Nýlega var send inn grein um Sovétríkin hér á sagnfræðiáhugamálið, í kjölfarið ákvað ég að senda inn ritgerð um Sovétríkin sem ég skrifaði í sögu. Bil og greinarskil voru í lagi þegar ég sendi hana inn, ef þau verða í rugli biðst ég velvirðingar á því, maður veit aldrei. Ritgerðin er frekar ýtarleg í byrjun, en svo er farið hratt yfir sögu, þetta stafar af því að ég taldi mig hafa meiri tíma til þess að skrifa hana en ég í raun hafði, svo ég neyddist til þess að hespa þessu af. Njótið.

Þegar Jósef Stalín lést 5. mars 1953, hafði með honum hafði risið ný stétt embættismanna sem hafði í raun tekið stjórnina á sovéska ríkinu þrátt fyrir staðhæfingar um að verið væri að framkvæma sósíalismann. Þessi nýja stétt hafði orðið til í hraðri iðnvæðingu Stalíns og hafði svo styrkst eftir Seinni Heimstyrjöldina þegar landið var í rúst eftir heri Hitlers. Sovétríkin voru orðin skrifstofuveldi (Bureaucracy). Embættismennirnir nutu ýmissa fríðinda sem hinn almenni borgari hafði engan aðgang að, t.d stórar íbúðir, tískuföt, lokaðir veitingastaðir og búðir, sumarfrí á framandi stöðum og bílar. Ekki sé minnst á hin skammarlega háu laun sem embættismönnum voru greidd. Ástandinu er kannski best lýst með orðum Ante Ciliga, sem var bjó í Sovétríkjunum á fjórða áratugnum: „Gildi manns var mælt í glæsileika sumarfríana sem hann hafði efni á, íbúðinni hans, fötunum hans og stöðu hans í kerfinu. […]”. Þessu kerfi fylgdu ýmis vandamál, sóun var gríðaleg vegna þess að mikið skorti á lýðræðislega stjórn efnahagsins, embættismennirnir stjórnuðu af skrifstofum sínum og voru algerlega úr tengslum við raunveruleikann, og það versta var að þessir menn misnotuð oft aðstöðu sína í eiginhagsmunaskyni. Gorbatsjov segir svo frá:
…í stjórnkerfinu gætti virðingarleysis fyrir lögum og ýtt var undir smjaður og mútuþægni, vesældarlega aumýkt og hástemmda lofgjörð. Verkalýðurinn fann af ósköp eðlilegum ástæðum til vanþóknunar á hegðun manna sem nutu trausts og báru ábyrgð en misnotuðu vald sitt, þögguðu niður gagnrýni, sköruðu eld að sinni köku og urðu jafnvel stundum samsekir um glæpi ef þeir lögðu beinlínis ekki á ráðin um þá.

Rétt áður en Stalín dó er talið að hann hafi ætlað að koma af stað nýjum hreinsunum líkt á fjórða áratugnum og koma öllum sínum helstu samstarfsmönnum fyrir kattarnef. En áður en til þess gat komið andaðist hann, og er jafnvel talið að honum hafi verið „hjálpað” við það. En í staðinn fyrir persónulegt alræðisvald Stalíns kom „hin samvirka forysta” (collective leadership) en fljótlega fór að bera á valdabaráttu innan hennar og bar þar Níkita Khrúsjov sigur úr býtum og varð hann árið 1958 aðalritari Kommúnistaflokks Sovétríkjanna og var þá orðin óumdeildur leiðtogi bæði flokks og ríkis.
Í valdatíð Khrúsjovs voru veittar margar tilslakanir, slakað var á ritskoðun, fangabúðum stórfækkaði, fólki var leyft að skipta um vinnu og ferðalög erlendis auðvelduð. Á 20. flokksþingi sovéska Kommúnistaflokksins afhjúpaði Khrúsjov glæpi Stalíns og fordæmdi það sem hann kallaði sjúklega persónudýrkun á Stalín. Khrúsjov sakaði Stalín meðal annars um að hafa auðveldað Þjóðverjum innrásina í Sovétríkin með röngum viðbrögðum, þvert á almenna trú manna að Stalín hefði með stjórnvisku sinni bjargað Sovétríkjunum. Khrúsjov kenndi Stalín líka um að hafa valdið klofningi við Júgóslavíu með óbilgirni sinni og svo afhjúpaði hann einnig að nokkru leyti morð Stalíns á félögum sínum í Kommúnistaflokknum en minntist lítið á fjöldamorð hans á hinum almenna borgara. Khrúsjov lét ekki sitja við orðin tóm heldur hóf hann að losa Sovétríkin við arfleið Stalíns, borgir sem kenndar voru við hann voru endurskírðar (t.d Stalíngrad sem endurskírð var Volgograd), myndir og styttur af Stalín voru eyðilagðar og lík Stalíns fjarlægt úr grafhýsi Leníns. Þetta hafði það m.a. í för með sér að leppríkin í Austur-Evrópu reyndu að brjótast undan áhrifavaldi Sovétríkjanna, mest var andstaðan í Ungverjalandi, Ungverjar sögðu sig úr Varsjárbandalaginu og komu á fjölflokkakerfi en Sovétmenn börðu niður uppreisnina með hervaldi og þó að þetta skaðaði orðspor Sovétríkjanna á alþjóðavettvangi þá sýndu þeir að þeir voru reiðubúnir að beita valdi til að vernda hagsmuni sína. Þetta leiddi til þess að vinstri menn á Vesturlöndum og Kínverjar fóru að tala um sósíalíska heimsvaldastefnu.
Það var ekki einungis á stjórnmálasviðinu þar sem breytingar áttu sér stað í stjórnartíð Krúshjovs, hann reyndi að auka framleiðni í landbúnaði og draga úr miðstýringu, með misjöfnum árangri og má segja að það hafi átt sinn hlut í falli hans nokkrum árum síðar. Ríkið hvatti bændur til þess að rækta meira á einkaskikum sínum, borgaði hærra verð á korni sem ræktað var á samyrkjubúum og jók fjárfestingar í landbúnaði. Stór landsvæði í Kazakstan voru brotin til ræktunar, en þau voru viðkvæm fyrir þurrkum í upphafi en það reyndust bara byrjunarörðugleikar og þau skiluðu loks góðri uppskeru. Ekki voru allar umbætur Khrúsjovs í landbúnaði jafn árangursríkar en áætlanir hans um að auka mjólkur- og kjötframleiðslu reyndust stórslys, sem og endurskipulagning samyrkjubúa sem olli ringulreið í sveitum landsins. Í kjölfarið af slæmum uppskerum í landbúnaði 1963, vinslit við Kína og hlutverk sitt í Kúbudeilunni magnaðist andstaðan við Khrúsjov innan flokksins og hann neyddist til þess að segja af sér snemma árs 1964.
Eftirmaður Krúshovs í embætti var Leonid Brezhnev. Í valdatíð hans jukust völd og spilling embættismanna og sóun stjórnkerfisins stórjókst og margar af umbótum Khrúsovs varðandi mannréttindi og almennt frelsi voru dregnar til baka. Valdatíð Brezhnevs hefur verið kölluð stöðnunartímabil sovéskrar sögu. Í flóknu nútímahagkerfi sem hagkerfi Sovétríkjanna var orðið í kringum 1970 er ómögulegt að stjórna efnahagnum með aðferðum skrifræðis. Án þáttöku verkamanna í skipulagningu efnahagsins, frjálsra verkalýðsfélaga, málfrelsis og réttinum til gagnrýni eru spilling og sóun óhjákvæmilegir fylgifiskar áætlunarhagkerfis. Á meðan hagkerfið var ennþá frumstætt var þessi sóun að vissu leyti í lagi því hagvöxturinn var samt sem áður gríðarlegur, en þegar hagkerfið var orðið flókið þá tók að draga mikið úr hagvextinum af ofangreindum ástæðum. Þetta sést best með því að skoða tölur yfir hagvöxt í í Sovétríkjunum og leppríkjum þeirra frá 1950 til 1970.

Hagvöxtur: 1950-55 1955-60 1960-65 1965-70
Sovétríki n 11.3% 9.2% 6.3% 4.0%
Tékkóslavkía 8.0% 7.1% 1.8% 3.4%
Pólland 8.6% 6.6% 5.9% 6.7%
Búlgaría 12.2% 9.7% 6.5% 4.5%

Á áttunda áratugnum hélt hagvöxtur áfram að minnka og árið 1979 óx hagkerfið einungis um 3.6 prósent á ári og árin á eftir hélt hagvöxtur áfram að minnka.
Í byrjun níunda áratugarins var sovéskt þjóðfélag komið í alvarlega kreppu, Brezhnev var kominn á grafarbakkann og skriffinnarnir óttuðust að þegar hann dæi myndu flóðgáttir opnast og óánægja almennings myndi brjótast upp á yfirborðið. Þegar hann lést sættust þeir á eftirmann hans, Júrí Andropov. Andropov gerði nánast engar breytingar, hann reyndi að minnka spillingu en það bar engan árangur. Andropov lést eftir 15 mánuði í embætti. Eftirmaður hans var Konstantín Tjernenkó, hann var á áttræðisaldri og vann sér lítið til frægðar og lést innan árs frá valdatöku sinni. Að honum látnum tók við völdum Mikhail Gorbatsjov.
Gorbatsjov gerði sér grein fyrir vandamálum Sovétríkjanna og hófst strax handa við að leysa þau. Aðferðirnar sem hann beitti kallaði hann Glasnost (opnun), Perestrojku (breyting) og Demokratizatsiya (lýðræðisvæðing). Í perestrojku fólst m.a að endurlífga sovéska efnahaginn með auknu frjálsræði og lýðræði. Dregið var úr miðstýringu og sjálfsábyrgð fyrirtækja aukin. Fyrst í stað voru viðbrögð efnahagsins við perestrojku góð, framleiðni jókst og svo virtist sem umbætur Gorbatsjovs ætluðu að skila árangri og mikil bjartsýni ríkti. En fljótlega fór að bera á verðbólgu og efnahagurinn fór hríðversnandi.
Þáttaka almennings í stjórnmálaumræðunni jókst og Æðsta-ráð Sovétríkjanna samþykkti nýtt 2,250 löggjafarþing sem átti að koma í stað Æðsta-ráðsins sem löggjafarvald og nýtt 542 manna ráð fór með framkvæmdavald milli þingfunda og fóru fyrstu almennu kosningarnar í Sovétríkjunum fram í desember 1988. Niðurstöðurnar komu ráðamönnum á óvart, fólk um allt landið strikaði út af kjörseðlinum nöfn manna í kommúnistaflokknum sem voru einir í kjöri, og nýttu sér þannig réttinn til þess að velja engan af frambjóðendum. Þrátt fyrir þetta voru meðlimir flokksins í miklum meirihluta á þinginu. Þetta fyrsta almenna löggjafarþing Sovétríkjanna markaði tíma mót þar sem þetta var í fyrsta skipti þar sem aðalritari Kommúnistaflokksins hafði ekki algert vald yfir stjórn landsins. En með auknu lýðræði og tjáningarfrelsi fóru hin ýmsu lýðveldi Sovétríkjanna að krefjast sjálfstæðis. Í nóvember 1988 lýsti Eistland yfir sjálfræði sínu og réttinum til þess að setja eigin lög, Lettland og Litháen gerðu slíkt hið sama skömmu síðar. Úkraína og Georgía fylgdu svo í kjölfarið. Í örvæntingu sinni reyndu nokkrir háttsettir menn innan Kommúnistaflokksins að ræna völdum árið 1991, þeim tókst að halda Gorvatsjov föngnum í nokkra daga áður en almenn mótmæli í Moskvu og Leníngrad og andstaða innan hersins neyddi valdaræningjanna til að gefa eftir. Þetta hafði alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir Gorbatsjov, hann sagði af sér sem aðalritari en hélt áfram stöðu sinni sem forseti Sovétríkjanna. Borís Jeltsín, sem var forseti Rússneska Sambandslýðveldisins komst fljótlega í valdastöðu og sölsaði undir sig sjónvarpstöðvar og aðrar mikilvægar valdastofnanir og þann 23. ágúst 1991 bannaði hann Kommúnistaflokkinn og gerði eignir hans upptækar. Daginn eftir viðurkenndi hann sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og seinna sama dag lýsti Úkraína því yfir að hún væri orðin sjálfstætt ríki, brátt voru öll lýðveldin búin að lýsa því sama yfir. Skömmu síðar sagði Gorbatsjov af sér sem forseti Sovétríkjanna og kom engin í hans stað, Sovétríkin voru ekki lengur til.
Trotskí kallaði Sovétríkin afmyndað verkamannaríki (a deformed worker’s state) og sagði að án lýðræðis myndu litlar framfarir verða í Sovétríkjunum því að „sósíalismi þarfnast lýðræðis eins og maðurinn súrefnis” og Sovétríkin myndu að endingu kafna í eigin skriffinnsku. Ennfremur spáði hann því að annað hvort myndi verkalýður Sovétríkjanna gera uppreisn gegn skriffinnskunni og koma á sósíalísku lýðræði eða þá, embættismennirnir myndu að lokum gera gangbyltingu og hverfa aftur til kapítalismans til þess að vernda hagsmuni sína , og hefur tíminn leitt það í ljós að hann hafði rétt fyrir sér í þeim efnum.

Heimildaskrá

Woods, Alan, 2003, Stalin: 50 years after the death of a tyrant.
Gorbatsjov, Mikhail, 1987, Perestrojka: Ný hugsun, ný von.
Trotskí, Leon, 1936, Revolution Betrayed.
[Höfund vantar], 1996, The Soviet Union [USSR], http://www.1upinfo.com/country-guide-study/ soviet-union/
Níkita S. Khrúsjov, 1956, The Secret Speech - On the Cult of Personality.
Grant, Ted, [án árs], Russia: From Revolution to Counter-Revolution.
Nayshul V., [án árs], Liberalism, Common Rights And Economic Reforms (On Economic Reforms During the Perestroika Period).

Woods, Alan 2003
II Þýðing mín, á ensku er setningin svohljóðandi: "A man's worth was measured by the elegance of the holidays he could afford, by his apartment, his furniture, his clothes and the position he occupied in the administrative hierarchy. […]
III Gorbatsjov, Mikhail 1987
IVKhrúsjov, Níkita S. , 1956
V Grant, Ted
VI Trotskí, Leon, 1936
VII Trotskí, Leon, 1936