstunni.)
Með kveðju,