Reiðleiðir í Sturlungu

Ferðir Þórðar kakala 1242-1243

Eftir Örn H. Bjarnason

Þórður Sighvatsson kakali (1210 til 1256) var sonur Sighvatar bróðir Snorra Sturlusonar, en Sighvatur og bræður Þórðar voru drepnir í Örlygsstaðabardaga árið 1238. Þórður er þá staddur í Noregi og er sá atburður síðan hreyfiaflið í lífi hans.
Árið 1242 kemur Þórður heim frá Noregi og þá strax hefst barátta hans við að ná þeim völdum, sem hann taldi sig réttborinn til. Það gekk ekki þrautalaust og lenti hann m.a. í tveimur stórbardögum, Flóabardaga sumarið 1244 og Haugsnesbardaga í apríl 1246. Helstu andstæðingar hans voru Kolbeinn ungi og Gissur Þorvaldsson, náfrændur hans.
Á þessum blöðum ætla ég að taka fyrir fyrstu ferðir Þórðar kakala en ekki fara nákvæmlega út í aðdraganda þeirra eða tilgang. Barátta hans í upphafi virtist vonlítil en þegar fram í sækir tekst honum að snúa snældunni sér í vil. Þessi barátta spannar einkum tímabilið 1242-1249 og hann nær að verða einvaldur í landinu árin 1247-1250. Þar réði herkænska hans og dugnaður mestu. Miðað við allar þær hættur sem hann lenti í má það furðu gegna, að hann skyldi hafa dáið á sóttasæng úti í Noregi.

Ferð Þórðar árið 1242
Norðlendingafjórðungur, Vestfirðir og Vesturland koma einkum við sögu í ferðum Þórðar, en sjálfur eignaðist hann eftir heimkomuna bú að Söndum í Dýrafirði. Þar fyrir vestan hittir hann þá Svarthöfða og Hrafn Oddsson, sem báðir gengu til liðs við hann, en Hrafn var þá aðeins sextán ára gamall. Fyrstu ferðir Þórðar lúta fyrst og fremst að liðsafnaði hans í þeim tilgangi að sækja síðar að Kolbeini unga.

Úr Saurbæ í Hítardal
Sagt er frá því að Þórður ríður úr Steingrímsfirði suður til Saurbæjar. Þaðan svo “yfir heiði til Hvammsfjarðar.” Augljóst er að þarna hefur hann farið um Sælingsdalsheiði. Sennilega hefur hann farið um Snorravað yfir Sælingsdalsá. Síðan ríður hann í Dalina með 200 manna lið.
Því næst ríður Þórður Bjúgsveg um Svínbjúg og er ferðinni heitið í Hítardal að Húsafelli að handtaka Loft biskupsson, en Loftur kemst undan fyrst niður að Staðarhrauni en síðan til sjávar og á skipi yfir til Garða hjá Akranesi. Vitað var að Loftur átti talsvert af vopnum, skildi og fleira og var ætlunin að komast yfir þessi vopn.

Úr Hítardal að Bræðratungu
Um nóttina er Þórður í Hítardal en næsta morgun lætur hann smala saman öllum hrossum og tekur þau vopn sem finnast m.a. í kirkjunni. Síðan ríður hann upp í Lundarreykjadal. Væntanlega hefur hann farið með Múlum hjá Grímsstöðum og yfir Langá á Sveðjuvaði. Þaðan svo hjá Valbjarnarvöllum og á Eyjarvaði yfir Norðurá og Bakkavaði á Hvítá. Þá er stutt að Varmalæk og í Lundarreykjadal. Þar hefur hann riðið Bugana upp með Grímsá og upp á Uxahryggi.
Frá Uxahryggjum ríður Þórður “suður um heiði Skarðaleið til Laugardals þar til hann kom í Tungu til bús Gissurar.” Hann hefur hugsanlega farið Skessubásaveg og niður með Skjaldbreið að austanverðu og um Klukkuskarð í Laugardal. Þaðan svo um Reykjavað á Brúará skammt frá Syðri-Reykjum og í Bræðratungu. Líka er hugsanlegt að hann hafi farið hjá Hallbjarnarvörðum og um Kluftir á Eyfirðingaveg að Kerlingu undir Skjaldbreið og þaðan í Klukkuskarð. Ekki verður séð af samhenginu hvar þeir hafa farið yfir Tungufljót, en tvö nafngreind vöð eru á því þ.e. Fossvað og Réttarvað. Þau eru hins vegar nokkuð fyrir ofan Bræðratungu. Neðar var svo ferja hjá Króki.
Í Bræðratungu berast honum fréttir af því að Hjalti biskupsson hafi safnað liði niðri í Flóa. Þórður vildi ríða þangað en aðrir fara “austur yfir ár.” Þar töldu þeir sig eiga von um liðveislu. Þetta varð svo úr og riðu þeir austur að Keldum á Rangárvöllum um nóttina.
Í dag ríðum við um þetta land með nestispakka í vasanum og matarbíllinn sjaldan langt undan. Menn Þórðar voru ekki með neina nestispakka. Þeir treystu einvörðungu á þann mat sem þeir gátu komist yfir á bæjunum. Í Bræðratungu hafði öllu matarkyns verið komið í kirkju og ekkert að hafa “nema flautaker eitt.” Kirkjuhelgina vildu þeir ekki rjúfa.
Stungið var upp á því að kindum væri slátrað en Þórður kvað hermenn ekki geta staðið í slíku, þeir yrðu að fá þann mat sem hafandi væri hverju sinni. Spyrja má hvers vegna þeir höfðu ekki skreið með sér til að maula á, en hún er afar meðfærileg og næringarrík? Hún var mjög eftirsótt verslunarvara einmitt vegna þess hversu vel hún hentaði hermönnum í stríði.

Frá Bræðratugu að Keldum
Frá Bræðratungu hafa þeir væntanlega riðið Flosatraðir að gamla vaðinu á Kópsvatnseyrum Kópsvatnsvaði á Hvítá. Þaðan svo yfir á Nautavað á Þjórsá og um vaðið hjá Svínhaga yfir Ytri-Rangá. Gömul kirkjuleið liggur frá Svínhaga og að Keldum og hafa þeir trúlega farið hana.
Á Keldum bjó Hálfdán mágur Þórðar, en hann vildi ekki styðja Þórð að óathuguðu máli. Þá reið Þórður að Breiðabólsstað í Fljótshlíð og hrakti þaðan Orm Bjarnarson, goðorðsmann, en hann hafði átt drjúgan þátt í drápi Snorra Sturlusonar. Á Breiðabólsstað var Þórður um kyrrt um hríð. Frá Keldum hefur hann væntanlega farið um Reynifellsvað á Eystri-Rangá og síðan hjá Vatnsdal.
Þegar Hjalti fréttir um veru Þórðar fyrir austan fer hann norður í land á fund Kolbeins unga, en kemur jafnframt fyrir setuliði í Skálholti. Þar bjuggu um sig í kirkjugarði um 6oo manns. Sighvatur biskup reið þá austur á Breiðabólsstað til að reyna að koma á sáttum.
Þórður ríður nú til Keldna og reynir aftur að fá Hálfdán í lið með sér en án árangurs. Ríður hann þá í áttina að Skálholti og hittir biskup suður frá Auðsholti. Hans lið náði ekki nema um 200 manns. Ekki líst honum á sáttaboð biskups og ríður í Skálholt, en biskup á undan. Þeir hafa væntanlega farið yfir Hvítá hjá Iðu. Þá hófst nokkurt þóf sem endaði þó friðsamlega á þá lund, að sátt skyldi lögð í hendur biskupi og Steinvöru konu Hálfdáns. Reið Þórður þá aftur austur að Breiðabólsstað og var þar um kyrrt um hríð.

Frá Breiabólsstað í Borgarfjörð
Svolítið seinna í Sturlungu segir: “En Þórður riður út yfir á í Biskupstungu. Kom þá biskup og Steinvör og luku upp gerðum og gerðu á hendur alþýðu bónda þeirra er þingfararkaupi áttu að gegna í sveit Gissurar, þrjú hundruð, en á hendur hinum stærri bændum fimm hundruð. Eftir það reið Þórður sunnan af héruðum til Borgarfjarðar.
Vitað er að hann kemur ofan í Lundarreykjadal að Englandi. Hann hefur þá væntanlega farið hjá Reyðarbarmi og siðan Hrafnabjargarveg að Sleðaási og um Kluftir og hjá Hallabjarnavörðum niður í Lundarreykjadal.
En hvaða leiðir koma aðrar til greina frá Skálholti að Englandi í Lundarreykjadal. Hann getur farið um Klukkuskarð og Skessubásaveg og niður Lundarreykjadal. Hann getur farið Klukkuskarð og hjá Kerlingu undir Skjaldbreið og á Eyfirðingaveg. Síðan hjá Gatfelli og hjá Hallbjarnarvörðum í Lundarreykjadal. Hann getur líka farið um Gagnheiði og niður hjá Gilstreymi í Lundarreykjadal, en sá bær er skammt fyrir ofan England.
Þetta er um vetur og frost í jörðu. Þá fóru menn stundum vetrarveg sem kallað er og þá ekki alveg hefðbundnar leiðir. Kannski hefur Gagnheiðin einmitt verið ákjósanleg leið að vetri til. Hún er a.m.k. mjög í leið. Ef dregin er bein lína frá Skálholti að Englandi þá sést að Gagnheiði er nokkuð nærri þeirri línu, Gatfell lítið eitt til hægri við hana séð frá Skálholti og sömuleiðis Hallbjarnarvörður. Nokkuð hefur þetta sjálfsagt farið eftir snjóalögum. Eins hafa menn að vetrarlagi helst valið leið þar sem skemmst var milli byggða. Í því tilfelli hefur Gagnheiði vel komið til greina.
Gagnheiði er lítið farin í dag, kannski vegna þeirrar tilhneigingar að halda sér nærri bílvegum. Eins hitt að um hana liggur þvergirðing og erfitt getur verið að ramba á hliðið á henni. Það höfðu fornmenn þó fram yfir okkur, að þeir þurftu ekki að kljást við gaddavírsgirðingar.
Á Englandi fær Þórður þær fréttir að Kolbeinn sé kominn í Reykholt. Ríður Þórður þá niður að Lundi í Lundarreykjadal. Fyrst stóð til að fara í Reykholt en síðan afréð Þórður að snúa vestur um Langavatnsdal. “Reið Þórður þá ofan eftir dal,” segir í sögunni, “og ætlaði yfir um á að Gufuskálum og svo vestur Langavatnsdal. En er hann kom ofan á Völlu, þá var sagt, að eigi væri hrossís yfir ána. Snéri flokkurinn þá allur upp til Grafarvaðs og er menn komu upp frá Þingnesi, þá reið Þórður á síki eitt; brast niður ísinn undir hestinum og var hvárrtveggi á kafi, hesturinn og hann.” Hann hefur væntanlega ætlað að fara vestur um Sópandaskarð.

Ferð Kolbeins um Tvídægru
Meðan þessu fór fram hafði Kolbeinn dregið að sér lið norður í landi og eins komu menn að sunnan um Kjöl til liðs við hann. Hjalti vildi að mönnum væri stefnt suður aftur um Kjöl, en Kolbeinn taldi að Þórður væri riðinn vestur og þeir myndu þá missa af honum. Hann lagði til að farið væri vestar. Hann reið því með allan flokkinn 600 manns til Miðfjarðar og upp úr Núpsdal, suður um Tvídægru, Núpdælagötur. Síðan segir: “Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Er skemmst frá því að segja að menn hröktust þarna um heiðina og dóu sumir en aðra kól íllilega. Þeir komu svo loksins að Hólmavatni sem er upp af Hvítársíðu og þaðan fóru þeir niður að Gilsbakka. Daginn eftir fóru þeir sem voru ferðafærir í Reykholt. Ef allt hefði verið með feldu hefðu þeir komið niður fyrir vestan Úlfsvatn og síðan farið yfir Norðlingafljót á Núpdælavaði og þaðan svo í Kalmanstungu.
Þeir frétta síðan um ferðir Þórðar og ríða ofan Reykholtsdal og yfir Flóku og að Bæ í Bæjarsveit. Seinna ríða þeir í Þingnes. Þar rændu þeir hrossum og fóru að Stafholti væntanlega um Grafarvað yfir Hvítá. Upp úr þessu hefst síðan eltingarleikur Kolbeins og Þórðar vestur á Mýrar. Vitað er að þetta gerðist 27. nóvember 1242.

Út á Mýrar og vestur að Helgafelli
Áður en Kolbeinn kom að Þingnesi hafði Börkur bóndi þar fengið Þórði nokkra óþreytta hesta og fylgt þeim síðan að Grafarvaði. Þórður komst yfir Hvítá og reið í Stafholt og síðan yfir Norðurá væntanlega á Eyjarvaði. Hann kom fyrir njósnurum í Svignaskarði og reið svo út á Mýrar. Um tíma teymir hann hest sinn, en þegar hann fréttir hvað Kolbeinn er kominn nærri ríður hann skógargötur. Ekki er vitað nákvæmlega hvar hann hefur farið yfir Langá en nafngreind vöð á henni eru Heiðarvað upp undir Langvatni, Sveðjuvað á móts við Grenjar, Lækjarósvað er hjá Litla-Fjallslæk og Koteyrarvað. Þegar frost var í jörðu riðu menn iðulega vetrarveg svonefndan út á Mýrar og þá stundum nokkuð beint af augum. Kannski var líka hrossheldur ís á ánni því að á einum stað segir: “Þeir Þórður og Svarthöfði tóku þá skeið ofan eftir ánni (Langá), en þeir Björn riðu fram eftir flokkinum þórðar sem ákafast.”
Þórður kemur í Álftártungu og þaðan um brú yfir Álftá og síðan ríður hann yfir Hítará með Kolbein á hælunum. Liðið hafði nokkuð tvístrast og eftir voru aðeins 60 manns með Þórði. Færðin var hins vegar tekin að batna nokkuð og “þá var allt skeiðreitt,” segir í sögunni. Svo segir: “En er Þórður reið út á vaðlana þá sáu þeir Kolbeinsmenn að undan myndi bera og hurfu þá aftur.” Þarna fer hann á Löngufjörur og er talið að hann hafi farið á þær vestan undan Jörfa. Svo hagar til á Löngufjörum að mjög snögglega flæðir að og fyllast þá álarnir og verða ófærir. Kannski hefur Þórður rétt sloppið yfir álana en Kolbeinn verið of seinn.
Af fjörunum reið Þórður í Miklaholt, hugsanlega farið Hausthúsafjörur og þaðan á land og í Miklaholt. Hafi hann farið Hausthúsafjörur þá hefur hann náð þar góðum skeiðspretti því að þar eru einstakar fjörur. Í Miklaholti bjó Guðmundur Ólafsson sem var mikill vinur Sturlunga.
Frá Miklaholti fer hann vestur um Kerlingarskarð og að Helgafelli. Síðan segir: “Þótti það öllum mikil furða og varla dæmi til finnast að menn hefðu riðið hinum sömu hestum í einni reið af Þingvelli og til Helgafells. Þórður reið fimtadag um hádegi af Þingvelli en kom til Helgafells föstunóttina er stjarna var í austri.” Hann hefur verið um einn og hálfan sólarhring á leiðinni og færðin eins og hún var auk annarra frátafa. Ætli þetta myndi ekki teljast 4-5 daga ferð með nútíma reiðlagi.
Eftir þetta fer Þórður í Fagurey þar sem hann dvelur fram undir jól, þaðan að Ballará en eftir jól hittir hann Sturlu Þórðarson út í Dögurðarnesi. Því næst fer hann vestur yfir Breiðafjörð til Barðastrandar og þaðan vestur á Sand og í Selárdal og síðan heim til sín að Söndum í Dýrafirði. Þar dvelur hann um veturinn og er allt tíðindalaust.

Leið Svarthöfða
Nokkur ráðgáta er mér ferðalag Svarthöfða. Hann er staddur við Langá en leitar síðan skjóls á bæ sem hét Skógar. Sá bær er í nafnaskrá sagður vera í Stafholtstungum. Er þetta kannski sami bær og eyðibýlin Litlu-Skógar eða Stóru-Skógar sem eru milli Gljúfurár og Norðurár. Síðan fer hann að Sauðafelli í Dölum og þaðan til fundar við Þórð í Fagurey. Ef svo er þá dettur mér helst í hug, að hann hafi farið hjá Grísatungu og fram Langavatnsdal um Sópandaskarð og niður Laugardal að Tungu í Hörðudal og þaðan að Sauðafelli.
Annars er það alveg með ólíkindum hvað höfundi Þórðar sögu tekst að tvinna saman flókna atburðarrás í frásögn án þess að lesandinn freistist til að henda bókinni útí horn. Þessa lifandi frásagnartækni rekst maður sjaldan á í dag. Ætli sé ekki búið að mennta frásagnargleðina úr okkur nútíma Íslendingum með kommustagli og setningarfræði. Og ekki skánaði það með tilkomu tölvunar. Sannleikurinn er sá að eftir því sem skriftæknin er hægvirkari þeim mun meittlaðri verður stíllinn. Við hugsum of hratt og náum þess vegna ekki almennilega utan um setningarnar. Kúnstin er að hugsa hægt. Þessi grein er skrifuð á tölvu, því miður.
Höfundur virðist stundum láta vaða á súðum en allt kemur þó heim og saman að lokum. Engu er líkara en að hann hafi sjálfur verið með í för. Einhvers staðar í Sturlungu rakst ég á orðið orðasukk. Það er ekki orðasukk í Þórðar sögu. Þar er ekkert hvortki of né van.

Niðurlag
Spyrja má hvers vegna verið sé að rifja upp þessa gömlu sögu hér. Ástæðan er tvíþætt. Í fyrsta lagi er innbyggður í manninn ákveðinn fróðleiksþorsti og í öðru lagi fara hestamenn í dag gjarnan ríðandi á þessar sömu slóðir. Leiðin um Sælingsdalsheiði þekkja margir, eins Bjúgsveg um Svínbjúg niður í Hítardal og líka leiðina með Múlum hjá Hraundal, Grímsstöðum og Grenjum.
Margir hafa líka farið Bugana upp með Grímsá og um Uxahryggi en færri þekkja kannski leiðina um Klukkuskarð. Hún er með skemmtilegri leiðum sem ég hef farið. Þessa leið þarf að endurvekja og eins leiðina um Gagnheiði.
Hjá Bræðratungu og austur yfir Nautavað á Þjórsá er lítið farið í dag, en þegar komið er austur í Rangárvallasýslu kannast hins vegar margir hestamenn vel við sig t.d. í kringum Leirubakka og Skarð á Landi og hjá Svínhaga. Þangað liggja skemmtilegar reiðgötur m.a. frá Gunnarsholti. Njáluslóðir hjá Þríhyrningi þekkja líka margir.
Svo er það leiðin frá Skálholti um Lyngdalsheiði. Þar eru víða vildisgötur t.d. Biskupagötur sem liggja í Kringlumýri og þaðan um Driftir að Dráttarhlíð hjá Efrafalli eða yfir á Gjábakkastíg og á Þingvöll.
Leiðin upp í Borgarfjörð er líka alþekkt og þaðan vestur að Hítará og á Löngufjörur hjá Snorrastöðum.
Stöku sinnum getur verið gaman að láta heilasellurnar vinna í akkorði. Sturlunga saga býður svo sannarlega upp á það. Hún er spennusaga í gæðaflokki. Sumir telja að vanti háska í daglegt líf okkar. Þennan hvetjandi, mátulega háska getum við fundið í spennubókum uppi á dívan eða við getum lagt á góðhestinn og riðið til fjalla.