eftir Hjört J. Guðmundsson
Ef benda ætti á aðeins eitt atriði sem helst hafi einkennt þjóðernishyggju Jóns Sigurðssonar hlýtur frjálslyndi að verða fyrir valinu. Þjóðernihyggja Jóns Sigurðssonar var öðrum þræði fremur frjálslynd í anda franska fræðimannsins Ernest Renans og upplýsingarinnar. Þó er ljóst að skoðanir Jóns báru einnig keim af hinni menningarlegu þjóðernishyggju sem kennd hefur verið við þýska heimspekinginn Johann Gottfried von Herder. Þannig sótti Jón rök sín í sjálfstæðisbaráttunni ekki síst í sögu þjóðarinnar og menningu hennar enda var að hans mati fremsta ástæða þess að Íslendingar ættu að ráða sér sjálfir sú staðreynd að þeir væru sérstök þjóð með sérstakt tungumál, sögu og menningu.
Staða Jóns var annars mjög sérstök í þjóðfrelsisbaráttunni. Þó Jón væri sjálfur frjálslyndur voru bændaþingismennirnir, sem hann var í forsvari fyrir á Alþingi, upp til hópa íhaldsmenn. Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfæði, segir þannig frá því, í bók sinni Íslenska þjóðríkið – uppruni og endimörk, að þótt:
„… upphafs íslenskrar sjálfstæðisbaráttu sé leitað í íhaldssömum viðbrögðum Íslendinga við þjóðfélagslegum hræringum nítjándu aldar verður þó ekki horft framhjá þeirri staðreynd að leiðtogi baráttunnar, Jón Sigurðsson, var einn skeleggasti fulltrúi frjálslyndisstefnunnar í íslenskum stjórnmálum um áratuga skeið. Þetta samkrull íhaldssamrar hreyfingar og frjálslynds forystumanns er einmitt eitt helsta sérkenni íslenskra stjórnmála á nítjándu öld, og ber reyndar vott um framsýni þjóðhetju Íslendinga. Hæfni Jóns til að stýra meirihluta Alþingis og skilja vilja bænda, án þess að beygja sig undir skoðanir þeirra, ber vott um aðdáunarverða herkænsku …“
En þrátt fyrir að meiningarmunur væri á milli Jóns og bændaþingmanna hans varðandi ýmis mál var markmiðið hið saman í aðalatriðum; að Íslendingar ættu að stjórna sér sjálfir enda, eins og Jón orðaði það sjálfur, var veraldarsagan „… ljóst vitni þess, að hverri þjóð hefur þá vegnað best þegar hún hefur sjálf hugsað um stjórn sína.“
Í anda frjálslyndisstefnunnar voru almenn borgararéttindi Jóni ofarlega í huga. Taldi hann þau það sjálfsögð að það þyrfti í raun ekkert að ræða það frekar. Vildi hann þannig t.a.m. að kosningaréttur og kjörgengi væri sem almannast, innan skynsamlegra aldurstakmarka þó, og að eignastaða manna hefði þar engin áhrif á. Eins var Jón alfarið andsnúinn hvers kyns höftum á atvinnufrelsi manna, þó innan siðferðislegra marka.
Skoðanafrelsið var Jóni einnig ofarlega í huga og áleit hann að enginn skaði hlytist af því þó menn hefðu skiptar skoðanir á hlutunum á meðan þær meiddu engan. Taldi hann að fullkomin „… samhljóðan meininga hjá mörgum mönnum gæti aðeins verið, þar sem væri fullkomin harðstjórn, og enginn þorði að láta uppi það, sem hann meinti …“ Sama var að segja um trúfrelsi sem Jóni þotti sjálfsagt.
Jón lagði og mikla áherslu á verslunarfrelsi og taldi það algert grundvallaratriði varðandi þjóðfrelsið að því yrði komið á sem fyrst. Eins var með eignarréttinn sem Jón taldi að væri „… máttarstólpi undir hverju þjóðfélagi í öllum menntuðum heimi.“ Að seinustu lagði Jón t.a.m. mikla áherslu á möguleika manna á að vinna sig upp innan þjóðfélagsins. Þannig sagði hann t.a.m. árið 1838 að það væri „… harla eftirtektarvert, hversu ýmsir menn hafa með frábærum dugnaði og aðfylgi komið sér í fremstu röð meðal þjóðar sinnar, þótt þeir væru í upphafi hinir öftustu, en síðan fært þjóðina alla á greiðari götu en áður gekk hún …“
En þrátt fyrir að skoðanir Jóns væru frjálslyndar gerði hann sér fulla grein fyrir því að frelsið væri vandmeðfarið og að ekki gengi að það væri takmarkalaust. Þannig sagði hann í ræðu árið 1875 að það að lúta stjórn og takmörkunum væri skilyrði þess að geta orðið nýtur maður. Ennfremur sagði hann að: „… bönd væru jafn nauðsynleg inn á við sem út á við, jafn nauðsynleg fyrir líf einstakra manna sem þjóða, og frelsið án banda, án takmörkunar, væri ekki frelsi, heldur agaleysi og óstjórn.“
Eins og sannur þjóðernissinni hafði Jón mikinn metnað fyrir hönd Íslands og íslensku þjóðarinnar og setti hvorki smæð lands né þjóðar fyrir sig. Þannig sagði hann að farsæld þjóanna væri ekki komin undir því hversu fjölmennar þær væru eða hversu stóru landi þær réðu yfir. „Sérhverri þjóð,“ sagði Jón árið 1838, „… vegnar vel, sem hefir lag á að sjá kosti lands síns og nota þá, eins og þeir eiga að vera notaðir. Löndin eru lík einstökum jörðum, ekkert land hefir alla kosti, og engu er heldur alls varnað. En það ríður á að taka eftir kostunum og nota þá vel, en sjá til, að ókostirnir gjöri sem minnst tjón.“
En þó Jón sækti mikið af rökum sínum í sjálfstæðisbaráttunni í sögu þjóðarinnar lifði hann ekki í fortíðinni. Hann sá vissulega fyrir sér þjóðveldisöldina í fallegri mynd en gerði sér engu að síður fulla grein fyrir því að 19. öldin væri allt annar tími og að þjóðveldistíminn kæmi ekki aftur. Þannig vildi Jón að Alþingi yrði endurreist í Reykjavík en ekki á Alþingi eins og t.a.m. Fjölnismenn vildu. Jón var framfarasinnaður og lagði mikla áherslu á Íslendingar lærðu af reynslu nágrannaþjóðanna, bæði því sem færi vel hjá þeim og illa.
Jón lagði mikla áherslu á menntun þjóðarinnar. „Alls staðar meðal siðaðra þjóða …,“ sagði hann árið 1845 „… er menntun talin aðalstofn allra framfara … Því almennari, sem menntun verður meðal allra stétta, því nær verður komizt aðaltilgangi mannlegs félags, sem er, að sérhver einstakur maður nái þeirri fullkomnun og farsæld, sem mest má verða, og allir eigi frá upphafi jafna heimtingu til að öðlast.“ Þannig vildi Jón að möguleikar allra á menntun ættu að vera tryggðir. Ennfremur leit Jón svo á að innanlands menntun á íslenskum forsendum væri mun nytsamlegri en sú sem sækja þyrfti erlendis. Og að auki að öll innanlands kennsla ætti að byggja á þjóðlegum forsendum.
En þrátt fyrir frjálslyndar skoðanir Jóns Sigurðssonar má segja að frjálslyndi hans sé í minningunni aðeins daufur tónn. Ástæða þess er sennilega sú að Jón lagði litla áherslu á frjálslyndar skoðanir sínar mestan hluta stjórnmálaferils síns. Þetta má skýra með tvennum hætti. Í fyrsta lagi var Jón fyrst og fremst raunsæismaður í stjórnmálum og gerði sér því fulla grein fyrir því að einstaklingsfrelsið naut ekki mikils stuðnings á Íslandi og því ólíklegt til að afla fylgis. Í annan stað má ætla að Jóni hafi þótt önnur mál brýnni en einstaklingsfrelsið s.s. þjóðfrelsið. Jón lagði alla tíð mesta áherslu á að færa íslenskt þjóðfélag í átt til nútímans þar sem efnahagslegar framfarir væru forsenda þjóðfrelsis að hans mati. Jón taldi síðan í framhaldi af því að almenn borgaraleg réttindi myndi einfaldlega fylgja í kjölfar þess að þjóðfélagið nútímavæddist.
Heimildaskrá:
Guðmundur Hálfdanarson: Íslenska þjóðríkið – uppruni og endimörk. Reykjavík. 2001.
Jón Sigurðsson: „Um skóla á Íslandi.” Ný félagsrit. 2 (1841).
Jón Sigurðsson: „Um Alþíng á Íslandi.“ Ný félagsrit. 1 (1841).
Vilhjálmur Þ. Gíslason: Jón Sigurðsson í ræðu og riti. Akureyri. 1944.
(Framsöguræða í sagnfræðiskor Háskóla Íslands. Efnið var ákveðið af kennara.)
Með kveðju,